Rangfærslur í Silfrinu
Hagsmunasamtök heimilanna harma rangfærslur í Silfrinu og senda því frá sér eftirfarandi yfirlýsingu.
Helga Guðrún Jónasdóttir, frambjóðandi til embættis formanns VR, var gestur í Silfrinu á RÚV í gær, sunnudaginn 28. febrúar. Þar hélt frambjóðandinn því fram að það væri rangt að stjórn Lífeyrissjóðs verzlunarmanna hefði gerst brotleg við lög með því að ákveða að hækka breytilega vexti verðtryggðra sjóðfélagalána í maí 2019.
Hið rétta er að með því að taka sér geðþóttavald til að hækka vexti sjóðfélagalána umfram það viðmið sem lá þeim til grundvallar, braut stjórn Lífeyrissjóðs verzlunarmanna gegn lögum um neytendalán og réttindum sjóðfélaga sinna, sem eru margir hverjir félagsmenn í Hagsmunasamtökum heimilanna. Á vettvangi samtakanna varð strax ljóst að ákvörðunin væri í andstöðu við lög um neytendalán og var því komið á framfæri við Ragnar Þór Ingólfsson formann VR, ásamt því að beina formlegri kvörtun til Neytendastofu yfir hækkuninni og þeim skilmálum sem hún byggðist á.
Með ákvörðun nr. 59/2019 dags. 19. desember 2019 komst Neytendastofa að þeirri niðurstöðu að Lífeyrissjóður verzlunarmanna hefði brotið gegn nánar tilgreindum ákvæðum laga um neytendalán og tók þannig undir kvörtun Hagsmunasamtaka heimilanna. Lífeyrissjóðurinn áfrýjaði þeirri ákvörðun ekki heldur kaus að una henni, leiðrétta vextina og endurgreiða þá vexti sem höfðu verið ofteknir af sjóðfélögum frá því að hækkunin kom til framkvæmdar. Þannig viðurkenndi stjórn lífeyrissjóðsins að hækkunin hefði verið andstæð lögum, eins og samtökin byggðu kvörtun sína á.
Hagsmunasamtök heimilanna harma ofangreindar rangfærslur og gagnrýna slíkan málflutning, sem gengur gegn lögbundnum réttindum neytenda og er til þess fallinn að gera lítið úr því mikilvæga starfi sem er unnið á vettvangi samtakanna til að verja þau réttindi. Að mati samtakanna fara hagsmunir félagsmanna þeirra, félagsmanna í VR, sem og neytenda almennt, algjörlega saman þegar kemur að vörnum gegn því að auknar álögur séu lagðar á heimili þeirra með geðþóttaákvörðunum sem brjóta í bága við gildandi lög í landinu. Það skýtur því óneitanlega skökku við að frambjóðandi til embættis formanns slíkra samtaka skuli tala gegn réttindum félagsmanna með þessum hætti.
Það er afar mikilvægt að allir sem bjóða sig fram til að gegna störfum í þágu almennings, gæti þess í hvívetna að byggja málflutning sinn á réttum upplýsingum og staðreyndum.
Hagsmunasamtök heimilanna
Vaxtahækkun Arion banka var óheimil
Fréttatilkynning
Neytendastofa hefur komist að þeirri niðurstöðu með ákvörðun sinni að vaxtahækkun Arion banka á tilteknum flokki húsnæðislána hafi brotið gegn neytendaverndarlögum. Ákvörðunin á rætur að rekja til kvörtunar Hagsmunasamtaka heimilanna fyrir hönd félagsmanns sem ofgreiddi vexti af tveimur húsnæðislánum í rúm fjögur ár, frá því að Arion banki hækkaði þá í apríl 2015. Sjá niðurstöðu hér.
Hræðsluáróður um óverðtryggð lán
Fréttatilkynning
Nýlega hafa bæði varaseðlabankastjóri og Húsnæðis- og mannvirkjastofnun talið ástæðu til að vara við því að breytilegir vextir óverðtryggðra lána geti hækkað. Rétt eins og það sé ekki augljóst hvað orðið “breytilegir” þýðir eða neytendur geri sér ekki grein fyrir því að slíkar breytingar geti orðið bæði til hækkunar og lækkunar.
AÐVÖRUN TIL NEYTENDA: Skoðið vaxtaskilmála lánssamninga ykkar
Neytendastofa hefur ítrekað staðfest að ýmsar útgáfur lánaskilmála um breytilega vexti brjóti í bága við lög um neytendalán og vaxtahækkanir á grundvelli þeirra hafi því verið ólögmætar.