Símatími

Mán - þri kl. 10-13

Hafa samband

heimilin@heimilin.is

Á döfinni

Úrskurðarnefnd lögmanna telur innheimtuhætti vegna smálána aðfinnsluverða

Hagsmunasamtök heimilanna vekja athygli á nýlegum úrskurði úrskurðarnefndar lögmanna í máli nr. 3/2019.

Úrskurðarnefndin komst að þeirri niðurstöðu að háttsemi Almennrar innheimtu ehf. við innheimtu vegna smáláns væri aðfinnsluverð, en fyrirtækið byggir starfsheimildir sínar á lögmannsréttindum Gísla Kr. Björnssonar, forsvarsmanns þess, sem fellur undir eftirlit Lögmannafélags Íslands.

Málið á rætur að rekja til smáláns sem var tekið hjá fyrirtækinu Múla árið 2013 og endurgreitt síðar sama ár, eða svo taldi neytandinn. Honum byrjuðu svo í desember 2018 að berast fjöldi auglýsinga með SMS skilaboðum frá Múla, sem er nú rekið af fyrirtækinu Ecommerce2020 í Danmörku. Hann hafði því samband við fyrirtækið og bað um að vera afskráður úr kerfum þess, en fékk þau svör að það væri ekki hægt þar sem í kerfinu væri skráð lán sem ekki hefði fengist greitt. Þessu mótmælti neytandinn og sagðist ekki skulda fyrirtækinu neitt.

Smálánafyrirtækið brást við þessu með því að “bjóða” neytandanum að “greiða aðeins höfuðstólinn til baka”. Samdægurs var stofnuð krafa í heimabanka hans, í nafni Almennrar innheimtu ehf., fyrir meintum höfuðstól lánsins auk dráttarvaxta og annars kostnaðar. Með fylgdi sú skýring að krafan væri samkvæmt “greiðslusamkomulagi” þrátt fyrir að ekkert slíkt samkomulag hefði verið gert.

Þessa háttsemi taldi úrskurðarnefndin aðfinnsluverða. Sú niðurstaða hefur þó að svo stöddu engar frekari afleiðingar í för með sér fyrir hið brotlega fyrirtæki eða forsvarsmenn þess, sem er mjög lýsandi fyrir erfiða stöðu neytenda á fjármálamarkaði. Neytendur í þessum sporum eiga oft mjög erfitt með að leita réttar síns en jafnvel þá eru afleiðingarnar litlar og ekki gripið til neinna aðgerða til að hindra áframhaldandi brot gegn öðrum neytendum í sambærilegri stöðu.

Hagsmunasamtök heimilanna hvetja til þess að innheimtulög verði endurskoðuð og þeim breytt þannig að starfsemi innheimtufyrirtækja verði gerð leyfisskyld í öllum tilvikum, burtséð frá því hvort eigendur þeirra séu lögmenn eða ekki.

Fjármálastarfsemi af þessum toga verður að lúta opinberu eftirliti og nauðsynlegt er að brot gegn réttindum neytenda á fjármálamarkaði hafi einhverjar afleiðingar fyrir brotlega aðila. Jafnframt er nauðsynlegt að eignarhald slíkra fyrirtækja verði rannsakað með tilliti til leyfisskyldu, þar á meðal hverjir séu raunverulegir eigendur þeirra með hliðsjón af lögum um varnir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, enda verður slík starfsemi að standast ítrustu kröfur þar að lútandi.

 


© Hannað af Filmís 

Hagsmunasamtök heimilanna voru stofnuð 15. janúar 2009 og eru frjáls og óháð hagsmunasamtök á neytendasviði, til varnar og hagsbóta fyrir heimilin í landinu.

Orð frá formanni

CEO 

Orð frá formanni Varlega áætlað hafa 15.000 fjölskyldur, 45.000 einstaklingar misst heimili sín frá hruni. Enginn hefur svarað fyrir það, hvað þá axlað á því ábyrgð. 

Þegar 15% þjóðarinnar missa heimili sín, gætir áhrifanna víða. Við sjáum þau í ástandinu á leigumarkaði og við sjáum þau líka í auknum kvíða meðal ungmenna og kulnun hjá þeim sem eldri eru.

Þegar fólk er svipt heimilum sínum glatar það öryggi sínu sínu og fótfestu. Þegar við bætist magnvana reiði og örvænting vegna óréttlætisins sem það stendur frammi fyrir ásamt hjálpar- og varnaleysinu sem það upplifir þegar heimilinu er hreinlega stolið af því, er ekki nema von að eitthvað láti undan.

Spillingin í þjóðfélaginu er djúp og hún á sér margar hliðar. Hún birtist ekki bara í háu húsnæðisverði og skelfilegum leigumarkaði eða háum vöxtum og verðtryggingu, hún birtist ekki bara í því hvernig lífeyrissjóðirnir misfara með fé okkar allra eða í „krónu á móti krónu“ skerðingu, hún birtist ekki bara í lágum launum verkafólks á meðan sjálftökufólk af ýmsum toga skammtar sjálfu sér milljónir, hún birtist ekki bara í spilltum dómstólum sem gæta hagsmuna „hinna sterku“ í dómum sínum eða í því hvernig lög- og stjórnaskrárvarin réttindi hafa verið brotin á neytendum frá hruni með skelfilegum afleiðingum.

Nei, hún birtist í þessu öllu og meiru til. Spillingin er djúp og teygir anga sína víða. Hana þarf að rífa upp með rótum til að hægt sé að byggja upp nýtt og betra þjóðfélag.

Fyrsta skrefið væri að að afnema verðtryggingu á lánum heimilanna! Öðruvísi er ekki hægt að skapa eðlilegan húsnæðismarkað eða stöðva sjálftöku fjármálastofnanna á tekjum fólks.

En til að takast á við ræturnar þarf að fara fram rannsókn á aðgerðum stjórnvalda eftir hrun. Jú það var líka spilling fyrir hrun, en þá urðu ákveðin vatnaskil og það var þá sem meðvituð ákvörðun var tekin um að fórna heimilum landsins fyrir bankana.

15.000 heimili eiga skilið að fá svör og uppreist æru.

Við biðjum ykkur um að styðja kröfuna um Rannsóknarskýrslu heimilanna!

Ásthildur Lóa Þórsdóttir
Formaður HH

Fylgstu með á samfélagsmiðlum