Símatími

Mán - þri kl. 10-13

Hafa samband

heimilin@heimilin.is

Á döfinni

Uppgjör við hrunið - 2017!

Á íslenskum fjármálamarkaði hefur upplýsingaskylda fjármálastofnanna gagnvart neytendum lengi verið brotin eða vanrækt, ekki eingöngu með tilliti til verðtryggingar húsnæðislána, heldur einnig yfirdráttarlána og annarra lánasamninga. Í dag kveða lög um neytendalán frá 2013 enn skýrar en áður á um framkvæmd upplýsingagjafar til neytenda og að árleg hlutfallstala kostnaðar (ÁHK) megi ekki samkvæmt lögum fara upp fyrir 50% að viðbættum stýrivöxtum.

 

Ef sambærileg löggjöf hefði verið fyrir hendi í október 2008, hefði hún veitt lánþegum lágmarksvernd. Þó prósentutalan sé ógnarhá, er hér þó komið fordæmi fyrir því að setja þak á kostnað í lánasamningum og að ekki sé leyfilegt að undanskilja verðbætur vegna verðtryggingar. Það er dæmi um ákveðna framþróun í neytendarétti á fjármálamarkaði. Um nýja verðtryggða húsnæðislánasamninga gilda því ofangreind lög. Fyrir tilstilli Hagsmunasamtaka heimilanna (HH) hefur verið látið reyna á lögmæti eldri verðtryggðra húsnæðislánasamninga hvað varðar upplýsingaskyldu, frá því þungar byrgðar féllu á íslensk heimili við gjaldþrot gömlu bankanna, en án árangurs. Dómur Hæstaréttar (nr. 243/2015) í máli HH um óréttmæta framkvæmd verðtryggðra lána er vitnisburður um það.

Samtökin hafa þó lengi staðið fyrir þeirri sannfæringu og túlkun á íslenskum lögum að hér hafi verið um brot að ræða gegn upplýsingaskyldu lánveitenda. Í síðastliðnum nóvembermánuði sendu HH kvörtun til ESA vegna niðurstöðu þessa dómsmáls og túlkunar Hæstaréttar á íslenskum lögum, en í dómnum felst sú niðurstaða að þó innleiðing tilskipunar 87/102/EBE í íslensk lög hafi að hálfu Alþingis verið röng þá hafi Íbúðalánasjóður þrátt fyrir allt farið eftir þeim lögum og var sjóðurinn þar af leiðandi sýknaður. Íslendingar voru hins vegar skuldbundnir til að innleiða ofangreinda tilskipun vegna aðildar sinnar að EES samningnum. Í þeirri tilskipun er skýrt kveðið á um upplýsingaskyldu fjármálafyrirtækja um allan lánskostnað og réttláta samninga við neytendur. Upplýsingaskyldan hvílir alfarið á lánveitendum og felur það í sér að greina skuli frá öllum kostnaði láns samkvæmt tilskipuninni. Að mati Hæstaréttar var Íbúðalánasjóði þrátt fyrir það heimilt samkvæmt íslenskum lögum að mati að upplýsa neytendur ekki um verðbætur. Framundan á árinu er málarekstur hjá HH fyrir dómstólum og eftirlitsstofnunum sem kalla mætti uppgjör við fjárhagslegt tjón íslenskra heimila vegna efnahagshrunsins. Þessi málarekstur varðar brot á upplýsingaskyldu, óréttláta lánasamninga og fjárhagslegt tjón. Hvort sem innleiðing Alþingis á ofangreindri tilskipun telst vera röng eða dómurinn rangur þá er ríkissjóður í báðum tilvikum skaðabótaskyldur vegna þess.

Hagsmunasamtök heimilanna hafa verið baráttusamtök sjálfboðaliða um neytendarétt á fjármálamarkaði frá stofnun þeirra, í janúar 2009. Það eitt að samtökin séu ennþá rekin á sjálfboðaliðagrundvelli segir fjölmargt um samfélagsstöðu neytendaréttar á fjármálamarkaði. Neytendaréttur á fjármálamarkaði hefur lengi átt á brattann að sækja á Íslandi í samanburði við það sem mætti vísa í sem almennt samþykktan neytendarétt og í því sambandi skýra kröfu í almennri orðræðu um upplýsingaskyldu til neytenda. Í baráttu samtakanna fyrir framþróun á þessu sviði hafa samtökin verið málsvari heimilanna vegna óréttmætra samninga, stökkbreyttra lána, barist fyrir leiðréttingu þeirra og afnámi verðtryggingar í kjölfar efnahagshruns. Markmið samtakanna er og hefur verið að beita sér fyrir lagabreytingum og stuðla að framþróun á þessum markaði. Þó ýmislegt hafi áunnist í þessari átta ára vegferð samtakanna, til að mynda markviss framþróun í framkvæmd á upplýsingaskyldu fjármálastofnanna sem samtökin hafa lengi beitt sér fyrir, þá situr fjölmargt eftir og er óuppgert. Verðtryggingin er ennþá við lýði og heldur áfram að leggja sín lóð á vogarskálarnar við að knýja áfram óhagstæða hringrás verðbólgu, hárra vaxta og verðbóta fyrir íslenska neytendur. Hagsmunabarátta heimilanna heldur því áfram.

Þó réttindabarátta neytenda á fjármálamarkaði sé ekki síður nauðsynlegt nú en fyrir átta árum er uppgjöri vegna efnahagshrunsins ekki lokið. Þegar öllu er á botninn hvolft er það mat samtakanna að heimilin hafi verið hlunnfarin í því uppgjöri sem hefur átt sér stað síðastliðin ár vegna fjármálahrunsins 2008. Íslensk heimili urðu fyrir ómældu tjóni, fjölmargir einstaklingar misstu heimili sín í aðförum kröfuhafa og enn fleiri voru í hættu að missa heimili sín. Tjón sem hefur að litlu sem engu leyti verið bætt. Eins og flestum er kunnugt um höfðu íslenskir neytendur enga undankomuleið frá óréttmætum lánasamningum, þrátt fyrir forsendubrest og stökkbreyttar verðbætur þeirra. Sumt verður líklega aldrei bætt en samtökin eru staðföst í því að knýja fram réttlæti nú með skaðabótakröfu. Fjölmargir lánþegar stóðu í skilum þrátt fyrir stökkbreytt lán en hafa takmarkaða leiðréttingu fengið á þeim óréttmætu verðbótum er lögðust á lán þeirra vegna fjármálahrunsins. Öðrum var synjað um leiðréttingu á stökkbreyttum lánum en greiddu þó engu að síður óréttmætar verðbætur lánanna. Samtökin leita leiða til að bæta lánþegum fjárhagslegt tjón þeirra og halda áfram að knýja fram bætt réttindi og upplýsingagjöf til neytenda. Samtökin standa einnig fast á þeirri sannfæringu að skýlaus krafa sé um það í samfélaginu að lærdómur verði dregin af hruninu fyrir íslensk heimili.


© Hannað af Filmís 

Hagsmunasamtök heimilanna voru stofnuð 15. janúar 2009 og eru frjáls og óháð hagsmunasamtök á neytendasviði, til varnar og hagsbóta fyrir heimilin í landinu.

Orð frá formanni

CEO 

Orð frá formanni Varlega áætlað hafa 15.000 fjölskyldur, 45.000 einstaklingar misst heimili sín frá hruni. Enginn hefur svarað fyrir það, hvað þá axlað á því ábyrgð. 

Þegar 15% þjóðarinnar missa heimili sín, gætir áhrifanna víða. Við sjáum þau í ástandinu á leigumarkaði og við sjáum þau líka í auknum kvíða meðal ungmenna og kulnun hjá þeim sem eldri eru.

Þegar fólk er svipt heimilum sínum glatar það öryggi sínu sínu og fótfestu. Þegar við bætist magnvana reiði og örvænting vegna óréttlætisins sem það stendur frammi fyrir ásamt hjálpar- og varnaleysinu sem það upplifir þegar heimilinu er hreinlega stolið af því, er ekki nema von að eitthvað láti undan.

Spillingin í þjóðfélaginu er djúp og hún á sér margar hliðar. Hún birtist ekki bara í háu húsnæðisverði og skelfilegum leigumarkaði eða háum vöxtum og verðtryggingu, hún birtist ekki bara í því hvernig lífeyrissjóðirnir misfara með fé okkar allra eða í „krónu á móti krónu“ skerðingu, hún birtist ekki bara í lágum launum verkafólks á meðan sjálftökufólk af ýmsum toga skammtar sjálfu sér milljónir, hún birtist ekki bara í spilltum dómstólum sem gæta hagsmuna „hinna sterku“ í dómum sínum eða í því hvernig lög- og stjórnaskrárvarin réttindi hafa verið brotin á neytendum frá hruni með skelfilegum afleiðingum.

Nei, hún birtist í þessu öllu og meiru til. Spillingin er djúp og teygir anga sína víða. Hana þarf að rífa upp með rótum til að hægt sé að byggja upp nýtt og betra þjóðfélag.

Fyrsta skrefið væri að að afnema verðtryggingu á lánum heimilanna! Öðruvísi er ekki hægt að skapa eðlilegan húsnæðismarkað eða stöðva sjálftöku fjármálastofnanna á tekjum fólks.

En til að takast á við ræturnar þarf að fara fram rannsókn á aðgerðum stjórnvalda eftir hrun. Jú það var líka spilling fyrir hrun, en þá urðu ákveðin vatnaskil og það var þá sem meðvituð ákvörðun var tekin um að fórna heimilum landsins fyrir bankana.

15.000 heimili eiga skilið að fá svör og uppreist æru.

Við biðjum ykkur um að styðja kröfuna um Rannsóknarskýrslu heimilanna!

Ásthildur Lóa Þórsdóttir
Formaður HH

Fylgstu með á samfélagsmiðlum