Símatími

Mán - þri kl. 10-13

Hafa samband

heimilin@heimilin.is

Á döfinni

Milligöngumaður en ekki raunverulegur “umboðsmaður” skuldara

Hagsmunasamtökum heimilanna (HH) hafa borist þau svör frá velferðarráðuneyti að reglugerð sú sem skylt er setja samkvæmt lögum um greiðsluaðlögun einstaklinga (nr. 101/2010) sé ekki til.

  1. gr. Reglugerð um greiðsluaðlögun einstaklinga.

Ráðherra setur að fenginni umsögn umboðsmanns skuldara reglugerð um greiðsluaðlögun einstaklinga þar sem m.a. skal kveða á um starfsemi umsjónarmanna og samræmda framkvæmd greiðsluaðlögunar.

 

Samtökin hafa frá því í október sl. óskað eftir því að fá reglugerð þessa afhenta, fyrst hjá embætti umboðsmanns skuldara (UMS). Í svari embættisins kom fram að “umrædd reglugerð hefur ekki verið sett og þar af leiðandi hefur embætti umboðsmanns skuldara ekki útbúið umsögn um reglugerðina.” Svar UMS er heldur skringilegt í ljósi þess að í lagagreininni kemur skýrt fram að umsögnin sé forsenda reglugerðarinnar, frekar en á hinn veginn.

HH sendu um miðjan nóvember fyrirspurn til velferðarráðuneytis þar sem óskað var eftir þessari sömu reglugerð. Engin svör bárust frá ráðuneytinu þrátt fyrir ítrekanir og að lokum var ákveðið að leggja fram kæru vegna málsins til Úrskurðarnefndar um upplýsingamál. Enn bárust engin svör, og það var ekki fyrr en að úrskurðarnefnd hafði sent ítrekun til ráðuneytisins að svar barst loks þann 7. febrúar. Í svarinu kom fram að velferðarráðuneytið hafi “hafið vinnu við endurskoðun laga um greiðsluaðlögun einstaklinga og er stefnt að því að þeirri vinnu ljúki á vormánuðum 2013. Þar sem unnið er að endurskoðun laganna hefur verið ákveðið að fresta setningu reglugerðar um greiðsluaðlögun einstaklinga uns gerðar hafa verið nauðsynlegar breytingar á lögunum.”

Eins og til að bæta gráu ofan á svart hefur nánari athugun reyndar leitt í ljós að reglur um störf kærunefndar greiðsluaðlögunarmála, sem lögin kveða á um, eru heldur ekki til:

  1. gr. Kærunefnd greiðsluaðlögunarmála.

Félags- og tryggingamálaráðherra skal skipa kærunefnd greiðsluaðlögunarmála til fjögurra ára í senn. Heimilt er að skjóta til hennar ákvörðunum í samræmi við ákvæði laga þessara.

Í kærunefnd greiðsluaðlögunarmála sitja þrír menn. Skulu að minnsta kosti tveir þeirra hafa embættis- eða meistarapróf í lögfræði og annar uppfylla hæfisskilyrði til að vera héraðsdómari. Ráðherra skipar nefndarmann sem fullnægir þeim skilyrðum til að vera formaður kærunefndar.

Úrskurðir kærunefndar greiðsluaðlögunarmála eru endanlegir á stjórnsýslustigi.

Ráðherra setur reglugerð um störf nefndarinnar.

 

HH sendu fyrirspurn til kærunefndarinnar um miðjan febrúar síðastliðinn þar sem óskað var eftir þessari tilteknu reglugerð, sem var svarað með áframsendingu fyrirspurnarinnar til ráðuneytisins. Engin svör bárust heldur frá ráðuneytinu í þetta sinn, innan þess frests sem upplýsingalög kveða á um, og var því einnig ákveðið að leggja fram aðskilda kæru vegna þessa til Úrskurðarnefndar um upplýsingamál. Svar frá ráðuneytinu við ítrekun nefndarinnar á fyrirspurninni barst í aprílmánuði en í því var vísað til þess sama og varðandi fyrrnefndu reglugerðina, að unnið væri að endurskoðun laga um greiðsluaðlögun sem stefnt væri að á vormánuðum 2013. Ekkert bólar þó enn á úrbótum og breytir það heldur engu um að lengst af hafa þessar lögkveðnu reglur ekki verið fyrir hendi.

Stjórn HH átti í byrjun þessa árs fund með með umboðsmanni skuldara þar sem settar voru fram athugasemdir um starfshætti embættisins, m.a. hvað varðar synjun umsókna einstaklinga um greiðsluaðlögun á framangreindum forsendum. Á fundinum kom fram að fulltrúar UMS líta fyrst og fremst á sig sem hlutlausa milligönguaðila milli skuldara og fjármálastofnunar. Það er nokkuð þröng túlkun þar sem í lögum um UMS (nr. 100/2010) segir að hlutverk umboðsmanns sé “að hafa milligöngu um samskipti og samninga við lánardrottna með hagsmuni skuldara að leiðarljósi.” Hins vegar er það rétt að í lögin vantar ýmsar valdheimildir sem þyrftu að vera fyrir hendi til þess að geta raunverulega varið hagsmuni og réttindi skuldara, einkum í ljósi þess að fjöldi lántaka situr uppi með ólögmætar skuldir, sem fjármálafyrirtækin hafa þráast við að endurreikna.

Stjórn HH setur spurningamerki við þá vinnu sem innt hefur verið af hendi hjá embætti UMS, þar sem umsjónarmenn hafa leitt skuldara í gegnum greiðsluaðlögun síðastliðin tvö ár, án þess að hafa nokkuð í höndunum til að tryggja samræmi í framkvæmd þessa ferlis. HH hafa staðfestar heimildir fyrir fjölda dæma um að skuldarar hafi nú þegar kært synjun um greiðsluaðlögun á þeim forsendum að framangreindar reglur séu ekki fyrir hendi. Samtökin vilja að gengið verði lengra og krefjast þess að öllum umsækjendum sem synjað hefur verið um greiðsluaðlögun á vafasömum forsendum verði gefinn kostur á endurupptöku sinna mála og greiðsluskjóli þar til lögkveðnar reglur um framkvæmd greiðsluaðlögunar liggja fyrir. Reyndar hlýtur skortur á reglum um störf kærunefndar að setja samskonar spurningamerki við afgreiðslu mála þar á bæ. Virðist því sem fullkominn óvissa sé fyrir hendi um lögmæti framkvæmdar greiðsluaðlögunar og meðferð kærumála í tengslum við hana. Samtökin hvetja skuldara til að gæta réttar síns í hvívetna.

Í ljósi alls þessa virðist sú mynd sem dregin hefur verið upp fyrir sjónum almennings af UMS sem einhverskonar hagsmunagæsluaðila fyrir skuldara, vera beinlínis röng og titillinn “umboðsmaður skuldara” því jafnvel villandi. Að undanförnu hefur nefnd á vegum forsætisráðuneytisins unnið að úttekt á neytendavernd á fjármálamarkaði og skilaði hún nýverðið niðurstöðum með skýrslu sem hefur verið birt á vef ráðuneytisins. Í skýrslunni er fjallað um verkaskipting á þessu sviði og meðal annars vísað (á bls. 85) til minnisblaðs umboðsmanns skuldara til nefndarinnar, dags. 11. janúar 2013 þar sem komið hafi fram sú afstaða að eftir rúmlega tvö ár frá stofnun embættisins þætti rétt að staldra við og endurskoða hlutverk þess. Mikilvægt væri að huga að stefnumótun og framtíðarhlutverki embættisins og full ástæða til að kanna hvaða verkefni eigi best heima hjá embættinu og hver ekki. Að sama skapi væri full þörf á að skerpa á samstarfi þeirra opinberu aðila sem sinna neytendavernd á fjármálamarkaði. Við þetta hafa HH svo sem engu að bæta.

Í því skyni leggur nefndin meðal annars til að neytendastofa og embætti talsmanns neytenda verði lögð niður og þeirra í stað stofnað nýtt og öflugt embætti Umboðsmanns Neytenda þar sem neytendur geti fengið úrlausn sinna mála á einum stað, auk þess sem fjárveitingar til eftirlits og rannsókna á sviði neytendaverndar verði stórauknar. Í sérstökum kafla um greiðsluerfiðleika og úrræði sem heyra undir umboðsmann skuldara er fjallað um nauðsyn þess að leggja aukna áherslu á forvarnir við greiðsluerfiðleikum, heldur en úrræði til að takast á við skuldavanda sem hefði jafnvel mátt fyrirbyggja. Þessi sjónarmið taka Hagsmunasamtök heimilanna heilshugar undir og telja að fulljóst sé orðið að stærsta vandamál íslenskra heimila sé í raun ekki skuldavandi, heldur skortur á neytendavernd, sem á fjármálamarkaði hefur þar til nýlega verið nánast engin. Með því að færa neytendum úrræði til að gæta réttar síns samkvæmt gildandi reglum um neytendavernd, má telja víst að þeim tilfellum færi ört fækkandi þar sem um raunverulegan skuldavanda væri að ræða. Miklu nær væri að tala um lánavanda hjá fjármálafyrirtækjum sem gætu þurft að sætta sig við afleiðingar þess þegar neytendalán í þeirra eigu reynast innihalda óréttmæta skilmála.

- f.h. stjórnar Hagsmunasamtaka heimilanna

 

Sjá nánar meðfylgjandi málsgögn og eldri fréttir þessu tengdar:

Málsgögn kærumáls vegna reglugerða um greiðsluaðlögun

Samræmdar verklagsreglur um greiðsluaðlögun einstaklinga?

HH kæra velferðarráðuneytið öðru sinni til úrskurðarnefndar um upplýsingamál

Gögn sýna vafasama starfshætti samráðshóps vegna gengislána

Ný gögn staðfesta enn frekar vafasama starfshætti samráðshóps vegna gengislána

 

Talsmaður Neytenda um svipað mál tengt innheimtugjöldum:

Innheimtukostnaður miðist ekki við hlutfall

 

Forsætisráðuneytið:

Skýrsla nefndar um neytendavernd á fjármálamarkaði

 

Download attachments:


© Hannað af Filmís 

Hagsmunasamtök heimilanna voru stofnuð 15. janúar 2009 og eru frjáls og óháð hagsmunasamtök á neytendasviði, til varnar og hagsbóta fyrir heimilin í landinu.

Orð frá formanni

CEO 

Orð frá formanni Varlega áætlað hafa 15.000 fjölskyldur, 45.000 einstaklingar misst heimili sín frá hruni. Enginn hefur svarað fyrir það, hvað þá axlað á því ábyrgð. 

Þegar 15% þjóðarinnar missa heimili sín, gætir áhrifanna víða. Við sjáum þau í ástandinu á leigumarkaði og við sjáum þau líka í auknum kvíða meðal ungmenna og kulnun hjá þeim sem eldri eru.

Þegar fólk er svipt heimilum sínum glatar það öryggi sínu sínu og fótfestu. Þegar við bætist magnvana reiði og örvænting vegna óréttlætisins sem það stendur frammi fyrir ásamt hjálpar- og varnaleysinu sem það upplifir þegar heimilinu er hreinlega stolið af því, er ekki nema von að eitthvað láti undan.

Spillingin í þjóðfélaginu er djúp og hún á sér margar hliðar. Hún birtist ekki bara í háu húsnæðisverði og skelfilegum leigumarkaði eða háum vöxtum og verðtryggingu, hún birtist ekki bara í því hvernig lífeyrissjóðirnir misfara með fé okkar allra eða í „krónu á móti krónu“ skerðingu, hún birtist ekki bara í lágum launum verkafólks á meðan sjálftökufólk af ýmsum toga skammtar sjálfu sér milljónir, hún birtist ekki bara í spilltum dómstólum sem gæta hagsmuna „hinna sterku“ í dómum sínum eða í því hvernig lög- og stjórnaskrárvarin réttindi hafa verið brotin á neytendum frá hruni með skelfilegum afleiðingum.

Nei, hún birtist í þessu öllu og meiru til. Spillingin er djúp og teygir anga sína víða. Hana þarf að rífa upp með rótum til að hægt sé að byggja upp nýtt og betra þjóðfélag.

Fyrsta skrefið væri að að afnema verðtryggingu á lánum heimilanna! Öðruvísi er ekki hægt að skapa eðlilegan húsnæðismarkað eða stöðva sjálftöku fjármálastofnanna á tekjum fólks.

En til að takast á við ræturnar þarf að fara fram rannsókn á aðgerðum stjórnvalda eftir hrun. Jú það var líka spilling fyrir hrun, en þá urðu ákveðin vatnaskil og það var þá sem meðvituð ákvörðun var tekin um að fórna heimilum landsins fyrir bankana.

15.000 heimili eiga skilið að fá svör og uppreist æru.

Við biðjum ykkur um að styðja kröfuna um Rannsóknarskýrslu heimilanna!

Ásthildur Lóa Þórsdóttir
Formaður HH

Fylgstu með á samfélagsmiðlum