Símatími

Mán - þri kl. 10-13

Hafa samband

heimilin@heimilin.is

Á döfinni

Frestun á nauðungarsölum fagnað

Stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna (HH) fagnar því að innanríkisráðherra, Hanna Birna Kristjánsdóttir, skuli loks hafa brugðist við ítrekuðum áskorunum samtakanna um að stöðva nauðungarsölur á heimilum neytenda.

Fulltrúar samtakanna áttu fund með innanríkisráðherra þann 9. október þar sem þessi krafa var sett fram, annars vegar vegna þess að samtökin telja nauðungaruppboð vera óréttmæt nema að undangengnum dómsúrskurði og hins vegar vegna þess að ótækt væri að bjóða upp húsnæði fólks á meðan beðið væri boðaðra aðgerða ríkisstjórnarinnar. Svör ráðherrans við kröfum samtakanna voru á þá leið að stöðvun nauðungaruppboða gengi gegn stjórnarskárvörum réttindum kröfuhafa. Þegar ráðherrann var spurð nánar út í þetta í fjölmiðlaumræðum um nauðungaruppboð í kjölfar fundarins svaraði ráðherra því til að þetta væri samkvæmt áliti “helstu sérfræðinga á þessu sviði”.

Hagsmunasamtök heimilanna voru síður en svo sátt við þessi svör og skoruðu þann 16. október á ráðherra að skýra nánar í hverju þetta “álit helstu sérfræðinga á þessu sviði” um ófrávíkjanlegan rétt kröfuhafa felist. Þegar engin svör bárust frá ráðuneytinu ítrekuðu samtökin áskorun sína þann 18. október. Þeirri ítrekun hefur ekki verið svarað.

Nú virðast helstu sérfræðingar Innanríkisráðherra um nauðungaruppboð hafa komist að því að Hagsmunasamtök heimilanna hafi haft rétt fyrir sér, að vel sé hægt að stöðva nauðungaruppboð ef pólitískur vilji standi til þess. Hljóti frumvarpið samþykki þingsins verður því fjölskyldum gert kleift að fresta nauðungarsölum sem krafist er á heimilum þeirra fram yfir 1. júlí 2014, og skapa sér svigrúm til að bjarga heimili sínu frá því að verða tekið af þeim með svo harkalegum aðgerðum.

Hugur okkar í Hagsmunasamtökum heimilanna er þó þessa stundina með þeim sem standa frammi fyrir því núna rétt fyrir jólin, þangað til og ef þetta verður samþykkt á Alþingi, að heimili þeirra kunni að verða selt ofan af þeim. Einnig er hugur okkar hjá þeim sem þegar hafa misst heimili sín á nauðungarsölum sem haldnar hafa verið á ólöglegum grundvelli. Athygli er vakin á því að gildandi lög virðast ekki leyfa endurupptökur á nauðungarsölum, jafnvel þegar sýnt hefur verið fram á að þær hafi verið fengnar fram ólöglega í mörgum tilvikum, en úr því þarf jafnframt að bæta.

Einnig fagna Hagsmunasamtök heimilanna að á sama tíma hafi Eygló Harðardóttir félags- og húsnæðisráðherra lagt framfrumvarp sem gerir ráð fyrir fjárhagsaðstoð, fjármagnaða með gjaldi á fjármálafyrirtækin, vegna tryggingar fyrir skiptakostnaði þeirra sem vilja fara fram á gjaldþrot. Því fólki hefur hingað til verið haldið í árangurslausu fjárnámi þar sem fjármálastofnanir hafa ógjarnan viljað fara fram á gjaldþrot skuldara, eftir að fyrningartími krafna við gjaldþrotaskipti var styttur í tvö ár. Með því að auðvelda skuldurum að leita gjaldþrots má segja að loksins hafi fjármálafyrirtæki fengið hvata til að semja frekar við fólk heldur en að geta haft það undir hælnum endalaust.

Þess má geta að bæði framangreind atriði eru meðal þeirra sem Hagsmunasamtök heimilanna lögðu hvað mesta áherslu á í umsögn sinni um þingsályktunartillögu forsætisráðherra sem liggur til grundvallar aðgerðum stjórnvalda vegna skuldavanda heimilanna.

Málið á sér þá forsögu að á borgarafundi sem samtökin héldu í mars síðastliðnum var samþykkt áskorun til sýslumanna um að stöðva nauðungarsölur á grundvelli ólöglegra lána og á aðalfundi samtakanna í maí var samþykkt áskorun sem fylgt var eftir með opnu bréfi til sveitarfélaga og samtaka þeirra, um að stemma stigu við nauðungarsölum vegna yfirvofandi og fyrirsjáanlegs húsnæðisvanda íbúa.

Til stuðnings þessum áskorunum sínum létu samtökin gera löggilda íslenska þýðingu dóms Evrópudómstólsins um óréttmæta nauðungarsölu á grundvelli neytendasamnings. Nú síðast gerðu samtökin ítarlegarlega greinargerð þar sem óréttmæti nauðungarsalna án undangengins dóms er rakið með hliðsjón af íslenskum lögum og rétti. Neytendur sem standa frammi fyrir slíku geta nú nýtt það svigrúm sem þeim gefst næstu sex mánuði til að kynna sér þessi gögn, en reyna jafnframt sitt besta til þess að koma fjárhag heimilisins samtímis í farsælan farveg.

Greinargerð HH um óréttmætar nauðungarsölur án undangengins dóms

Dómur Evrópudómstólsins í máli C-415/11 um óréttmæta nauðungarsölu


© Hannað af Filmís 

Hagsmunasamtök heimilanna voru stofnuð 15. janúar 2009 og eru frjáls og óháð hagsmunasamtök á neytendasviði, til varnar og hagsbóta fyrir heimilin í landinu.

Orð frá formanni

CEO 

Orð frá formanni Varlega áætlað hafa 15.000 fjölskyldur, 45.000 einstaklingar misst heimili sín frá hruni. Enginn hefur svarað fyrir það, hvað þá axlað á því ábyrgð. 

Þegar 15% þjóðarinnar missa heimili sín, gætir áhrifanna víða. Við sjáum þau í ástandinu á leigumarkaði og við sjáum þau líka í auknum kvíða meðal ungmenna og kulnun hjá þeim sem eldri eru.

Þegar fólk er svipt heimilum sínum glatar það öryggi sínu sínu og fótfestu. Þegar við bætist magnvana reiði og örvænting vegna óréttlætisins sem það stendur frammi fyrir ásamt hjálpar- og varnaleysinu sem það upplifir þegar heimilinu er hreinlega stolið af því, er ekki nema von að eitthvað láti undan.

Spillingin í þjóðfélaginu er djúp og hún á sér margar hliðar. Hún birtist ekki bara í háu húsnæðisverði og skelfilegum leigumarkaði eða háum vöxtum og verðtryggingu, hún birtist ekki bara í því hvernig lífeyrissjóðirnir misfara með fé okkar allra eða í „krónu á móti krónu“ skerðingu, hún birtist ekki bara í lágum launum verkafólks á meðan sjálftökufólk af ýmsum toga skammtar sjálfu sér milljónir, hún birtist ekki bara í spilltum dómstólum sem gæta hagsmuna „hinna sterku“ í dómum sínum eða í því hvernig lög- og stjórnaskrárvarin réttindi hafa verið brotin á neytendum frá hruni með skelfilegum afleiðingum.

Nei, hún birtist í þessu öllu og meiru til. Spillingin er djúp og teygir anga sína víða. Hana þarf að rífa upp með rótum til að hægt sé að byggja upp nýtt og betra þjóðfélag.

Fyrsta skrefið væri að að afnema verðtryggingu á lánum heimilanna! Öðruvísi er ekki hægt að skapa eðlilegan húsnæðismarkað eða stöðva sjálftöku fjármálastofnanna á tekjum fólks.

En til að takast á við ræturnar þarf að fara fram rannsókn á aðgerðum stjórnvalda eftir hrun. Jú það var líka spilling fyrir hrun, en þá urðu ákveðin vatnaskil og það var þá sem meðvituð ákvörðun var tekin um að fórna heimilum landsins fyrir bankana.

15.000 heimili eiga skilið að fá svör og uppreist æru.

Við biðjum ykkur um að styðja kröfuna um Rannsóknarskýrslu heimilanna!

Ásthildur Lóa Þórsdóttir
Formaður HH

Fylgstu með á samfélagsmiðlum