Símatími

Mán - þri kl. 10-13

Hafa samband

heimilin@heimilin.is

Á döfinni

Áskorun og áminning til nýrrar ríkisstjórnar frá HH

Um leið og stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna (HH) óskar þingmönnum og nýrri ríkisstjórn til hamingju með kosningarnar, sem snérust að mestu um baráttumál HH frá upphafi kosningarbaráttunnar, þá er mikilvægt að minna á tvö brýn mál sem þola enga bið og þurfa að klárast á sumarþinginu.Hagsmunasamtök heimilanna hafa ávallt verið tilbúin til að vinna með stjórnvöldum að góðum málum og það stendur hér eftir sem hingað til. Eftirfarandi eru mál sem þrýst var á um við síðustu ríkisstjórn, en ekkert varð um efndir á þeim bæ. Nú er það spurningin með nýja ríkisstjórn, hvort vilji sé til að framkvæma það sem raunverulega þarf að gera fyrir heimilin og fjölskyldur landsins.

Mikilvægt er að strax nú á sumarþingi verði sett fram raunveruleg áætlun varðandi leiðréttingar lána og afnám verðtryggingar, þótt framkvæmdin þurfi að bíða fram á haustið. Að öðrum kosti mun ný ríkisstjórn tapa trúverðugleikanum, með hliðsjón af því sem lofað var í nýliðinni kosningarbaráttu.  Þá er hætt við að upplausn myndi skapast í þjóðfélaginu með slæmum afleiðingum sem er síst það sem þörf er á nú.

Eftirfarandi tvö mál eru mest aðkallandi og þarf að afgreiða án tafar, strax á sumarþingi, og þótt fyrr hefði verið. 

Númer 1:    Stöðva þarf allar aðfarargerðir, gjaldþrot, nauðungarsölur og sölur á veðhafafundum á eignum á meðan beðið er endanlegra dóma um lögmæti allra forma lánasamninga þeirra sem þar eru á bak við.

Númer 2:     Setja þarf ný endurupptökulög sem gagnast myndu þeim sem gerðir hafa verið gjaldþrota, eign þeirra seld nauðungarsölu eða á veðhafafundi á grundvelli ólöglegra lána og ólöglegum útreikningum þeirra, þannig að þessir aðilar geti fengið æru sína aftur, heimili sín og fjölskyldu sinnar til baka frá lánastofnunum sem náðu þeim á sitt nafn með ólöglegum hætti.Nánari útlistun:

Fyrst þarf að stöðva allar aðfarargerðir, gjaldþrot, nauðungarsölur og sölur á veðhafafundum á eignum þar sem áhvílandi eru lán með ólögmætri gengistryggingu á meðan beðið er endanlegra dóma um lögmæti allra forma lánasamninga þeirra sem eru þar á bak við. Það þarf að hafa í huga að bankarnir velja oft að sækja að skuldurum vegna  "venjulegra" lána á sömu eign til að komast fram hjá því að fara í gengislánin, en auðvitað eru þessi "venjulegu" lán í uppnámi vegna þess að stökkbreyting ólöglega gengislánsins er búin að éta upp allan veðréttinn. Einnig skal stöðva aðfarargerðir, gjaldþrot, nauðungarsölur og sölur á veðhafafundum á grundvelli verðtryggðra neytendalána á meðan beðið er dóma um lögmæti verðtryggðra neytendalánasamninga.

Samhliða þessu þarf að sjá til þess að sett verði ný lög og flýtt fyrir lagabreytingum handa þeim sem gerðir hafa verið gjaldþrota, fengið á sig árangurslaust fjárnám, eign þeirra seld nauðungarsölu eða á veðhafafundi á grundvelli ólöglegra lána og ólöglegum útreikningum þeirra, þannig að þessir aðilar geti fengið nafn sitt og æru aftur og einnig heimili sín og fjölskyldu sinnar til baka frá lánastofnunum í

þeim tilfellum sem það er mögulegt. Sjá í þessu sambandi 115. mál, lagafrumvarp á 141. löggjafarþingi sem t.d. Eygló Harðardóttir, núverandi félagsmálaráðherra var meðflutningsmaður að. Stjórn HH hefur nú gert smávægilegar breytingar og bætur á þessu út frá nýlegum dómum sem stjórnin myndi vilja koma inn í þingsáliktunartillöguna áður en þetta yrði samþykkt.

Einnig vill stjórn HH benda á nokkur atriði til viðbótar sem taka þarf á nú þegar:

  • Alþingi þarf strax að semja og samþykkja frumvarp um heildarrannsókn á fjárhagsstöðu heimilanna sem gerir það kleift að samkeyra allar upplýsingar frá lánastofnunum, ríkisstofnunum og öðrum um skuldamál og stöðu heimilanna.
  • Stuðla skal að því að boðið sé upp á óverðtryggt húsnæðislánakerfi sambærilegt og á hinum Norðurlöndunum og einnig þarf að styðja við uppbyggingu á öflugum leigumarkaði.
  • Embætti umboðsmanns skuldara verði lagt niður og í stað þess verði sett á laggirnar ný stofnun sem raunverulega sinnir neytendavernd á fjármálamarkaði, fyrir almenning.
  • Afnema skal verðtryggingu á neytendalánum til framtíðar á Íslandi og á meðan verið er að ná jafnvægi á neytendalánamarkaðinum verður að setja þak á vexti neytendalána.
  • Finna þarf út raunverulegan framfærslukostnað íslenskra fjölskyldna, þ.e. hvað það kostar að lifa hófsömu, mannsæmandi lífi á Íslandi eins og gert er á hinum norðurlöndunum.
  • Gera þarf sem fyrst, allt sem hægt er til að finna út og fá flýtimeðferð á því að skorið sé úr um þau álitamál sem eftir eru varðandi gengislánin.
  • Gera þarf sem fyrst, allt sem hægt er til að fá flýtimeðferð á dóma um það hvort verðtryggingin, eins og hún hefur verið framkvæmd á neytendalánum hingað til, bæði með tilliti til neytendalaga og MIFID-reglna í verðtryggðum lánasamningum, sé ólögleg.Hér hefur verið farið yfir það helsta sem ný ríkisstjórn þarf strax í upphafi að ráðast í fyrir fjölskyldur og heimilin í landinu, og var viljandi ekkert farið út í snjóhengjuna, gjaldmiðilinn eða vogunarsjóðina. Einnig var sneitt framhjá jafn sjálfsögðum hlutum og leiðréttingu lægstu launa og leiðréttingu bóta til elli- og örorkulífeyrisþega sem sjálfsagt er að tekið verði á strax.


Stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna


© Hannað af Filmís 

Hagsmunasamtök heimilanna voru stofnuð 15. janúar 2009 og eru frjáls og óháð hagsmunasamtök á neytendasviði, til varnar og hagsbóta fyrir heimilin í landinu.

Orð frá formanni

CEO 

Orð frá formanni Varlega áætlað hafa 15.000 fjölskyldur, 45.000 einstaklingar misst heimili sín frá hruni. Enginn hefur svarað fyrir það, hvað þá axlað á því ábyrgð. 

Þegar 15% þjóðarinnar missa heimili sín, gætir áhrifanna víða. Við sjáum þau í ástandinu á leigumarkaði og við sjáum þau líka í auknum kvíða meðal ungmenna og kulnun hjá þeim sem eldri eru.

Þegar fólk er svipt heimilum sínum glatar það öryggi sínu sínu og fótfestu. Þegar við bætist magnvana reiði og örvænting vegna óréttlætisins sem það stendur frammi fyrir ásamt hjálpar- og varnaleysinu sem það upplifir þegar heimilinu er hreinlega stolið af því, er ekki nema von að eitthvað láti undan.

Spillingin í þjóðfélaginu er djúp og hún á sér margar hliðar. Hún birtist ekki bara í háu húsnæðisverði og skelfilegum leigumarkaði eða háum vöxtum og verðtryggingu, hún birtist ekki bara í því hvernig lífeyrissjóðirnir misfara með fé okkar allra eða í „krónu á móti krónu“ skerðingu, hún birtist ekki bara í lágum launum verkafólks á meðan sjálftökufólk af ýmsum toga skammtar sjálfu sér milljónir, hún birtist ekki bara í spilltum dómstólum sem gæta hagsmuna „hinna sterku“ í dómum sínum eða í því hvernig lög- og stjórnaskrárvarin réttindi hafa verið brotin á neytendum frá hruni með skelfilegum afleiðingum.

Nei, hún birtist í þessu öllu og meiru til. Spillingin er djúp og teygir anga sína víða. Hana þarf að rífa upp með rótum til að hægt sé að byggja upp nýtt og betra þjóðfélag.

Fyrsta skrefið væri að að afnema verðtryggingu á lánum heimilanna! Öðruvísi er ekki hægt að skapa eðlilegan húsnæðismarkað eða stöðva sjálftöku fjármálastofnanna á tekjum fólks.

En til að takast á við ræturnar þarf að fara fram rannsókn á aðgerðum stjórnvalda eftir hrun. Jú það var líka spilling fyrir hrun, en þá urðu ákveðin vatnaskil og það var þá sem meðvituð ákvörðun var tekin um að fórna heimilum landsins fyrir bankana.

15.000 heimili eiga skilið að fá svör og uppreist æru.

Við biðjum ykkur um að styðja kröfuna um Rannsóknarskýrslu heimilanna!

Ásthildur Lóa Þórsdóttir
Formaður HH

Fylgstu með á samfélagsmiðlum