Hagsmunasamtök heimilanna ósátt við ítrekaðar frávísanir neytendamála
Hagsmunasamtök heimilanna vilja vekja athygli á að máli vegna kvörtunar sem samtökin beindu til Neytendastofu, hefur verið vísað frá áfrýjunarnefnd neytendamála. Frávísunin byggist á því mati að Hagsmunasamtök heimilanna hafi ekki lögvarða hagsmuni af aðild að slíku máli. Þar með hefur HH verið gert erfitt fyrir að verja hagsmuni þeirra sem til samtakanna leita. HH hafa ítrekað reynt að koma kvörtunum og málum er varða neytendavernd á framfæri til úrlausnar, en oftar en ekki hefur slíkum málum verið vísað frá hlutaðeigandi stofnunum og dómstólum.
Kvörtunin sneri að svokölluðu vaxtagreiðsluþaki Íslandsbanka, sem er þó ekki þak heldur einskonar greiðslujöfnun eða greiðsludreifingu vaxta, og er hugtakið því villandi að mati HH. Með ákvörðun nr. 24/2014 þann 16. maí 2014, féllst Neytendastofa ekki á að svo væri og taldi þar af leiðandi ekki ástæðu til að grípa til aðgerða. HH áfrýjuðu ákvörðuninni til áfrýjunarnefndar neytendamála, en með úrskurði sínum þann 24. mars vísaði nefndin málinu nr. 12/2014 frá sér eins og áður segir.
HH eru afar ósátt við frávísunina, sem er enn ein birtingarmynd þess hve erfitt samtökum á sviði neytendaverndar er gert að leita réttar fyrir hönd félagsmanna sinna og neytenda almennt. Þó svo að niðurstaða nefndarinnar sé vel rökstudd með vísan til gildandi laga, þá er það fyrst og fremst merki um að gera þurfi úrbætur á þeim lögum. Helsti ávinningur málsins er því að hafa upplýst vel um þau atriði sem er ábótavant í lögum á þessu sviði og þarfnast úrbóta.
Samkvæmt reglum um neytendavernd sem gilda hér á landi á grundvelli EES-samningsins, ber að sjá til þess að neytendum og samtökum þeirra standi til boða skilvirk úrræði til þess að gæta réttinda neytenda með atbeina stjórvalda og dómstóla. Það veldur HH verulegum vonbrigðum að þær reglur skuli ekki hafa náð að koma til framkvæmda hér á landi af þeim myndarskap sem vonast hefði mátt til.
Hagsmunasamtök heimilanna harma það skeytingarleysi gagnvart EES-samningnum sem í þessu birtist, ekki síst í ljósi þeirrar yfirlýstu stefnu núverandi ríkisstjórnar að byggja eigi samstarf Íslands við önnur Evrópuríki fyrst og fremst á grundvelli EES-samningsins. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem litið er framhjá hagsmunum neytenda og harmar HH að ekki skuli vera meiri vilji af hálfu opinberra aðila til að verja almennan rétt neytenda og framfylgja alþjóðlegum reglum á því sviði.
Þrátt fyrir að almennt sé hægt að bera ákvarðanir og úrskurði stjórnvalda undir dómstóla stendur ekki til að gera það í þessu tilviki, enda eru hverfandi líkur á að það myndi leiða til annarrar niðurstöðu. Hinsvegar munu samtökin beita sér fyrir og gera tillögur um úrbætur á hlutaðeigandi lögum, með hliðsjón af nytsamlegum athugasemdum um þau sem koma fram í úrskurði nefndarinnar.