Umboðsmaður Alþingis krefur SÍ og FME svara
Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis hefur sent Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitinu fyrirspurn vegna tilmæla þeirra síðarnefndu til fjármálafyrirtækja varðandi dóm Hæstaréttar um lögmæti gengistryggingar lánasamninga. UA gefur engar undankomuleiðir í bréfinu. Svörin skulu tilgreina og rökstyðja lagagrundvöll og ásetning tilmælanna auk þess að afhend skulu þau gögn sem rökstuðningur og ákvarðanaferlið byggja á.
Að mati Hagsmunasamtaka heimilanna brutu FME og SÍ lög með tilmælunum eins og umboðsmaður vísar til að kunni að vera raunin. Stofnanir þessar gengu fram grímulaust sem einhverskonar sérlegir verndarar eða talsmenn fjármálafyrirtækja og eigenda þeirra. Lántakar eru jafn mikilvægir öðrum leikmönnum í fjármálakerfinu en hlutverk þeirra og hagsmunir voru hér fyrir borð bornir. Hér skal einnig bent á að SÍ og FME eru stofnanir sem eru með beinum hætti ábyrgar fyrir því að lögbrot bankanna viðgengust, hvað þessi tilteknu lán varðar svo ekki sé minnst á ábyrgðalaus útlán bankanna til innherja ofl. Þrátt fyrir ábendingar og fyrirspurnir Hagsmunasamtaka heimilanna fyrir rúmu ári síðan virðast yfirmenn þessara stofnana engar sjálfstæðar athuganir hafa gert á lögmæti lána með gjaldeyrisviðmið og vísuðu fyrirspurnum á aðra eins og þeim kæmi þetta ekkert við.
Telja má víst að SÍ hafi komið að samningum um yfirtöku lánasafna í hinum nýju bönkum í það minnsta sem ráðgjafi og FME hefur væntanlega lagt blessun sína yfir þá samninga. Þetta er gert vitandi vits um þá óvissu sem bent hafði verið á ítrekað bæði af Hagsmunasamtökum heimilanna, Birni Þorra Viktorssyni hæstaréttarlögmanni, Gunnari Tómassyni hagfræðingi og fleiri aðilum lærðum og leikum.
Tapi ríkissjóður fé vegna samninganna og þeirrar niðurstöðu hæstaréttar sem fyrir liggur er það bein afleiðing stórkostlegra endurtekinna mistaka þeirra embættismanna sem taka ákvarðanir hjá stofnunum þessum. Menn geta hvorki skýlt sér á bak við skort á vitneskju né síðari aðkomu að málum. Vitneskjan um lagaóvissu hefur verið á allra vitorði síðan í febrúar 2009 þegar Marinó G. Njálsson ofl. bentu opinberlega á þær lagagreinar sem um ræðir. Í ofanálag gerði talsmaður fjármálafyrirtækjanna sjálfra athugasemd við umrædd lög þegar þau voru í meðferð þingnefndar Alþingis. Það hlýtur að teljast grundvallar hlutverk bæði SÍ og FME að hafa innanborðs djúpa þekkingu einmitt á þeim lögum er varða vexti og vaxtakjör í landinu, þ.e. þau lög sem í reynd eru alfa og omega allrar innlendrar fjármálastarfsemi. Stofnanir þessar eru nú uppvísar að því að vanrækja aðhald og eftirlit á breiðu sviði og bíta svo höfuðið af skömminni með því að ganga fram fyrir skjöldu til að verja lögbrot og hvetja til áframhaldandi lögbrota.
Ábyrgðarmenn innan þessara stofnana hljóta nú að íhuga afsögn. Trúnaður gagnvart almenningi hefur verið þverbrotinn og traust til þessara stofnana hefur sokkið niður í duftið. Menn geta ekki bara haldið áfram nú eins og ekkert hafi gerst. Fúskinu verður að linna.