Er fasteignaverð að lækka?
Að sögn fasteignasala kann að vera að þeir sem eiga pening til að kaupa fasteignir, séu að bíða eftir þeirri lækkun sem sé óhjákvæmileg. Í það minnsta er engin nýliðun sem heitið getur á markaði. Þau viðskipti sem eiga sér stað eru skipti með milligjöf. Á meðan bankarnir gefa ekki nóg eftir af skuldum er allt frosið. Þeir eru í einskonar störukeppni við heimilin og fyrirtækin í landinu.
Greiðsluviljinn í fyrirtækjunum er kominn niður úr gólfinu. Ástæðan er einföld. Þau geta snúið sig undan skuldafarginu ef svo ber undir. Fasteignir mega fjúka úr eignasafninu, þær eru lítils virði nú, leiguhúsnæði fyrir fyrirtæki er í miklu framboði og það ódýrt. Bankarnir geta hirt fasteignirnar, verð þeirra verður alltaf mjög lágt á meðan þeir eiga þær (þannig hefur það alltaf verið). Um leið og bankar reyna harðar innheimtuaðgerðir gegn fyrirtækjum geta þau tekið upp á því að hætta að greiða skatta. Skattar eru forgangskröfur séu eignir seldar nauðungarsölu. Það gefur því auga leið að fyrirtæki kann að sjá sér hag í því að leyfa bankanum að greiða slík gjöld við nauðungarsöluna. Lánveitendur eru því skiljanlega varfærir hvað varðar fyrirtækin því þeir geta svo auðveldlega tapað enn meiru með hörkunni.
Bankarnir eru að selja eitthvað af eignum en þeir passa að kaupsamningum sé ekki þinglýst. Það heldur viðskiptunum út úr fasteignavísitölunni og fasteignamatinu. Gefið er út afsal þess í stað. Þetta er ekkert annað en enn ein skipulögð markaðsmisnotkun af hálfu bankanna. Greiningardeildir bankanna sem eru markaðsdeildir í reynd, keppast við í örvæntingu að tala fasteignaverð upp. Þess má geta að nánast engar breytingar hafa verið gerðar á greiningardeild Íslandsbanka frá því fyrir hrun. Þar er Ingólfur Bender enn í forsvari. Greiningardeildin heyrir undir markaðssvið Íslandsbanka og svonefndar greiningarspár eru álíka marktækar og fyrir hrun. Enn birta sumir fréttamenn þessar greiningar eins og þetta sé frá hlutlausum, áreiðanlegum og marktækum aðilum. Satt best að segja eru klisjukenndar ímyndarauglýsingar bankanna heiðarlegri en útgáfustarfsemi svonefndra greiningardeilda þeirra.
Íslendinga sárvantar nú áreiðanlega hlutlausa stofnun sem hefur aðgang að tímabærum og sögulegum upplýsingum og getu til að vinna úr þeim og birta í samhengi við málefni hvers tíma. Fjármálastofnanir eru ekki rétti staðurinn fyrir slíka vinnu. Ef að líkum lætur eru greiningardeildir bankanna með tvær útgáfur af niðurstöðum greininga sinna. Eina fyrir stjórnendur bankans og aðra fyrir vefsíðu og fjölmiðla. Hafi hrunið kennt okkur eitthvað að þá er það að við megum ekki hunsa hagsmunaárekstra þegar kemur að áreiðanleika upplýsinga.