Ábending vegna flutnings yfirdráttaheimilda milli banka
Hagsmunasamtök heimilanna (HH) beindi nýverið fyrirspurn til Persónuverndar um það álitaefni hvort yfirfærsla persónuupplýsinga (þ.e. upplýsingar um viðskiptasögu einstaklinga) milli gömlu og nýju bankanna, án samþykkis þeirra, stæðist ákvæði laga um bankaleynd (einkum 58. og 60. gr. laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002). Samtökunum hefur borist svar en í því er vísað til svars Persónuverndar við sambærilegum fyrirspurnum frá janúar 2012, þar sem m.a. kemur fram að:
“yfirfærsla persónuupplýsinga við lögmæt eigendaskipti hafi almennt séð ekki verið lögð að jöfnu við miðlun þeirra til óviðkomandi þriðja aðila sem þurfi að styðjast við eitthvert af heimildarákvæðum 1. mgr. 8. gr. laga nr. 77/2000. Það sé hins vegar forsenda að um lögmæt viðskipti hafi verið að ræða og að vinnsla beggja aðila, fyrri eiganda og þess nýja, samrýmist að öðru leyti lögum nr. 77/2000. Þá er vísað til þess að í því sambandi hafi Hæstiréttur staðfest stjórnskipunarlegt gildi neyðarlaganna, sem voru grundvöllur framangreindrar yfirfærslu”
Stjórn HH hefur efasemdir um að þetta svar Persónuverndar standist skoðun og álítur að í raun hafi ekki verið sýnt fram á nein ákvæði í hinum svokölluðu neyðarlögum (nr. 125/2008) sem talist geti heimila nýstofnuðum fjármálafyrirtækjum að líta framhjá bankaleynd. Af því tilefni er rétt að beina því til neytenda að hugsanlegt kann að vera að kröfur á hendur þeim frá Landsbanka, Íslandsbanka og Arion banka, t.d. vegna yfirdráttarlána, séu jafnvel ólögvarðar þar sem ekki hafi verið fylgt lögum um bankaleynd við yfirfærslu þeirra á milli gömlu bankanna og þeirra nýju.
Rétt er að vekja athygli neytenda á að svo virðist sem í mörgum tilfellum hafi enginn samningur verið gerður milli lántaka og lánveitenda um neytendalán í formi yfirdráttarheimilda á reikningum hjá bönkum sem eru einfaldlega ekki til lengur. Stjórn HH vill koma þeirri ábendingu á framfæri við þá neytendur sem hafðir eru fyrir meintum skuldum án þess að skriflegur samningur hafi nokkru sinni komist á um viðkomandi lántöku við þann aðila sem nú reynir að innheimta hina meintu kröfu, að skrifa ekki að óþörfu undir neina nýja samninga eða skilmálabreytingar eftir á.
Loks er minnt á þann sjálfsagða rétt neytanda að meintur lánardrottinn sýni honum frumrit meints lánssamnings sé farið fram á það. Byggir sá réttur meðal annars á konungstilskipun dags. 9. febrúar 1798 um áritun afborgana á skuldabréf hverrar lagagildi stendur enn óhaggað hér á landi, ásamt lögum neytendalán (nr. 121/1994 og nýsamþykktum lögum 2013) þar sem segir að samningur um lán til neytanda skuli vera skriflegur og innihalda tilteknar upplýsingar. Má í því sambandi benda á að lánveitendur hér á landi hafa sjálfir almennt viljað leggja skuldabréf til jafns við lánssamninga í skilningi laga.