Símatími

Mán - þri kl. 10-13

Hafa samband

heimilin@heimilin.is

Á döfinni

Yfirlýsingar Lýsingar hf. í dómsmáli teknar gildar sem trygging fyrir hagsmunum neytenda.

Stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna (HH) hefur ákveðið að óska eftir endurupptöku hæstaréttar á dómsmáli samtakanna gegn Lýsingu hf., þar sem krafist var lögbanns á innheimtu fyrirtækisins vegna ólögmætra gengislána (mál nr. 519/2013). Hæstiréttur kvað upp dóm þann 19. september og staðfesti þá úrskurð héraðsdóms í málinu um að hafna kröfu HH um lögbann.Samtökin hafa heimild til lögbannsaðgerða í þágu heildarhagsmuna neytenda (á grundvelli laga nr. 141/2001) og reistu lögbannskröfu sína á þeirri heimild. Hér er um að ræða mikilvægt hagsmunamál fyrir lántakendur þar sem Lýsing hefur þráast við að endurreikna lán í kjölfar gengislánadóma hæstaréttar (t.d. nr. 600/2011 og nr. 464/2012) og haldið því fram að dómarnir hefðu ekki fordæmisgildi fyrir samninga fyrirtækisins.

Hæstiréttur telur að hagsmunir neytenda í þessu máli séu nægilega tryggðir með skaðabótarétti og byggir það mat á yfirlýsingum Lýsingar um meintan varasjóð í þágu skuldara, en í dómnum segir að varnaraðili (Lýsing) hafi:

“lýst því yfir að hann hafi, eftir tilmælum Fjármálaeftirlitsins 1. mars 2012 um varúðarráðstafanir í þágu skuldara vegna réttaróvissu, gripið til sérstakra öryggisráðstafana til að tryggja hagsmuni viðskiptamanna sinna með stofnun varasjóðs í þágu skuldara vegna óvissu um mögulegar ofgreiðslur og að hann muni ekki ráðstafa honum fyrr en réttaróvissu hafi verið eytt. Þá hefur varnaraðili lýst því yfir í kjölfar dóms Hæstaréttar 30. maí 2013 í máli nr. 50/2013, sem varði bílasamning, að hann hafi hafið undirbúning nýs útreiknings hluta samninga sinna sem áður voru gengistryggðir. Felst í yfirlýsingum þessum næg trygging fyrir því að hagsmunir lántakenda verði ekki fyrir borð bornir”.

Það er óneitanlega sérstakt að æðsti dómstóll landsins telji yfirlýsingar hins meinta brotlega aðila næga tryggingu fyrir því að hagsmunir meints brotaþola séu ekki fyrir borð bornir. Það skal skýrt tekið fram að Lýsing lagði engar sannanir fram um tilvist hins meinta varasjóðs eða stöðu hans. Hæstiréttur heldur því jafnframt fram í dómi sínum að Hagsmunasamtök heimilanna hafi engin haldbær gögn lagt fram sem sýni að ástæða sé til að óttast um greiðslugetu varnaraðila. Þetta er einfaldlega rangt því samtökin lögðu einmitt fram ítarlega greinargerð þessu til stuðnings, sem byggðist meðal annars á ársreikningum Lýsingar. Þá vekur furðu að því hafi hreinlega verið hafnað að málið yrði leitt til efnislegrar niðurstöðu.

Jafnframt byggist endurupptökubeiðni HH á nýtilkomnum dómi hæstaréttar í máli Lýsingar gegn lántakanda (nr. 672/2012) og viðbrögðum Lýsingar við honum. Hæstiréttur dæmdi fyrirtækið þar til að endurgreiða lántakanda ofgreiðslur í samræmi við lög um neytendalán. Lýsing hefur skilgreint fordæmisgildi þessa dóms afar þröngt og í þeim fáu tilfellum sem fyrirtækið hefur fallist á að endurreikna samninga hefur það ekki verið gert að fullu leyti í samræmi við ítrasta rétt neytenda, samkvæmt gögnum sem samtökunum hafa borist frá neytendum.

Hér má sjá sýnishorn af skilmálum og starfsháttum Lýsingar

 

 

HH2013-Skilmálar-Bílasamnin... by Hagsmunasamtök heimilanna


© Hannað af Filmís 

Hagsmunasamtök heimilanna voru stofnuð 15. janúar 2009 og eru frjáls og óháð hagsmunasamtök á neytendasviði, til varnar og hagsbóta fyrir heimilin í landinu.

Orð frá formanni

CEO 

Orð frá formanni Varlega áætlað hafa 15.000 fjölskyldur, 45.000 einstaklingar misst heimili sín frá hruni. Enginn hefur svarað fyrir það, hvað þá axlað á því ábyrgð. 

Þegar 15% þjóðarinnar missa heimili sín, gætir áhrifanna víða. Við sjáum þau í ástandinu á leigumarkaði og við sjáum þau líka í auknum kvíða meðal ungmenna og kulnun hjá þeim sem eldri eru.

Þegar fólk er svipt heimilum sínum glatar það öryggi sínu sínu og fótfestu. Þegar við bætist magnvana reiði og örvænting vegna óréttlætisins sem það stendur frammi fyrir ásamt hjálpar- og varnaleysinu sem það upplifir þegar heimilinu er hreinlega stolið af því, er ekki nema von að eitthvað láti undan.

Spillingin í þjóðfélaginu er djúp og hún á sér margar hliðar. Hún birtist ekki bara í háu húsnæðisverði og skelfilegum leigumarkaði eða háum vöxtum og verðtryggingu, hún birtist ekki bara í því hvernig lífeyrissjóðirnir misfara með fé okkar allra eða í „krónu á móti krónu“ skerðingu, hún birtist ekki bara í lágum launum verkafólks á meðan sjálftökufólk af ýmsum toga skammtar sjálfu sér milljónir, hún birtist ekki bara í spilltum dómstólum sem gæta hagsmuna „hinna sterku“ í dómum sínum eða í því hvernig lög- og stjórnaskrárvarin réttindi hafa verið brotin á neytendum frá hruni með skelfilegum afleiðingum.

Nei, hún birtist í þessu öllu og meiru til. Spillingin er djúp og teygir anga sína víða. Hana þarf að rífa upp með rótum til að hægt sé að byggja upp nýtt og betra þjóðfélag.

Fyrsta skrefið væri að að afnema verðtryggingu á lánum heimilanna! Öðruvísi er ekki hægt að skapa eðlilegan húsnæðismarkað eða stöðva sjálftöku fjármálastofnanna á tekjum fólks.

En til að takast á við ræturnar þarf að fara fram rannsókn á aðgerðum stjórnvalda eftir hrun. Jú það var líka spilling fyrir hrun, en þá urðu ákveðin vatnaskil og það var þá sem meðvituð ákvörðun var tekin um að fórna heimilum landsins fyrir bankana.

15.000 heimili eiga skilið að fá svör og uppreist æru.

Við biðjum ykkur um að styðja kröfuna um Rannsóknarskýrslu heimilanna!

Ásthildur Lóa Þórsdóttir
Formaður HH

Fylgstu með á samfélagsmiðlum