Símatími

Mán - þri kl. 10-13

Hafa samband

heimilin@heimilin.is

Á döfinni

HH senda Umboðsmanni Alþingis ábendingar vegna ESÍ og Dróma

Hagsmunasamtök heimilanna hafa sent Umboðsmanni Alþingis ábendingar vegna starfsemi Eignasafns Seðlabanka Íslands ehf. (ESÍ), dótturfélags þess Hildu ehf. og samvinnu þeirra við Dróma hf. Samtökin sendu umboðsmanni ábendingar sínar skömmu fyrir jól, í tilefni af rannsókn embættisins á lagagrundvelli fyrir flutningi verkefna Seðlabanka Íslands í einkahlutafélög.



Meðal þess sem bent er á í erindi samtakanna er að auk þeirra félaga sem getið var um í bréfi umboðsmanns frá október síðastliðnum, eigi þau jafnframt fleiri dótturfélög, þar á meðal Hildu ehf., sem hafi stundað innheimtu lánasafna fyrir hönd Seðlabanka Íslands hjá heimilum og fyrirtækjum sem voru viðskiptavinir fallinna fjármálafyrirtækja. Jafnframt hafi Seðlabankinn og Hilda ehf. veitt Dróma hf. umboð til umsýslu og innheimtu viðkomandi lánasafna fyrir sína hönd, þrátt fyrir að það fyrirtæki hefði engar lögboðnar heimildir til að stunda slíka innheimtu fyrir aðra.

Í þessu samhengi er vakin athygli á því að október 2013 komst Fjármálaeftirlitið að sömu niðurstöðu, og sektaði Dróma fyrir að hafa stundað innheimtu fyrir aðra án innheimtuleyfis. Kom fram í þeirri ákvörðun að innheimtan hefði síðar færst yfir til Arion banka, en ekki hafa komið opinberlega fram neinar skýringar á forsendum þeirrar ráðstöfunar eða hvernig um hana hafi verið samið.

Einnig er rakið í erindinu hvernig Fjármálaeftirlitið (FME) mælti fyrir um stofnun Dróma hf. án þess að veitt hefði verið nein heimild til stofnunar slíks fyrirtækis í hinum svokölluðu neyðarlögum sem sett voru vegna fjármálahrunsins árið 2008. Vakin er athygli á því að Drómi er skráð sem eignarhaldsfélag en hefur aldrei haft starfsleyfi, hvorki sem fjármálafyrirtæki né sjálfstæður innheimtuaðili.

Samtökin gera jafnframt alvarlegar athugasemdir við sinnuleysi Fjármálaeftirlitsins gagnvart þeim langvarandi og stórfelldu lögbrotum sem framin hafa verið af hálfu Dróma og á ábyrgð slitastjórnar SPRON. Í því samhengi er bent á að óeðlileg tengsl kunni að hafa myndast milli þessara aðila þegar fyrrum sviðsstjóri hjá FME var skipaður formaður slitastjórnar SPRON og stjórnarformaður Dróma.

Með erindi samtakanna til umboðsmanns fylgja ýmis gögn sem eru opinberlega aðgengileg eða hafa borist frá félagsmönnum, og styðja þær athugasemdir sem koma fram í erindinu. Þar á meðal er rannsóknarskýrsla um starfsemi Dróma sem samtökin tóku saman og gáfu út í nóvember 2013, en í henni er nánar gerð grein fyrir þeim atriðum sem athugasemdirnar beinast að, ásamt miklum fjölda tilvísana á opinberar heimildir og umfjöllun um málefni sem tengjast þeirri starfsemi.

Hagsmunasamtök heimilanna vonast til þess að birting þeirra upplýsinga sem þau hafa safnað saman og ábendingar á grundvelli þeirra til Umboðsmanns Alþingis, verði til þess að knýja enn frekar á um að ráðist verði í opinbera rannsókn á starfsemi þeirra fyrirtækja sem urðu til í kjölfar bankahrunsins en opinberar rannsóknarnefndir hafa hingað til aðeins rannsakað atburði sem gerðust fyrir þann tíma. Að sama skapi er brýnt að einkavæðing bankanna árið 2009 hljóti sambærilega rannsókn.

Hér má nálgast rannsóknarskýrslu HH um starfsemi Dróma hf.:


© Hannað af Filmís 

Hagsmunasamtök heimilanna voru stofnuð 15. janúar 2009 og eru frjáls og óháð hagsmunasamtök á neytendasviði, til varnar og hagsbóta fyrir heimilin í landinu.

Orð frá formanni

CEO 

Orð frá formanni Varlega áætlað hafa 15.000 fjölskyldur, 45.000 einstaklingar misst heimili sín frá hruni. Enginn hefur svarað fyrir það, hvað þá axlað á því ábyrgð. 

Þegar 15% þjóðarinnar missa heimili sín, gætir áhrifanna víða. Við sjáum þau í ástandinu á leigumarkaði og við sjáum þau líka í auknum kvíða meðal ungmenna og kulnun hjá þeim sem eldri eru.

Þegar fólk er svipt heimilum sínum glatar það öryggi sínu sínu og fótfestu. Þegar við bætist magnvana reiði og örvænting vegna óréttlætisins sem það stendur frammi fyrir ásamt hjálpar- og varnaleysinu sem það upplifir þegar heimilinu er hreinlega stolið af því, er ekki nema von að eitthvað láti undan.

Spillingin í þjóðfélaginu er djúp og hún á sér margar hliðar. Hún birtist ekki bara í háu húsnæðisverði og skelfilegum leigumarkaði eða háum vöxtum og verðtryggingu, hún birtist ekki bara í því hvernig lífeyrissjóðirnir misfara með fé okkar allra eða í „krónu á móti krónu“ skerðingu, hún birtist ekki bara í lágum launum verkafólks á meðan sjálftökufólk af ýmsum toga skammtar sjálfu sér milljónir, hún birtist ekki bara í spilltum dómstólum sem gæta hagsmuna „hinna sterku“ í dómum sínum eða í því hvernig lög- og stjórnaskrárvarin réttindi hafa verið brotin á neytendum frá hruni með skelfilegum afleiðingum.

Nei, hún birtist í þessu öllu og meiru til. Spillingin er djúp og teygir anga sína víða. Hana þarf að rífa upp með rótum til að hægt sé að byggja upp nýtt og betra þjóðfélag.

Fyrsta skrefið væri að að afnema verðtryggingu á lánum heimilanna! Öðruvísi er ekki hægt að skapa eðlilegan húsnæðismarkað eða stöðva sjálftöku fjármálastofnanna á tekjum fólks.

En til að takast á við ræturnar þarf að fara fram rannsókn á aðgerðum stjórnvalda eftir hrun. Jú það var líka spilling fyrir hrun, en þá urðu ákveðin vatnaskil og það var þá sem meðvituð ákvörðun var tekin um að fórna heimilum landsins fyrir bankana.

15.000 heimili eiga skilið að fá svör og uppreist æru.

Við biðjum ykkur um að styðja kröfuna um Rannsóknarskýrslu heimilanna!

Ásthildur Lóa Þórsdóttir
Formaður HH

Fylgstu með á samfélagsmiðlum