Umboðsmaður skuldara túlkar dóm um vexti í greiðsluskjóli fjármálafyrirtækjum í vil
Hagsmunasamtök heimilanna mótmæla túlkun umboðsmanns skuldara á dómi héraðsdóms um dráttarvexti sem reiknaðir voru á lán umsækjanda um greiðsluaðlögun á meðan umsækjandinn var í svokölluðu greiðsluskjóli. Túlkun umboðsmanns á niðurstöðum dómsins er alfarið lánveitendum í vil og neytendum í óhag, en á sér hinsvegar enga stoð í dómnum sjálfum. Óskiljanlegt er að embætti umboðsmanns skuldara, sem eins og heitið gefur til kynna ætti að gæta hagsmuna skuldara, skuli þessi í stað kjósa að draga taum fjármálafyrirtækja með þessum hætti.
Þann 8. desember síðastliðinn kvað Héraðsdómur Reykjavíkur upp dóm í máli aðila sem hafði sótt um greiðsluaðlögun, þar sem tekist var á um hvort lánveitanda væri heimilt að krefjast dráttarvaxta af kröfu sinni fyrir það tímabil sem skuldarinn var í greiðsluskjóli vegna umsóknar um greiðsluaðlögun. Fram kom í dómnum að hafa beri í huga að lánið sem um ræddi hafði þegar verið gjaldfellt af hálfu lánveitanda og bar því dráttarvexti áður en skuldarinn sótti um greiðsluaðlögun. Dómurinn svaraði þannig engu um það hvort lánveitendum hafi verið heimilt að gjaldfella og reikna dráttarvexti á önnur lán sem voru í fullum skilum þegar viðkomandi skuldarar sóttu um greiðsluaðlögun.
Þann 26. janúar síðastliðinn birti umboðsmaður skuldara tilkynningu á heimasíðu sinni um dóminn. Þar er því haldið fram að samkvæmt niðurstöðu dómsins beri að túlka ákvæði 2. mgr. 11. gr. laga um greiðsluaðlögun, á þann veg að það heimili álagningu dráttarvaxta vegna þess tímabils sem kröfur eru í greiðsluskjóli. Hinsvegar er enginn fyrirvari gerður við þær sérstöku kringumstæður sem voru uppi í þessu tiltekna máli og takmarkandi þýðingu þeirra fyrir niðurstöðuna. Túlkun umboðsmanns er því mun víðtækari en fótur er fyrir í forsendum dómsins. Þess má jafnframt geta að ákveðið hefur verið að áfrýja dómi héraðsdóms í málinu til Hæstaréttar Íslands.
Rétt er að vekja athygli á því að samkvæmt a-lið 1. mgr. 11. gr. laga nr. 101/2010 um greiðsluaðlögun einstaklinga er lánardrottnum óheimilt að krefjast eða taka við greiðslu á kröfum sínum á meðan frestun greiðslna stendur, þ.e. á meðan skuldari er í svokölluðu greiðsluskjóli. Samkvæmt b-lið sama ákvæðis er jafnframt óheimilt að gjaldfella skuldir samkvæmt samningsbundnum heimildum á meðan frestun greiðslna stendur og neyta þannig heimildar til álagningar dráttarvaxta, og samkvæmt c-lið er jafnframt óheimilt að ganga að eignum skuldara á sama tímabili. Samkvæmt 2. mgr. 11. gr. laganna falla vextir á skuldir meðan á frestun greiðslna stendur þó þeir séu ekki gjaldkræfir, en ekki er tekið fram hvort átt sé við dráttarvexti eða samningsvexti. Þar sem lánveitandanum er óheimilt að taka við greiðslu kveður 7. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu hinsvegar á um að óheimilt sé að reikna dráttarvexti þann tíma sem greiðsludráttur verður af þessum lögmætu ástæðum.
Hagsmunasamtök heimilanna vísa á bug þeirri víðtæku og einhliða túlkun lánadrottnum í vil, sem kemur fram í umræddri tilkynningu umboðsmanns skuldara varðandi vexti í greiðsluskjóli, og telja að þannig gæti embættið engan veginn að réttindum neytenda. Miklir hagsmunir geta verið í húfi enda munar jafnan talsverðu á dráttarvöxtum og samningsvöxtum. Umsækjendum um greiðsluaðlögun sem voru í fullum skilum við upphaf greiðsluskjóls en hafa engu að síður verið krafðir um dráttarvexti vegna þess tímabils, er bent á að kanna möguleika á því að leita réttar síns vegna þess. Ekki síst í þeim tilvikum þar sem um er að ræða háar fjárhæðir í formi dráttarvaxta.