Símatími

Mán - þri kl. 10-13

Hafa samband

heimilin@heimilin.is

Á döfinni

Fúsk, skemmtiefni eða fyrirlitning á heimilum landsins?

Hagsmunasamtök Heimilanna (HH) vísa meingallaðri greinargerð Hagfræðideildar Háskóla Íslands til föðurhúsanna. Í athugasemdum sem sjá má hér:  sést glögglega hvernig HHÍ fer rangt með tölur og útreikningar á svigrúmi gefa til kynna að enn sé um 52-53 milljarðar eftir af því (eða 55%). Þar að auki skilar skýrslan engan veginn markmiði sínu; að eyða óvissunni um svigrúm bankanna út frá þeim afslætti sem þeir fengu af lánasöfnum við yfirfærslu frá gömlu bönkunum yfir í þá nýju.

 

Þvert á móti, þá er skýrslan ekki til annars fallin en að valda frekari talnamengun. Rétt er að taka fram að Hagfræðistofnun leggur ekkert mat á það hvernig nýju bankarnir hafa skrifað upp samtals 172,5 milljarða hagnað í bókum sínum frá október 2008 til október 2011, sem HH hafa ítrekað bent á að er að stóru leyti tilkominn vegna ávinnings sem þeir fengu ekki af eðlilegri viðskiptabankastarfsemi.

Birting á greinargerð Hagfræðideildar HÍ um afföll íbúðalána við stofnun nýju bankanna og kostnað við niðurfærslu lána er að mati HH hvorki til þess fallin að styrkja orðspor Hagfræðistofnunar né auka traust til stjórnvalda. Margar meinlegar villur er að finna í greinargerðinni, misræmi við upplýsingar úr þegar birtum gögnum, auk þess sem Hagfræðistofnun svarar ekki stærstum hluta þeirra spurninga sem til þeirra var beint.

Fulltrúar HH voru boðaðir á fund Hagfræðistofnunar þann 17. janúar síðastliðinn þar sem þeim var afhent afrit af skýrsludrögum. Skýrslan er 23 blaðsíður og hefur verið beðið eftir niðurstöðum frá því í nóvember. Í tvo mánuði hefur Hagfræðistofnun unnið að skýrslunni og gefur HH síðan sólarhring til gera athugasemdir við skýrsluna áður en hún fer í birtingu, en gefið hafði verið til kynna af hálfu stjórnvalda að skýrslan yrði unnin þannig að HH fengi aðgang að Hagfræðistofnun með spurningar sínar og fengi síðan tækifæri til að koma á framfæri athugasemdum áður en skýrslan birtist. Sólarhringsfresturinn styður niðurstöðu okkar um hugsanlega pólitíska íhlutun í verkefnið.

Stjórnvöld og Háskólinn höfðu kjörið tækifæri til að sýna almenningi þá virðingu að koma fram með réttar tölur með því að skipa fyrir um að við vinnslu greinargerðarinnar fengju fulltrúar Hagfræðistofnunar aðgang að öllum raungögnum um afslætti og yfirfærslu lánasafna frá gömlu bönkunum yfir í þá nýju svo matið yrði ekki getgátur einar eins og niðurstaðan er. Það skal tekið fram að bankaleynd nær ekki yfir gögn sem gefa heildaryfirsýn yfir stöðu bankanna, henni er einungis ætlað að vernda persónuupplýsingar sem koma hvergi fram í slíkum gögnum.

Þar sem skýrsluhöfundar virðast ekki hafa tekið verkefnið alvarlega og stjórnvöld ekki tekið alvarlega þá ábyrgð gagnvart almenningi að veita nákvæmar og réttar upplýsingar er ekki hægt að taka álitinu alvarlega. Nema þá sem skilaboðum um að stjórnvöld og Hagfræðideild HÍ standi saman í blekkingum gagnvart almenningi.

Álitinu er hér með hafnað og verður ekki komist hjá að stimpla það sem pólitískt hagsmunafúsk eða í besta falli áróðursplagg stjórnvalda sem sýnir algjört skilningsleysi á þeirri risastóru kerfisvillu sem verðtryggingin er og tilheyrandi eignatilfærslur.

Hagsmunasamtök heimilanna hafa komist að þeirri niðurstöðu að málin verði ekki leyst af ríkisstjórn né heldur fjármálakerfinu. Ekki er að vænta mikillar endurskoðunar og uppstokkunar frá háskólaelítunni né lífeyrissjóðunum og telja samtökin því vænlegast að leita til Forseta Íslands með þær 37 þúsund undirskriftir sem safnast hafa til stuðnings kröfum samtakanna um leiðréttingu lána og afnám verðtryggingar. Forsetinn er samkvæmt stjórnarskránni hluti af stjórnvöldum, hann hefur bæði löggjafar og framkvæmdaval. Má í því samhengi benda á að samkvæmt 25. grein stjórnarskrárinnar hefur forsetinn heimild til að ,,leggja fyrir Alþingi frumvörp til laga og annarra samþykkta”. Samtökin hafa því farið fram á fund með forsetanum.

Skýrsla Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands

Athugasemdir HH við skýrslunni

Pressan.is - Computer says no... - Ólafur Arnarson

Pressan.is - Er sumt pappírsins virði? - Ólafur Margeirsson

Vísir - Skýrslan er marklaust plagg - Gunnar Tómasson


© Hannað af Filmís 

Hagsmunasamtök heimilanna voru stofnuð 15. janúar 2009 og eru frjáls og óháð hagsmunasamtök á neytendasviði, til varnar og hagsbóta fyrir heimilin í landinu.

Orð frá formanni

CEO 

Orð frá formanni Varlega áætlað hafa 15.000 fjölskyldur, 45.000 einstaklingar misst heimili sín frá hruni. Enginn hefur svarað fyrir það, hvað þá axlað á því ábyrgð. 

Þegar 15% þjóðarinnar missa heimili sín, gætir áhrifanna víða. Við sjáum þau í ástandinu á leigumarkaði og við sjáum þau líka í auknum kvíða meðal ungmenna og kulnun hjá þeim sem eldri eru.

Þegar fólk er svipt heimilum sínum glatar það öryggi sínu sínu og fótfestu. Þegar við bætist magnvana reiði og örvænting vegna óréttlætisins sem það stendur frammi fyrir ásamt hjálpar- og varnaleysinu sem það upplifir þegar heimilinu er hreinlega stolið af því, er ekki nema von að eitthvað láti undan.

Spillingin í þjóðfélaginu er djúp og hún á sér margar hliðar. Hún birtist ekki bara í háu húsnæðisverði og skelfilegum leigumarkaði eða háum vöxtum og verðtryggingu, hún birtist ekki bara í því hvernig lífeyrissjóðirnir misfara með fé okkar allra eða í „krónu á móti krónu“ skerðingu, hún birtist ekki bara í lágum launum verkafólks á meðan sjálftökufólk af ýmsum toga skammtar sjálfu sér milljónir, hún birtist ekki bara í spilltum dómstólum sem gæta hagsmuna „hinna sterku“ í dómum sínum eða í því hvernig lög- og stjórnaskrárvarin réttindi hafa verið brotin á neytendum frá hruni með skelfilegum afleiðingum.

Nei, hún birtist í þessu öllu og meiru til. Spillingin er djúp og teygir anga sína víða. Hana þarf að rífa upp með rótum til að hægt sé að byggja upp nýtt og betra þjóðfélag.

Fyrsta skrefið væri að að afnema verðtryggingu á lánum heimilanna! Öðruvísi er ekki hægt að skapa eðlilegan húsnæðismarkað eða stöðva sjálftöku fjármálastofnanna á tekjum fólks.

En til að takast á við ræturnar þarf að fara fram rannsókn á aðgerðum stjórnvalda eftir hrun. Jú það var líka spilling fyrir hrun, en þá urðu ákveðin vatnaskil og það var þá sem meðvituð ákvörðun var tekin um að fórna heimilum landsins fyrir bankana.

15.000 heimili eiga skilið að fá svör og uppreist æru.

Við biðjum ykkur um að styðja kröfuna um Rannsóknarskýrslu heimilanna!

Ásthildur Lóa Þórsdóttir
Formaður HH

Fylgstu með á samfélagsmiðlum