Símatími

Mán - þri kl. 10-13

Hafa samband

heimilin@heimilin.is

Á döfinni

Bréf Gunnars Tómassonar hagfræðings til Alþingis

Ritstjóri vefs HH vill vekja athygli lesenda á nýju bréfi Gunnars Tómassonar til Alþingismanna. GT bendir á mál sem eru mikið áhyggjuefni þ.e. að sú hugmyndafræði sem byggt hefur verið á við fjármálastjórn ríkja eins og Íslands gangi ekki upp. Þetta eru ekki bara fræðilegar vangaveltur lengur, almenningur hefur fengið að finna á eigin skinni hverjar afleiðingarnar eru.

Ágætu alþingismenn.

Fyrirhuguð endurreisn íslenzka hagkerfisins lætur á sér standa, svo vægt sé til orða tekið.

Verg landsframleiðsla (VLF) 2009 drógst saman um 6,5% á föstu krónuverði (upphafleg spá var 9,5%) en verðmæti VLF í gjaldeyri (dollurum) minnkaði um 28% (upphafleg spá var 20%).  Eins og nánar er rakið í hjálögðu bréfi mínu dags. 26. apríl sl. til Poul M. Thomsen, yfirmanns AGS í málefnum Íslands, gerir AGS ráð fyrir því að VLF á föstu krónuverði 2013 verði 4,3% hærra en VLF ársins 2008 en 25% lægra reiknað í gjaldeyri.  Í bréfinu setti ég fram ákveðnar athugasemdir varðandi greiðsluþol Íslands með hliðsjón af Brussel Icesave-viðmiðunum sem Mr. Thomsen hefur ekki tjáð sig um.

Það er því tímabært fyrir Alþingi Íslands að taka aðgerðaáætlun stjórnvalda og AGS til gaumgæfilegrar endurskoðunar svo forða megi frekari búsifjum hagkerfisins að óbreyttri stefnu.

Í þessu sambandi tel ég einsýnt að hugmyndir AGS um hærri skatta á almennar tekjur og neyzlu (og meðfylgjandi höfuðstólshækkun verðtryggðra lána) myndu gera illt verra og skjóta á frest erfiðum aðgerðum til að höggva að rótum fjárhagslegs ójafnvægis í hagkerfinu.  Hæstiréttur Íslands hefur stigið fyrsta skrefið í þá átt með úrskurði sínum um ólögmæti gengisbundinna lána, en frumkvæði að afnámi verðtryggingar krónulána verður að koma frá Alþingi Íslands.  Gengisbinding og verðtrygging hafa ekki einungis staðið í vegi fyrir faglegri og skilvirkri stjórn peningamála um  langt árabil heldur eru þau kjörvopn óbilgjarnrar hagsmunagæzlu aðila á fjármálamarkaði sem áttu stóran þátt í - og högnuðust sumir á - hruni krónunnar og hagkerfisins alls í október 2008.

Aðgerðaáætlun AGS og stjórnvalda byggði m.a. á ríkjandi hugmyndum á sviði peningahagfræði (e. mainstream monetary economics) sem Alan Greenspan, fyrrverandi seðlabankastjóri BNA, fjallaði um á fundi með bandarískri þingnefnd 23. október 2008. „Þau okkar [sem töldum hugmyndirnar vera traustar] erum í algjöru sjokki [því að] gjörvallur hugmyndaheimur [okkar] hrundi sumarið 2007," sagði Greenspan. Sjálfur hefði hann „síðustu 40 árin ... talið [sig] hafa mjög traustverðugar vísbendingar um að [hugmyndafræði hans] virkaði framúrskarandi vel." Framkvæmdastjórn AGS hafði jafnlengi verið sama sinnis en hefur enn ekki endurskoðað eigið vinnulag, sbr. peningalega þætti aðgerðaáætlunar AGS og stjórnvalda sem endurspegla liðna tíð og hruninn hugmyndaheim.

Sama er að segja um Seðlabanka Íslands, en af nýjustu hagtölum virðist mega ráða að á fyrri hluta 2010 hafi hann lagt fjármálastofnunum til um 50 ma. króna vaxtatekjur á ársgrundvelli fyrir innlán sem vandséð er að þjóni nokkrum þjóðarhagsmunum.  Ef ekki verður sýnt fram á annað, þá er hér um að ræða 50 ma. ríkisútgjöld sem mætti að skaðlausu skera niður - og myndi e.t.v. hvetja fjármálafyrirtæki til að finna arðvænlega útlánamöguleika í atvinnulífinu.  En stærsti vandinn í ríkisfjármálum á komandi tíð er að skapa ríkissjóði fjárhagslegt svigrúm til að takast á við knýjandi viðfangsefni í kjölfar úrskurðar Hæstaréttar um gengisbindingu krónulána og, ef Alþingi Íslands skynjar sinn vitjunartíma, afnám verðtryggingar.

Samkvæmt hagtölum Seðlabanka Íslands voru innlán innlánsstofnana um 1640 ma. í lok marz 2010.  Af líkum má ráða að stór hluti innlána umfram 5-10 milljónir sé ávöxtur þeirra möguleika til auðsöfnunar sem voru til staðar í bóluhagkerfinu sem sprakk í október 2008 og gátu af sér þungan skuldabagga fyrir land og þjóð.  Ég hef ekki handbærar upplýsingar um skiptingu innlána eftir upphæðum en ef innlán umfram 5-10 milljónir hafi verið um 1500 ma. 30. júní sl. þá myndi 10-20% skattlagning slíkra innlána skila ríkissjóði um 150-300 milljörðum.  Íslendingar eru misjafnlega í stakk búnir að leggja efnahagslegu sjálfstæði Íslands lið en ekki verður með sanni sagt að almennir launþegar, aldraðir og öryrkjar hafi hlaupist undan merkjum á aðsteðjandi ögurstundu.


Virðingarfyllst,

Gunnar Tómasson, hagfræðingur

 


© Hannað af Filmís 

Hagsmunasamtök heimilanna voru stofnuð 15. janúar 2009 og eru frjáls og óháð hagsmunasamtök á neytendasviði, til varnar og hagsbóta fyrir heimilin í landinu.

Orð frá formanni

CEO 

Orð frá formanni Varlega áætlað hafa 15.000 fjölskyldur, 45.000 einstaklingar misst heimili sín frá hruni. Enginn hefur svarað fyrir það, hvað þá axlað á því ábyrgð. 

Þegar 15% þjóðarinnar missa heimili sín, gætir áhrifanna víða. Við sjáum þau í ástandinu á leigumarkaði og við sjáum þau líka í auknum kvíða meðal ungmenna og kulnun hjá þeim sem eldri eru.

Þegar fólk er svipt heimilum sínum glatar það öryggi sínu sínu og fótfestu. Þegar við bætist magnvana reiði og örvænting vegna óréttlætisins sem það stendur frammi fyrir ásamt hjálpar- og varnaleysinu sem það upplifir þegar heimilinu er hreinlega stolið af því, er ekki nema von að eitthvað láti undan.

Spillingin í þjóðfélaginu er djúp og hún á sér margar hliðar. Hún birtist ekki bara í háu húsnæðisverði og skelfilegum leigumarkaði eða háum vöxtum og verðtryggingu, hún birtist ekki bara í því hvernig lífeyrissjóðirnir misfara með fé okkar allra eða í „krónu á móti krónu“ skerðingu, hún birtist ekki bara í lágum launum verkafólks á meðan sjálftökufólk af ýmsum toga skammtar sjálfu sér milljónir, hún birtist ekki bara í spilltum dómstólum sem gæta hagsmuna „hinna sterku“ í dómum sínum eða í því hvernig lög- og stjórnaskrárvarin réttindi hafa verið brotin á neytendum frá hruni með skelfilegum afleiðingum.

Nei, hún birtist í þessu öllu og meiru til. Spillingin er djúp og teygir anga sína víða. Hana þarf að rífa upp með rótum til að hægt sé að byggja upp nýtt og betra þjóðfélag.

Fyrsta skrefið væri að að afnema verðtryggingu á lánum heimilanna! Öðruvísi er ekki hægt að skapa eðlilegan húsnæðismarkað eða stöðva sjálftöku fjármálastofnanna á tekjum fólks.

En til að takast á við ræturnar þarf að fara fram rannsókn á aðgerðum stjórnvalda eftir hrun. Jú það var líka spilling fyrir hrun, en þá urðu ákveðin vatnaskil og það var þá sem meðvituð ákvörðun var tekin um að fórna heimilum landsins fyrir bankana.

15.000 heimili eiga skilið að fá svör og uppreist æru.

Við biðjum ykkur um að styðja kröfuna um Rannsóknarskýrslu heimilanna!

Ásthildur Lóa Þórsdóttir
Formaður HH

Fylgstu með á samfélagsmiðlum