Góður fundur í Iðnó
Sjá má fundinn hér á hjariveraldar.is
Fullt var út úr dyrum á borgarafundi sem haldinn var í Iðnó á mánudagskvöld 28. júní á vegum Borgarafunda. Pétur Blöndal, Gylfi Magnússon, Lilja Mósesdóttir og Guðmundur Andri Skúlason fluttu erindi og í kjölfarið komu spurningar úr sal og umræður. Marinó G Njálsson var fulltrúi Hagsmunasamtaka heimilanna í pallborði en Ragnar Baldursson hrl sat einnig fyrir svörum en við höfum ekki nöfn annarra sem voru í pallborði. Gunnar Sigurðsson stjórnaði fundinum.
Málflutningur viðskiptaráðherra var fyrirsjáanlegur og kom því miður ekkert nýtt frá honum að þessu sinni. Pétur Blöndal var hressilegur að vanda, hann stillir sér fyrirsjáanlega upp sem verndara sparifjáreigenda. Heimilin eru nefnilega stærstu sparifjáreigendur landsins en það fé er reyndar bundið að mestu í fasteignum heimilanna. Af einhverjum ástæðum hefur PB einskorðað vernd sína við sparifjáreigendur sem eiga peningaeignir, flestir aðrir teljast skuldarar í hans huga og "naflaskoðarar" eins og hann komst að orði í erindi sínu.
Lilja lagði áherslu á mikilvægi almennra aðgerða og að komið væri í veg fyrir að öll mál væri rekin með tilheyrandi kostnaði í gegn um dómskerfið. Málflutningur Lilju er mjög í takt við tillögur HH.
Guðmundur Andri eða Gandri eins hann er oft kallaður spurði "leiðinlegra" spurninga eins og "Af hverju á almenningur að greiða fyrir tap bankanna?" Ef lántakar eiga að ósekju að fjármagna bankanna væri kannski eðlilegt að þeir fengju hlut í þeim í staðinn eða hvað? Fundargestum fannst þessar spurningar Gandra alls ekki leiðinlegar og klöppuðu mikið fyrir góðu erindi hans.
Eins og Marinós er vona og vísa kom hann með tölulegar upplýsingar sem sjálfsagt komu mörgum á óvart. Pétur Blöndal heldur því statt og stöðugt fram að íslendingar spari lítið og eyði miklu en eftir sem áður virðast vera yfir 4.000 milljarðar í bankakerfinu í eigu sparifjáreigenda. Þar af eru 2200 milljarðar inneignir, 1.600 milljarðar lífeyrissparnaður og 400 milljarðar séreignasparnaður.
Ragnar Baldursson sagði hæstaréttardómana sem voru umfjöllunarefni fundarins skírari en margir vildu vera láta. Hann sagði dómstóla dæma eftir lögunum og engu öðru. Inn í þá jöfnu væru hvorki settar réttlætisbreytur né sanngirnislitir, aðeins lögin og málflutningurinn. Sagði ekki margt en lét það telja sem hann sagði.