Sáttagerð FME við Dróma vegna ólöglegrar innheimtu fyrirtækisins gagnrýnd harðlega.
Fjármálaeftirlitið (FME) hefur birt tilkynningu um niðurstöðu athugunar á innheimtustarfsemi Dróma hf. Niðurstaðan er sáttargerð þar sem Dróma er gert að greiða 2.800.000 krónur í sekt fyrir að hafa stundað ólögmæta innheimtustarfsemi frá því að fyrirtækið var stofnaður af FME í mars árið 2009.
Hagsmunasamtök heimilanna fagna því í sjálfu sér að Fjármálaeftirlitið skuli loks viðurkenna að Drómi hafi stundað ólögmæta innheimtu, en samtökin og einstakir stjórnarmenn þeirra hafa ítrekað sent ábendingar til FME þess efnis og óskað eftir rannsókn. Þau rýru svör sem FME hefur veitt um málið hafa öll verið á sama veg fram til þessa: “stofnunin neitar að tjá sig”. Eftir athugun sem hófst fyrir tæpu ári síðan kemst Fjármálaeftirlitið loks að þeirri niðurstöðu að Drómi hf. hafi stundað frum- og milliinnheimtu á lánum í eigu ESÍ/Hildu og Frjálsa hf. í andstöðu við 3. gr. innheimtulaga.
Vakin skal athygli á því að samkvæmt reglum um heimildfjármálaeftirlitsins til að ljúka máli með sátt kemur skýrt fram að slíkt sé einungis mögulegt í minniháttar málum, en
“heimild til sáttar nær þó ekki til meiriháttar brota sem refsiviðurlög liggja við. Brot telst meiriháttar ef það lýtur að verulegum fjárhæðum, ef verknaður er framinn með sérstaklega vítaverðum hætti eða við aðstæður sem auka mjög á saknæmi brotsins”.
Það er algerlega óviðunandi niðurstaða fyrir neytendur að gerð sé sáttargerð við fyrirtæki sem stundað hefur lögbrot gegn “viðskiptavinum” sínum síðastliðin fjögur og hálft ár. Fjöldi manns hefur misst heimili sín á nauðungarsölum á grundvelli krafna sem innheimtar voru á ólögmætan hátt af Dróma. Slíkt getur einfaldlega ekki flokkast sem minniháttar brot.
Hagsmunasamtök heimilanna hafa nú tekið saman rannsóknarskýrslu um starfsemi Dróma. Erindi byggð á þeirri skýrslu verða send Umboðsmanni Alþingis, efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis og rannsóknarnefnd Alþingis um fall sparisjóðanna. Þar verður þess krafist að kannað verði hvort FME sé vanhæft til að fjalla um málefni Dróma í ljósi þess að það var einmitt FME sem stofnaði Dróma í mars árið 2009. Verði niðurstaðan sú að FME sé (þrátt fyrir að hafa stofnað Dróma) hæft til að fjalla um málefni fyrirtækisins er þess krafist að málið verði tekið upp að nýju innan stofnunarinnar með það að leiðarljósi að viðunandi niðurstaða fáist fyrir neytendur sem margir hverjir hafa orðið fyrir óbætanlegu tjóni vegna lögbrota Dróma.
Það ber að nefna að nIðurstaða Fjármálaeftirlitsins er einkar athyglisverð í ljósi umfjöllunar Hagsmunasamtaka heimilanna í fjölmiðlum að undanförnu um nauðungarsölur. Innanríkisráðherra, Hanna Birna Kristjánsdóttir, hlýtur að vera uggandi vegna starfa undirmanna sinna, þ.e. sýslumanna landsins, sem sýnt er að hafa nú um árabil brotið gegn lántakendum með því að bjóða upp heimili þeirra á grundvelli krafna frá Dróma sem aldrei hafði innheimtuleyfi. Sýslumönnum ber (samkvæmt 13. grein nauðungarsölulaga) að vísa tafarlaust frá nauðungarsölubeiðnum ef grundvöllur þeirra er ekki í lögmætu formi.