Símatími

Mán - þri kl. 10-13

Hafa samband

heimilin@heimilin.is

Á döfinni

Skráning umdeildra skulda á vanskilaskrá er óheimil

Skráning umdeildra skulda á vanskilaskrá er óheimil

  • Lögheimtan og Creditinfo virtu fyrri úrskurð persónuverndar að vettugi þrátt fyrir athugasemdir og brutu ítrekað gegn neytanda.

Persónuvernd hefur birt úrskurð í máli neytanda sem kvartaði yfir skráningu á vanskilaskrá Creditinfo Lánstrausts hf., með liðsinni Hagsmunasamtaka heimilanna. Málið á rætur að rekja til ágreinings við Landsbankann um uppgjör eftirstöðva bílaláns með ólöglegri gengistryggingu.

Lögheimtan, sem fór með innheimtu lánsins, reyndi ítrekað að skrá skuldina á vanskilaskrá Creditinfo, þrátt fyrir að vera fyllilega ljóst að hún væri umdeild. Samkvæmt skilyrðum starfsleyfis Creditinfo er óheimilt að skrá umdeildar kröfur á vanskilaskrá, en þrátt fyrir það þurfti neytandinn árum saman að standa í sífelldum bréfasendingum til að mótmæla slíkum skráningum.

Lögheimtan höfðaði á endanum dómsmál til að innheimta skuldina og tókst að sannfæra dómara um að fallast á kröfu bankans. Fjórum dögum eftir að dómurinn var kveðinn upp í héraði fór Lögheimtan fram á að upplýsingar um hann yrðu skráðar á vanskilaskrá, en þá voru 24 dagar eftir af lögbundnum fresti til að áfrýja dómnum til Landsréttar. Með því virti Lögheimtan að vettugi eldri úrskurð í máli félagsmanns Hagsmunasamtaka heimilanna þar sem Persónuvernd kvað á um að Lögheimtunni hefði verið óheimilt að skrá dóm á vanskilaskrá sem enn væri unnt að áfrýja.

Daginn eftir að beiðni um skráningu dómsins á vanskilaskrá barst Creditinfo var neytandanum send tilkynning um að vanskil yrðu skráð 17 dögum síðar ef upplýsingar um uppgjör skuldarinnar myndu ekki berast innan þess tíma. Neytandinn mótmælti skráningunni rúmum sólarhring áður en sá frestur rann út en engu að síður var skuldin skráð á vanskilaskrá daginn áður en fresturinn rann út þegar enn voru 6 dagar eftir af áfrýjunarfresti dómsins. Þrátt fyrir að neytandinn hygðist áfrýja dómnum neitaði Creditinfo að afskrá hann af vanskilaskrá og varð ekki við mótmælunum fyrr en neytandinn hafði sótt um áfrýjunarleyfi og komið gögnum því til staðfestingar á framfæri.

Með liðsinni Hagsmunasamtaka heimilanna beindi neytandinn í kjölfarið kvörtun til Persónuverndar yfir fyrrnefndri háttsemi Lögheimtunnar og Creditinfo, sem hefur nú um tveimur árum seinna komist að niðurstöðu. Með úrskurðinum er staðfest að miðlun Lögheimtunnar á upplýsingum um dóminn til Creditinfo og færsla þeirra upplýsinga á vanskilaskrá áður en sá dómur varð endanlegur, hefði brotið gegn lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga nr. 90/2018.

Hagsmunasamtök heimilanna hvetja neytendur sem eiga í ágreiningi við kröfuhafa til að vera vel á varðbergi gagnvart óréttmætum skráningum á vanskilaskrá, því þær geta haft mjög neikvæð áhrif á lánshæfismat og frelsi hins skráða til viðskipta á fjármálamarkaði. Neytendur sem telja á sér brotið geta leitað til samtakanna eftir óháðri ráðgjöf um réttarstöðu sína.


© Hannað af Filmís 

Hagsmunasamtök heimilanna voru stofnuð 15. janúar 2009 og eru frjáls og óháð hagsmunasamtök á neytendasviði, til varnar og hagsbóta fyrir heimilin í landinu.

Orð frá formanni

CEO 

Orð frá formanni Varlega áætlað hafa 15.000 fjölskyldur, 45.000 einstaklingar misst heimili sín frá hruni. Enginn hefur svarað fyrir það, hvað þá axlað á því ábyrgð. 

Þegar 15% þjóðarinnar missa heimili sín, gætir áhrifanna víða. Við sjáum þau í ástandinu á leigumarkaði og við sjáum þau líka í auknum kvíða meðal ungmenna og kulnun hjá þeim sem eldri eru.

Þegar fólk er svipt heimilum sínum glatar það öryggi sínu sínu og fótfestu. Þegar við bætist magnvana reiði og örvænting vegna óréttlætisins sem það stendur frammi fyrir ásamt hjálpar- og varnaleysinu sem það upplifir þegar heimilinu er hreinlega stolið af því, er ekki nema von að eitthvað láti undan.

Spillingin í þjóðfélaginu er djúp og hún á sér margar hliðar. Hún birtist ekki bara í háu húsnæðisverði og skelfilegum leigumarkaði eða háum vöxtum og verðtryggingu, hún birtist ekki bara í því hvernig lífeyrissjóðirnir misfara með fé okkar allra eða í „krónu á móti krónu“ skerðingu, hún birtist ekki bara í lágum launum verkafólks á meðan sjálftökufólk af ýmsum toga skammtar sjálfu sér milljónir, hún birtist ekki bara í spilltum dómstólum sem gæta hagsmuna „hinna sterku“ í dómum sínum eða í því hvernig lög- og stjórnaskrárvarin réttindi hafa verið brotin á neytendum frá hruni með skelfilegum afleiðingum.

Nei, hún birtist í þessu öllu og meiru til. Spillingin er djúp og teygir anga sína víða. Hana þarf að rífa upp með rótum til að hægt sé að byggja upp nýtt og betra þjóðfélag.

Fyrsta skrefið væri að að afnema verðtryggingu á lánum heimilanna! Öðruvísi er ekki hægt að skapa eðlilegan húsnæðismarkað eða stöðva sjálftöku fjármálastofnanna á tekjum fólks.

En til að takast á við ræturnar þarf að fara fram rannsókn á aðgerðum stjórnvalda eftir hrun. Jú það var líka spilling fyrir hrun, en þá urðu ákveðin vatnaskil og það var þá sem meðvituð ákvörðun var tekin um að fórna heimilum landsins fyrir bankana.

15.000 heimili eiga skilið að fá svör og uppreist æru.

Við biðjum ykkur um að styðja kröfuna um Rannsóknarskýrslu heimilanna!

Ásthildur Lóa Þórsdóttir
Formaður HH

Fylgstu með á samfélagsmiðlum