Ekki þarf lengur að framvísa frumriti við innheimtu skuldabréfs
Hagsmunasamtök heimilanna vekja athygli á því að samkvæmt nýföllnum dómi Landsréttar virðist mega krefja skuldara um greiðslu skuldar þó kröfuhafi geti ekki framvísað frumriti skuldabréfsins. Samkvæmt dómnum er nóg að hafa afrit skuldabréfs og að líkur séu á því að kröfuhafinn hafi einhvern tímann haft frumrit skuldabréfsins undir höndum, jafnvel þegar svipta á fólk lífsstarfi sínu.
Dómurinn er ávísun á stórfellda réttaróvissu þegar tekist er á um réttmæti skulda og hver sé eigandi skuldarinnar ef frumrit finnast ekki, því afrit skuldabréfa geta legið víða. Farið verður fram á áfrýjun til Hæstaréttar og við verðum öll að vona að þar geri Hæstiréttur það eina rétta í stöðunni og snúi dómi Landsréttar við.
Eins alvarlegt fordæmi og þessi dómur skapar, þá er hitt alvarlegra að hann er einungis einn dómurinn enn, í langri röð dóma á öllum dómstigum, þar sem málum er snúið á hvolf til að verja hagsmuni fjármálafyrirtækja og/eða hins svo kallaða „kerfis“. Þessi dómur er gott dæmi um það því með honum er allri sönnunarbyrði snúið við.
Meginreglan er sú að sá sem heldur einhverju fram verður að sanna staðhæfingu sína með óyggjandi hætti. Bankinn hélt því fram að hann hefði eignast skuldabréfið en gat ekki fært fram óyggjandi sannanir fyrir þeirri staðhæfingu. Það kom því í hlut skuldarans að reyna að afsanna þá staðhæfingu. Þar með var meginreglunni um sönnunarbyrði snúið við, skuldara í óhag.
Það má líkja þessu við að einstaklingur sem er sakaður um afbrot þurfi að sanna sakleysi sitt í stað þess að ákærandinn þurfi að sanna sök. Það væri í andstöðu við þá meginreglu að maður skuli teljast saklaus uns sekt er sönnuð.
Málið um „týnda skuldabréfið“ er dæmi um mál sem aldrei hefði átt að þurfa að fara fyrir dómstóla. Bankinn getur ekki framvísað skuldabréfinu og þar hefði málið átt að enda.
Fjármálafyrirtækin, sem hafa heilu lögfræðideildirnar í vinnu, taka litla áhættu með því að fara með mál sem þessi fyrir hliðholla dómstóla. Fyrir einstakling sem ekki vill láta traðka á réttindum sínum er áhættan aftur á móti mikil og kostnaðurinn meiri en venjulegt fólk ræður við.
Það á ekki að vera á „gráu svæði“ og „opið fyrir túlkun“ hvort fjármálafyrirtæki þurfi að framvísa frumriti við lok uppboðs. Leiki minnsti vafi á rétti kröfuhafa á skuldari/neytandi að njóta vafans. Þegar þar að auki er tekist á um lífsstarf og heimili skuldara ríður enn meira á því að lög- og stjórnarskrárvarin réttindi hans séu virt.
Skuldarinn hefði aldrei átt að þurfa að fara með svona „skýrt mál“ fyrir dóm og það að dæmt hafi verið gegn skýrum réttindum hans er vægast sagt ámælisvert og segir meira en mörg orð um veika stöðu skuldara gagnvart sterku og miskunnarlausu „kerfi“ samspillingar og fjármagns.
Fórnarlömbin í þessum „leikjum“ valdahafanna eru einstaklingar sem brotið er á af fjársterkum aðilum, menn, konur og börn, heimili landsins.
Hver kemur þeim til varnar?