Símatími

Mán - þri kl. 10-13

Hafa samband

heimilin@heimilin.is

Á döfinni

Dómsmálaráðherra vill "síma-nauðungarsölur"

Dómsmálaráðherra vill "síma-nauðungarsölur"

Fréttatilkynning

Um þessar mundir sjá tugþúsundir heimila fram á algjöra óvissu og mjög erfiða fjárhagslega stöðu á komandi mánuðum, ekki aðeins hér á landi heldur um allan heim. Þess vegna hafa stjórnvöld í mörgum löndum, þar á meðal Bandaríkjunum, fyrirskipað algjöra stöðvun á öllum nauðungarsölum þar til þetta ástand verður yfirstaðið.

Það skýtur því skökku við að á sama tíma skuli dómsmálaráðherra Íslands leggja fram frumvarp til flýtimeðferðar sem er beinlínis að greiða götu kröfuhafa til að framkvæma aðfarir og nauðungarsölur á auðveldari hátt en nokkru sinni fyrr með því að gera þær rafrænar.

Það er vandséð að slík lagabreyting flokkist undir einhverja neyð vegna kórónuveirunnar en auk þess felur hún í sér ískyggileg skilaboð til heimilanna um forgangsröðun stjórnvalda á erfiðum tímum og er algjörlega á skjön við margítrekað ákall Hagsmunasamtaka heimilanna um að stjórnvöld tryggi að ekki einn einasti íbúi landsins þurfi að missa heimili sitt vegna afleiðinga heimsfaraldursins.

Það bætir svo gráu ofan á svart að í lagabreytingunum er ekki minnst einu orði á gerðarþola eða neytanda, heldur er verið að heimila að taka mál fyrir með gerðarbeiðanda, fjármálafyrirtæki, í gegnum síma eða fjarfundabúnað og að það jafngildi því að gerðarbeiðandi sé sjálfur viðstaddur fyrirtökuna í skilningi laganna.

Ekkert er minnst á gerðarþola í þessu sambandi eða hvernig tryggja skuli möguleika hans á aðkomu að fyrirtöku til að gæta réttar síns.

Þær tillögur sem gerðar eru í umræddum ákvæðum frumvarpsins eru hreinlega fáránlegar á þessum tímapunkti, svo ekki sé minnst á þá gjörsamlega óverðskulduðu þjónkun við gerðarbeiðendur og þá grófu mismunun í garð gerðarþola sem birtist í ákvæðum og orðalagi þeirra.

Hagsmunasamtök heimilanna ítreka þá sjálfsögðu kröfu sína stjórnvöld tryggi að engin fjölskylda missi heimili sitt vegna afleiðinga kórónuveirunnar. Auk þess þarf að stöðva nauðungarsölur og aðfarargerðir þar sem gerðarþoli er neytandi, þar til efnahagsleg áhrif veirunnar eru orðin ljós og samfélagið að komast í eðlilegt horf.

Heimilin verða að fá fullvissu fyrir því að öryggi þeirra verði tryggt á þessum óvissutímum og í því sambandi er ekki síður mikilvægt hvaða skilaboð stjórnvöld senda frá sér með aðgerðum sínum.

Þetta snýst ekki eingöngu um fjárhagslega hagsmuni heldur einnig um vernd mannréttinda og lýðheilsu þar sem langvarandi áhyggjur og kvíði geta leitt til alvarlegra heilsufarslegra og félagslegra vandamála.

Að gefnu tilefni vilja Hagsmunasamtök heimilanna minna á að aðgerðir stjórnvalda eftir hrunið höfðu skelfilegar afleiðingar í för með sér fyrir þúsundir heimila og tugþúsundir einstaklinga. Þær eru því ekki til eftirbreytni. Beinar afleiðingar þeirra eru eftirfarandi:

  • 15.000 heimilum hefur verið fórnað fyrir bankana
  • 173.000 fjárnám hafa verið gerð hjá einstaklingum
  • 135.000 þessara fjárnáma voru árangurslaus
  • 650.000.000.000 kr. er HAGNAÐUR bankanna frá hruni

Þetta er ekkert til að hrósa sér af og það má alls ekki endurtaka sig að efnahagskerfið verði “endurreist” á kostnað heimilanna í þetta sinn!

Hagsmunasamtök heimilanna beina því til ríkisstjórnar Íslands að hún íhugi þá vegferð sem hún er á geri upp við sig hvernig þjóðfélag hún vilji sjá þegar baráttunni við kórónuveiruna lýkur.

Ríkisstjórnin þarf að svara því hvort, og þá hvernig, það sé íslensku samfélagi til góðs ef bæði fyrirtæki og heimili verða þá að stórum hluta í eigu bankanna eða undir “náð og miskunn” þeirra komin?

Þegar þessi lagabreyting dómsmálaráðherra bætist ofan á tregðu ríkisstjórnarinnar til að tryggja hag heimilanna með “þaki” á verðtryggingu leigu og lána og æpandi þögn hennar um hagsmuni þeirra, blasa við þjóðinni skilaboð um forgangsröðun sem er ekki í þágu heimilanna heldur fjármálafyrirtækja. Þau skilaboð eru ekki til að skapa traust á erfiðum tímum heldur ýfa þau upp ótta sem er nægur fyrir.

Kórónuveiran er “Force Majeure” og þó kannski verði ekki hægt að bjarga öllum, er hægt að tryggja það að engum verði gert óþarflega erfitt að koma undir sig fótum á ný.

Hagsmunasamtök heimilanna skora á ríkisstjórnina og alla þingmenn að sjá sóma sinn í því að tryggja hag heimilanna á erfiðum tímum og fresta öllum nauðungarsölum á heimilum landsins út þetta ár.

Hagsmunasamtök heimilanna

 

Sjá nánar Umsögn Hagsmunasamtaka heimilanna um 722. mál á 150. löggjafarþingi

Frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna heimsfaraldurs kórónuveiru (meðferð mála hjá sýslumönnum og dómstólum o.fl.)

Með frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á ýmsum lögum til að heimila ýmist varanlega eða til bráðabirgða rafræna málsmeðferð og notkun fjarfundabúnaðar við fyrirtökur mála af ýmsu tagi. Þar sem víðtækar hömlur eru nú á samkomum og samskiptamöguleikum eru þetta eðlileg og nauðsynleg tímabundin viðbrögð, sem Hagsmunasamtök heimilanna eru almennt fylgjandi.

Engu að síður verður ekki hjá því komist að gagnrýna harðlega 10. gr. frumvarpsins um aðfarargerðir og 12. gr. þess um nauðungarsölur. Báðar eru þær orðaðar þannig að heimilt verði að taka mál fyrir með gerðarbeiðanda í gegnum síma eða fjarfundabúnað og að það jafngildi því að gerðarbeiðandi sé sjálfur viðstaddur fyrirtökuna í skilningi laganna. Ekkert er minnst á gerðarþolanda í þessu sambandi eða hvernig tryggja skuli möguleika hans á aðkomu að fyrirtöku til að gæta réttar síns. Gætir að því leyti ósamræmis við orðalag 11. gr. um fyrirtökur í kyrrsetningar- og lögbannsmálum, þar sem er ekki gerður neinn slíkur greinarmunur á gerðarbeiðanda og gerðarþola.

Jafnframt skortir algjörlega útfærslu á því hvernig staðið skuli að framkvæmd fjarfundar í slíkum tilfellum, svo sem hvaða fjarfundabúnað megi nota, hvernig aðgengi gerðarþola að þeim búnaði verði tryggt, hvernig kröfur um persónuvernd, þ.m.t. um samþykki, verði uppfylltar o.s.frv.

Enn fremur er 3. mgr. 12. gr. frumvarpsins stórgölluð. Hún kveður á um framlengingu á tilteknum tímafrestum ef ekki er hægt að fylgja þeim sökum óyfirstíganlegrar hindrunar, en þeir frestir eru allir í þágu gerðarbeiðanda. Ekkert er hins vegar minnst á tímafresti sem gerðarþoli hefur hagsmuni af, svo sem frest til að koma fram mótmælum eða til að bera ágreiningsefni undir dómstóla.

Um þessar mundir sjá tugþúsundir heimila fram á algjöra óvissu og mjög erfiða fjárhagslega stöðu á komandi mánuðum, ekki aðeins hér á landi heldur um allan heim. Þess vegna hafa stjórnvöld í mörgum löndum, þar á meðal Bandaríkjunum, fyrirskipað algjöra stöðvun á öllum nauðungarsölum þar til þetta ástand verður yfirstaðið. Á sama tíma leggur dómsmálaráðherra Íslands fram frumvarp sem er beinlínis að greiða götu kröfuhafa til að framkvæma aðfarir og nauðungarsölur á auðveldari hátt en nokkru sinni fyrr og hunsar margítrekað ákall Hagsmunasamtaka heimilanna um að stjórnvöld tryggi að ekki einn einasti íbúi landsins þurfi að missa heimili sitt vegna afleiðinga heimsfaraldursins. Þær tillögur sem gerðar eru í umræddum ákvæðum frumvarpsins eru hreinlega fáránlegar á þessum tímapunkti, svo ekki minnst á þá gjörsamlega óverðskulduðu þjónkun við gerðarbeiðendur og grófu mismunun í garð gerðarþola sem birtist í orðalagi þeirra.

Hagsmunasamtök heimilanna ítreka þá sjálfsögðu kröfu sína að nauðungarsölur og aðfarargerðir þar sem gerðarþoli er neytandi, verði stöðvaðar til næstu áramóta eða að minnsta kosti svo lengi sem í gildi eru einhver fyrirmæli um samkomutakmarkanir samkvæmt sóttvarnalögum. Heimilin verða að fá fullvissu fyrir því að öryggi þeirra verði tryggt á þessum óvissutímum og í því sambandi er ekki síður mikilvægt hvaða skilaboð stjórnvöld senda frá sér með aðgerðum sínum. Þetta snýst ekki eingöngu um fjárhagslega hagsmuni heldur einnig um vernd mannréttinda og lýðheilsu þar sem langvarandi áhyggjur og kvíði geta leitt til alvarlegra heilsufarslegra og félagslegra vandamála.

Að öðrum kosti krefjast samtökin þess að frumvarpi þessu verði breytt þannig að hið minnsta verði gerður áskilnaður um að mál samkvæmt lögum um aðför eða nauðungarsölu verði ekki tekið fyrir í gegnum síma eða fjarfundabúnað nema gerðarþoli veiti upplýst samþykki sitt. Í því sambandi má hafa til hliðsjónar kröfur laga um persónuvernd um samþykki hins skráða. Það er engum bjóðandi að búa við áhyggjur af því að kröfuhafar geti gert fjárnám í eignum sínum og komið af stað nauðungarsölu á heimili sínu, með einföldu símtali án samþykkis og aðkomu sinnar.

Enn fremur krefjast samtökin þess að 3. mgr. 12. gr. verði breytt þannig að sú framlenging tímafresta sem þar er gert ráð fyrir, geti einnig átt við um tímafresti vegna atvika sem geta varðað gerðarþola og sambærilegt ákvæði bætist við 10. gr. Þar á meðal má nefna frest til að andmæla frumvarpi til úthlutunar söluverðs samkvæmt 1. mgr. 51. gr. laga um nauðungarsölu og fresti til að leita úrlausnar dómstóla um ágreiningsefni samkvæmt 15. kafla laga um aðför eða eftir atvikum XIII.-XIV. kafla laga um nauðungarsölu, auk annarra tímafresta sem settir eru í viðkomandi lögum.

Rökin fyrir ofangreindu eru öll þau sömu og í greinargerð frumvarpinu nema auk þess að teknu tilliti til stjórnarskrárbundinnar jafnræðisreglu og réttlátrar málsmeðferðar, þannig að það sem þar kemur fram um að gætt hafi verið að samræmi við stjórnarskrá og ekki verði séð að frumvarpið geti haft neikvæð eða íþyngjandi áhrif fyrir almenning, samræmist raunverulegu efni frumvarpsins.

 


© Hannað af Filmís 

Hagsmunasamtök heimilanna voru stofnuð 15. janúar 2009 og eru frjáls og óháð hagsmunasamtök á neytendasviði, til varnar og hagsbóta fyrir heimilin í landinu.

Orð frá formanni

CEO 

Orð frá formanni Varlega áætlað hafa 15.000 fjölskyldur, 45.000 einstaklingar misst heimili sín frá hruni. Enginn hefur svarað fyrir það, hvað þá axlað á því ábyrgð. 

Þegar 15% þjóðarinnar missa heimili sín, gætir áhrifanna víða. Við sjáum þau í ástandinu á leigumarkaði og við sjáum þau líka í auknum kvíða meðal ungmenna og kulnun hjá þeim sem eldri eru.

Þegar fólk er svipt heimilum sínum glatar það öryggi sínu sínu og fótfestu. Þegar við bætist magnvana reiði og örvænting vegna óréttlætisins sem það stendur frammi fyrir ásamt hjálpar- og varnaleysinu sem það upplifir þegar heimilinu er hreinlega stolið af því, er ekki nema von að eitthvað láti undan.

Spillingin í þjóðfélaginu er djúp og hún á sér margar hliðar. Hún birtist ekki bara í háu húsnæðisverði og skelfilegum leigumarkaði eða háum vöxtum og verðtryggingu, hún birtist ekki bara í því hvernig lífeyrissjóðirnir misfara með fé okkar allra eða í „krónu á móti krónu“ skerðingu, hún birtist ekki bara í lágum launum verkafólks á meðan sjálftökufólk af ýmsum toga skammtar sjálfu sér milljónir, hún birtist ekki bara í spilltum dómstólum sem gæta hagsmuna „hinna sterku“ í dómum sínum eða í því hvernig lög- og stjórnaskrárvarin réttindi hafa verið brotin á neytendum frá hruni með skelfilegum afleiðingum.

Nei, hún birtist í þessu öllu og meiru til. Spillingin er djúp og teygir anga sína víða. Hana þarf að rífa upp með rótum til að hægt sé að byggja upp nýtt og betra þjóðfélag.

Fyrsta skrefið væri að að afnema verðtryggingu á lánum heimilanna! Öðruvísi er ekki hægt að skapa eðlilegan húsnæðismarkað eða stöðva sjálftöku fjármálastofnanna á tekjum fólks.

En til að takast á við ræturnar þarf að fara fram rannsókn á aðgerðum stjórnvalda eftir hrun. Jú það var líka spilling fyrir hrun, en þá urðu ákveðin vatnaskil og það var þá sem meðvituð ákvörðun var tekin um að fórna heimilum landsins fyrir bankana.

15.000 heimili eiga skilið að fá svör og uppreist æru.

Við biðjum ykkur um að styðja kröfuna um Rannsóknarskýrslu heimilanna!

Ásthildur Lóa Þórsdóttir
Formaður HH

Fylgstu með á samfélagsmiðlum