Aðalfundur 2022
Fundarboð aðalfundar
Hagsmunasamtök heimilanna boða hér með til aðalfundar, miðvikudagskvöldið 23. febrúar 2022 kl. 20:00, í hátíðarsal Hjálpræðishersins á Íslandi að Suðurlandsbraut 72, 108 Reykjavík.
Dagskrá:
- Skipun fundarstjóra, ritara, og fundarsetning
- Skýrsla stjórnar: Ásthildur Lóa Þórsdóttir, formaður
- Reikningar samtakanna: Sigríður Örlygsdóttir, gjaldkeri
- Tillaga stjórnar um ákvörðun félagsgjalda
- Tillögur um breytingar á samþykktum
- Kosning stjórnarmanna
- Kosning varamanna
- Kosning skoðunarmanna
- Önnur mál
Eftirfarandi tillögur um breytingar á samþykktum verða lagðar fyrir fundinn:
A. Vegna laga um félög til almannaheilla nr. 110/2021
1. Á eftir orðunum “Hagsmunasamtök heimilanna” í 1. mgr. 1. gr. kemur: fta.
2. Við 1. gr. bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
Samtökin starfa samkvæmt lögum nr. 110/2021 um félög til almannaheilla.
3. Við 2. gr. bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
Þar sem ákvæði þessara samþykkta segja ekki til um hvernig með skuli farið skal hlíta ákvæðum laga nr. 110/2021 um félög til almannaheilla, svo og öðrum lagaákvæðum er við geta átt.
4. Við 1. mgr. 12. gr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi:
Félagsmenn bera ekki persónulega ábyrgð á skuldbindingum félagsins nema með félagsgjaldi sínu.
Tillaga að ályktun: Aðalfundur Hagsmunasamtaka heimilanna 2022 ályktar að fela stjórn samtakanna að sækja um skráningu samtakanna á almannaheillafélagaskrá samkvæmt lögum um félög til almannaheilla og almannaheillaskrá fyrirtækjaskrár skattsins samkvæmt lögum um tekjuskatt.
Greinargerð: Þessar breytingar eru nauðsynlegar til að uppfylla skilyrði laga nr. 110/2021 um félög til almannaheilla í því skyni að samtökin geti öðlast opinbera skráningu sem slík samtök. Verði þær samþykktar er jafnframt lagt til að stjórn samtakanna verði falið að sækja um slíka skráningu.
B. Vegna réttar- og hagsmunagæslu fyrir hönd félagsmanna og neytenda
1. Við 3. gr. bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
Samtökin koma fram fyrir hönd félagsmanna og neytenda á fjármálamarkaði í hverskyns hagsmunamálum, svo sem varðandi löggjöf, framkvæmd hennar og í dómsmálum eða hverjum öðrum málferlum er snerta réttindi þeirra.
2. Eftirfarandi breytingar verða á 4. gr.:
a. Á eftir orðinu “vegna” í 2. mgr. kemur: brota gegn réttindum neytenda eða.
b. Við 4. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi:
Í því skyni geta samtökin höfðað dómsmál eða leitað annarra réttarúrræða til að vernda heildarhagsmuni neytenda og stutt neytendur í fordæmisgefandi málum.
c. Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
Samtökin geta unnið að tilgangi sínum og markmiðum með aðild að og þátttöku í starfsemi félagasambanda sem hafa samrýmanlegan tilgang og markmið.
Greinargerð: Þessar tillögur taka meðal annars mið af 2. mgr. 2. gr. laga Öryrkjabandalags Íslands og hafa þann tilgang að árétta aðildarhæfi HH í hverskyns hagsmunamálum félagsmanna og neytenda á fjármálamarkaði. Vegna aðildar HH að heildarsamtökum á borð við Almannaheill og EAPN er einnig lagt til að sérstaklega komi fram að slíkt samstarf samræmist markmiðum HH.
Framboðsfrestur til stjórnarkjörs er 7 dögum fyrir aðalfund eða til 16. febrúar kl. 20:00.
Framboð má tilkynna með tölvupósti á netfang samtakanna: This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.. Einnig er óskað eftir tilnefningum skoðunarmanna og sjálfboðaliðum í talningu atkvæða á fundinum. Fundargögn verða birt á heimasíðu samtakanna neytendatorg.is í aðdraganda aðalfundarins.
ATH. vegna sóttvarna eru fundarmenn hvattir til að hafa með sér andlitsgrímu og gæta þess að virða 1 metra fjarlægðarmörk, en húsnæðið er rúmgott og ætti það því ekki að verða til vandkvæða.
Bestu kveðjur,