Símatími

Mán - þri kl. 10-13

Hafa samband

heimilin@heimilin.is

Á döfinni

Telur Hæstiréttur íslenska ríkið bera ábyrgð á óréttmæti verðtryggingar?

Hæstiréttur Íslands kvað þann 13. maí síðastliðinn upp dóm í máli 160/2015 þar sem tekist var á um fjárnám á grundvelli verðtryggðs fasteignaláns. Þá um kvöldið var svo fullyrt í umfjöllun fjölmiðla, þar á meðal RÚV, að með dómnum hefði verðtryggingin staðist áhlaup af hendi Hagsmunasamtaka heimilanna. Daginn eftir var nánast fullyrt, og aftur af hálfu RÚV, að málið væri fordæmisgefandi fyrir ōll ōnnur dómsmál gegn verðtryggingunni. Eftir að hafa kynnt okkur dóminn telja Hagsmunasamtök heimilanna hinsvegar að fullyrðingar í þá átt séu ótímabærar, og þvert á móti sé mörgum spurningum enn ósvarað. Rétt er að taka fram að Hagsmunasamtök heimilanna hafa enga aðkomu að því máli sem dæmt var um, heldur mun mál sem félagsmenn í samtökunum eiga aðild að líklega verða flutt fyrir Hæstarétti með haustinu.

Það mál sem hér um ræðir sneri að miklu leyti að því hvort verðtrygging sem slík gæti talist óréttmætur skilmáli samkvæmt reglum á sviði neytendaverndar sem innleiddar hafa verið í íslenskan rétt á grundvelli EES-samningsins. Niðurstaðan er að svo sé ekki sem kemur í sjálfu sér ekki mikið á óvart. Hagsmunasamtök heimilanna hafa ávallt lagt áherslu að þó að heimilað sé með lögum að veita verðtryggð lán sé þó ekki þar með sjálfgefið að öll slík lán hljóti að vera lögleg.

Málatilbúnaður samtakanna hefur fyrst og fremst beinst að útfærslu verðtryggingar neytendalána og þeirri upplýsingaskyldu um kostnað vegna hennar sem EES-reglur um neytendalán og lög sem innleiða þær reglur hér á landi kveða á um. Hæstiréttur tekur undir það í dómi sínum að lögmæti slíkra lána sé einmitt háð þessum sömu skilyrðum, en beygir hinsvegar af leið með því að skýra ákvæði 1. mgr. 12. gr. laga nr. 121/1994 á þá leið að í því hafi falist það skilyrði að miða skyldi greiðsluáætlun við 0% verðbólgu. Þetta er hinsvegar í andstöðu við Tilskipun 87/102/EBE um neytendalán eins og hún varð skýrð með ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins í máli E-27/13.

Þessi niðurstaða skýtur skökku við, því ákvæðið sem um ræðir kveður skýrt á um að veita skuli greinargóðar upplýsingar um allan kostnað og gjöld sem neytandi muni þurfa að greiða vegna lántöku. Þar með taldar hljóta að vera verðbætur, sem eru ávallt þekktar á lántökudegi því lögum samkvæmt skal miða við vísitölu síðasta mánaðar og auk þess eru breytingar á henni undanliðna 12 mánuði ávallt þekktar, þ.e. ársverðbólga. Þannig hefðu upplýsingar um kostnaðinn með réttu átt að endurspegla slíkan veruleika, en á hinn bóginn er tæpast raunhæft að miða við 0% verðbólgu, enda var það varla ætlan löggjafans á sínum tíma miðað við fyrirliggjandi gögn þar að lútandi.

Enn fremur telja Hagsmunasamtök heimilanna það áhyggjuefni að í dómi Hæstaréttar skuli ekki gerður skýrari greinarmunur en raun ber vitni á annars vegar vísitölu neysluverðs sem mælikvarða, og hinsvegar þeim fjárhæðum sem neytendur þurfa að greiða í verðbætur af verðtryggðum lánum vegna breytinga á þeim mælikvarða, sem til langs tíma hefur nánast alltaf verið til hækkunar og verið íþyngjandi fyrir neytendur. Loks er það varhugavert að í dómnum er því beinlínis haldið fram að óréttmæti verðtryggðra neytendalána hér á landi sé rangri innleiðingu EES-tilskipunar um að kenna, sem getur mögulega leitt til skaðabótaskyldu ríkisins. Hagsmunasamtök heimilanna líta svo á að lánveitendur hefðu mátt vita betur um hvernig þeim væri skylt að haga upplýsingagjöf til neytenda um kostnað í formi verðbóta, og verði því að axla ábyrgð á því að hafa brotið gegn þeim skyldum. Það geti því ekki talist sanngjörn útkoma að leggja þá ábyrgð á herðar íslenska ríkisins.


© Hannað af Filmís 

Hagsmunasamtök heimilanna voru stofnuð 15. janúar 2009 og eru frjáls og óháð hagsmunasamtök á neytendasviði, til varnar og hagsbóta fyrir heimilin í landinu.

Orð frá formanni

CEO 

Orð frá formanni Varlega áætlað hafa 15.000 fjölskyldur, 45.000 einstaklingar misst heimili sín frá hruni. Enginn hefur svarað fyrir það, hvað þá axlað á því ábyrgð. 

Þegar 15% þjóðarinnar missa heimili sín, gætir áhrifanna víða. Við sjáum þau í ástandinu á leigumarkaði og við sjáum þau líka í auknum kvíða meðal ungmenna og kulnun hjá þeim sem eldri eru.

Þegar fólk er svipt heimilum sínum glatar það öryggi sínu sínu og fótfestu. Þegar við bætist magnvana reiði og örvænting vegna óréttlætisins sem það stendur frammi fyrir ásamt hjálpar- og varnaleysinu sem það upplifir þegar heimilinu er hreinlega stolið af því, er ekki nema von að eitthvað láti undan.

Spillingin í þjóðfélaginu er djúp og hún á sér margar hliðar. Hún birtist ekki bara í háu húsnæðisverði og skelfilegum leigumarkaði eða háum vöxtum og verðtryggingu, hún birtist ekki bara í því hvernig lífeyrissjóðirnir misfara með fé okkar allra eða í „krónu á móti krónu“ skerðingu, hún birtist ekki bara í lágum launum verkafólks á meðan sjálftökufólk af ýmsum toga skammtar sjálfu sér milljónir, hún birtist ekki bara í spilltum dómstólum sem gæta hagsmuna „hinna sterku“ í dómum sínum eða í því hvernig lög- og stjórnaskrárvarin réttindi hafa verið brotin á neytendum frá hruni með skelfilegum afleiðingum.

Nei, hún birtist í þessu öllu og meiru til. Spillingin er djúp og teygir anga sína víða. Hana þarf að rífa upp með rótum til að hægt sé að byggja upp nýtt og betra þjóðfélag.

Fyrsta skrefið væri að að afnema verðtryggingu á lánum heimilanna! Öðruvísi er ekki hægt að skapa eðlilegan húsnæðismarkað eða stöðva sjálftöku fjármálastofnanna á tekjum fólks.

En til að takast á við ræturnar þarf að fara fram rannsókn á aðgerðum stjórnvalda eftir hrun. Jú það var líka spilling fyrir hrun, en þá urðu ákveðin vatnaskil og það var þá sem meðvituð ákvörðun var tekin um að fórna heimilum landsins fyrir bankana.

15.000 heimili eiga skilið að fá svör og uppreist æru.

Við biðjum ykkur um að styðja kröfuna um Rannsóknarskýrslu heimilanna!

Ásthildur Lóa Þórsdóttir
Formaður HH

Fylgstu með á samfélagsmiðlum