Símatími

Mán - þri kl. 10-13

Hafa samband

heimilin@heimilin.is

Á döfinni

Ný gögn staðfesta enn frekar vafasama starfshætti samráðshóps vegna gengislána.

Umboðsmaður skuldara (UMS) afhenti Hagsmunasamtökum heimilanna (HH) í byrjun janúar, fundargerðir og önnur gögn samráðshóps um úrvinnslu mála vegna gengislána, eftir að úrskurðarnefnd um upplýsingamál úrskurðaði að synjun UMS á afhendingu þeirra stæðist ekki upplýsingalög. Við nánari athugun kom í ljós að ýmis gögn vegna vinnu hópsins hefðu enn ekki verið afhent, og óskuðu samtökin jafnframt eftir því við Samkeppniseftirlitið að það yrði gert. Hluti þessara viðbótargagna hefur nú borist samtökunum, og renna þau frekari stoðum undir þær grunsemdirsem áður höfðu vaknað um meinbugi á starfsháttum samráðshópsins með hliðsjón af undanþágskilyrðum ákvörðunar Samkeppniseftirlitsins nr. 4/2012.



Meðal þeirra gagna sem samtökunum hafa nú borist vegna málsins eru bréfaskipti fulltrúa Samtaka fjármálafyrirtækja (SFF) við Samkeppniseftirlitið á meðan samráðinu stóð en í þeim er banni við fullnustugerðum andmælt og leitast við að semja um tilslakanir í túlkun þess fyrir hönd fjármálafyrirtækja, en Samkeppniseftirlitið virðist þó hafa staðið í lappirnar og ekki fallist á slíkt. Virðist þetta vera enn eitt dæmið um að þáttaka SFF í samráðinu hafi gengið allt of langt, í það minnsta er vandséð að afskipti af lögfræðilegri túlkun á undanþáguskilyrðunum geti samræmst þeirri takmörkun á samráðinu að SFF væri eingöngu heimilt að útvega ritara og fundaraðstöðu.

Einnig hafa borist gögn sem varða sérstaklega eftirfylgni við ákvörðun nr. 4/2012, þar á meðal er greinargerð samráðsaðila um samstarfið ásamt lokabréfi Samkeppniseftirlitsins sem sent var til fjármálafyrirtækja og annara þáttakenda í samráðinu auk eftirlitsaðila. Í lokabréfinu er bent sérstaklega á að samstarfsaðilar hafi upp á sitt einsdæmi ákveðið að einskorða útreikninga við lán sem teldust í skilum, án þess að bera þá breytingu fyrirfram undir Samkeppniseftirlitið. Hins vegar hafi frá upphafi legið fyrir að nauðsynlegt væri að skera úr um álitamál vegna lána sem ekki hafi talist vera í skilum, og breyting frá því samræmdist ekki upphaflegri undanþágubeiðni. HH telja breytinguna ekki síst fráleita í ljósi þess að ólöglegir lánaskilmálar sem leiddu til þeirra atvika er samráðið sneri að hafa verið bein orsök greiðsluerfiðleika langflestra skuldara! Þá liggur beinlínis fyrir að slík einhliða breyting á afmörkun samráðsins brjóti í bága við 9. gr. ákvörðunar nr. 4/2012.

Varðandi fullnustubann telur Samkeppniseftirlitið alls ekki víst að það hafi fallið úr gildi við skil á greinargerð um framkvæmd samstarfsins þann 28. júní 2012, en gildistími undanþáguskilyrðanna var til ársloka 2012. Einnig er bent á að ef fjármálafyrirtækin hafi í raun hraðað samstarfinu með því markmiði að binda enda á fullnustubann, sé ljóst að sú vernd sem ákvæðinu var ætlað að veita neytendum yrði takmörkuð. Af þeim sökum var eindregnum tilmælum beint til fjármálafyrirtækja um að þau myndu ekki grípa til fullnustugerða á meðan sú óvissa sem samstarfinu var ætlað að greiða úr væri enn uppi. Í fylgibréfi til efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis var jafnframt vakin athygli á því að vandkvæðum væri bundið að fylgja banninu eftir með afgerandi hætti, nema tekið yrði af skarið um það með lagasetningu ef ástæða þætti til þess. Í ljósi þeirra nýju upplýsinga að samstarf um úrvinnslu álitaefna lána sem ekki teljast í skilum hafi í raun aldrei verið leitt til lykta, telja HH að líta verði svo á að fullnustubann hafi raunverulega ekki fallið úr gildi 28. júní heldur í árslok 2012 þegar undanþága til samráðsins féll úr gildi samkvæmt 7. gr. ákvörðunar nr. 4/2012.

Loks kemur fram að gögn bendi til þess samstarfsaðilar hafi viljað hafa áhrif á val lögmanna í dómsmálum sem yrðu höfðuð á grundvelli samstarfsins, en að þess sé vænst að umboðsmaður skuldara hafi gætt þess að skuldarar létu ekki undan slíkum þrýstingi. Á grundvelli fram kominna upplýsinga sem veitt hafa ástæðu til efasemda um starfshætti hópsins telja HH fullt tilefni til þess að umræddur liður í eftirlitshlutverki UMS á grundvelli samráðsins verði rannsakaður nánar. Það getur varla talist ásættanlegt ef órannsakaðar grunsemdir um meint óeðlileg áhrif á málarekstur í dómsmálum á grundvelli samráðsins, eða hugsanaleg brot af því tagi, yrðu látin afskiptalaus.

Hagsmunasamtök heimilana telja að flest bendi nú til þess að meinbugir á starfsháttum aðila að samráðshópnum hafi verið svo alvarlegir, að jafnvel hefði betur verið heima setið en í þá vegferð haldið. Að minnsta kosti liggur nú fyrir að stór hluti þeirra neytenda sem eiga hagsmuna að gæta sem tengjast störfum samráðshópsins, þ.e. sá hluti þeirra sem samkvæmt fyrri útreikningum telst vera í vanskilum með gengislán, hefur ekki og mun ekki njóta neins ávinnings af samráðinu. Eitt af meginmarkmiðum undanþáguskilyrða ákvörðunar nr. 4/2012 var að tryggja neytendum sanngjarna hlutdeild í þeim ávinningi sem af samráðinu hlytist, en einsýnt þykir að því hafi ekki verið náð.

Fylgiskjöl:

Gagnaskrá A - Samskipti fulltrúa SFF og Samkeppniseftirlitsins

Gagnaskrá B - Greinargerð og lokabréf vegna samráðsins

Fréttatilkynning 14.1.2013 um birtingu gagna frá UMS


© Hannað af Filmís 

Hagsmunasamtök heimilanna voru stofnuð 15. janúar 2009 og eru frjáls og óháð hagsmunasamtök á neytendasviði, til varnar og hagsbóta fyrir heimilin í landinu.

Orð frá formanni

CEO 

Orð frá formanni Varlega áætlað hafa 15.000 fjölskyldur, 45.000 einstaklingar misst heimili sín frá hruni. Enginn hefur svarað fyrir það, hvað þá axlað á því ábyrgð. 

Þegar 15% þjóðarinnar missa heimili sín, gætir áhrifanna víða. Við sjáum þau í ástandinu á leigumarkaði og við sjáum þau líka í auknum kvíða meðal ungmenna og kulnun hjá þeim sem eldri eru.

Þegar fólk er svipt heimilum sínum glatar það öryggi sínu sínu og fótfestu. Þegar við bætist magnvana reiði og örvænting vegna óréttlætisins sem það stendur frammi fyrir ásamt hjálpar- og varnaleysinu sem það upplifir þegar heimilinu er hreinlega stolið af því, er ekki nema von að eitthvað láti undan.

Spillingin í þjóðfélaginu er djúp og hún á sér margar hliðar. Hún birtist ekki bara í háu húsnæðisverði og skelfilegum leigumarkaði eða háum vöxtum og verðtryggingu, hún birtist ekki bara í því hvernig lífeyrissjóðirnir misfara með fé okkar allra eða í „krónu á móti krónu“ skerðingu, hún birtist ekki bara í lágum launum verkafólks á meðan sjálftökufólk af ýmsum toga skammtar sjálfu sér milljónir, hún birtist ekki bara í spilltum dómstólum sem gæta hagsmuna „hinna sterku“ í dómum sínum eða í því hvernig lög- og stjórnaskrárvarin réttindi hafa verið brotin á neytendum frá hruni með skelfilegum afleiðingum.

Nei, hún birtist í þessu öllu og meiru til. Spillingin er djúp og teygir anga sína víða. Hana þarf að rífa upp með rótum til að hægt sé að byggja upp nýtt og betra þjóðfélag.

Fyrsta skrefið væri að að afnema verðtryggingu á lánum heimilanna! Öðruvísi er ekki hægt að skapa eðlilegan húsnæðismarkað eða stöðva sjálftöku fjármálastofnanna á tekjum fólks.

En til að takast á við ræturnar þarf að fara fram rannsókn á aðgerðum stjórnvalda eftir hrun. Jú það var líka spilling fyrir hrun, en þá urðu ákveðin vatnaskil og það var þá sem meðvituð ákvörðun var tekin um að fórna heimilum landsins fyrir bankana.

15.000 heimili eiga skilið að fá svör og uppreist æru.

Við biðjum ykkur um að styðja kröfuna um Rannsóknarskýrslu heimilanna!

Ásthildur Lóa Þórsdóttir
Formaður HH

Fylgstu með á samfélagsmiðlum