Símatími

Mán - þri kl. 10-13

Hafa samband

heimilin@heimilin.is

Á döfinni

Kvörtun til Umboðsmanns Alþingis

Hagmsunasamtök heimilanna hafa nú sent Umboðsmanni Alþingis frekari skýringar og gögn er varðar kvörtun samtakanna yfir reiknireglum Seðlabanka Íslands og þeirri aðferðarfræði sem notuð er á verðtryggðum lánum. Í svari Seðlabankans kemur fram augljós misskilningur á því sem við er átt og eins hefur opinber umræða verið á verulegum villigötum. Leitast samtökin nú við að skýra hvaða áhrif þessi aðferðarfræði hefur í samanburði við þá aðferð sem samtökin telja réttmæta og löglega.

 

Erindi til Umboðsmanns Alþingis er svohljóðandi;

Í svari Seðlabankans til Umboðsmanns Alþingis dags. 30. ágúst 2011 kemur fram augljós misskilningur á því sem við er átt með kvörtun Hagsmunasamtaka heimilanna til Umboðsmanns. Í svarinu er fallist á að í meginreglu laga nr. 38/2001 um verðtryggingu lánsfjár er rætt um greiðslur en reglur Seðlabankans nr. 492/2001 kveði á um verðbættan höfuðstól. Viðurkennt er að greiðslur annars vegar og höfuðstóll hins vegar þýði ekki það sama. Telur bankinn að efnislega sé ekki munur á þessum atriðum og bendir á að lögmætisregla stjórnsýsluréttarins feli það ekki í sér að mismunandi orðaval leiði sjálfkrafa til þess að reglu skorti lagastoð heldur verði að líta til þess hvort reglur stjórnvalds leiði til efnislega sömu niðurstöðu. Færir Seðlabankinn rök fyrir því að efnislega sama niðurstaða leiði af báðum þessum reglum og notar til þess ákveðna reikniaðferð sem sýnir fram á það að A*B gefi sömu niðurstöðu og B*A. Þessi niðurstaða Seðlabankans er bersýnilega mjög mikil einföldun og gefur til kynna röng efnistök, þ.e.a.s. ekki er tekið á þeim þætti sem samtökin eru að gera athugasemd við. Aðferðin sem samtökin eru að gagnrýna og telja að skorti lagastoð fyrir var einungis heimil á stuttu tímabili sem bráðabirgðaaðgerð í óðaverðbólgu. Aðferðin er sú að bæta áföllnum verðbótum á höfuðstól lánsins í stað þess að taka þær inn í mánaðargreiðsluna að fullu og staðgreiða þær.

Í fyrsta lagi er sú aðgerð að staðgreiða verðbætur með hverri greiðslu allt önnur aðgerð en að flytja verðbæturnar á höfuðstólinn og greiða þær síðar á lánstímanum. Í annan stað felur verðtrygging höfuðstóls það í sér með þeirri aðferðarfræði sem beitt er, að veitt er nýtt lán í hvert og eitt skipti sem sú aðgerð er framkvæmd. Lánið kæmi ekki til ef verðbæturnar væru staðgreiddar. Í þriðja lagi er heildarkrónutalan sem greidd er umtalsvert hærri en ef verðbætur eru staðgreiddar. Höfuðstólsfærsla verðbóta, með nýju láni mánaðarlega, felur því augljóslega í sér efnislega aðra niðurstöðu en staðgreiðsla verðbóta með hverri afborgun.

Helsta röksemd bankans fyrir því að um efnislega sömu niðurstöðu sé að ræða er að með núvirðingu greiðslunnar sem innt er síðar á lánstímanum sé heildarútkoman sú sama. Greiddar eru fleiri en verðminni krónur síðar sem eru jafnverðmætar og færri en verðmeiri krónur fyrr á lánstímanum.  Ef það er gefið að raunin sé sú að raunvirði greiðslunnar sé það sama með núvirðingu, þá getur það haft töluverð áhrif fyrir skuldara hvenær greitt er ef launavísitala er önnur en neysluvísitala. Hækki neysluvísitala (verðtryggingarvísitala) um 100% en launavísitala um 50% skiptir það miklu máli fyrir lántakann að greiða sem mest af láninu fyrr á lánstímanum. Þetta felur í sér að raunvinnutímar þess sem greiðir til þess að eiga fyrir greiðslu síðar þurfa að vera mun fleiri og fyrr ef þessi munur er á þróun vísitalnanna. Minna má á að verðtrygging lána og launa hélst í hendur fyrst eftir gildistöku Ólafslaga en vísitölutenging launa var afnumin árið 1983. Ljóst er að efnislega sama niðurstaða er alls ekki hin sama fyrir lántakann að færa verðbætur á höfuðstól fremur en að staðgreiða þær þegar vísitöluþróun lána og launa helst ekki í hendur. Að tala um að um sé að ræða efnislega sömu niðurstöðu við höfuðstólsfærslu verðbóta eða staðgreiðslu er því bersýnilega röng staðhæfing hjá Seðlabankanum. Þá geta skattasjónarmið ekki komið í stað lögmætisreglunnar. Reglurnar fá ekki lagastoð við það að það kunni að vera skattalegt hagræði fyrir framteljendur að sjá hver sé uppreiknaður höfuðstóll. Annað hvort er lagastoðin til staðar eða ekki.

Seðlabankinn tilfærir í svari sínu tvær leiðir til þess að reikna út verðbætur. Önnur leiðin felur í sér að afborgun og vextir eru verðbættar en hin leiðin felur í sér að höfuðstóll er verðbættur og vextir og afborgun eru reiknuð út frá slíkum verðbættum höfuðstól. Báðar leiðirnar leiði til nákvæmlega sömu niðurstöðu, semsagt að A*B gefi sömu niðurstöðu og B*A. Heldur bankinn því fram að lögin um vexti og verðtryggingu annars vegar og reglur seðlabankans hins vegar fjalli um þessar tvær leiðir. Þessari skýringu bankans er hafnað. Lögin gera ráð fyrir staðgreiðslu verðbótanna, þ.e. á hverjum gjalddaga lánsins eru gjaldfallnar verðbætur greiddar með einni greiðslu sem felur í sér greiðslu á öllum áföllnum verðbótum á lánið. Báðar fyrrgreindar leiðir Seðlabankans miða hins vegar við það að verðbætur eru færðar á höfuðstól og dreifðar á allan lánstímann, sbr. reikniregla í reglum 492/2001. Eru leiðirnar tvær mismunandi aðferðir til þess að reikna greiðslur í hvert og eitt sinn þegar svo háttar til. Ef þessi skýring Seðlabankans væri rétt þá hefði ekki þurft að hafa sérstök bráðabirgðaákvæði í Ólafslögum sem heimiluðu að verðbótum væri dreift á lánstímann með nýju láni. Það að lagabókstafnum sé fylgt og verðbæturnar verði staðgreiddar leiðir til breytinga á lánasamningnum frá því sem Seðlabankinn heldur fram og því felur það í sér aðra efnislega niðurstöðu fyrir hann.  Heildarkostnaður við lántöku er lægri með þeirri aðferð sem Hagsmunasamtök heimilanna telja vera réttu leiðina samkvæmt lögum. Með þeirri leið eykst greiðslubyrði tímabundið en eignamyndun lántaka eykst, hún hefst við fyrstu greiðslu. Þá  eykst  veðrými fasteigna sem tryggðar eru með vísitölutengdu láni og mögulega aukast skatttekjur ríkisins þar sem skuldasöfnun er minni og hrein eign því meiri. Öll þessi atriði leiða til efnislega annarrar niðurstöðu fyrir skuldarann, heldur en þegar verðbætur eru færðar á höfuðstólinn.

Viðbót við þetta erindi verður sent á rafrænu formi í útreikningaskjali sem skýrir frekar þann mismun er hér um ræðir og gerir samanburð á mismunandi lánaformum þar sem aðferðarfræði sú sem HH  heldur fram að hafi verið vilji löggjafans er útskýrð nánar í tölum

Fylgiskjal með raunverulegu láni til skýringar


© Hannað af Filmís 

Hagsmunasamtök heimilanna voru stofnuð 15. janúar 2009 og eru frjáls og óháð hagsmunasamtök á neytendasviði, til varnar og hagsbóta fyrir heimilin í landinu.

Orð frá formanni

CEO 

Orð frá formanni Varlega áætlað hafa 15.000 fjölskyldur, 45.000 einstaklingar misst heimili sín frá hruni. Enginn hefur svarað fyrir það, hvað þá axlað á því ábyrgð. 

Þegar 15% þjóðarinnar missa heimili sín, gætir áhrifanna víða. Við sjáum þau í ástandinu á leigumarkaði og við sjáum þau líka í auknum kvíða meðal ungmenna og kulnun hjá þeim sem eldri eru.

Þegar fólk er svipt heimilum sínum glatar það öryggi sínu sínu og fótfestu. Þegar við bætist magnvana reiði og örvænting vegna óréttlætisins sem það stendur frammi fyrir ásamt hjálpar- og varnaleysinu sem það upplifir þegar heimilinu er hreinlega stolið af því, er ekki nema von að eitthvað láti undan.

Spillingin í þjóðfélaginu er djúp og hún á sér margar hliðar. Hún birtist ekki bara í háu húsnæðisverði og skelfilegum leigumarkaði eða háum vöxtum og verðtryggingu, hún birtist ekki bara í því hvernig lífeyrissjóðirnir misfara með fé okkar allra eða í „krónu á móti krónu“ skerðingu, hún birtist ekki bara í lágum launum verkafólks á meðan sjálftökufólk af ýmsum toga skammtar sjálfu sér milljónir, hún birtist ekki bara í spilltum dómstólum sem gæta hagsmuna „hinna sterku“ í dómum sínum eða í því hvernig lög- og stjórnaskrárvarin réttindi hafa verið brotin á neytendum frá hruni með skelfilegum afleiðingum.

Nei, hún birtist í þessu öllu og meiru til. Spillingin er djúp og teygir anga sína víða. Hana þarf að rífa upp með rótum til að hægt sé að byggja upp nýtt og betra þjóðfélag.

Fyrsta skrefið væri að að afnema verðtryggingu á lánum heimilanna! Öðruvísi er ekki hægt að skapa eðlilegan húsnæðismarkað eða stöðva sjálftöku fjármálastofnanna á tekjum fólks.

En til að takast á við ræturnar þarf að fara fram rannsókn á aðgerðum stjórnvalda eftir hrun. Jú það var líka spilling fyrir hrun, en þá urðu ákveðin vatnaskil og það var þá sem meðvituð ákvörðun var tekin um að fórna heimilum landsins fyrir bankana.

15.000 heimili eiga skilið að fá svör og uppreist æru.

Við biðjum ykkur um að styðja kröfuna um Rannsóknarskýrslu heimilanna!

Ásthildur Lóa Þórsdóttir
Formaður HH

Fylgstu með á samfélagsmiðlum