Símatími

Mán - þri kl. 10-13

Hafa samband

heimilin@heimilin.is

Á döfinni

Skuldaleiðréttingatillögur stjórnvalda: Betur þarf ef duga skal til framtíðar

Það er mat stjórnar Hagsmunasamtaka heimilanna (HH) að aðgerðaáætlun um höfuðstólslækkun húsnæðislána sem kynnt var í Hörpunni hinn 30. nóvember síðastliðinn, feli í sér ágætar tillögur eins langt og þær ná, en að þær séu samt sem áður allt of léttvægar miðað við ástandið eins og það er orðið í dag. Rétt er að hafa í huga að tillögurnar eiga eftir að hljóta þinglega meðferð og samþykki, þar sem þær geta tekið talsverðum breytingum eða jafnvel verið synjað. Forskriftin að aðgerðaráætluninni var lögð fram með þingsályktunartillögu forsætisráðherra á sumarþinginu og skiluðu HH inn ítarlegri umsögn um hana. Hefði aðgerðaráætlunin litið dagsins ljós strax árið 2009 hefðu HH efalaust fagnað henni ákaft enda er hún mjög í samræmi við kröfur samtakanna á þeim tíma. Forsendurnar nú þegar fimm ár eru liðin frá hruni eru hins vegar talsvert breyttar og finnst okkur í HH tími til kominn að stjórnvöld horfist í augu við vandann í stað þess að setja sífellt fleiri plástra með fallegum myndum á svöðusárin.

Gangi boðuð aðgerðaáætlun eftir mun það vissulega gagnast einhverjum hluta heimila landsins. Þrýstingur á ríkisstjórnina um að setja fram einhverja áætlun var vissulega mikill í ljósi þeirra loforða sem gefin voru í kosningabaráttunni síðasta vor. Það er hins vegar ekki nóg að gera “bara eitthvað”. Talsverð óvissa er uppi um lögmæti útfærslu verðtryggingar á neytendalánum og fyrir dómstólum eru nokkur mál vegna þessa. Meðal annars er mál að tilstuðlan HH og félagsmanna í samtökunum þar sem byggt er á því að útfærsla og framkvæmd verðtryggingar á neytendalánum hafi verið ólögmæt allt frá árinu 2001. Þetta þykir sumum kannski fjarstæðukennt en í því samhengi má minna á að samtökin höfðu rétt fyrir sér um ólögmæti gengistryggðra lána.

Aðgerðir til skuldalækkana áður en útkljáð hefur verið fyrir dómstólum hvort að verðtrygging hafi verið löglega framkvæmd geta reynst samfélaginu öllu mjög dýrkeyptar. Mikilvægt er að uppgjöri þrotabúa föllnu bankanna og afléttingu gjaldeyrishafta verði ekki lokið fyrr en álitamál um lögmæti samninga í lánasöfnum nýrra fjármálafyrirtækja í eigu þeirra, hafa verið útkljáð. Áður en það hefur verið gert er jafnframt varhugavert að leggja áhættu af því á herðar ríkissjóðs.

Þá vilja samtökin gagnrýna að ekki séu í aðgerðaáætlunni nein úrræði til að verja heimilin gegn óréttmætum nauðungarsölum án undangenginna dómsúrskurða, í það minnsta þar til boðaðar skuldaleiðréttingar komi til framkvæmda, sem getur verið eftir allt að 6 mánuði samkvæmt áætluninni. Ekki síst í ljósi þess að miðað við fram komnar tillögur um skuldaleiðréttingu er ljóst að þær kröfur sem hafðar eru í frammi við slíkar fullnustugerðir eru oftar en ekki á órökréttum grunni reistar. Leiða má líkur að því að í mjög mörgum tilvikum hefði heimilismissir verið óþarfur fyrir þær fjölskyldur sem í hlut eiga fyrir utan það tilfinningalega og sálræna álag sem það veldur fjölskyldum að þurfa að eiga á hættu að missa heimili sín, á meðan beðið er boðaðra aðgerða.

Í þessu sambandi má minna á að haft var eftir Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra á RÚV hinn 11. nóvember að hún mundi skoða að stöðva nauðungarsölur á heimilum fólks og það yrði að fara saman við þær tillögur sem lúta að skuldamálum sem lagðar yrðu fram í lok nóvember. Nú bólar hinsvegar ekkert á efndum heldur er í raun gefið í og áfram veitt veiðileyfi á heimilin næstu 6 mánuði á meðan unnið verði að nánari útfærslu aðgerðaráætlunarinnar.


© Hannað af Filmís 

Hagsmunasamtök heimilanna voru stofnuð 15. janúar 2009 og eru frjáls og óháð hagsmunasamtök á neytendasviði, til varnar og hagsbóta fyrir heimilin í landinu.

Orð frá formanni

CEO 

Orð frá formanni Varlega áætlað hafa 15.000 fjölskyldur, 45.000 einstaklingar misst heimili sín frá hruni. Enginn hefur svarað fyrir það, hvað þá axlað á því ábyrgð. 

Þegar 15% þjóðarinnar missa heimili sín, gætir áhrifanna víða. Við sjáum þau í ástandinu á leigumarkaði og við sjáum þau líka í auknum kvíða meðal ungmenna og kulnun hjá þeim sem eldri eru.

Þegar fólk er svipt heimilum sínum glatar það öryggi sínu sínu og fótfestu. Þegar við bætist magnvana reiði og örvænting vegna óréttlætisins sem það stendur frammi fyrir ásamt hjálpar- og varnaleysinu sem það upplifir þegar heimilinu er hreinlega stolið af því, er ekki nema von að eitthvað láti undan.

Spillingin í þjóðfélaginu er djúp og hún á sér margar hliðar. Hún birtist ekki bara í háu húsnæðisverði og skelfilegum leigumarkaði eða háum vöxtum og verðtryggingu, hún birtist ekki bara í því hvernig lífeyrissjóðirnir misfara með fé okkar allra eða í „krónu á móti krónu“ skerðingu, hún birtist ekki bara í lágum launum verkafólks á meðan sjálftökufólk af ýmsum toga skammtar sjálfu sér milljónir, hún birtist ekki bara í spilltum dómstólum sem gæta hagsmuna „hinna sterku“ í dómum sínum eða í því hvernig lög- og stjórnaskrárvarin réttindi hafa verið brotin á neytendum frá hruni með skelfilegum afleiðingum.

Nei, hún birtist í þessu öllu og meiru til. Spillingin er djúp og teygir anga sína víða. Hana þarf að rífa upp með rótum til að hægt sé að byggja upp nýtt og betra þjóðfélag.

Fyrsta skrefið væri að að afnema verðtryggingu á lánum heimilanna! Öðruvísi er ekki hægt að skapa eðlilegan húsnæðismarkað eða stöðva sjálftöku fjármálastofnanna á tekjum fólks.

En til að takast á við ræturnar þarf að fara fram rannsókn á aðgerðum stjórnvalda eftir hrun. Jú það var líka spilling fyrir hrun, en þá urðu ákveðin vatnaskil og það var þá sem meðvituð ákvörðun var tekin um að fórna heimilum landsins fyrir bankana.

15.000 heimili eiga skilið að fá svör og uppreist æru.

Við biðjum ykkur um að styðja kröfuna um Rannsóknarskýrslu heimilanna!

Ásthildur Lóa Þórsdóttir
Formaður HH

Fylgstu með á samfélagsmiðlum