Margföld svikamylla verðtryggingarinnar
Ekki aðeins er verðtryggingin sem slík verðbólguhvetjandi, heldur felur hún einnig í sér svikamyllu sem gerir frjámálastofnunum kleift að innheimta andvirði útlána margfalt til baka með ólöglegum reikniaðferðum.
Þetta er á meðal þess sem kemur fram í nýlegri grein eftir Andreu J. Ólafsdóttur, formann Hagsmunasamtakanna, þar sem hún tekur saman nokkrar sláandi staðreyndir um íslensku verðtrygginguna - staðreyndir sem vel að merkja þagað hefur verið þunnu hljóði yfir hjá talsmönnum verðtryggingarinnar.
Þau beinu tengsl sem sýnt hefur verið fram á að séu milli verðtryggingar og verðbólgu, eru þó líklega sú staðreynd sem minnst hefur verið fjallað um hér á landi og jafnframt brýnasta ástæðan fyrir því að afnema verður verðtrygginguna eins fljótt og unnt er.
Þá eru, eins og Andrea sýnir fram á, engin „óverðtryggð“ lán í boði hér á landi og með ólíkindum að annarri eins ranghugmynd hafi verið haldið að fólki með vísan í „óverðtryggð lán“ og „óverðtryggða vexti“.
Verðtrygging – margföld svikamylla?
Nú þegar Hagsmunasamtök heimilanna hafa hrundið af stað undirskriftarsöfnun fyrir almennum, réttlátum leiðréttingum lána og afnámi verðtryggingar (undirskrift.heimilin.is) var við því að búast að þeir sem mest græða á verðtryggðum lánum myndu koma fram með mótbárur og lofa verðtryggð lán í bak og fyrir. Í þriðjudagsmogganum er að finna grein eftir Gunnar Baldvinsson, framkvæmdastjóra Almenna lífeyrissjóðsins þar sem verðtryggð lán eru lofuð og talað er um óverðtryggða vexti og borin saman greiðslubyrði lánanna. Þegar forsvarsmenn íslenskra fjármálastofnana og lífeyrissjóða tjá sig um verðtryggingu skulum við leggja vel við hlustir. Ekki bara til þess að heyra hvað viðkomandi hefur að segja, heldur sérstaklega til að gefa því gaum hvað ekki er sagt.
Ólögleg svikamylla?
Það sem ósagt er í greininni er stórmerkilegur sannleikur um sérstöðu Íslands, verðtryggðra lána og vaxtakjara. Á Íslandi fyrirfinnast engir óverðtryggðir vextir, því eins og Gunnar segir sjálfur í greininni, þá breytast “óverðtryggðir vextir” í takt við verðbólgu. “Óverðtryggð lán” eru því í raun verðtryggð, þar sem alltaf er gert ráð fyrir verðbólgunni inn í vextina, en verðbólgan er staðgreidd í því tilfelli og þess vegna eru afborganir oft mun hærri. Hin hefðbundnu verðtryggðu lán þar sem höfuðstóll er verðbættur við hver mánaðarmót og tekur endalausum hækkunum eru hins vegar gædd þeim margfeldisáhrifum sem lántakendur á Íslandi þekkja mætavel þar sem framkvæmd þeirra er all skuggaleg. Framkvæmdin er eftir reglum Seðlabanka Íslands, en eftir rannsókn Hagsmunasamtaka heimilanna er niðurstaðan sú að hana skortir lagaheimild. Verðtryggð lán eru í raun þríverðbætt. Í fyrsta lagi er höfuðstóllin verðbættur, í annan stað er greiðsla af höfuðstól verðbætt og í þriðja lagi eru vextir verðbættir. Engin heimild er fyrir því í lögum að verðbæta höfuðstólinn sjálfan, en hins vegar er heimilt að verðbæta greiðslur af höfuðstól og vexti í lögum 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Að auki virðist skorta lagaheimild fyrir því að bæta alltaf við höfuðstól lánsins þannig að í raun verður til nýtt lán í hverjum mánuði, lán sem sjálfkrafa færist á höfuðstólinn sem er svo verðbættur aftur og aftur um hver mánaðarmót. Með þessu fast þau margfeldisáhrif sem gera það að verkum að lántakendur greiða í raun lánið margfalt til baka. Í þeim aðstæðum þar sem lánsfjárhæðin er nokkrar milljónir og verðbólga er yfir 0% erum við ekki að tala um breytingar á höfuðstól milli mánaða í þúsundköllum heldur jafnvel hundraðþúsundköllum, sem safnast saman og verða margar milljónir yfir lánstímann eins og margir lántakendur eflaust kannast við.
Margföld heildarendurgreiðsla og eignamyndun
Annað sem ósagt er í grein Gunnar ser hver heildarendurgreiðsla mismunandi lána er. Hann talar um að lántakendum “finnist stundum” að verðtryggðu lánin lækki ekki þrátt fyrir greiðslur. Ég held að hér verði að segjast að þetta er ekki eitthvað sem lántakendum “finnst” um lánin, þetta er sá raunveruleiki og staðreynd sem fólk horfir upp á skoði það greiðslusögu sína á lánum, eða líti á greiðsluseðla hvers mánaðar þegar litið er til langtímalána.
Til að útskýra betur virkni margfeldisáhrifanna er gott að bera saman verðtryggt og “óverðtryggt” lán. Munur á heildarendurgreiðslu getur hlaupið á tugum milljóna þegar um 10 milljón króna lán er að ræða. Ef settar eru inn forsendurnar 10 milljónir til 40 ára, verðtryggt jafngreiðslulán sem bera 5% vexti í 7% verðbólgu er heildarendurgreiðslan um 120 milljónir króna. Ef um jafnar afborganir er að ræða, verður heildarendurgreiðslan af sömu forsendum um 83 milljónir króna samkvæmt reiknivél Íbúðalánasjóðs. Um leið og lánið er stytt niður í 25 ár munar tugum miljóna á heildarendurgreiðslu, en munur á mánaðarlegri greiðslubyrði er ekki mjög mikil. Af þessu er ljóst að 12% óverðtryggðir vextir jafngilda ekki 5% óverðtryggðum vöxtum + 7% verðbólgu. Margfeldisáhrif verðbóta á höfuðstól koma í veg fyrir það. Til þess að fá sambærilegar upphæðir í reiknivélum bankanna þarf að setja inn 30-35% vexti. Það geta vart talist annað en okurvextir á mannamáli.
Ef borið er saman sama lán við lánakjör og eignamyndun í húsnæði á Norðurlöndunum, þá ber að taka fram að eignamyndun hefst með fyrstu afborgun láns á öllum Norðurlöndunum og víðast hvar í hinum vestræna heimi á meðan það tekur um 28 ár fyrir eignamyndun húsnæðis hér á Íslandi miðað við ofangreint lán.
Verðtrygging er verðbólguhvetjandi
Þá talar Gunnar um að verðbólgan sjálf sé vond, en ekki verðtryggingin. Hann lætur hins vegar ósagt að verðtryggingin er verðbólguhvetjandi og því bítur hún endalaust í skottið á sér. Samkvæmt upplýsingum frá Seðlabanka Íslands skoðaði S. Fischer (1981) gögn um verðtryggingu í mörgum löndum og tengsl hennar við verðbólgu með aðfallsgreiningu. Niðurstaða hans var að engin fylgni sé á milli verðbólgu og verðtryggingar launa, skatta, tryggingabóta eða fjárfestingar. Hins vegar fann hann fylgni milli verðbólgu og verðtryggingar skuldabréfa. Þessi niðurstaða Fischers sýnir að verðbólga er að jafnaði meiri í þeim löndum þar sem er verðtrygging skuldabréfa.
Hagsmunasamtök heimilanna líta svo á að ein mikilvægasta leiðin til að draga úr verðbólgu sé að afnema verðtryggingu á lán heimilanna og að lánveitendur séu ábyrgir í sinni útlánastarfsemi, þeir hafi ekki bæði belti og axlabönd fyrir hvert einasta verðbólguskot, hvorki í verðtryggðum né óverðtryggðum vöxtum.
Evrópa og Norðurlöndin tekin til fyrirmyndar
Að öllu ofansögðu er nauðsynlegt að bæta því við að Hagsmunasamtök heimilanna telja hvers kyns vísitölutengingar lána án takmarkana ganga gegn Evróputilskipunum er leiddar hafa verið inn í íslensk lög. Samtökin eru nú með kvörtun hjá ESA er tekur bæði á afturvirkum íþyngjandi útreikningum gengistryggðra lána og vísitölutengingum og höfuðstólsfærslum verðtryggðra lána.
Tillögur samtakanna um nýtt lánakerfi ganga út á það að taka Evrópu og Norðurlöndin til fyrirmyndar, sett sé þak/takmörk á óverðtryggða vexti og verðtrygging afnumin. Þannig beri lánveitendur hluta af ábyrgðinni þegar koma verðbólguskot. Lesendur eru hvattir til að lesa sig til um tillögurnar inn á undirskrift.heimilin.is undir framtíðarsýn.
Heimildir og ítarefni:
Blaðagrein Andreu J. Ólafsdóttur, Mbl. 15.07.2011
Nýtt lánakerfi – framtíðarsýn Hagsmunasamtaka heimilanna
Undirskriftasöfnun heimilanna fyrir almennum lánaleiðréttingum og afnámi verðtryggingar