Símatími

Mán - þri kl. 10-13

Hafa samband

heimilin@heimilin.is

Á döfinni

EFTA dómstóllinn tekur undir með Hagsmunasamtökum heimilanna um að íslenskir dómstólar skuli skera úr um lögmæti verðtryggingar

- Spurningum um ólögmæti enn ósvarað

Í dag skilaði EFTA dómstóllinn áliti sínu í einu af þremur málum sem eru fyrir dómstólum og fjalla um lögmæti verðtryggingar. Mál þetta er höfðað af einstaklingi gegn Íslandsbanka og snýst um húsnæðislán út frá óréttmætum samningsskilmálum. Það er frábrugðið öðrum málum er varða verðtryggingu og bíða úrlausnar fyrir dómstólum að því leyti að málatilbúnaðurinn byggist ekki á tilskipun um neytendalán. Helsta spurningin sem leitað var álits um í þessu máli snýr að því hvort verðtryggingin sjálf sé lögleg, en ekki hvort útfærsla hennar og kostnaður hafi verið rétt kynntur fyrir lántakendum. Niðurstaða EFTA dómstólsins er sú að það sé á færi íslenskra dómstóla að taka afstöðu til þess hvort skilmálar verðtryggðra neytendalána séu óréttmætir.

Tvö önnur mál um verðtryggingu eru fyrir dómstólum, annað þeirra er rekið af Hagsmunasamtökum heimilanna og hitt af Verkalýðsfélagi Akraness. Bæði snúast þau um framkvæmd verðtryggingar hér á landi, það er hvort kynning fyrir neytendum á kostnaði við verðtryggingu sé í samræmi við lög um neytendalán nr. 121/1994, en lögin fela í sér mjög skýr ákvæði um upplýsingagjöf til neytenda við lántöku. Dómsmál það sem Hagsmunasamtök heimilanna standa að baki er rekið af félagsmönnum í samtökunum, en samtökin greiða af því allan kostnað. Málið fjallar um venjulegt, íslenskt, verðtryggt húsnæðislán sem tekið var hjá Íbúðalánasjóði. Málatilbúnaðurinn snýst um útfærslu verðtryggingar og upplýsingar um hana í lánasamningi þar sem miðað var við 0 % verðbólgu í greiðsluáætlun. Þetta telja samtökin ekki samræmast ákvæðum laga um neytendalán (nr. 121/1994) og á það við um lán til fasteignakaupa frá árinu 2001 þegar neytendalánalögunum var breytt þannig að þau næðu einnig til húsnæðislána. Málið er rekið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur enda telur Neytendastofa, stjórn HH og lögmenn sem komið hafa á málinu það mjög skýrt í íslenskum lögum um neytendalán hvaða upplýsingar þurfa að koma fram í lánasamningum um lánskostnað, þar með talið verðbætur. Álit EFTA dómstólsins fá því í morgun styður ákvörðun Hagsmunasamtaka heimilanna um að ekki væri þörf á áliti frá EFTA vegna dómsmálsins sem samtökin standa að baki, enda eru íslensk lög um neytendalán alveg skýr. Íslenskir dómstólar ættu ekki að vera í neinum vandræðum með að dæma eftir þeim um hið sérséríslenska fyrirbrigði sem verðtrygging neytendalána er.

Efnisleg meðferð í máli Hagsmunasamtaka heimilanna mun fara fram þegar EFTA dómstóllinn hefur skilað ráðgefandi áliti í máli sem Verkalýðsfélag Akraness stendur að baki. Þar er ekki um að ræða húsnæðislán heldur neytendalán án veðs í fasteign. Að öðru leyti er málatilbúnaður mjög sambærilegur við mál Hagsmunasamtaka heimilanna, þ.e.a.s. snýst um upplýsingagjöf til neytenda varðandi verðtryggingu.

Hagsmunasamtök heimilanna hafa aldrei haldið því fram að verðtrygging sem slík sé ólögleg milli fagfjárfesta, fjármálafyrirtækja og ríkisins. Þegar hins vegar kemur að lánasamningum við neytendur ber lánveitendum skylda til að standa rétt að upplýsingagjöf í samræmi við lög um neytendalán. Þeirri spurningu hvort rétt hafi verið staðið að þeirri upplýsingagjöf, og þar með hvort útfærsla verðtryggðra neytendalánasamninga sé og hafi verið lögleg hér á landi, er því enn ósvarað.


© Hannað af Filmís 

Hagsmunasamtök heimilanna voru stofnuð 15. janúar 2009 og eru frjáls og óháð hagsmunasamtök á neytendasviði, til varnar og hagsbóta fyrir heimilin í landinu.

Orð frá formanni

CEO 

Orð frá formanni Varlega áætlað hafa 15.000 fjölskyldur, 45.000 einstaklingar misst heimili sín frá hruni. Enginn hefur svarað fyrir það, hvað þá axlað á því ábyrgð. 

Þegar 15% þjóðarinnar missa heimili sín, gætir áhrifanna víða. Við sjáum þau í ástandinu á leigumarkaði og við sjáum þau líka í auknum kvíða meðal ungmenna og kulnun hjá þeim sem eldri eru.

Þegar fólk er svipt heimilum sínum glatar það öryggi sínu sínu og fótfestu. Þegar við bætist magnvana reiði og örvænting vegna óréttlætisins sem það stendur frammi fyrir ásamt hjálpar- og varnaleysinu sem það upplifir þegar heimilinu er hreinlega stolið af því, er ekki nema von að eitthvað láti undan.

Spillingin í þjóðfélaginu er djúp og hún á sér margar hliðar. Hún birtist ekki bara í háu húsnæðisverði og skelfilegum leigumarkaði eða háum vöxtum og verðtryggingu, hún birtist ekki bara í því hvernig lífeyrissjóðirnir misfara með fé okkar allra eða í „krónu á móti krónu“ skerðingu, hún birtist ekki bara í lágum launum verkafólks á meðan sjálftökufólk af ýmsum toga skammtar sjálfu sér milljónir, hún birtist ekki bara í spilltum dómstólum sem gæta hagsmuna „hinna sterku“ í dómum sínum eða í því hvernig lög- og stjórnaskrárvarin réttindi hafa verið brotin á neytendum frá hruni með skelfilegum afleiðingum.

Nei, hún birtist í þessu öllu og meiru til. Spillingin er djúp og teygir anga sína víða. Hana þarf að rífa upp með rótum til að hægt sé að byggja upp nýtt og betra þjóðfélag.

Fyrsta skrefið væri að að afnema verðtryggingu á lánum heimilanna! Öðruvísi er ekki hægt að skapa eðlilegan húsnæðismarkað eða stöðva sjálftöku fjármálastofnanna á tekjum fólks.

En til að takast á við ræturnar þarf að fara fram rannsókn á aðgerðum stjórnvalda eftir hrun. Jú það var líka spilling fyrir hrun, en þá urðu ákveðin vatnaskil og það var þá sem meðvituð ákvörðun var tekin um að fórna heimilum landsins fyrir bankana.

15.000 heimili eiga skilið að fá svör og uppreist æru.

Við biðjum ykkur um að styðja kröfuna um Rannsóknarskýrslu heimilanna!

Ásthildur Lóa Þórsdóttir
Formaður HH

Fylgstu með á samfélagsmiðlum