Fá heimilin að njóta vafans?
Stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna vill að þak verði sett á vísitölu neysluverðs við útreikning á verðtryggðum lánum, nú þegar djúp efnahagslægð er í aðsigi. Umfang og áhrif hennar eru óljós.
Íslensk heimili þurfa því fullvissu um að greiðslubyrði verðtryggðra lána haldist í hendur við þau verðbólgumarkmið
sem Seðlabankinn setur sér. Það er sanngjörn og eðlileg krafa. Það dugar skammt að verja heimilin fyrir tekjutapi, ef ekki á einnig að verja þau fyrir stökkbreytingu á greiðslubyrði verðtryggðra lána. Huga þarf að heildarmyndinni og skoða hana í ljósi sögunnar.
Stóra spurningin um aðgerðir ríkisstjórnarinnar núna hlýtur því að vera hvort heimilin fái að njóta vafans?
Á döfinni
Formaður HH var í viðtali á Bylgjunni í vikunni um kröfur samtakanna og til umræðu um nýlega aðsenda grein hennar á visir.is: Alveg eins og var gert eftir hrun. Félagsmenn og aðrir gestir Neytendatorgs Hagsmunasamtaka heimilanna geta hlustað á viðtalið hér: Bítið - Ásthildur Lóa Þórsdóttir. Stjórn HH vinnur nú að því að tala máli sinna félagsmanna og kallar eftir aðgerðum til varnar heimilunum í viðjum verðtryggra lána á tímum heimsfaraldurs.
Stjórn samtakanna leggur áherslu á þrennt:
1. Að þak verði sett á verðtryggingu lána heimilanna
2. Tryggt verði að enginn missi heimili sitt vegna Covid-19
3. Stytting fyrningartíma eftir árangurslaust fjárnám
Nú fylgjumst við grannt með og vonumst til að ráðamenn taki ákvarðanir í ljósi sögunnar. Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra sat fyrir svörum í umræðuþætti RÚV um Covid-19 og stöðu heimilanna, 31. mars síðastliðinn. Í þættinum lögðu tveir þáttastjórnendur aðsendar spurningar fyrir forsætisráðherra. Ljóst er að efnahagslegar áhyggjur fólks eru miklar og full ástæða fyrir umræðuþætti sem þessum. Hagsmunasamtök heimilanna sendu inn spurningar í þáttinn um tvö helstu áhersluatriði samtakanna á þessum tímum.
Forsætisráðherra var spurður um hvort það kæmi til greina að setja þak á verðtryggingu lána en hún vék sér undan því að svara þeirri spurningu. Forsætisráðherra var einnig spurður hvort kæmi til greina að stöðva aðfarir og nauðungarsölur til að tryggja að fólk missi ekki heimili sín vegna þeirra aðstæðna sem eru í samfélaginu. Svar ráðherrans var á þann veg að það verði tekið til skoðunar eins og gert var eftir hrun. Svar Katrínar Jakobsdóttur er óskiljanlegt í ljósi reynslunnar.
Afneitun er óneitanlega öflugt vopn, en staðreyndin er sú að með þessu svari hafnar leiðtogi þjóðarinnar því sem er reynsla þúsunda Íslendinga og ráðandi orðræða á vettvangi Hagsmunasamtaka heimilanna um kerfislægan yfirgang fjármálafyrirtækja á venjulegu fólki og eigum þeirra, eftir hrun. Félagsmenn Hagsmunasamtaka heimilanna eru á níunda þúsund og bitur reynsla fjölmargra knýr baráttu samtakanna áfram. Það er önnur saga af hruninu en sú sem hefur verið haldið á lofti síðastliðinn áratug. Söguskýring sem ráðamenn virðast ekki vilja horfast í augu við því hún varpar skugga á efnahagslegan viðsnúning sem hefur verið metinn kraftaverki líkastur. Því kemur það ekki á óvart að forsætisráðherra víki sér undan því að svara mikilvægum spurningum og ákalli fjölmargra, með skýrum og afdráttarlausum hætti. Spurningu sem hún þó viðurkennir að fá ítrekað og oftast. Við verðum að vonast eftir viðsnúningi og að ríkisstjórnin muni móta lausnir sem taka mið af biturri reynslu og áhyggjum margra. Við vonumst því að heimilunum verði leyft að njóta vafans.
Viðbrögð og svör forsætisráðherra í fyrrnefndum þætti, urðu einmitt kveikja að greinarskrifum formanns Hagsmunasamtaka heimilanna sem lesa má nú á visi.is: Alveg eins og var gert eftir hrun. Aðsendar greinar Ásthildar á Vísi fá að jafnaði mikla athygli og eiga tryggan lesendahóp. Við hvetjum félagsmenn til að fylgjast með umræðunni á facebook síðu samtakanna og taka þátt. Samstaðan er okkar vopn!
Með kveðju frá stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna