Svör launþegasamtaka við áskorun Hagsmunasamtaka heimilanna
Á degi verkalýðsins 1. maí sendi Hagsmunasamtök heimilanna áskorun til ASÍ og verkalýðsforystunnar í tilefni að yfirstandandi kjarasamningaviðræðum. Voru viðbrögðin ólík og lýsa þau viðhorfum verkalýðshreyfinga til baráttumála Hagsmunasamtaka heimilanna.
Áskorunin var send forseta ASÍ og fjölmiðlum, en einnig var send tilkynning um áskorunina á aðildarfélög ASÍ. Í áskoruninni voru samningsaðilar hvattir til að ganga til kjarasamninga með það að leiðarljósi að leiðrétta skuldir heimila og endurmeta verðtryggingu með tilliti til framkvæmdar hennar og/eða afnáms. Rök Hagsmunasamtakanna eru þau að slíkar aðgerðir séu raunhæfasta og besta kjarabótin fyrir launafólk í landinu, í stað þess að skapa verðbólgu með launahækkunum sem svo auka á greiðslubyrði heimilanna í landinu.
Fórum við þess á leit við hvert og eitt aðildarfélag ASÍ að þau svöruðu þessari áskorun með formlegum hætti. Hagsmunasamtökunum bárust aðeins tvö svör við þessari beiðni. Stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna hefur ákveðið að birta þau svör sem bárust, til að varpa ljósi á viðhorf sem verkalýðsfélögin hafa á baráttumálum samtakanna.
Verkalýðsfélag Akraness hefur skorið sig úr öðrum stéttarfélögum og hefur haft kjark og framsýni til að styðja við kröfur samtakanna um leiðréttingar lána og afnám verðtryggingar. Í svarbréfi VLFA segir formaðurinn Vilhjálmur Birgisson:
"Afstaða Verkalýðsfélags Akraness til verðtryggingarinnar hefur ætíð verið skýr og hefur félagið hvatt til þess að hún verði afnumin í eitt skiptið fyrir öll og gerði ég það til dæmis síðast í gær í ræðu minni á 1. maí. Við höfum lagt fram ályktanir og annað í þeim dúr og stutt Hagsmunasamtök heimilanna heilshugar í þessari baráttu og munum halda þeirri vinnu áfram enda er hér um gríðarlega mikið hagsmunamál fyrir skuldsett heimili að ræða og sorglegt til þess að vita að ekki hafi verið farið út í almennar leiðréttingar á skuldum heimilanna vegna stökkbreyttra hækkana á höfuðstól lána landsmanna."
Hitt svarið sem barst samtökunum var frá Rafiðnaðarsambandi Íslands, en í bréfinu segir formaðurinn Guðmundur Gunnarsson eftirfarandi:
"Rafiðnaðarsamband er með 26 kjarasamninga. Það er félagsmenn á hverjum samningi fyrir sig sem semja kröfugerð og kjósa samninganefnd. Þessu starfi var lokið áður samningar runnu út og kröfugerðir lagðar fram samkvæmt lögum um vinnudeilur og hefur verið unnið eftir þeim í viðræðum. Skora á þann sem skrifaði þetta bréf að kynna sér betur hvernig vinna fer fram við undirbúning og gerð kjarasamninga."
Svo bætir Guðmundur í og segir í bréfi sem fylgir í kjölfarið:
"Ég get fullvissað þig um að félagsmenn Rafiðnaðarsambandsins eru fullfærir um að ákvarða sínar kröfugerðir og láta kjörnar samninganefndir sínar um að vinna að þessum málum. Get einnig fullvissað þig um að rafiðnaðarmenn munu ekki sætta sig við að aðrir geri það það, enda væri það ólöglegt."
Í ljósi þessara viðbragða vilja Hagsmunasamtök heimilanna lýsa yfir áhyggjum yfir viðbrögðum núverandi formanns Rafiðnaðarsambandsins til erindisins. Það eru vonbrigði þegar launþegasamtök sjá ekki húsnæðismál sem hluta af kjarabaráttu launþega.