Símatími

Mán - þri kl. 10-13

Hafa samband

heimilin@heimilin.is

Á döfinni

Aðvörun til greiðenda íbúðalána um eindagafrest

Nýlega tók stjórn Íbúðalánasjóðs þá ákvörðun að stytta þann greiðslufrest sem veittur er frá gjalddaga afborgana af útlánum sjóðsins, þar til greiðsla fellur í eindaga. Hagsmunasamtökum heimilanna hafa í kjölfarið borist fjöldi fyrirspurna frá almenningi um þessa breytingu, meðal annars varðandi almennt réttmæti hennar, og er eftirfarandi ályktun stjórnar samtakanna.Forkönnun á réttarstöðu neytenda hefur ekki leitt í ljós að neinar formlegar reglur eða sérstök lagaákvæði gildi um þann greiðslufrest sem venja er hér á landi að veita frá hverjum og einum gjalddaga skuldar, þar til greiðslukrafa vegna hans telst fallin í eindaga. Samkvæmt vaxtalögum skal þó almennt reikna dráttarvexti frá og með gjalddaga, og er þeim því jafnan venju samkvæmt bætt við fjárhæð greiðslukröfu hafi hún ekki verið innt af hendi þegar hún fellur í eindaga.

Almennt virðist ekki vera kveðið sérstaklega á um eindagafrest í ákvæðum lánssamninga og er ekki vitað til þess að reynt hafi á óskráða lánaskilmála sem þessa fyrir dómstólum. Að óbreyttu réttarástandi virðist þannig fátt því til fyrirstöðu að lánveitendur geti breytt eindagafresti sem skuldara er veittur þrátt fyrir venju sem kunni að hafa skapast í samningssambandinu. Í flestum tilvikum eru ekki stórkostlegir fjárhagslegir hagsmunir í húfi, en engu að síður er vel hugsanlegt að í sumum tilvikum gæti slík breyting haft í för með sér umtalsverð óþægindi fyrir greiðendur.

Af þessu tilefni vilja Hagsmunasamtök heimilanna beina þeirri aðvörun til félagsmanna sem og annarra, að vera viðbúin því að lánadrottnar kunni ef til vill einhverntíma að breyta eindagafresti og hugsanlega stytta hann án sérstaks fyrirvara.  Samtökin hvetja lánveitendur góðfúslega til þess að sýna viðskiptavinum þá sjálfsögðu tillitssemi að forðast fyrirvaralitlar breytingar þeim í óhag á venjum sem kunna að hafa fest sig í sessi um eindagafresti, auk þess að gæta ávallt meðalhófs við slíkar breytingar teljist þær óhjákvæmilegar. Loks er neytendum bent á að upplýsinga um hvaða eindagafrestir séu í gildi á hverjum tíma er best að leita hjá viðkomandi lánástofnun eða banka.

- stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna


© Hannað af Filmís 

Hagsmunasamtök heimilanna voru stofnuð 15. janúar 2009 og eru frjáls og óháð hagsmunasamtök á neytendasviði, til varnar og hagsbóta fyrir heimilin í landinu.

Orð frá formanni

CEO 

Orð frá formanni Varlega áætlað hafa 15.000 fjölskyldur, 45.000 einstaklingar misst heimili sín frá hruni. Enginn hefur svarað fyrir það, hvað þá axlað á því ábyrgð. 

Þegar 15% þjóðarinnar missa heimili sín, gætir áhrifanna víða. Við sjáum þau í ástandinu á leigumarkaði og við sjáum þau líka í auknum kvíða meðal ungmenna og kulnun hjá þeim sem eldri eru.

Þegar fólk er svipt heimilum sínum glatar það öryggi sínu sínu og fótfestu. Þegar við bætist magnvana reiði og örvænting vegna óréttlætisins sem það stendur frammi fyrir ásamt hjálpar- og varnaleysinu sem það upplifir þegar heimilinu er hreinlega stolið af því, er ekki nema von að eitthvað láti undan.

Spillingin í þjóðfélaginu er djúp og hún á sér margar hliðar. Hún birtist ekki bara í háu húsnæðisverði og skelfilegum leigumarkaði eða háum vöxtum og verðtryggingu, hún birtist ekki bara í því hvernig lífeyrissjóðirnir misfara með fé okkar allra eða í „krónu á móti krónu“ skerðingu, hún birtist ekki bara í lágum launum verkafólks á meðan sjálftökufólk af ýmsum toga skammtar sjálfu sér milljónir, hún birtist ekki bara í spilltum dómstólum sem gæta hagsmuna „hinna sterku“ í dómum sínum eða í því hvernig lög- og stjórnaskrárvarin réttindi hafa verið brotin á neytendum frá hruni með skelfilegum afleiðingum.

Nei, hún birtist í þessu öllu og meiru til. Spillingin er djúp og teygir anga sína víða. Hana þarf að rífa upp með rótum til að hægt sé að byggja upp nýtt og betra þjóðfélag.

Fyrsta skrefið væri að að afnema verðtryggingu á lánum heimilanna! Öðruvísi er ekki hægt að skapa eðlilegan húsnæðismarkað eða stöðva sjálftöku fjármálastofnanna á tekjum fólks.

En til að takast á við ræturnar þarf að fara fram rannsókn á aðgerðum stjórnvalda eftir hrun. Jú það var líka spilling fyrir hrun, en þá urðu ákveðin vatnaskil og það var þá sem meðvituð ákvörðun var tekin um að fórna heimilum landsins fyrir bankana.

15.000 heimili eiga skilið að fá svör og uppreist æru.

Við biðjum ykkur um að styðja kröfuna um Rannsóknarskýrslu heimilanna!

Ásthildur Lóa Þórsdóttir
Formaður HH

Fylgstu með á samfélagsmiðlum