Símatími

Mán - þri kl. 10-13

Hafa samband

heimilin@heimilin.is

Á döfinni

Reykjavíkurborg endurgreiðir umsækjendum um greiðsluaðlögun oftekna dráttarvexti

Reykjavíkurborg endurgreiðir umsækjendum um greiðsluaðlögun oftekna dráttarvexti

Fréttatilkynning

Föstudaginn 22. janúar sl. birtist tilkynning á vef Reykjavíkurborgar þar sem kom fram að borgin muni endurgreiða oftekna dráttarvexti af fasteignagjöldum sem lagðir voru á einstaklinga sem höfðu leitað greiðsluaðlögunar hjá embætti umboðsmanns skuldara.

Með dómi Hæstaréttar 8. mars 2018 í máli nr. 159/2017, var staðfest að kröfuhöfum væri óheimilt að krefjast dráttarvaxta af kröfum á því tímabili sem einstaklingar hefðu notið tímabundinnar frestunar greiðslna eða á tímabili svokallaðs greiðsluskjóls vegna greiðsluaðlögunarumleitana.

Reykjavíkurborg segist nú hafa lokið við að reikna út oftekna dráttarvexti fasteignagjalda sem verða endurgreiddir og þeim sem eiga rétt á endurgreiðslu verði gert viðvart bréflega um endurútreikning á næstunni. Um leið og þessu ber að fagna, er engu að síður óhjákvæmilegt að gagnrýna hversu langan tíma hefur tekið að ná fram þessari sjálfsögðu leiðréttingu, (Tilkynning á vef Reykjavíkurborgar og dómur Hæstaréttar 8. mars 2018 í máli nr. 159/2017)

Dráttarvextir á opinber gjöld í greiðsluskjóli

Eftir að niðurstaða Hæstaréttar lá fyrir kom fram að fjármálafyrirtæki sem höfðu lagt dráttarvexti á skuldir einstaklinga sem voru í greiðsluskjóli myndu endurgreiða mismun þeirra og samningsvaxta. Hagsmunasamtök heimilanna urðu hins vegar í kjölfarið áskynja um þá afstöðu Reykjavíkurborgar að dómurinn ætti ekki við um opinber gjöld, með vísan til álits borgarlögmanns frá mars 2012, löngu áður en dómurinn féll, sem var þar með orðið úrelt enda í andstöðu við dóminn.

Hagsmunasamtök heimilanna beindu erindi um málið til samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins í september 2019 þar sem var vakin athygli á andstöðu Reykjavíkurborgar og Akureyrarbæjar við að fara eftir niðurstöðum Hæstaréttardómsins. Farið var fram á að kannað yrði hvort það sama ætti við um fleiri sveitarfélög og að ráðuneytið myndi beita sér fyrir leiðréttingu á þessu. 

Erindi ráðuneytisins til Reykjavíkurborgar var svarað með bréfi borgarlögmanns í nóvember 2019, þar sem komist var að nýrri niðurstöðu og viðurkennt að dómurinn ætti einnig við um dráttarvexti af opinberum gjöldum. Þegar nokkuð var liðið af árinu 2020 og ekkert bólaði á endurgreiðslum höfðu samtökin aftur samband við ráðuneytið og ítrekuðu erindið margsinnis það ár.

Núna meira en ári eftir að viðurkenning borgarlögmanns lá fyrir og næstum þremur árum eftir dóm Hæstaréttar vottar loksins fyrir löghlýðni borgarinnar. Allan þann tíma hefur borgin verið brotleg við lög og niðurstöður dómstóla, sem er ámælisvert að mati samtakanna. Jafnframt er það í hæsta máta ámælisvert af hálfu Akureyrarbæjar að þráast við að fara eftir skýrri niðurstöðu Hæstaréttar Íslands og hafa samtökin beint því til sveitarstjórnarráðuneytisins að skerast þar í leikinn.

Fyrir utan Reykjavík og Akureyri er samtökunum kunnugt um að Reykjanesbær hafi lagt dráttarvexti á fasteignagjöld í greiðsluskjóli, en hafi strax í kjölfar dóms Hæstaréttar fallist á að fara eftir honum og endurgreiða oftekna vexti. Ekki liggur þó fyrir hvort lokið hafi verið við það eða hvernig staðið var að því. Samtökunum er á hinn bóginn kunnugt um að Kópavogsbær hafi ekki lagt dráttarvexti á opinber gjöld einstaklinga í greiðsluskjóli. Ekki er kunnugt um stöðu mála í öðrum sveitarfélögum en samtökin óska eftir ábendingum þar að lútandi frá félagsmönnum og almenningi.

Hagsmunasamtök heimilanna hvetja einstaklinga sem hafa á einhverju tímabili verið í greiðsluskjóli vegna umsóknar um greiðsluaðlögun til að kanna hvort dráttarvextir hafi verið lagðir á fasteignagjöld eða önnur opinber gjöld þeirra. Hafi það verið gert er rétt að beina kröfu til viðkomandi sveitarfélags um endurgreiðslu oftekinna vaxta með dráttarvöxtum. Það sama gæti átt við aðrar lögveðskröfur, svo sem skuldir við veitustofnanir eða hússjóð í fjölbýlishúsi. Þeir sem þurfa aðstoð við þetta geta leitað til Hagsmunasamtaka heimilanna með tölvupósti á This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it..

Hagsmunasamtök heimilanna




© Hannað af Filmís 

Hagsmunasamtök heimilanna voru stofnuð 15. janúar 2009 og eru frjáls og óháð hagsmunasamtök á neytendasviði, til varnar og hagsbóta fyrir heimilin í landinu.

Orð frá formanni

CEO 

Orð frá formanni Varlega áætlað hafa 15.000 fjölskyldur, 45.000 einstaklingar misst heimili sín frá hruni. Enginn hefur svarað fyrir það, hvað þá axlað á því ábyrgð. 

Þegar 15% þjóðarinnar missa heimili sín, gætir áhrifanna víða. Við sjáum þau í ástandinu á leigumarkaði og við sjáum þau líka í auknum kvíða meðal ungmenna og kulnun hjá þeim sem eldri eru.

Þegar fólk er svipt heimilum sínum glatar það öryggi sínu sínu og fótfestu. Þegar við bætist magnvana reiði og örvænting vegna óréttlætisins sem það stendur frammi fyrir ásamt hjálpar- og varnaleysinu sem það upplifir þegar heimilinu er hreinlega stolið af því, er ekki nema von að eitthvað láti undan.

Spillingin í þjóðfélaginu er djúp og hún á sér margar hliðar. Hún birtist ekki bara í háu húsnæðisverði og skelfilegum leigumarkaði eða háum vöxtum og verðtryggingu, hún birtist ekki bara í því hvernig lífeyrissjóðirnir misfara með fé okkar allra eða í „krónu á móti krónu“ skerðingu, hún birtist ekki bara í lágum launum verkafólks á meðan sjálftökufólk af ýmsum toga skammtar sjálfu sér milljónir, hún birtist ekki bara í spilltum dómstólum sem gæta hagsmuna „hinna sterku“ í dómum sínum eða í því hvernig lög- og stjórnaskrárvarin réttindi hafa verið brotin á neytendum frá hruni með skelfilegum afleiðingum.

Nei, hún birtist í þessu öllu og meiru til. Spillingin er djúp og teygir anga sína víða. Hana þarf að rífa upp með rótum til að hægt sé að byggja upp nýtt og betra þjóðfélag.

Fyrsta skrefið væri að að afnema verðtryggingu á lánum heimilanna! Öðruvísi er ekki hægt að skapa eðlilegan húsnæðismarkað eða stöðva sjálftöku fjármálastofnanna á tekjum fólks.

En til að takast á við ræturnar þarf að fara fram rannsókn á aðgerðum stjórnvalda eftir hrun. Jú það var líka spilling fyrir hrun, en þá urðu ákveðin vatnaskil og það var þá sem meðvituð ákvörðun var tekin um að fórna heimilum landsins fyrir bankana.

15.000 heimili eiga skilið að fá svör og uppreist æru.

Við biðjum ykkur um að styðja kröfuna um Rannsóknarskýrslu heimilanna!

Ásthildur Lóa Þórsdóttir
Formaður HH

Fylgstu með á samfélagsmiðlum