Símatími

Mán - þri kl. 10-13

Hafa samband

heimilin@heimilin.is

Á döfinni

Hagsmunasamtök heimilanna ósátt við ítrekaðar frávísanir neytendamála

Hagsmunasamtök heimilanna vilja vekja athygli á að máli vegna kvörtunar sem samtökin beindu til Neytendastofu, hefur verið vísað frá áfrýjunarnefnd neytendamála. Frávísunin byggist á því mati að Hagsmunasamtök heimilanna hafi ekki lögvarða hagsmuni af aðild að slíku máli. Þar með hefur HH verið gert erfitt fyrir að verja hagsmuni þeirra sem til samtakanna leita. HH hafa ítrekað reynt að koma kvörtunum og málum er varða neytendavernd á framfæri til úrlausnar, en oftar en ekki hefur slíkum málum verið vísað frá hlutaðeigandi stofnunum og dómstólum.

Kvörtunin sneri að svokölluðu vaxtagreiðsluþaki Íslandsbanka, sem er þó ekki þak heldur einskonar greiðslujöfnun eða greiðsludreifingu vaxta, og er hugtakið því villandi að mati HH. Með ákvörðun nr. 24/2014 þann 16. maí 2014, féllst Neytendastofa ekki á að svo væri og taldi þar af leiðandi ekki ástæðu til að grípa til aðgerða. HH áfrýjuðu ákvörðuninni til áfrýjunarnefndar neytendamála, en með úrskurði sínum þann 24. mars vísaði nefndin málinu nr. 12/2014 frá sér eins og áður segir.

HH eru afar ósátt við frávísunina, sem er enn ein birtingarmynd þess hve erfitt samtökum á sviði neytendaverndar er gert að leita réttar fyrir hönd félagsmanna sinna og neytenda almennt. Þó svo að niðurstaða nefndarinnar sé vel rökstudd með vísan til gildandi laga, þá er það fyrst og fremst merki um að gera þurfi úrbætur á þeim lögum. Helsti ávinningur málsins er því að hafa upplýst vel um þau atriði sem er ábótavant í lögum á þessu sviði og þarfnast úrbóta.

Samkvæmt reglum um neytendavernd sem gilda hér á landi á grundvelli EES-samningsins, ber að sjá til þess að neytendum og samtökum þeirra standi til boða skilvirk úrræði til þess að gæta réttinda neytenda með atbeina stjórvalda og dómstóla. Það veldur HH verulegum vonbrigðum að þær reglur skuli ekki hafa náð að koma til framkvæmda hér á landi af þeim myndarskap sem vonast hefði mátt til.

Hagsmunasamtök heimilanna harma það skeytingarleysi gagnvart EES-samningnum sem í þessu birtist, ekki síst í ljósi þeirrar yfirlýstu stefnu núverandi ríkisstjórnar að byggja eigi samstarf Íslands við önnur Evrópuríki fyrst og fremst á grundvelli EES-samningsins. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem litið er framhjá hagsmunum neytenda og harmar HH að ekki skuli vera meiri vilji af hálfu opinberra aðila til að verja almennan rétt neytenda og framfylgja alþjóðlegum reglum á því sviði.

Þrátt fyrir að almennt sé hægt að bera ákvarðanir og úrskurði stjórnvalda undir dómstóla stendur ekki til að gera það í þessu tilviki, enda eru hverfandi líkur á að það myndi leiða til annarrar niðurstöðu. Hinsvegar munu samtökin beita sér fyrir og gera tillögur um úrbætur á hlutaðeigandi lögum, með hliðsjón af nytsamlegum athugasemdum um þau sem koma fram í úrskurði nefndarinnar.


© Hannað af Filmís 

Hagsmunasamtök heimilanna voru stofnuð 15. janúar 2009 og eru frjáls og óháð hagsmunasamtök á neytendasviði, til varnar og hagsbóta fyrir heimilin í landinu.

Orð frá formanni

CEO 

Orð frá formanni Varlega áætlað hafa 15.000 fjölskyldur, 45.000 einstaklingar misst heimili sín frá hruni. Enginn hefur svarað fyrir það, hvað þá axlað á því ábyrgð. 

Þegar 15% þjóðarinnar missa heimili sín, gætir áhrifanna víða. Við sjáum þau í ástandinu á leigumarkaði og við sjáum þau líka í auknum kvíða meðal ungmenna og kulnun hjá þeim sem eldri eru.

Þegar fólk er svipt heimilum sínum glatar það öryggi sínu sínu og fótfestu. Þegar við bætist magnvana reiði og örvænting vegna óréttlætisins sem það stendur frammi fyrir ásamt hjálpar- og varnaleysinu sem það upplifir þegar heimilinu er hreinlega stolið af því, er ekki nema von að eitthvað láti undan.

Spillingin í þjóðfélaginu er djúp og hún á sér margar hliðar. Hún birtist ekki bara í háu húsnæðisverði og skelfilegum leigumarkaði eða háum vöxtum og verðtryggingu, hún birtist ekki bara í því hvernig lífeyrissjóðirnir misfara með fé okkar allra eða í „krónu á móti krónu“ skerðingu, hún birtist ekki bara í lágum launum verkafólks á meðan sjálftökufólk af ýmsum toga skammtar sjálfu sér milljónir, hún birtist ekki bara í spilltum dómstólum sem gæta hagsmuna „hinna sterku“ í dómum sínum eða í því hvernig lög- og stjórnaskrárvarin réttindi hafa verið brotin á neytendum frá hruni með skelfilegum afleiðingum.

Nei, hún birtist í þessu öllu og meiru til. Spillingin er djúp og teygir anga sína víða. Hana þarf að rífa upp með rótum til að hægt sé að byggja upp nýtt og betra þjóðfélag.

Fyrsta skrefið væri að að afnema verðtryggingu á lánum heimilanna! Öðruvísi er ekki hægt að skapa eðlilegan húsnæðismarkað eða stöðva sjálftöku fjármálastofnanna á tekjum fólks.

En til að takast á við ræturnar þarf að fara fram rannsókn á aðgerðum stjórnvalda eftir hrun. Jú það var líka spilling fyrir hrun, en þá urðu ákveðin vatnaskil og það var þá sem meðvituð ákvörðun var tekin um að fórna heimilum landsins fyrir bankana.

15.000 heimili eiga skilið að fá svör og uppreist æru.

Við biðjum ykkur um að styðja kröfuna um Rannsóknarskýrslu heimilanna!

Ásthildur Lóa Þórsdóttir
Formaður HH

Fylgstu með á samfélagsmiðlum