Reykjavíkurborg endurgreiðir umsækjendum um greiðsluaðlögun oftekna dráttarvexti
Fréttatilkynning
Föstudaginn 22. janúar sl. birtist tilkynning á vef Reykjavíkurborgar þar sem kom fram að borgin muni endurgreiða oftekna dráttarvexti af fasteignagjöldum sem lagðir voru á einstaklinga sem höfðu leitað greiðsluaðlögunar hjá embætti umboðsmanns skuldara.
Með dómi Hæstaréttar 8. mars 2018 í máli nr. 159/2017, var staðfest að kröfuhöfum væri óheimilt að krefjast dráttarvaxta af kröfum á því tímabili sem einstaklingar hefðu notið tímabundinnar frestunar greiðslna eða á tímabili svokallaðs greiðsluskjóls vegna greiðsluaðlögunarumleitana.
Reykjavíkurborg segist nú hafa lokið við að reikna út oftekna dráttarvexti fasteignagjalda sem verða endurgreiddir og þeim sem eiga rétt á endurgreiðslu verði gert viðvart bréflega um endurútreikning á næstunni. Um leið og þessu ber að fagna, er engu að síður óhjákvæmilegt að gagnrýna hversu langan tíma hefur tekið að ná fram þessari sjálfsögðu leiðréttingu, (Tilkynning á vef Reykjavíkurborgar og dómur Hæstaréttar 8. mars 2018 í máli nr. 159/2017)
Dráttarvextir á opinber gjöld í greiðsluskjóli
Eftir að niðurstaða Hæstaréttar lá fyrir kom fram að fjármálafyrirtæki sem höfðu lagt dráttarvexti á skuldir einstaklinga sem voru í greiðsluskjóli myndu endurgreiða mismun þeirra og samningsvaxta. Hagsmunasamtök heimilanna urðu hins vegar í kjölfarið áskynja um þá afstöðu Reykjavíkurborgar að dómurinn ætti ekki við um opinber gjöld, með vísan til álits borgarlögmanns frá mars 2012, löngu áður en dómurinn féll, sem var þar með orðið úrelt enda í andstöðu við dóminn.
Hagsmunasamtök heimilanna beindu erindi um málið til samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins í september 2019 þar sem var vakin athygli á andstöðu Reykjavíkurborgar og Akureyrarbæjar við að fara eftir niðurstöðum Hæstaréttardómsins. Farið var fram á að kannað yrði hvort það sama ætti við um fleiri sveitarfélög og að ráðuneytið myndi beita sér fyrir leiðréttingu á þessu.
Erindi ráðuneytisins til Reykjavíkurborgar var svarað með bréfi borgarlögmanns í nóvember 2019, þar sem komist var að nýrri niðurstöðu og viðurkennt að dómurinn ætti einnig við um dráttarvexti af opinberum gjöldum. Þegar nokkuð var liðið af árinu 2020 og ekkert bólaði á endurgreiðslum höfðu samtökin aftur samband við ráðuneytið og ítrekuðu erindið margsinnis það ár.
Núna meira en ári eftir að viðurkenning borgarlögmanns lá fyrir og næstum þremur árum eftir dóm Hæstaréttar vottar loksins fyrir löghlýðni borgarinnar. Allan þann tíma hefur borgin verið brotleg við lög og niðurstöður dómstóla, sem er ámælisvert að mati samtakanna. Jafnframt er það í hæsta máta ámælisvert af hálfu Akureyrarbæjar að þráast við að fara eftir skýrri niðurstöðu Hæstaréttar Íslands og hafa samtökin beint því til sveitarstjórnarráðuneytisins að skerast þar í leikinn.
Fyrir utan Reykjavík og Akureyri er samtökunum kunnugt um að Reykjanesbær hafi lagt dráttarvexti á fasteignagjöld í greiðsluskjóli, en hafi strax í kjölfar dóms Hæstaréttar fallist á að fara eftir honum og endurgreiða oftekna vexti. Ekki liggur þó fyrir hvort lokið hafi verið við það eða hvernig staðið var að því. Samtökunum er á hinn bóginn kunnugt um að Kópavogsbær hafi ekki lagt dráttarvexti á opinber gjöld einstaklinga í greiðsluskjóli. Ekki er kunnugt um stöðu mála í öðrum sveitarfélögum en samtökin óska eftir ábendingum þar að lútandi frá félagsmönnum og almenningi.
Hagsmunasamtök heimilanna hvetja einstaklinga sem hafa á einhverju tímabili verið í greiðsluskjóli vegna umsóknar um greiðsluaðlögun til að kanna hvort dráttarvextir hafi verið lagðir á fasteignagjöld eða önnur opinber gjöld þeirra. Hafi það verið gert er rétt að beina kröfu til viðkomandi sveitarfélags um endurgreiðslu oftekinna vaxta með dráttarvöxtum. Það sama gæti átt við aðrar lögveðskröfur, svo sem skuldir við veitustofnanir eða hússjóð í fjölbýlishúsi. Þeir sem þurfa aðstoð við þetta geta leitað til Hagsmunasamtaka heimilanna með tölvupósti á This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it..