Símatími

Mán - þri kl. 10-13

Hafa samband

heimilin@heimilin.is

Á döfinni

Leiðbeiningar í lánamálum heimilanna

Snúðu vörn í sókn og stattu á rétti þínum. Hagsmunasamtökin hafa tekið saman almennar leiðbeiningar og upplýsingar sem gagnast geta félagsmönnum í glímu þeirra við fjármálafyrirtækin.

Þó að Hagsmunasamtökin hafi hingað til hvorki haft mannafla né bolmagn til að veita persónulega ráðgjöf, lýsum við yfir stuðningi við þá sem neita að láta bjóða sér það fjármálaofbeldi og greiðslukúgun sem hér viðgengst og munum veita þann stuðning í verki sem okkur er unnt, með miðlun leiðbeininga og hagnýtra upplýsinga hér á vef samtakanna.



Í þessari fyrstu atrennu fjöllum við um hvernig
hafna má nýjum lánasamningi ásamt endurútreikningum sem vísa í lög nr. 151/2010 og birtum staðlað höfnunarbréf sem nota má í heild sinni eða hafa til hliðsjónar í samskiptum við lánaveitanda. Einnig eru gagnlegar upplýsingar um 110% leiðina, sagt frá heimild í lögum til að halda erlendum lánum óbreyttum, fjallað um harðdrægar aðferðir SP Fjármögnunar, réttindi ábyrgðarmanna lána rifjuð upp o.fl.

Stefnt er svo að því að hleypa af stokkunum sérstökum undirvef hér á heimilin.is sem heldur utan um uppýsingargjöf á vegum samtakanna af þessum toga.
Kynntu þér leiðbeiningar Hagsmunasamtakanna í lánamálum heimilanna


Nýjum lánasamningi ásamt endurútreikningum hafnað
Hagsmunasamtök heimilanna hvetja alla þá sem eru með gengistryggð lán til að hafna alfarið nýjum lánssamningum ásamt endurútreikningum, þar sem vextir hafa verið uppreiknaðir aftur í tímann með vísan í lög nr. 151/2010 um endurútreikninga gengistryggðra lána.

Við teljum að 16. september 2010, sá dagur sem dómur féll í Hæstarétti, sé fyrsti mögulegi dagurinn sem miða mætti við útreikninga á breyttum vaxtakjörum - ekki nema ný lög frá Alþingi taki gildi varðandi endurútreikninganna sem kveði á um annað.

Við drögum jafnframt í efa að breytingar á vaxtaákvæðum geti átt við í öllum tilvikum, eins og lögin gera ráð fyrir. Bæði eru samningar breytilegir frá einu láni til annars og eins gæti skipt máli hvort miðað var við LIBOR vexti í upphaflega samningnum. Á það mun reyna fyrir dómstólum á næstunni, m.a. í máli nr. E-2152.

Staðlað form fyrir höfnun endurútreikninga
Til að auðvelda lántakendum að hafna nýjum lánasamningi ásamt endurútreikningum sem byggir á lögum nr. 151/2010, hafa Hagsmunasamtökin látið útbúa staðlað form, sem má ýmist nota óbreytt eða sníða að þörfum hvers og eins.

Þetta form má nálgast hér að neðan, sem bæði pdf-skjal og ritvinnsluskjal (word). Félagsmenn ráða síðan hvað þeir gera við textann, hvort þeir nýta einungis hluta af honum eða hann er nýttur í heild sinni, en það er að sjálfsögðu á eigin ábyrgð hvers og eins.

Endurútreikningi hafnað pdf

Endurútreikningi hafnað ritvinnsluskjal

Fyrir þá sem eru að skokða 110% leiðina
Varðandi mat á húseign fyrir þá sem eru að íhuga að gangast inn á 110% leiðina vilja samtökin benda fólki á að láta reyna á að stuðst verði við mat hjá FMR, fasteignamati ríkisins, því fasteignasalar geta metið eign með mjög miklum mismun og hærra en eignin myndi seljast á ef til þess kæmi. Eins hvetja samtökin fólk til að láta reyna á að semja við bankann um 70-90% af höfuðstól eða miðað við hvað viðkomandi telur sig vera búinn að greiða af upphaflegum höfuðstól láns í íslenskum krónum frá lántökudegi að frádregnum afborgunum hingað til.


Heimild til að halda láni sem “erlendu láni”
Samtökin vilja benda fólki á að telji það sig betur statt með upphaflegt lán á gengi erlendra gjaldmiðla, þá er ákvæði c. (XII) í 2. gr laga151/2010 sem heimilar lántakanda að skipta yfir í slíkt löglegt lán.
“Ef í lánssamningi er kveðið á um ólögmæta verðtryggingu í formi gengistryggingar skal með samningi kröfuhafa og skuldara vera heimilt að færa höfuðstól lánsins í erlendar myntir eins og um gilt erlent lán hafi verið að ræða frá stofntíma kröfunnar. Falla þá niður heimildir til leiðréttingar greiðslna og höfuðstóls samkvæmt öðrum ákvæðum laganna. Heimild þessi gildir í 90 daga frá gildistöku laga þessara og skal staðfest með skriflegum og sannanlegum hætti.”


Lánasamningar hjá SP fjármögnun
Á fundi HH með viðskiptanefnd Alþingis og fjármálastofnunum kom fram að SP fjármögnun gefur nú út nýja lánasamninga á viðskiptavini sína án þess að fá undirskriftir þeirra, enda telja þeir sig vera að fara eftir lögum og telja að því er virðist enga ástæðu til að fara að neytendalögum og fá undirskrift viðskiptavinar á nýjan samning. Þetta telja samtökin ámælisvert og hvetja lántakendur þessarar stofnunar til að mótmæla harðlega þessum einhliða samningum án undirskrifta. Á fundinum kom einnig fram að fjármálafyrirtækin töldu að fólk væri alls ekki óánægt með útreikninga því það hefðu borist svo fáar kvartanir til UMS og HH, bara nokkur hundruð sem er örlítið brot af öllum samningum. HH telur að þarna sé um hrokafullt viðhorf að ræða. Neytendur sjá sér ekki fært að gera neitt því þeir eru í raun beittir fjármálalegu ofbeldi og þvingunum. Í tilfelli SP-Fjármögnunar fá þeir ekki einu sinni að skrifa undir nýja lánasamninga. Samtökin vilja því hvetja félagsmenn til að hafna samningunum sem og útbúa formlega kvörtun til Umboðsmanns skuldara um málið. Enn fremur eru staðfestar heimildir fyrir því, að SP-Fjármögnun sé enn að rifta einhliða umdeilda samninga og hóta vörslusviptingum, þrátt fyrir að dómstólar hafi staðfest ólögmæti slíkra athafna. Fordæmi eru fyrir því að kalla hafi þurft eftir lögregluaðstoð til að hindra löglausar vörslusviptingar og eru félagsmenn hvattir til að hvika í engu frá lögvörðum rétti sínum þegar svo ber undir.


Ef verður fyrir valinu að skrifa undir nýjan samning þá ætti að skrifa undir "með fyrirvara um betri rétt neytanda".


Endurupptaka heimil vegna gengistryggðra lána

Þeir sem hafa verið sviptir eignum með fjárnámi eða nauðungarsölu vegna vanskila á gengistryggðu láni, eða verið úrskurðaðir gjaldþrota af þeim sökum, geta átt rétt á endurupptöku slíkra mála fyrir dómstólum.

Vakin er sérstök athygli á því að frestur til að skila inn beiðni um endurupptöku rennur út 29. september 2011. Heimild fyrir endurupptöku eignasviptingar á grundvelli ólögmætra gengistryggðra lána er í XIII. bráðabirgðaákvæði við lög nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Ákvæðið gildir í níu mánuði frá gildistöku bráðabirgðaákvæðisins eða til 29. september næstkomandi og gildir fyrir öll lán sem voru ólöglega gengistryggð. Gildir þá einu hvort um fasteignakaup var að ræða, bílakaup eða hvað annað.

Ákvæðið er svohljóðandi:
Ef gengið hefur dómur um kröfu samkvæmt lánssamningi með óheimilli gengistryggingu skal endurupptaka heimil skv. XXIII. kafla laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991, án tillits til þess hvort tímafrestir séu liðnir samkvæmt ákvæðum 137. gr. sömu laga. Sama skal gilda um úrskurði um gjaldþrotaskipti. Skuldara er jafnframt heimilt að óska eftir endurupptöku fullnustugerða hafi slíkar gerðir farið fram á grundvelli lánssamninga sem höfðu að geyma ólögmæt ákvæði um gengistryggingu. Heimildir til endurupptöku samkvæmt þessu ákvæði falla niður að liðnum níu mánuðum frá gildistöku laga þessara.


Ábyrgðarmenn á lánum - að losna undan ábyrgð
Samtökin vilja benda félagsmönnum á að mögulega er hægt að komast alveg undan ábyrgð ef ekki hefur farið fram greiðslumat hjá ábyrgðaraðila. Vísað er til greinar í Morgunblaðinu sem JÁS lögmenn sendu frá sér í 26. september 2009.

Þar sem réttindi ábyrgðarmanna á lánum eru enn í brennidepli, er full ástæða til að rifja upp helstu atriði greinarinnar, en skv. henni þurfa eftirtalin skilyrði fyrir ógildingu ábyrgða einstaklinga að vera til staðar:

  • Að lán / fjárhæð sé yfir einni milljón (og ekki á milli hjóna).

  • Útgáfudagur sé eftir gildistöku ,,Samkomulags um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga" , hinn 1. nóv. 2001. (Lög nr. 32/2009 tóku síðan gildi sem leystu samkomulagið af frá og með gildistöku laganna, vegna nýrra lána frá þeim tíma.)

  • Um sé að ræða einstakling sem lántakanda (ekki fyrirtæki / hlutafélag).

  • Greiðslumat skuldara hafi ekki farið fram.


Eins er hægt að heyra í ,,umboðsmanni viðskiptavina" í viðkomandi banka, eða starfsmanni með sambærilegt hlutverk.

Smelltu hér til að sækja greinina í heild sinni.


© Hannað af Filmís 

Hagsmunasamtök heimilanna voru stofnuð 15. janúar 2009 og eru frjáls og óháð hagsmunasamtök á neytendasviði, til varnar og hagsbóta fyrir heimilin í landinu.

Orð frá formanni

CEO 

Orð frá formanni Varlega áætlað hafa 15.000 fjölskyldur, 45.000 einstaklingar misst heimili sín frá hruni. Enginn hefur svarað fyrir það, hvað þá axlað á því ábyrgð. 

Þegar 15% þjóðarinnar missa heimili sín, gætir áhrifanna víða. Við sjáum þau í ástandinu á leigumarkaði og við sjáum þau líka í auknum kvíða meðal ungmenna og kulnun hjá þeim sem eldri eru.

Þegar fólk er svipt heimilum sínum glatar það öryggi sínu sínu og fótfestu. Þegar við bætist magnvana reiði og örvænting vegna óréttlætisins sem það stendur frammi fyrir ásamt hjálpar- og varnaleysinu sem það upplifir þegar heimilinu er hreinlega stolið af því, er ekki nema von að eitthvað láti undan.

Spillingin í þjóðfélaginu er djúp og hún á sér margar hliðar. Hún birtist ekki bara í háu húsnæðisverði og skelfilegum leigumarkaði eða háum vöxtum og verðtryggingu, hún birtist ekki bara í því hvernig lífeyrissjóðirnir misfara með fé okkar allra eða í „krónu á móti krónu“ skerðingu, hún birtist ekki bara í lágum launum verkafólks á meðan sjálftökufólk af ýmsum toga skammtar sjálfu sér milljónir, hún birtist ekki bara í spilltum dómstólum sem gæta hagsmuna „hinna sterku“ í dómum sínum eða í því hvernig lög- og stjórnaskrárvarin réttindi hafa verið brotin á neytendum frá hruni með skelfilegum afleiðingum.

Nei, hún birtist í þessu öllu og meiru til. Spillingin er djúp og teygir anga sína víða. Hana þarf að rífa upp með rótum til að hægt sé að byggja upp nýtt og betra þjóðfélag.

Fyrsta skrefið væri að að afnema verðtryggingu á lánum heimilanna! Öðruvísi er ekki hægt að skapa eðlilegan húsnæðismarkað eða stöðva sjálftöku fjármálastofnanna á tekjum fólks.

En til að takast á við ræturnar þarf að fara fram rannsókn á aðgerðum stjórnvalda eftir hrun. Jú það var líka spilling fyrir hrun, en þá urðu ákveðin vatnaskil og það var þá sem meðvituð ákvörðun var tekin um að fórna heimilum landsins fyrir bankana.

15.000 heimili eiga skilið að fá svör og uppreist æru.

Við biðjum ykkur um að styðja kröfuna um Rannsóknarskýrslu heimilanna!

Ásthildur Lóa Þórsdóttir
Formaður HH

Fylgstu með á samfélagsmiðlum