Ákall til formanna stjórnmálaflokka og þingflokka á Alþingi
Stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna hvetur forystufólk flokka á Alþingi til að sjá til þess að frumvarp utanríkisráðherra um breytingu á lögum um Evrópska efnahagssvæðið, þskj. 85 - 85. mál, kennt við bókun 35, hljóti afgreiðslu fyrir þinglok á yfirstandandi þingi. Eins og kunnugt er snýst málið um að lagaákvæði sem réttilega innleiða skuldbindingar samkvæmt EES-samningnum gangi framar öðrum ósamrýmanlegum lagaákvæðum og það sama gildi um stjórnvaldsfyrirmæli (t.d. reglugerðir).
Fjölmörg mál eru nú komin eða á leið fyrir dómstóla þar sem reynir á slíkar reglur er varða gríðarlega hagsmuni tugþúsunda neytenda og almennra borgara hér á landi. Afar mikilvægt er að hlutaðeigandi einstaklingar geti treyst því að reglur sem þeir eiga að geta byggt réttindi sín á, haldi þegar á reynir og geti ekki þurft að víkja fyrir öðrum lakari reglum sem kynnu að stangast á við þær.
Jafnframt eru gríðarlegir almannahagsmunir í húfi því ef einkaaðilar geta komist upp með brot gegn réttindum íslenskra neytenda sem leiða af EES-samningnum vegna annmarka á íslenskri löggjöf, getur íslenska ríkið orðið skaðabótaskylt fyrir tjón sem hlýst af því. Hættan á því að slíkar byrðar geti fallið af herðum brotlegra aðila yfir saklausa skattgreiðendur er óásættanleg og verður að afstýra.
Að sjálfsögðu má aðeins gera kröfu um það eitt að hver og einn þingmaður fylgi sannfæringu sinni í hverju máli fyrir sig. Við förum ekki heldur fram á annað en að það verði gert í þessu tiltekna máli með því að taka það til afgreiðslu og leiða til lykta með atkvæðagreiðslu. Fulltrúar þingflokka hafa nú þegar komið afstöðu sinni til málsins rækilega á framfæri og er því ekki eftir neinu að bíða.
Til verndar heildarhagsmunum neytenda,
stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna
Þversagnir dómstóla í verðtryggingarmálum
Það hefur því miður dregist nokkuð að upplýsa félagsmenn um niðurstöðu “stærsta skaðabótamáls Íslandssögunnar” einfaldlega vegna þess að það hefur vafist fyrir okkur hvernig fara ætti að því. Þó að niðurstaðan sé í sjálfu sér einföld (við töpuðum) þá eru útúrsnúningar málsins, rökleysur dómstóla, mótsagnir og hringavitleysan með þeim hætti, að hvorki er hægt að finna haus né sporð.
Heimilin eiga skýlausan rétt á óháðri ráðgjöf á fjármálamarkaði
Fréttatilkynning
Hagsmunasamtök heimilanna hafa sent félagsmálaráðherra erindi þar sem þau fara fram á að fá fjárveitingar til jafns við Umboðsmann skuldara til að aðstoða neytendur og berjast fyrir réttindum þeirra á fjármálamarkaði.