Mótmælum stafrænum nauðungarsölum!
Hagsmunasamtök heimilanna mótmæla alfarið fyrirhuguðu frumvarpi dómsmálaráðherra um stafrænar nauðungarsölur. Það á ekki að líðast að hægt verði að svipta fólk heimili sínu einfaldlega með því að senda tölvupóst. Sérstaklega ekki nema tryggt verði að því hafi að minnsta kosti fyrst borist tilkynning um að hætta á slíku sé yfirvofandi svo hægt sé að bregðast við í tæka tíð.
Frumvarp í samráðsgátt
Með drögum að frumvarpi sem dómsmálaráðuneytið hefur birt í samráðsgátt stjórnvalda er lagt til að stafræn málsmeðferð verði innleidd í fjárnáms- og nauðungarsölumálum. Yfirlýstur tilgangur þess er að auka hagræði og skilvirkni, en við nánari athugun blasir við að það yrði alfarið í þágu kröfuhafa og á kostnað réttaröryggis almennra borgara.
Verði frumvarpið óbreytt að lögum yrði nóg fyrir kröfuhafa að senda tilkynningu í stafrænt pósthólf (island.is) og í kjölfarið tölvupóst til sýslumanns til að fara fram á fjárnám eða nauðungarsölu á fasteign. Eftir það gæti meðferð málsins orðið að öllu leyti stafræn, en þar með yrði jafnframt dregið talsvert úr möguleikum gerðarþola á að verjast því að gengið verði að húsnæði hans.
Nauðungarsala á heimili öryrkja fordæmd
Fram kom í kvöldfréttum Ríkissjónvarpsins 27. júní 2023 að ungur öryrki í Keflavík sé því sem næst allslaus eftir að sýslumaður samþykkti tilboð í hús hans á nauðungaruppboði upp á einn tuttugasta af markaðsvirði þess. Hagsmunasamtök heimilanna fordæma þessa nauðungarsölu á heimili öryrkjans.
Ungi maðurinn varð öryrki 13 ára eftir alvarleg læknamistök. Fyrir þau fékk hann bætur sem hann notaði til að kaupa hús fyrir sig og fjölskyldu sína þegar hann var ný orðinn 18 ára og staðgreiddi kaupverðið án þess að taka nein lán. Þannig taldi hann sig hafa eignast öruggt skjól um ókomna ævi. Að eigin sögn gerði hann sér þó ekki grein fyrir því að þrátt fyrir að eiga húsið skuldlaust þyrfti engu að síður að greiða af því, þar á meðal ýmis opinber gjöld á borð við fasteignagjöld. Þar sem gjöldin voru ekki greidd söfnuðust upp vanskil upp á um 2,5 milljónir króna og húsið fór því að lokum á nauðungaruppboð, en það er í dag verðmetið á 57 milljónir króna.
Dómsmálaráðherra vill "síma-nauðungarsölur"
Fréttatilkynning
Um þessar mundir sjá tugþúsundir heimila fram á algjöra óvissu og mjög erfiða fjárhagslega stöðu á komandi mánuðum, ekki aðeins hér á landi heldur um allan heim. Þess vegna hafa stjórnvöld í mörgum löndum, þar á meðal Bandaríkjunum, fyrirskipað algjöra stöðvun á öllum nauðungarsölum þar til þetta ástand verður yfirstaðið.