Símatími

Mán - þri kl. 10-13

Hafa samband

heimilin@heimilin.is

Á döfinni

Aðalmeðferð vegna lögbannskröfu á innheimtu ólögmætra gengislána

Í gær fór fram aðalmeðferð í Héraðsdómi Reykjavíkur í máli HH og talsmanns neytenda (TN) gegn Landsbankanum. Þann 1. júní hafnaði Sýslumaðurinn í Reykjavík kröfu HH og TN um að sett yrði lögbann á útsendingu greiðsluseðla vegna ólögmætra gengistryggðra lána. Þessa ákvörðun sýslumanns kærðu stefnendur til Héraðsdóms Reykjavíkur.

Eins og kunnugt er ríkir mikil óvissa um endurútreikninga áður gengistryggðra lána eftir hæstaréttardóm í máli 600/2011 frá 15. febrúar síðastliðnum þar sem afturvirkir vaxtaútreikningar voru dæmdir ólögmætir.  Bankarnir hafa hins vegar haldið áfram að senda út greiðsluseðla eins og ekkert hafi í skorist.

Dagsetning er ekki enn komin fyrir dómsuppkvaðningu, en búast má við niðurstöðu innan fárra vikna.

 

 

Lesa áfram...

Framkvæmdavald meðvirkt með fjármálaöflum

Full ástæða til rannsóknar Samkeppniseftirlitsins
Fljótlega eftir að samráð fjármálafyrirtækja hófst varðandi flýtimeðferð úrskurðar um gengistryggðra lánasamninga vöknuðu grunsemdir hjá stjórnarmönnum Hagsmunasamtaka heimilanna (HH) um að hagsmunir lántaka yrðu fyrir borð bornir í þessu samráði. HH lagði fram athugasemd til Samkeppniseftirlitsins (SE) um að slíkt samráð þyrfti að vera innan skýrra marka. Samkeppniseftirlitið var á sama máli og veitti undanþágu gegn ströngum skilyrðum. Eitt af skilyrðum SE var að Samtök Fjármálafyrirtækja (SFF) kæmu ekki að samráðinu nema í mesta lagi með því að veita fundaraðstöðu og ritara. Þetta var skýrt tilgreint af hendi SE og að opinber fulltrúi skuldara þ.e. Umboðsmaður skuldara væri einnig beinn aðili að samkomulaginu og Talsmaður Neytenda hefði valkvæða aðkomu.

Lesa áfram...

HH krefjast rannsóknar á svokölluðu “vaxtagreiðsluþaki”

Hagsmunasamtök heimilanna hafa beint erindum til Neytendastofu, Fjármálaeftirlitsins, Talsmanns neytenda og Umboðsmanns skuldara þar sem vakin er athygli á og farið fram á rannsókn á viðskiptaháttum Íslandsbanka við markaðssetningu á lánveitingum og þjónustu þeim tengdum sem gengur undir markaðsheitinu “vaxtagreiðsluþak óverðtryggðra húsnæðislána”. 

Lesa áfram...

Ekki taka verðtryggð lán

Ekki taka verðtryggð lán ef þér er annt um fjárhagslega framtíð þína
Verðtryggingin er að mati stjórnar HH mikil ógn við fjárhagslega heilsu yfir 50% heimila í landinu. Reyndar er svo nú að allt að 20% heimila eru gjaldþrota eða hafa ígildi þeirra stöðu (greiðsluaðlögun). Önnur 20% til 30% heimila eru í hættu þar eð lítið má út af bera í fjármálum til að valda kollsteypu niður í fjárhagslegt kviksyndi. Til að vera sanngjarn að þá er ekki hægt að kenna verðtryggingu um öll málin með beinum hætti en hinar óbeinu afleiðingar verðtryggingar eru mjög afgerandi í íslensku hagkerfi þó ekki sé minnst á bein og mjög augljós neikvæð áhrif.

Lesa áfram...

Formaður kveður

Núverandi formaður stjórnar, Ólafur Garðarsson afhendir fyrrum formanni, Andreu J. Ólafsdóttur blómvönd frá stjórninni með þökkum fyrir gott starf á liðnu ári. Vegna anna Andreu við framboð til forseta varð þessi látlausa athöfn að bíða en aðalfundur samtakanna var 30. maí.

Lesa áfram...

Úrskurður í lögbannsmáli borinn undir héraðsdóm

Órökstuddur úrskurður sýslumannsins í Reykjavík fyrir tveimur vikum um að hafna lögbanni við greiðsluseðlum vegna gengistryggðra lána hefur verið borinn undir Héraðsdóm Reykjavíkur.

Hagsmunasamtök heimilanna (HH) og talsmaður neytenda (TN) hafa ákveðið að una ekki úrskurði Sýslumannsins í Reykjavík frá 1. júní síðastliðnum þar sem synjað var lögbannskröfu gerðarbeiðenda gegn Landsbankanum - en yrði væntanlega fordæmisgefandi fyrir aðrar lánastofnanir. HH og TN fóru fram á að stöðvuð yrði öll innheimta greiðsluseðla ólögmætra áður gengistryggðra lána, vegna mikillar óvissu sem uppi er varðandi lánin og endurútreikninga þeirra, einkum eftir dóm Hæstaréttar (nr. 600/2011) frá 15. febrúar síðastliðnum þar sem vaxtaútreikningar gengistryggðra lána aftur í tímann voru dæmdir ólögmætir.

Í úrskurði sýslumanns er ekki að finna neinn efnislegan rökstuðning fyrir synjun lögbannsbeiðninnnar og því telja gerðarbeiðendur fulla ástæðu til að fara með ákvörðunina fyrir hérðasdóm. Greinargerð lögmanns, þar sem synjun sýslumanns er kærð, hefur verið send héraðsdómara.

Lesa áfram...

Lögbannskröfu HH og TN hafnað

Sýslumaðurinn í Reykjavík hefur synjað lögbannskröfu Hagsmunasamtaka heimilanna (HH) og talsmanns neytenda gegn Landsbankanum.  Í lögbannskröfunni var farið fram á að stöðvuð yrði öll innheimta greiðsluseðla áður gengistryggðra lána, vegna þeirrar miklu óvissu sem uppi er varðandi lánin sem Hæstiréttur hefur dæmt ólögmæt, og endurútreikninga þeirra.

Í úrskurði sýslumanns er ekki að finna neinn efnislegan rökstuðning fyrir synjun.  Sýslumaður hafnar hins vegar röksemdafærslu Landsbankans fyrir því að gerðarbeiðendur skorti heimild til að leggja fram lögbannið á grundvelli laga nr. 141/2001 um lögbann og dómsmál til verndar heildarhagsmunum neytenda. Samkvæmt úrskurði sýslumanns hafa gerðarbeiðendur því fullt umboð til að leita lögbanns af þessu tagi til verndar hagsmunum neytenda.

Ný stjórn HH sem kosin var á aðalfundi samtakanna í síðustu viku, ásamt talsmanni neytenda, mun taka ákvörðun um framhald málsins, þ.e er hvort ákvörðun sýslumanns verði send áfram til úrskurðar hjá héraðsdómara.

Lesa áfram...

Ný stjórn HH kosin á aðalfundi

Í gær var kosin ný stjórn HH á aðalfundi samtakanna. Andrea J. Ólafsdóttir lét af störfum, eftir árangursríkt og farsælt ár sem formaður. Nokkrir stjórnarmenn úr síðustu stjórn buðu fram krafta sína áfram, og nokkrir nýjir bættust í hópinn. Stjórn samtakanna skipa 7 aðalmenn og 7 varamenn sem kosnir eru á aðalfundi, en stjórnin skiptir með sér verkum á fyrsta fundi sínum.  Nýja stjórn HH skipa eftirfarandi.

Lesa áfram...

Úrskurðar í lögbannsmáli að vænta 1. júní

Á miðvikudag var tekin fyrir hjá Sýslumanninum í Reykjavík lögbannskrafa Hagsmunasamtaka heimilanna (HH) og Talsmanns neytenda (TN) gegn Landsbankanum, þar sem farið er fram á að stöðvuð verði öll innheimta greiðsluseðla áður gengistryggðra lána. Mikil óvissa er uppi varðandi lánin sem Hæstiréttur hefur dæmt ólögmæt og krefjast gerðarbeiðendur þess að lögbanni verði ekki aflétt fyrr en nýir og lögmætir endurútreikningar verða sendir út.

HH og TN vildu ekki una úrskurði sýslumanns frá 27. apríl síðastliðnum þar sem lögbannskröfu þessa efnis var hafnað á þeim forsendum að hún væri ekki nægilega skýrt afmörkuð.  Því var lögð fram ný krafa sama efnis þar sem skýrt er við hvaða gengistryggðu lán er átt og lýst þeim ótvíræðu afleiðingum sem innheimta greiðsluseðla ólögmætra gengistryggðra lána hefur fyrir neytendur.

Sýslumaður óskaði eftir fresti til að kynna sér málsgögn og taka afstöðu til þeirra.  Úrskurður verður kveðinn upp í málinu  þann 1. júní næstkomandi.

 

Lesa áfram...

Landssamtök heimilanna

Landssamtök heimilanna hafa verið stofnuð. Samtökin eru sameiginlegur vettvangur félagasamtaka. Tilgangur samtakanna er að vinna að hagsmunum félagsmanna aðildarfélaga og -samtaka, svo sem bættum láns- og leigukjörum neytenda og bættum kaupmætti, lífs- og launakjörum. Samtökin vinna að tilgangi sínum og markmiðum eftir öllum lögmætum leiðum og með réttmætum samtakamætti. Umsókn HH að Landssamtökunum verður lögð fyrir á aðalfundinum þann 31. maí næstkomandi.

Í bráðabirgðastjórn til fyrsta aðalfundar sitja: Ragnar Þór Ingólfsson og er hann formaður, meðstjórnendur eru Andrea Jóhanna Ólafsdóttir og Þórður Björn Sigurðsson.  Varamenn eru Gunnar Magnússon og Sigrún Viðarsdóttir.

 

Lesa áfram...
Subscribe to this RSS feed

© Hannað af Filmís 

Hagsmunasamtök heimilanna voru stofnuð 15. janúar 2009 og eru frjáls og óháð hagsmunasamtök á neytendasviði, til varnar og hagsbóta fyrir heimilin í landinu.

Orð frá formanni

CEO 

Orð frá formanni Varlega áætlað hafa 15.000 fjölskyldur, 45.000 einstaklingar misst heimili sín frá hruni. Enginn hefur svarað fyrir það, hvað þá axlað á því ábyrgð. 

Þegar 15% þjóðarinnar missa heimili sín, gætir áhrifanna víða. Við sjáum þau í ástandinu á leigumarkaði og við sjáum þau líka í auknum kvíða meðal ungmenna og kulnun hjá þeim sem eldri eru.

Þegar fólk er svipt heimilum sínum glatar það öryggi sínu sínu og fótfestu. Þegar við bætist magnvana reiði og örvænting vegna óréttlætisins sem það stendur frammi fyrir ásamt hjálpar- og varnaleysinu sem það upplifir þegar heimilinu er hreinlega stolið af því, er ekki nema von að eitthvað láti undan.

Spillingin í þjóðfélaginu er djúp og hún á sér margar hliðar. Hún birtist ekki bara í háu húsnæðisverði og skelfilegum leigumarkaði eða háum vöxtum og verðtryggingu, hún birtist ekki bara í því hvernig lífeyrissjóðirnir misfara með fé okkar allra eða í „krónu á móti krónu“ skerðingu, hún birtist ekki bara í lágum launum verkafólks á meðan sjálftökufólk af ýmsum toga skammtar sjálfu sér milljónir, hún birtist ekki bara í spilltum dómstólum sem gæta hagsmuna „hinna sterku“ í dómum sínum eða í því hvernig lög- og stjórnaskrárvarin réttindi hafa verið brotin á neytendum frá hruni með skelfilegum afleiðingum.

Nei, hún birtist í þessu öllu og meiru til. Spillingin er djúp og teygir anga sína víða. Hana þarf að rífa upp með rótum til að hægt sé að byggja upp nýtt og betra þjóðfélag.

Fyrsta skrefið væri að að afnema verðtryggingu á lánum heimilanna! Öðruvísi er ekki hægt að skapa eðlilegan húsnæðismarkað eða stöðva sjálftöku fjármálastofnanna á tekjum fólks.

En til að takast á við ræturnar þarf að fara fram rannsókn á aðgerðum stjórnvalda eftir hrun. Jú það var líka spilling fyrir hrun, en þá urðu ákveðin vatnaskil og það var þá sem meðvituð ákvörðun var tekin um að fórna heimilum landsins fyrir bankana.

15.000 heimili eiga skilið að fá svör og uppreist æru.

Við biðjum ykkur um að styðja kröfuna um Rannsóknarskýrslu heimilanna!

Ásthildur Lóa Þórsdóttir
Formaður HH

Fylgstu með á samfélagsmiðlum