Símatími

Mán - þri kl. 10-13

Hafa samband

heimilin@heimilin.is

Á döfinni

Erindi til stjórnlagaráðs varðandi eignarréttarákvæði

Ágætu stjórnlagaráðsfulltrúar

Með erindi þessu vilja Hagsmunasamtök heimilanna koma þeirri ósk á framfæri við stjórnlagaráð að það setji á dagskrá umræðu um 72. gr. stjórnarksrárinnar um eignarrétt.  Þess er óskað að erindinu verði vísað til þeirrrar nefndar sem stjórnlagaráð telur að sé best til þess fallin að fjalla um það.

 

Heimiliseign hlýtur að teljast til sjálfsagðra mannréttinda og grunnþarfa þótt eflaust megi takast á um ágæti séreignafyrirkomulagsins á húsnæði á Íslandi.  Reyndin er að flestir eiga húsnæði sín og skulda jafnframt í þeim.  Þau áhættusömu viðskipti sem almenningi er gert að taka þátt í með því að koma sér upp heimili eru umhugsunarverð.  

 

Í fasteignaviðskiptum er ekki óalgengt að kaupandi leggi til hluta af kaupverði fasteignar en fjármagni afganginn með láni.  Lánið er jafnan veitt gegn veði í eign ásamt sjálfskuldaábyrgð lántaka.  Vegna þeirra laga sem gilda um verðtryggingu fjárskuldbindinga sitja lánveitandi og lántakandi ekki við sama borð.  Verðtrygging ver eign lánveitanda fyrir áhrifum verðbólgu á meðan eign lántakanda er óvarin fyrir sömu áhrifum.  

 

Nú segir í  72. grein stjórnarskrár lýðveldisins Íslands:

 

„Eignarrétturinn er friðhelgur. Engan má skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji. Þarf til þess lagafyrirmæli og komi fullt verð fyrir.“ Getur stjórnlagaráð í sínum störfum tryggt að maður sem tekur lán standi jafnfætis þeim sem lánið veitir með hliðsjón af eignarétti beggja?

 

Það er mat Hagsmunasamtaka heimilanna að stjórnlagaráð ætti að taka til athugunar að bæta við eignarréttarákvæði í stjórnarskrá um mannréttindavarðan eignarrétt vegna heimilis og að veð í eigin húsnæði takmarkist við veðandlag. Heimili er eitt af því sem skilgreint er sem grunnþörf í mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna og ætti því réttur ábúenda heimilisins að hafa forgang, fram yfir fjármálastofnun.

 

72.grein stjórnarskrárinnar mætti túlka sem svo að eignarréttur að hlutaeign í heimili ætti ekki að krefja neinn að láta sinn hluta af hendi nema almenningsþörf krefji og ef til nauðungarsölu kæmi, ætti hlutur heimiliseiganda að vera varinn (t.d. skilgreindur sem hlutfallseign frá upphafi, við undirritun kaupsamnings) og ætti hann að fá að fullu greitt fyrir sinn hlut, þrátt fyrir að geta ekki staðið í skilum með lán sín gagnvart lánastofnun.  

 

Ein hugmynd sem hefur komið upp er að um eignarétt ríki forgangsröðun þ.e. eignaréttur einstaklings sé rétthærri eignarétti lögaðila eins og hlutafélags. Hlutafélag er í eðli sínu áhættufjárfesting en heimili einstaklings hefur oftast lykil vægi fyrir líf einstaklings eða fjölskyldu. Þarna koma inn atriði eins og sönnunarbyrði ofl. varðandi deilur um eignarrétt. Slíkt má útfæra nánar í almennum lögum en það er mikilvægt að skýringartextar stjórnlagaráðs innihaldi leiðsögn um hvað er meint með eignarréttinum, þ.e. hver tilgangur hans er og fyrir hvern hann er fyrst og fremst. Þetta hefur eitthvað skolast til og eignarréttur er nú í reynd notaður sem einskonar innheimturéttur fjármálastofnana en það var kannski ekki upphaflega hugsunin á bak við hann.

 

Í þessu sambandi er ekki úr vegi að geta þess að 14. grein þýsku stjórnarskrárinnar kveður ekki eingöngu á um eignarétt heldur líka ákveðnar skyldur, í almannaþágu, sem nýtingu hans fylgir:

 

„(1) Property and the right of inheritance shall be guaranteed. Their content and limits shall be defined by the laws. (2) Property entails obligations.  Its use shall also serve the public good. (3) Expropriation shall only be permissible for the public good. It may only be ordered by or pursuant to a law that determines the nature and extent of compensation.  Such compensation shall be determined by establishing an equitable balance between the public interest and the interests of those affected. In case of dispute concerning the amount of compensation, recourse may be had to the ordinary courts.”

https://www.btg-bestellservice.de/pdf/80201000.pdf

Hagsmunasamtök heimilanna vilja jafnframt benda á þörfina til að skilgreina mismunandi tegundir af eignarrétt, t.d. er mannréttindavarinn eignarréttur heimilis með öðrum hætti en það sem kalla má þjóðareign - þ.e.a.s. auðlindir þjóðarinnar ættu að skilgreinast með sértækum hætti út frá almannahagsmunum í stjórnarskrá lýðveldisins.


Virðingarfyllst,
fyrir hönd Hagsmunasamtaka heimilanna


________________________
Andrea J. Ólafsdóttir

formaður stjórnar


© Hannað af Filmís 

Hagsmunasamtök heimilanna voru stofnuð 15. janúar 2009 og eru frjáls og óháð hagsmunasamtök á neytendasviði, til varnar og hagsbóta fyrir heimilin í landinu.

Orð frá formanni

CEO 

Orð frá formanni Varlega áætlað hafa 15.000 fjölskyldur, 45.000 einstaklingar misst heimili sín frá hruni. Enginn hefur svarað fyrir það, hvað þá axlað á því ábyrgð. 

Þegar 15% þjóðarinnar missa heimili sín, gætir áhrifanna víða. Við sjáum þau í ástandinu á leigumarkaði og við sjáum þau líka í auknum kvíða meðal ungmenna og kulnun hjá þeim sem eldri eru.

Þegar fólk er svipt heimilum sínum glatar það öryggi sínu sínu og fótfestu. Þegar við bætist magnvana reiði og örvænting vegna óréttlætisins sem það stendur frammi fyrir ásamt hjálpar- og varnaleysinu sem það upplifir þegar heimilinu er hreinlega stolið af því, er ekki nema von að eitthvað láti undan.

Spillingin í þjóðfélaginu er djúp og hún á sér margar hliðar. Hún birtist ekki bara í háu húsnæðisverði og skelfilegum leigumarkaði eða háum vöxtum og verðtryggingu, hún birtist ekki bara í því hvernig lífeyrissjóðirnir misfara með fé okkar allra eða í „krónu á móti krónu“ skerðingu, hún birtist ekki bara í lágum launum verkafólks á meðan sjálftökufólk af ýmsum toga skammtar sjálfu sér milljónir, hún birtist ekki bara í spilltum dómstólum sem gæta hagsmuna „hinna sterku“ í dómum sínum eða í því hvernig lög- og stjórnaskrárvarin réttindi hafa verið brotin á neytendum frá hruni með skelfilegum afleiðingum.

Nei, hún birtist í þessu öllu og meiru til. Spillingin er djúp og teygir anga sína víða. Hana þarf að rífa upp með rótum til að hægt sé að byggja upp nýtt og betra þjóðfélag.

Fyrsta skrefið væri að að afnema verðtryggingu á lánum heimilanna! Öðruvísi er ekki hægt að skapa eðlilegan húsnæðismarkað eða stöðva sjálftöku fjármálastofnanna á tekjum fólks.

En til að takast á við ræturnar þarf að fara fram rannsókn á aðgerðum stjórnvalda eftir hrun. Jú það var líka spilling fyrir hrun, en þá urðu ákveðin vatnaskil og það var þá sem meðvituð ákvörðun var tekin um að fórna heimilum landsins fyrir bankana.

15.000 heimili eiga skilið að fá svör og uppreist æru.

Við biðjum ykkur um að styðja kröfuna um Rannsóknarskýrslu heimilanna!

Ásthildur Lóa Þórsdóttir
Formaður HH

Fylgstu með á samfélagsmiðlum