Á döfinni

Stefna þingfest gegn Íbúðalánasjóði vegna verðtryggðs láns.

18. október var þingfest fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur stefna gegn Íbúðalánasjóði vegna verðtryggðs fasteignaláns, en Hagsmunasamtök heimilanna standa að baki málsókninni.

Í stefnunni er byggt á lögum um neytendalán (nr. 121/1994), en stjórn samtakanna telur sýnt að verðtryggðir lánasamningar brjóti gegn skýrum ákvæðum laganna um upplýsingagjöf um heildarlántökukostnað til neytenda, og kunni þar með að vera ólöglegir. Hér er um að ræða fyrsta málið sem höfðað er vegna verðtryggingar neytendalána á Íslandi.

Ríkislögmaður mætti fyrir hönd Íbúðalánasjóðs í þingfestingu og fékk átta vikna frest til að skila greinargerð, eða nánar tiltekið til 13 desember næstkomandi.

Málsókn af þessu tagi er kostnaðarsöm og þeim sem vilja leggja málefninu lið er bent á málsóknarsjóð vegna verðtryggingar: 1110-05-250427, kt: 520209-2120

Stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna

Lesa áfram...

Grasrót verkalýðshreyfingarinnar er án efa með okkur

Stjórn Verslunarmannafélags Reykjavíkur (VR), Verkalýðsfélag Akraness (VLFA), Félag málmiðnaðarmanna á Akureyri, Félag verslunar og skrifstofufólks á Akureyri (FVSA) hafa öll styrkt Hagsmunasamtök heimilanna með ýmsum hætti. Stjórn VR lagði nú síðast eina milljón í málsóknarsjóð HH til að fá úr lögmæti verðtryggingarinnar skorið og hafa einnig lagt 200 þúsund til að styðja við lögbann á ólögmætar vörslusviptingar(Alþingi tók á endanum til sinna ráða og áminnti sýslumenn um hver landslög eru í þessum efnum). Félag málmiðnararmanna á Akureyri og FVSA hafa einnig lagt fjármuni í málsóknarsjóð HH og Verkalýðsfélag Húsavíkur hefur einnig stutt við málstað HH.

Lesa áfram...

VLFA og HH snúa bökum saman

Formenn HH og VLFA, Ólafur Garðarsson og Vilhjálmur Birgisson áttu fund föstudagsmorguninn 12. október, þar sem farið var yfir málefni er varða sókn gegn verðtryggingunni. Á fundinum voru einnig Vilhjálmur Bjarnason (ekki fjárfestir) og Sigrún Erla Egilsdóttir, starfsmaður HH.

Vilhjámur Birgisson hefur árum saman barist ötullega gegn verðtryggingunni enda hefur hún leikið íslensk heimili grátt. Vilhjálmur telur verðtrygginguna eiga stóran þátt í því að ræna almenning þeim kjarabótum sem verkalýðshreyfingin hefur þó náð í gegn. Hagsmunasamtök heimilanna taka heilshugar undir með Vilhjálmi Birgissyni, formanni Verkalýðsfélags Akraness.

Á fundinum var ákveðið að vinna sameiginlega að markmiðum þessa tveggja samtaka hvað varðar verðtrygginguna. Málaferlin halda sínu striki og félögin stilla saman strengi svo hámarka megi rétt upplýsingaflæði til almennings um þessi málefni.

Sjá einnig frétt á heimasíðu VLFA.

Bestu kveðjur,

Ólafur Garðarsson,
formaður stjórnar HH

Lesa áfram...

Málshöfðun gegn verðtryggingu

Dómsmál höfðað um lögmæti verðtryggðra neytendalána Íbúðalánasjóðs
Um liðna helgi voru fjögur ár liðin síðan útblásið bankakerfi Íslands hrundi með slíkum látum að þáverandi forsætisráðherra sá tilefni til að ákalla drottinn, hugsanlega í von um að stjórnvöld yrðu bænheyrð í ráðaleysi sínu. Hagsmunasamtök heimilanna hafa lengst af þessu tímabili beitt sér fyrir því að stemmt verði stigu við stökkbreytingum sem orðið hafa á lánum heimilanna í tengslum við fjármálakreppuna sem opinberaðist árið 2008 og sér enn ekki fyrir endann á. Stærsti einstaki liðurinn í þeirri baráttu hefur verið krafan um sanngjarna leiðréttingu á stökkbreyttum höfuðstól vegna verðtryggingar og vísitölutengingar neytendalána.

Lesa áfram...

Íbúðalánasjóði stefnt

FRÉTTATILKYNNING
HH2012V3.2F1
27.09.2012


Málsókn gegn Íbúðalánasjóði vegna verðtryggðs láns

Birt hefur verið stefna fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í málsókn á hendur Íbúðalánasjóði sem er sú fyrsta vegna verðtryggðs fasteignaláns. Stefnan markar tímamót í baráttunni gegn verðtryggingu fasteignaveðlána. Hagsmunasamtök heimilanna (HH) hafa staðið að undirbúningi málsins og munu nánari upplýsingar um framgang þess birtast á heimasíðu samtakanna (www.heimilin.is).

Lesa áfram...

HH kæra Dróma til Samkeppniseftirlitsins

Hagsmunasamtök heimilanna hafa beint formlegu erindi til Samkeppniseftirlitsins þar sem óskað er eftir rannsókn á fullnustugerðum af hálfu fjármálafyrirtækja og Dróma hf. á meðan skilyrði um frestun þeirra voru í gildi, samkvæmt ákvörðun Samkeppniseftirlitsins um undanþágu til samstarfs um úrvinnslu mála vegna ólöglegra gengistryggingarákvæða í lánasamningum.

Lesa áfram...

Aðalmeðferð vegna lögbannskröfu á innheimtu ólögmætra gengislána

Í gær fór fram aðalmeðferð í Héraðsdómi Reykjavíkur í máli HH og talsmanns neytenda (TN) gegn Landsbankanum. Þann 1. júní hafnaði Sýslumaðurinn í Reykjavík kröfu HH og TN um að sett yrði lögbann á útsendingu greiðsluseðla vegna ólögmætra gengistryggðra lána. Þessa ákvörðun sýslumanns kærðu stefnendur til Héraðsdóms Reykjavíkur.

Eins og kunnugt er ríkir mikil óvissa um endurútreikninga áður gengistryggðra lána eftir hæstaréttardóm í máli 600/2011 frá 15. febrúar síðastliðnum þar sem afturvirkir vaxtaútreikningar voru dæmdir ólögmætir.  Bankarnir hafa hins vegar haldið áfram að senda út greiðsluseðla eins og ekkert hafi í skorist.

Dagsetning er ekki enn komin fyrir dómsuppkvaðningu, en búast má við niðurstöðu innan fárra vikna.

 

 

Lesa áfram...

Framkvæmdavald meðvirkt með fjármálaöflum

Full ástæða til rannsóknar Samkeppniseftirlitsins
Fljótlega eftir að samráð fjármálafyrirtækja hófst varðandi flýtimeðferð úrskurðar um gengistryggðra lánasamninga vöknuðu grunsemdir hjá stjórnarmönnum Hagsmunasamtaka heimilanna (HH) um að hagsmunir lántaka yrðu fyrir borð bornir í þessu samráði. HH lagði fram athugasemd til Samkeppniseftirlitsins (SE) um að slíkt samráð þyrfti að vera innan skýrra marka. Samkeppniseftirlitið var á sama máli og veitti undanþágu gegn ströngum skilyrðum. Eitt af skilyrðum SE var að Samtök Fjármálafyrirtækja (SFF) kæmu ekki að samráðinu nema í mesta lagi með því að veita fundaraðstöðu og ritara. Þetta var skýrt tilgreint af hendi SE og að opinber fulltrúi skuldara þ.e. Umboðsmaður skuldara væri einnig beinn aðili að samkomulaginu og Talsmaður Neytenda hefði valkvæða aðkomu.

Lesa áfram...

HH krefjast rannsóknar á svokölluðu “vaxtagreiðsluþaki”

Hagsmunasamtök heimilanna hafa beint erindum til Neytendastofu, Fjármálaeftirlitsins, Talsmanns neytenda og Umboðsmanns skuldara þar sem vakin er athygli á og farið fram á rannsókn á viðskiptaháttum Íslandsbanka við markaðssetningu á lánveitingum og þjónustu þeim tengdum sem gengur undir markaðsheitinu “vaxtagreiðsluþak óverðtryggðra húsnæðislána”. 

Lesa áfram...
Subscribe to this RSS feed

© Hannað af Filmís 

Hagsmunasamtök heimilanna voru stofnuð 15. janúar 2009 og eru frjáls og óháð hagsmunasamtök á neytendasviði, til varnar og hagsbóta fyrir heimilin í landinu.

Orð frá formanni

CEO 

Orð frá formanni Varlega áætlað hafa 15.000 fjölskyldur, 45.000 einstaklingar misst heimili sín frá hruni. Enginn hefur svarað fyrir það, hvað þá axlað á því ábyrgð. 

Þegar 15% þjóðarinnar missa heimili sín, gætir áhrifanna víða. Við sjáum þau í ástandinu á leigumarkaði og við sjáum þau líka í auknum kvíða meðal ungmenna og kulnun hjá þeim sem eldri eru.

Þegar fólk er svipt heimilum sínum glatar það öryggi sínu sínu og fótfestu. Þegar við bætist magnvana reiði og örvænting vegna óréttlætisins sem það stendur frammi fyrir ásamt hjálpar- og varnaleysinu sem það upplifir þegar heimilinu er hreinlega stolið af því, er ekki nema von að eitthvað láti undan.

Spillingin í þjóðfélaginu er djúp og hún á sér margar hliðar. Hún birtist ekki bara í háu húsnæðisverði og skelfilegum leigumarkaði eða háum vöxtum og verðtryggingu, hún birtist ekki bara í því hvernig lífeyrissjóðirnir misfara með fé okkar allra eða í „krónu á móti krónu“ skerðingu, hún birtist ekki bara í lágum launum verkafólks á meðan sjálftökufólk af ýmsum toga skammtar sjálfu sér milljónir, hún birtist ekki bara í spilltum dómstólum sem gæta hagsmuna „hinna sterku“ í dómum sínum eða í því hvernig lög- og stjórnaskrárvarin réttindi hafa verið brotin á neytendum frá hruni með skelfilegum afleiðingum.

Nei, hún birtist í þessu öllu og meiru til. Spillingin er djúp og teygir anga sína víða. Hana þarf að rífa upp með rótum til að hægt sé að byggja upp nýtt og betra þjóðfélag.

Fyrsta skrefið væri að að afnema verðtryggingu á lánum heimilanna! Öðruvísi er ekki hægt að skapa eðlilegan húsnæðismarkað eða stöðva sjálftöku fjármálastofnanna á tekjum fólks.

En til að takast á við ræturnar þarf að fara fram rannsókn á aðgerðum stjórnvalda eftir hrun. Jú það var líka spilling fyrir hrun, en þá urðu ákveðin vatnaskil og það var þá sem meðvituð ákvörðun var tekin um að fórna heimilum landsins fyrir bankana.

15.000 heimili eiga skilið að fá svör og uppreist æru.

Við biðjum ykkur um að styðja kröfuna um Rannsóknarskýrslu heimilanna!

Ásthildur Lóa Þórsdóttir
Formaður HH

Fylgstu með á samfélagsmiðlum