Símatími

Mán - þri kl. 10-13

Hafa samband

heimilin@heimilin.is

Á döfinni

Svör framboða í Alþingiskosningum 2016 við spurningum HH

Það hefur án efa vakið athygli margra, félagsmanna sem og annarra, að afnám verðtryggingar hefur verið minna í umræðunni í aðdraganda þessara kosninga en oft áður. Hverju það sætir er erfitt að henta reiður á með vissu eða afgerandi hætti. Þó má benda á að ríkisrekinn fjölmiðill landsmanna batt þannig um hnútana að umræður um húsnæðismál voru settar undir einn hatt og verðtryggingin var ekki dregin sérstaklega fram í umræðunni. Það var því fjallað um húsnæðismál á víðum grundvelli í umfjöllun RÚV. Þetta hefur óneitanlega vegið þungt á metunum. Þó kemur fram í nýafstaðinni netkönnun RÚV, þar sem verðtryggingin og afnám hennar kemur loks við sögu að meirihluti þáttakenda er hlynntur afnámi.

 

Við viljum minna á að stór meirihluti aðspurðra í viðhorfskönnunum Gallup fyrir Hagsmunasamtök heimilanna sögðust hlynntir afnámi verðtryggingar eða eru óákveðnir. Þeir sem eru andvígir afnámi verðtryggingar eru hinsvegar einungis 14,2% aðspurðra. Hugsanleg ástæða þess að verðtryggingin hefur lítið verið í umræðunni síðustu misseri gæti verið sú að ljóst var orðið að Framsóknarflokknum myndi ekki takast að fylgja sínu kosningarloforði eftir um skilyrðislaust afnám verðtryggingar neytendalána. Það breytir hins vegar engu um það að með tilliti til viðhorfskannana vill mikill meirihluti Íslendinga afnema verðtryggingu af neytendalánum.

 

Önnur skýring á takmarkaðri umræðu um verðtrygginguna gæti legið í ráðaleysi stjórnmálamanna um afnám verðtryggingar eða erfiðleika í samstarfi stjórnarflokkanna um siðferðileg álitamál sem komu fram á sjónarsviðið í vetur, sem aftur hefur dregið þjóðina fyrr að kjörborðinu en gert var ráð fyrir. Það er þó stjórnarmönnum Hagsmunasamtaka heimilanna ljóst hvað varðar afnám verðtryggingar að þar eru í húfi gríðarlegir hagsmunir fjármálastofnana og valdatog á sér stað í pólitísku landslagi sem aftur bitnar á hagsmunum neytenda og heimilunum í landinu. Þögn í umræðunni er ekki sama og samþykki, leita verður annarra og nýrra leiða til að knýja fram bættan neytendarétt á íslenskum fjármálamarkaði.

 

Af þessu tilefni og vegna þess hve fábrotin og takmörkuð umræðan hefur verið um verðtrygginguna í aðdraganda kosninga, voru send formleg erindi til framboðanna um þau málefni sem Hagsmunasamtök heimilanna hafa barist fyrir, í þágu félagsmanna sinna og íslenskra heimila. Sendar voru fjórar spurningar og verða svörin dregin hér saman fyrir félagsmenn, til að aðstoða þá við að gera upp hug sinn áður en atkvæði verður sleppt ofan í kjörkassana á næstkomandi laugardag.

 

Spurningar til framboða og svör

 

Hagsmunasamtök heimilanna sendu fjórar spurningar til allra framboða hér verður gerð grein fyrir megináherslum í svörum frá framboðunum við hverri spurningu fyrir sig. Svör bárust ekki frá Samfylkingunni og Íslensku þjóðfylkingunni þrátt fyrir ítrekaðar fyrirspurnir. Reynt hefur verið að gæta sanngirnis í framsetningu þessara svara en þó má geta þess að svör flokkanna voru misjafnlega ítarleg eða efnislega nákvæm með tilliti til spurninganna. Meginmarkmiðið samtakanna er að upplýsa félagsmenn um þá þætti svaranna sem stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna þykir mikilvægast að koma á framfæri.

 

1. Afnám verðtryggingar

 

Ætlar þinn flokkur að afnema verðtryggingu á lánum íslenskra heimila og tryggja þar með heimilunum sambærileg lánakjör við það sem þekkist í nágrannalöndum okkar? Ef svarað er játandi, hvernig og hvenær?

 

Í svari frá Flokki fólksins er þess getið að einungis hafi þurft eitt pennastrik að setja verðtrygginguna á og það sama þurfti til við að afnema hana. Samkvæmt því var svar þeirra jákvætt. Dögun, Alþýðufylkingin og Húmanistaflokkurinn vilja einnig afnema verðtrygginguna án skilyrða. Framsóknarflokkurinn segist ætla að halda áfram að berjast fyrir afnámi verðtryggingar, eins og gert var á kjörtímabilinu, þó lítið hafi gengið. Fram kemur í svarinu að flokkurinn geti ekki einn síns liðs afnumið verðtrygginguna, það hafi reynslan sýnt okkur á þessu kjörtímabili. Framsóknarflokkurinn hyggist því berjast áfram gegn verðtryggingunni en einnig fyrir því að peningastefnan verði endurskoðuð með það fyrir augum að hægt verði að lækka vexti hér á landi.

 

Aðrir flokkar gáfu ekki skýra afstöðu til afnáms verðtryggingar. Björt framtíð vill að sett verði gjaldmiðlastefna sem tryggi stöðuleika sem að þeirra mati muni tryggja lága verðbólgu og lága vexti, en með því muni áhrif og þörf fyrir verðtryggingu hverfa. Viðreisn leggur áherslu á að hér á landi sé tekin upp fastgengisstefna með myntráði. Það sé að þeirra mati leiðin til þess að hægt sé að bjóða uppá samkeppnishæf vaxtakjör og bætt lífskjör. Sjálfstæðisflokkurinn vísar í ályktun landsfundar frá árinu 2015 sem eru á sambærilegum nótum um að bæta lánakjör og leita leiða til að skipta út verðtryggðu lánaumhverfi fyrir sambærilegt kerfi því sem þekkist í nágrannalöndum okkar. Þó ber að nefna að ekki kemur fram í svari Sjálfstæðisflokksins hvenær eða hvernig flokkurinn hyggist fylgja þessu eftir.

 

Píratar hafa ekki samþykkt stefnu um afnám verðtryggingar en benda á að stjórnmálaflokkarnir hafa opnað á umræðuna um verðtryggð lán sem áhættusöm fyrir venjulega neytendur. Vinstri græn taka ekki skýra afstöðu gagnvart afnámi en benda á að þau hafi beitt sér fyrir því að auka framboð óverðtryggðra lána og tryggja neytendum aðra valkosti en verðtryggð lán. Þau telja að leiðin til þess að draga úr vægi verðtryggð lána og augljósum ókostum þeirra sé ábyrg hagstjórn og efnahagslegur stöðugleiki til lengri tíma. Hvernig þau ætli að ná þeim stöðugleika kemur hins vegar ekki fram í svarinu.

 

Skýr samhljómur er í svörum þeirra sem ekki vilja afnema verðtryggingu skilyrðislaust, það er að segja að þörf sé á því að leita leiða til að efla efnahagslegan stöðuleika og bæta vaxtakjör íslenskra lánþega. Á hinn bóginn fela engin þeirra svara í sér rökstuðning fyrir því hversvegna heimilin eigi að bera hitann og þungan af sveiflum verðbólgunnar og óstjórnar í hagstjórn landsins með háum vöxtum og verðbótum verðtryggðra lána.

 

2. Mannsæmandi framfærsluviðmið

 

Ætlar þinn flokkur að lögleiða mannsæmandi framfærsluviðmið fyrir alla Íslendinga sambærilegt því sem þekkist á hinum Norðurlöndunum? - Ef svarað er játandi, hvernig, hvenær og hvert teljið þið það viðmið eiga að vera?

 

(Sjá nánar hér um framfærsluviðmið á Norðurlöndum.)

 

Píratar segjast hafa skýra stefnu um að lögfesta viðmiðunarfjárhæð sem telst nægjanleg til framfærslu og mannsæmandi lífs. Alþýðufylkingin ætlar að lögleiða framfærslusviðmið. Dögun svarar á þann veg að þau ætli að lögleiða framfærsluviðmið til að tryggja verðuga framfærslu allra, a.m.k. sambærilegt við það sem þekkist á hinum Norðurlöndum. Húmanistaflokkurinn bendir á að eitt af megin áherslumálum Húmanista er að reikna út og skilgreina mannsæmandi framfærsluviðmið.

 

Vinstri græn benda á að í tíð síðustu ríkisstjórnar hafi verið ráðist í að birta opinber framfærsluviðmið sem Velferðarráðuneytið hefur staðið fyrir, enn benda jafnframt á að æskilegt sé að slík viðmið byggist helst á raunframfærslukostnaði. Flokkur fólksins hefur einnig á sinni stefnuskrá að hækka bæði bætur almannatrygginga og persónuafslátt í 300.000 sem myndi vera ágætis byrjun að þeirra mati til þess að færa lægstu tekjur nær eðlilegum framfærsluviðmiðum. Björt framtíð vill einfalda almannatryggingakerfið og telur eðlilegt að horft sé til framfærsluviðmiða, sambærilegum þeim sem vinir okkar á Norðurlöndum styðjast við. Framsóknarflokkurinn ætlar að halda áfram að efla velferðakerfið og að hækka lágmarkslaun og lífeyri.

 

Viðreisn kveðst ekki hafa mótað stefnu um lögleiðingu á framfærsluviðmiði. Sjálfstæðisflokkurinn svarar þessari spurningu þannig að ekki hafi verið ályktað um þetta.

 

 

3. Samráð við neytendur á fjármálamarkaði

 

Ætlar þinn flokkur að tryggja samráð innan ráðuneyta við samtök á neytendasviði að minnsta kosti til jafns á við fjármálastofnanir? - Ef svarað er játandi, hvernig?

 

Ath. Neytendur eiga ekki fulltrúa í hópum og nefndum er varða hagsmuni þeirra og réttindi á vegum fjármála- og efnahagsráðuneytis, líkt og sjá má í svari fjármálaráðherra við fyrirspurn þar að lútandi.

 

Dögun ætlar að tryggja samtökum á neytendasviði aðgang og samráð að minnsta kosti til jafns við fjármálastofnanir. Alþýðufylkingin ætlar, fái hún því við komið að tryggja samráð neytenda innan ráðuneyta við samtök á neytendasviði umfram við samráð við fjármálastofnanir. Húmanistaflokkurinn svarar í hnotskurn á þann veg að flokkurinn vill gjörbreyta fjármálakerfinu og taka völdin af fjármálastofnunum til hagsbóta fyrir almenning. Píratar benda á að kjarninn í grunnstefnu sinni sé að jafn aðgangur hagsmunaaðila sé tryggður við mótun ákvarðana. Flokkur fólksins telur að skipa eigi það fólk í nefndir sem þekkir málefnin á eigin skinni.

 

Björt framtíð hefur lagt fram mál um stofnun embættis umboðsmanns neytenda og gerir grein fyrir því í sínu svari. Vinstri græn telja brýnt að að hagsmunasamtök, frjáls félagasamtök og fulltrúar almenninga hafi sem víðtækast samráð í stjórnsýslunni. Framsóknarflokkurinn telur mikilvægt að eiga samtal og samráð við fólk og hagsmunaaðila þegar unnið er að lausnum á brýnum málum er varða almenning. Viðreisn svarar á þann veg að brýnt sé að neytendur hafi málsvara við borðið en ekki er greint nánar frá hvernig eða hvenær eigi að fylgja þessu eftir fyrir neytendur. Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á að samtök á neytendasviði eigi aðild að formlegum samstarfsvettvangi og ryðji þannig brautina til að formfesta samstarf við ríkisvaldið.

 

4. Neytendaréttur í dómskerfinu

 

Þykir þínum flokki viðunandi fyrir neytendur og íslenska ríkið að æðsti dómstóll landsins hafi dæmt gegn ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins?

 

Ath. Ísland er eina landið þar sem æðsti dómstóll landsins hefur dæmt gegn ráðgefandi áliti EFTA‐dómstólsins frá stofnun hans en það var í máli Hagsmunasamtaka heimilanna gegn ólöglega kynntri verðtryggingu neytendalána.

 

Flokkur fólksins telur það ekki viðunandi að æðsti dómstóll landsins hafi dæmt gegn ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins. Píratar benda á að Hæstiréttur hafi dæmt gegn hagsmunum neytenda og gegn áliti framkvæmdarstjórnar ESB og gegn áliti Neytendastofu. Píratar benda einnig á að neytendavernd á Íslandi er mjög ábótavant. Dögun þykir algerlega óásættanlegt að æðsti dómstóll réttarríkisins Ísland skuli fara gegn ólöglega kynntri verðtryggingu neytendalána. Dögun bendir einnig á að það sé stórundarlegt að íslenska ríkið skuli síendurtekið vera dæmt af Mannréttindadómstóli Evrópu fyrir brot á mannréttindum borgarar sinna og virðist það fremur regla en undantekning í málum sem rata þangað. Alþýðufylking telur að stefna flokksins sé á þann veginn að dómar að þessu tagi verði óþarfir þar sem slíkur vandi komi ekki upp þegar hagsmunir alþýðunnar eru hafðir að leiðarljósi.

 

Framsóknarflokkurinn bendir á að íslenskum dómstólum ber fyrst og fremst að fara að lögum, íslenskum lögum eins og þau eru skýrð með hliðsjón af öðrum réttarheimildum, m.a. þjóðréttarreglum sem hafa áhrif á það hvernig lögin eru skýrð og reglum sem hafa verið innleiddar sbr. skyldur Íslands samkvæmt samningnum um hið Evrópska efnahagssvæði. Komi upp sú staða að samfélagið telji dómstóla skila niðurstöðum sem eru ekki í samræmi við réttarvitund almennings þá er það rétti farvegurinn fyrir slíkt að fólk, þing og samfélag beiti sér fyrir breytingum á lögum og reglum sem samrýmast betur réttarvitund fólks. Vinstri græn hafa ekki tekið efnislega afstöðu hvað varðar niðurstöðu eða rökstuðning Hæstaréttar í þessu tiltekna máli.

 

Björt framtíð kveðst styðja aðskilnað löggjafar-, framkvæmda- og dómsvalds, og það sé því að þeirra mati ekki viðeigandi að stjórnmálaflokkur sem býður fram krafta sína á löggjafarþingi tjái sig um einstaka dóma. Sjálfstæðisflokkurinn segist virða dóma æðsta dómstóls landsins. Viðreisn minnir á þrískiptingu ríkisvalds og sjálfstæði dómsstóla og telur að þetta mál hafi fengið fullnægjandi og réttláta meðferð í dómskerfinu.


© Hannað af Filmís 

Hagsmunasamtök heimilanna voru stofnuð 15. janúar 2009 og eru frjáls og óháð hagsmunasamtök á neytendasviði, til varnar og hagsbóta fyrir heimilin í landinu.

Orð frá formanni

CEO 

Orð frá formanni Varlega áætlað hafa 15.000 fjölskyldur, 45.000 einstaklingar misst heimili sín frá hruni. Enginn hefur svarað fyrir það, hvað þá axlað á því ábyrgð. 

Þegar 15% þjóðarinnar missa heimili sín, gætir áhrifanna víða. Við sjáum þau í ástandinu á leigumarkaði og við sjáum þau líka í auknum kvíða meðal ungmenna og kulnun hjá þeim sem eldri eru.

Þegar fólk er svipt heimilum sínum glatar það öryggi sínu sínu og fótfestu. Þegar við bætist magnvana reiði og örvænting vegna óréttlætisins sem það stendur frammi fyrir ásamt hjálpar- og varnaleysinu sem það upplifir þegar heimilinu er hreinlega stolið af því, er ekki nema von að eitthvað láti undan.

Spillingin í þjóðfélaginu er djúp og hún á sér margar hliðar. Hún birtist ekki bara í háu húsnæðisverði og skelfilegum leigumarkaði eða háum vöxtum og verðtryggingu, hún birtist ekki bara í því hvernig lífeyrissjóðirnir misfara með fé okkar allra eða í „krónu á móti krónu“ skerðingu, hún birtist ekki bara í lágum launum verkafólks á meðan sjálftökufólk af ýmsum toga skammtar sjálfu sér milljónir, hún birtist ekki bara í spilltum dómstólum sem gæta hagsmuna „hinna sterku“ í dómum sínum eða í því hvernig lög- og stjórnaskrárvarin réttindi hafa verið brotin á neytendum frá hruni með skelfilegum afleiðingum.

Nei, hún birtist í þessu öllu og meiru til. Spillingin er djúp og teygir anga sína víða. Hana þarf að rífa upp með rótum til að hægt sé að byggja upp nýtt og betra þjóðfélag.

Fyrsta skrefið væri að að afnema verðtryggingu á lánum heimilanna! Öðruvísi er ekki hægt að skapa eðlilegan húsnæðismarkað eða stöðva sjálftöku fjármálastofnanna á tekjum fólks.

En til að takast á við ræturnar þarf að fara fram rannsókn á aðgerðum stjórnvalda eftir hrun. Jú það var líka spilling fyrir hrun, en þá urðu ákveðin vatnaskil og það var þá sem meðvituð ákvörðun var tekin um að fórna heimilum landsins fyrir bankana.

15.000 heimili eiga skilið að fá svör og uppreist æru.

Við biðjum ykkur um að styðja kröfuna um Rannsóknarskýrslu heimilanna!

Ásthildur Lóa Þórsdóttir
Formaður HH

Fylgstu með á samfélagsmiðlum