Hagsmunasamtök heimilanna fara fram á aðgang að gögnum bankanna á grundvelli upplýsingalaga
Hagsmunasamtök heimilanna hafa sent fjármálaráðherra bréf þar sem óskað er eftir að ráðherrann afhendi, birti opinberlega eða veiti samtökunum aðgang að gögnum sem innihalda upplýsingar um þá samninga er varða yfirfærslu lánasafna heimilanna frá gömlu bönkunum yfir í þá nýju, þ.e. öll gögn sem nauðsynleg eru til að greina tilurð og afdrif þess afsláttar sem veittur var við yfirfærsluna.
Þetta er gert í ljósi niðurstöðu nýbirtrar skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands (HHÍ) þar sem fullyrt er að svigrúm bankanna til niðurfærslu lána út frá fyrrgreindum afslætti sé fullnýttur. Þessi fullyrðing er sett fram án þess að það hafi verið staðreynt með staðfestum gögnum, en í skýrslunni kemur fram að fulltrúar HHÍ hafi ekki fengið aðgang að raungögnum um yfirfærslu lánasafnanna frá gömlu bönkunum yfir í þá nýju, og bera þeir fyrir sig bankaleynd í því samhengi:
,,Vegna bankaleyndar hafði Hagfræðistofnun ekki aðgang að þessum sömu gögnum heldur byggist þessi greinargerð að langmestu leyti á opinberum upplýsingum.” (bls. 11).
Tilgangurinn með skýrslu Hagfræðistofnunar var að eyða óvissunni um svigrúm bankanna til niðurfærslu lána sem voru yfirfærð með afslætti en hækkuðu hjá lántakendum. Hækkanir má rekja að miklu leyti til markaðsmisnotkunar sem bankarnir stunduðu og varða því ríka almannahagsmuni. Hagsmunasamtök heimilanna meta það sem svo að nauðsynlegt sé að birta raunveruleg gögn til að eyða þessari óvissu.
Hagsmunasamtök heimilanna vísa til upplýsingalaga þar sem kveðið er á um að stjórnvöldum sé skylt að veita slíkar upplýsingar, og er það mat samtakanna að sú grein laganna sem fjallar um bankaleynd eigi ekki við í þessu tilfelli, þar sem samningar milli gömlu og nýju bankanna innihalda ekki persónugreinanlegar eða fyrirtækjagreinanalegar upplýsingar. Samtökin vísa í bréfi sínu einnig til ummæla fjármálaráðherra á Alþingi frá 30. janúar síðastliðnum þar sem ráðherra sagði orðrétt:
“En hvað varðar endurreisn bankakerfisins hef ég þá trú að þar sé ekkert sem ekki þoli skoðun og mér finnst sjálfsagt og eðlilegt, ef þar ríkir einhver tortryggni, að það ferli verði allt saman skoðað aftur á bak og áfram. “