Símatími

Mán - þri kl. 10-13

Hafa samband

heimilin@heimilin.is

Á döfinni

Umboðsmaður skuldara túlkar dóm um vexti í greiðsluskjóli fjármálafyrirtækjum í vil

Hagsmunasamtök heimilanna mótmæla túlkun umboðsmanns skuldara á dómi héraðsdóms um dráttarvexti sem reiknaðir voru á lán umsækjanda um greiðsluaðlögun á meðan umsækjandinn var í svokölluðu greiðsluskjóli. Túlkun umboðsmanns á niðurstöðum dómsins er alfarið lánveitendum í vil og neytendum í óhag, en á sér hinsvegar enga stoð í dómnum sjálfum. Óskiljanlegt er að embætti umboðsmanns skuldara, sem eins og heitið gefur til kynna ætti að gæta hagsmuna skuldara, skuli þessi í stað kjósa að draga taum fjármálafyrirtækja með þessum hætti.

Þann 8. desember síðastliðinn kvað Héraðsdómur Reykjavíkur upp dóm í máli aðila sem hafði sótt um greiðsluaðlögun, þar sem tekist var á um hvort lánveitanda væri heimilt að krefjast dráttarvaxta af kröfu sinni fyrir það tímabil sem skuldarinn var í greiðsluskjóli vegna umsóknar um greiðsluaðlögun. Fram kom í dómnum að hafa beri í huga að lánið sem um ræddi hafði þegar verið gjaldfellt af hálfu lánveitanda og bar því dráttarvexti áður en skuldarinn sótti um greiðsluaðlögun. Dómurinn svaraði þannig engu um það hvort lánveitendum hafi verið heimilt að gjaldfella og reikna dráttarvexti á önnur lán sem voru í fullum skilum þegar viðkomandi skuldarar sóttu um greiðsluaðlögun.

Þann 26. janúar síðastliðinn birti umboðsmaður skuldara tilkynningu á heimasíðu sinni um dóminn. Þar er því haldið fram að samkvæmt niðurstöðu dómsins beri að túlka ákvæði 2. mgr. 11. gr. laga um greiðsluaðlögun, á þann veg að það heimili álagningu dráttarvaxta vegna þess tímabils sem kröfur eru í greiðsluskjóli. Hinsvegar er enginn fyrirvari gerður við þær sérstöku kringumstæður sem voru uppi í þessu tiltekna máli og takmarkandi þýðingu þeirra fyrir niðurstöðuna. Túlkun umboðsmanns er því mun víðtækari en fótur er fyrir í forsendum dómsins. Þess má jafnframt geta að ákveðið hefur verið að áfrýja dómi héraðsdóms í málinu til Hæstaréttar Íslands.

Rétt er að vekja athygli á því að samkvæmt a-lið 1. mgr. 11. gr. laga nr. 101/2010 um greiðsluaðlögun einstaklinga er lánardrottnum óheimilt að krefjast eða taka við greiðslu á kröfum sínum á meðan frestun greiðslna stendur, þ.e. á meðan skuldari er í svokölluðu greiðsluskjóli. Samkvæmt b-lið sama ákvæðis er jafnframt óheimilt að gjaldfella skuldir samkvæmt samningsbundnum heimildum á meðan frestun greiðslna stendur og neyta þannig heimildar til álagningar dráttarvaxta, og samkvæmt c-lið er jafnframt óheimilt að ganga að eignum skuldara á sama tímabili. Samkvæmt 2. mgr. 11. gr. laganna falla vextir á skuldir meðan á frestun greiðslna stendur þó þeir séu ekki gjaldkræfir, en ekki er tekið fram hvort átt sé við dráttarvexti eða samningsvexti. Þar sem lánveitandanum er óheimilt að taka við greiðslu kveður 7. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu hinsvegar á um að óheimilt sé að reikna dráttarvexti þann tíma sem greiðsludráttur verður af þessum lögmætu ástæðum.

Hagsmunasamtök heimilanna vísa á bug þeirri víðtæku og einhliða túlkun lánadrottnum í vil, sem kemur fram í umræddri tilkynningu umboðsmanns skuldara varðandi vexti í greiðsluskjóli, og telja að þannig gæti embættið engan veginn að réttindum neytenda. Miklir hagsmunir geta verið í húfi enda munar jafnan talsverðu á dráttarvöxtum og samningsvöxtum. Umsækjendum um greiðsluaðlögun sem voru í fullum skilum við upphaf greiðsluskjóls en hafa engu að síður verið krafðir um dráttarvexti vegna þess tímabils, er bent á að kanna möguleika á því að leita réttar síns vegna þess. Ekki síst í þeim tilvikum þar sem um er að ræða háar fjárhæðir í formi dráttarvaxta.


© Hannað af Filmís 

Hagsmunasamtök heimilanna voru stofnuð 15. janúar 2009 og eru frjáls og óháð hagsmunasamtök á neytendasviði, til varnar og hagsbóta fyrir heimilin í landinu.

Orð frá formanni

CEO 

Orð frá formanni Varlega áætlað hafa 15.000 fjölskyldur, 45.000 einstaklingar misst heimili sín frá hruni. Enginn hefur svarað fyrir það, hvað þá axlað á því ábyrgð. 

Þegar 15% þjóðarinnar missa heimili sín, gætir áhrifanna víða. Við sjáum þau í ástandinu á leigumarkaði og við sjáum þau líka í auknum kvíða meðal ungmenna og kulnun hjá þeim sem eldri eru.

Þegar fólk er svipt heimilum sínum glatar það öryggi sínu sínu og fótfestu. Þegar við bætist magnvana reiði og örvænting vegna óréttlætisins sem það stendur frammi fyrir ásamt hjálpar- og varnaleysinu sem það upplifir þegar heimilinu er hreinlega stolið af því, er ekki nema von að eitthvað láti undan.

Spillingin í þjóðfélaginu er djúp og hún á sér margar hliðar. Hún birtist ekki bara í háu húsnæðisverði og skelfilegum leigumarkaði eða háum vöxtum og verðtryggingu, hún birtist ekki bara í því hvernig lífeyrissjóðirnir misfara með fé okkar allra eða í „krónu á móti krónu“ skerðingu, hún birtist ekki bara í lágum launum verkafólks á meðan sjálftökufólk af ýmsum toga skammtar sjálfu sér milljónir, hún birtist ekki bara í spilltum dómstólum sem gæta hagsmuna „hinna sterku“ í dómum sínum eða í því hvernig lög- og stjórnaskrárvarin réttindi hafa verið brotin á neytendum frá hruni með skelfilegum afleiðingum.

Nei, hún birtist í þessu öllu og meiru til. Spillingin er djúp og teygir anga sína víða. Hana þarf að rífa upp með rótum til að hægt sé að byggja upp nýtt og betra þjóðfélag.

Fyrsta skrefið væri að að afnema verðtryggingu á lánum heimilanna! Öðruvísi er ekki hægt að skapa eðlilegan húsnæðismarkað eða stöðva sjálftöku fjármálastofnanna á tekjum fólks.

En til að takast á við ræturnar þarf að fara fram rannsókn á aðgerðum stjórnvalda eftir hrun. Jú það var líka spilling fyrir hrun, en þá urðu ákveðin vatnaskil og það var þá sem meðvituð ákvörðun var tekin um að fórna heimilum landsins fyrir bankana.

15.000 heimili eiga skilið að fá svör og uppreist æru.

Við biðjum ykkur um að styðja kröfuna um Rannsóknarskýrslu heimilanna!

Ásthildur Lóa Þórsdóttir
Formaður HH

Fylgstu með á samfélagsmiðlum