Símatími

Mán - þri kl. 10-13

Hafa samband

heimilin@heimilin.is

Á döfinni

Áskorun til Fjármálaeftirlitsins

Hagsmunasamtök heimilanna hafa kannað úrtak endurútreikninga áður gegnistryggðra lána frá lánastofnunum og fyrirtækjum í slitameðferð. Ljóst er að endurútreikningar eru rangir í meirihluta tilfella þar eð brotið er á rétti skuldarans til seðlabankavaxta af ofgreiddum afborgunum. Munað getur töluverðum upphæðum ef ofgreiðslur áttu sér stað yfir langt tímabil. Skuldarinn á rétt á svokölluðum seðlabankavöxtum af þeirri fjárhæð sem var umfram réttmæta afborgun frá þeim degi sem ofgreiðsla fór fram. Ekki er ásættanlegt að draga endurgreiðsluna einungis frá höfuðstól þar sem skuldarinn er þá hlunnfarinn um mismun á milli þeirra vaxta er greiddir voru af láninu og seðlabankavaxta sem falla eiga í hlut lántaka. Fjármálafyrirtæki eru hér með áminnt um að þau lög sem gilda um þennan hluta endurútreikninganna, eru einkum lög um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 en þar segir:

18. gr. (1. mgr.)

Ef samningsákvæði um vexti eða annað endurgjald fyrir lánveitingu eða umlíðun skuldar eða dráttarvexti teljast ógild skal peningakrafan bera vexti skv. 1. málsl. 4. gr., enda eigi önnur ákvæði þessarar greinar ekki við. Hið sama á við ef samningur kveður á um verðtryggingu skuldar samhliða vaxtaákvæðum, og annað tveggja er ógilt, og skulu þá bæði ákvæði samningsins um vexti og verðtryggingu fara eftir því sem kveðið er á um í 4. gr. og því sem greinir nánar í þessari grein.

18. gr (3. mgr.)

Vexti samkvæmt ákvæðum 1. mgr. skal reikna frá og með stofndegi peningakröfu, nema samið verði um annað, sbr. 3. gr.

2. gr.

Ákvæði II. og IV. kafla laga þessara gilda því aðeins að ekki leiði annað af samningum, venju eða lögum. Einnig verður vikið frá öðrum ákvæðum laganna að því marki sem þar er kveðið á um. Þó er ávallt heimilt að víkja frá ákvæðum laganna til hagsbóta fyrir skuldara.

3. gr.

Almenna vexti skal því aðeins greiða af peningakröfu að það leiði af samningi, venju eða lögum. Vexti skal greiða frá og með stofndegi peningakröfu og fram að gjalddaga.

4. gr.

Þegar greiða ber vexti skv. 3. gr., en hundraðshluti þeirra eða vaxtaviðmiðun er að öðru leyti ekki tiltekin, skulu vextir vera á hverjum tíma jafnháir vöxtum sem Seðlabanki Íslands ákveður með hliðsjón af lægstu vöxtum á nýjum almennum óverðtryggðum útlánum hjá lánastofnunum og birtir skv. 10. gr. Í þeim tilvikum sem um verðtryggða kröfu er að ræða skulu vextir vera jafnháir vöxtum sem Seðlabankinn ákveður með hliðsjón af lægstu vöxtum á nýjum almennum verðtryggðum útlánum hjá lánastofnunum og birtir skv. 10. gr.

7. gr.

Ef atvik sem varða kröfuhafa og skuldara verður ekki um kennt valda því að greiðsla fer ekki fram skal ekki reikna dráttarvexti þann tíma sem greiðsludráttur verður af þessum sökum. Sama á við ef greiðsla fer ekki fram vegna þess að skuldari neytir vanefndaúrræða gagnvart kröfuhafa eða heldur af öðrum lögmætum ástæðum eftir greiðslu eða hluta hennar.

12. gr.

Sé vaxtatímabil lengra en tólf mánuðir án þess að vextirnir séu greiddir skulu þeir lagðir við höfuðstól og nýir vextir reiknaðir af samanlagðri fjárhæð. Ekki skal bæta vöxtum við höfuðstól oftar en á tólf mánaða fresti, nema um sé að ræða innlánsreikninga lánastofnana.

18. gr (5. mgr.)

Kröfuhafa ber að endurgreiða skuldara þá fjárhæð sem hann hefur þannig ranglega af honum haft vegna ólögmætra vaxta og/eða verðtryggingar. Við ákvörðun endurgreiðslu eða útreikning á stöðu skuldar skal upphaflegur höfuðstóll skuldar vaxtareiknaður samkvæmt ákvæðum 1. mgr. Frá höfuðstól og áföllnum vöxtum skal draga þær fjárhæðir sem inntar hafa verið af hendi fram að uppgjörsdegi í vexti, hvers kyns vanskilaálögur og afborganir miðað við hvern innborgunardag. Þannig útreiknuð fjárhæð myndar eftirstöðvar skuldarinnar og skulu þá upphaflegir eða síðar ákvarðaðir endurgreiðsluskilmálar gilda að því er varðar lánstíma, gjalddaga og aðra tilhögun á greiðslu skuldar, allt að teknu tilliti til þeirra breytinga sem leiðir af ákvæðum þessarar greinar.

Sýslumönnum er góðfúslega bent á að aðfararbeiðnir sem byggðar eru á þeim endurútreikningum sem hér um ræðir, eru tilhæfulausar nema kröfuhafi geti sýnt fram á að endurreiknað hafi verið í samræmi við lög um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001 með síðari breytingum sbr. lög nr. 151/2010 ásamt lögum um neytendalán nr. 121/1994 og öðrum ákvæðum laga um neytendavernd. Jafnframt þarf að taka tillit til Hæstaréttardóma  600/2011, 464/2012 um fullnaðargildi kvittana og bann við afturvirkum vaxtavöxtum.

Það verður að teljast nokkuð bíræfið af lánastofnunum að ganga enn og aftur á rétt skuldara, en reikna má með að fjármálastofnanir verði gerðar afturreka með útreikningana þar til þeir hafa verið rétt framkvæmdir. Nýverið gaf FME út tilmæli til lánastofnana um að rökstyðja/sanna lögmæti gengisbundina lánasamninga (sem í tilmælunum eru nefnd erlend lán).

Hagsmunasamtök heimilanna skora hér með á Fjármálaeftirlitið að ganga skrefinu lengra og stöðva allar innheimtur áður gengistryggðra lána þar til lánastofnanir geta sannað að lánin séu reiknuð með réttarhagsmuni skuldara að leiðarljósi. Svo augljós brot gegn skuldurum sem að ofan greinir taka af allan vafa um einbeittan brotavilja kröfuhafa að mati samtakanna. Löngu er tímabært að byrði sönnunar sé færð yfir á kröfuhafa í ljósi stórfelldrar misnotkunar á aðstöðumun gagnvart skuldurum.

f.h. Hagsmunasamtaka heimilanna

Ólafur Garðarsson
Formaður stjórnar HH


© Hannað af Filmís 

Hagsmunasamtök heimilanna voru stofnuð 15. janúar 2009 og eru frjáls og óháð hagsmunasamtök á neytendasviði, til varnar og hagsbóta fyrir heimilin í landinu.

Orð frá formanni

CEO 

Orð frá formanni Varlega áætlað hafa 15.000 fjölskyldur, 45.000 einstaklingar misst heimili sín frá hruni. Enginn hefur svarað fyrir það, hvað þá axlað á því ábyrgð. 

Þegar 15% þjóðarinnar missa heimili sín, gætir áhrifanna víða. Við sjáum þau í ástandinu á leigumarkaði og við sjáum þau líka í auknum kvíða meðal ungmenna og kulnun hjá þeim sem eldri eru.

Þegar fólk er svipt heimilum sínum glatar það öryggi sínu sínu og fótfestu. Þegar við bætist magnvana reiði og örvænting vegna óréttlætisins sem það stendur frammi fyrir ásamt hjálpar- og varnaleysinu sem það upplifir þegar heimilinu er hreinlega stolið af því, er ekki nema von að eitthvað láti undan.

Spillingin í þjóðfélaginu er djúp og hún á sér margar hliðar. Hún birtist ekki bara í háu húsnæðisverði og skelfilegum leigumarkaði eða háum vöxtum og verðtryggingu, hún birtist ekki bara í því hvernig lífeyrissjóðirnir misfara með fé okkar allra eða í „krónu á móti krónu“ skerðingu, hún birtist ekki bara í lágum launum verkafólks á meðan sjálftökufólk af ýmsum toga skammtar sjálfu sér milljónir, hún birtist ekki bara í spilltum dómstólum sem gæta hagsmuna „hinna sterku“ í dómum sínum eða í því hvernig lög- og stjórnaskrárvarin réttindi hafa verið brotin á neytendum frá hruni með skelfilegum afleiðingum.

Nei, hún birtist í þessu öllu og meiru til. Spillingin er djúp og teygir anga sína víða. Hana þarf að rífa upp með rótum til að hægt sé að byggja upp nýtt og betra þjóðfélag.

Fyrsta skrefið væri að að afnema verðtryggingu á lánum heimilanna! Öðruvísi er ekki hægt að skapa eðlilegan húsnæðismarkað eða stöðva sjálftöku fjármálastofnanna á tekjum fólks.

En til að takast á við ræturnar þarf að fara fram rannsókn á aðgerðum stjórnvalda eftir hrun. Jú það var líka spilling fyrir hrun, en þá urðu ákveðin vatnaskil og það var þá sem meðvituð ákvörðun var tekin um að fórna heimilum landsins fyrir bankana.

15.000 heimili eiga skilið að fá svör og uppreist æru.

Við biðjum ykkur um að styðja kröfuna um Rannsóknarskýrslu heimilanna!

Ásthildur Lóa Þórsdóttir
Formaður HH

Fylgstu með á samfélagsmiðlum