Símatími

Mán - þri kl. 10-13

Hafa samband

heimilin@heimilin.is

Á döfinni

Gagnabeiðni vegna neytendalána

Meðfylgjandi er eyðublað sem neytendur geta fyllt út og sent lánafyrirtækjum til þess að óska eftir að fá afhent afrit af öllum gögnum varðandi neytendalán. Tilgangur slíkrar gagnaöflunar getur til dæmis verið sá að kanna réttarstöðu sína eða ganga úr skugga um hvort lánasamningar standist lög og reglur sem um þá gilda. Þeir sem standa í þeim sporum að verja eða sækja rétt sinn þurfa jafnframt að afla slíkra gagna vegna málaferla.

 

Lántakendur og ábyrgðarmenn eru hvattir til þess að kanna vel lána- og ábyrgðarsamninga með hliðsjón af því hvort gætt að hafi verið öllum lögbundnum skilyrðum við þær lánveitingar. Til að mynda hvort veittar hafi verið upplýsingar um lánskostnað og greiðsluáætlun samkvæmt lögum um neytendalán, hvort gert hafi verið greiðslumat ef um er að ræða ábyrgðarsamning og hvort forsendur þess og niðurstöður eru sýndar. Einnig hvort samningurinn hafi að geyma ólögmæta skilmála um breytilegan kostnað eða einhliða breytingar á kostnaði án viðhlítandi skýringa á forsendum þeirra.

Mörg dæmi eru um tilfelli þar sem lánveitendur hafa ekki gætt að þeim kröfum sem til þeirra eru gerðar um vönduð vinnubrögð og sem leiða má af gildandi lagareglum. Fyrir utan gengistryggingu sem flestum ætti að vera orðið kunnugt um að sé ólögmæt, hafa sjálfskuldarábyrgðir og lánsveð ítrekað verið dæmd ógild vegna vanrækslu á að gera greiðslumat eða það ekki nægilega vandað. Einnig hafa gengið dómar um að óheimilt hafi verið að breyta vöxtum til hækkunar eða innheimta verðtryggingu þar sem ekki var gerður áskilnaður um það í samningi á nægilega skýran og greinilegan hátt.

Upptalning þessi er engan veginn tæmandi um öll möguleg atriði sem getur verið ábótavant þannig að leitt geti til ógildingar eða leiðréttingar af einhverju tagi, og enn eru margvísleg álitamál um slíkt enn óleyst. Allnokkur dómsmál eru yfirstandandi nú þegar varðandi verðtryggð húsnæðislán og hefur meðal annars verið leitað eftir áliti frá EFTA-dómstólnum um áhrif þess að leyna kostnaði við verðtryggingu fyrir neytanda, en Neytendastofa hefur einmitt kveðið á um að slíkir viðskiptahættir séu óréttmætir og þar með bannaðir.

Einnig eru fyrir dómstólum mál þar sem deilt er um kostnað vegna yfirdráttar á tékkareikningum þar sem ekki var gerður skriflegur samningur, og hefur nú þegar einn dómur um slíkt mál fallið neytenda í hag en búast má við að honum verði áfrýjað og málið tekið fyrir í Hæstarétti Íslands næsta haust. Gagnabeiðnin getur einmitt nýst þeim sem kannast ekki við að hafa skrifað undir samning eða fengið upplýsingar um kostnað, til þess að leita eftir staðfestingu á því hvort afrit af slíkum gögnum séu fyrir hendi hjá lánveitenda.

Loks má nefna að vegna endurútreikninga neytendalána líkt og Hagsmunasamtök heimilanna hafa boðið félagsmönnum að undanförnu gegn hóflegu gjaldi, er nauðsynleg að útvega gögn um forsendur lánsins og greiðslusögu, en gagnabeiðnin getur einmitt nýst í þeim tilgangi. Beiðnin er útbúin sem eyðublað og er einfalt að fylla það út og senda til lánveitanda. Neytendum er bent á að halda eins vel og hægt er utan um öll gögn sem þannig fást afhent, svo þau geti komið að notum ef til þess kemur að reyni á réttindi þeirra og skyldur.

2014-Gagnabeiðni-Neytendalán by Hagsmunasamtök heimilanna


© Hannað af Filmís 

Hagsmunasamtök heimilanna voru stofnuð 15. janúar 2009 og eru frjáls og óháð hagsmunasamtök á neytendasviði, til varnar og hagsbóta fyrir heimilin í landinu.

Orð frá formanni

CEO 

Orð frá formanni Varlega áætlað hafa 15.000 fjölskyldur, 45.000 einstaklingar misst heimili sín frá hruni. Enginn hefur svarað fyrir það, hvað þá axlað á því ábyrgð. 

Þegar 15% þjóðarinnar missa heimili sín, gætir áhrifanna víða. Við sjáum þau í ástandinu á leigumarkaði og við sjáum þau líka í auknum kvíða meðal ungmenna og kulnun hjá þeim sem eldri eru.

Þegar fólk er svipt heimilum sínum glatar það öryggi sínu sínu og fótfestu. Þegar við bætist magnvana reiði og örvænting vegna óréttlætisins sem það stendur frammi fyrir ásamt hjálpar- og varnaleysinu sem það upplifir þegar heimilinu er hreinlega stolið af því, er ekki nema von að eitthvað láti undan.

Spillingin í þjóðfélaginu er djúp og hún á sér margar hliðar. Hún birtist ekki bara í háu húsnæðisverði og skelfilegum leigumarkaði eða háum vöxtum og verðtryggingu, hún birtist ekki bara í því hvernig lífeyrissjóðirnir misfara með fé okkar allra eða í „krónu á móti krónu“ skerðingu, hún birtist ekki bara í lágum launum verkafólks á meðan sjálftökufólk af ýmsum toga skammtar sjálfu sér milljónir, hún birtist ekki bara í spilltum dómstólum sem gæta hagsmuna „hinna sterku“ í dómum sínum eða í því hvernig lög- og stjórnaskrárvarin réttindi hafa verið brotin á neytendum frá hruni með skelfilegum afleiðingum.

Nei, hún birtist í þessu öllu og meiru til. Spillingin er djúp og teygir anga sína víða. Hana þarf að rífa upp með rótum til að hægt sé að byggja upp nýtt og betra þjóðfélag.

Fyrsta skrefið væri að að afnema verðtryggingu á lánum heimilanna! Öðruvísi er ekki hægt að skapa eðlilegan húsnæðismarkað eða stöðva sjálftöku fjármálastofnanna á tekjum fólks.

En til að takast á við ræturnar þarf að fara fram rannsókn á aðgerðum stjórnvalda eftir hrun. Jú það var líka spilling fyrir hrun, en þá urðu ákveðin vatnaskil og það var þá sem meðvituð ákvörðun var tekin um að fórna heimilum landsins fyrir bankana.

15.000 heimili eiga skilið að fá svör og uppreist æru.

Við biðjum ykkur um að styðja kröfuna um Rannsóknarskýrslu heimilanna!

Ásthildur Lóa Þórsdóttir
Formaður HH

Fylgstu með á samfélagsmiðlum