Símatími

Mán - þri kl. 10-13

Hafa samband

heimilin@heimilin.is

Á döfinni

Að verja heimilin með því að merja þau

Að verja heimilin með því að merja þau

Vextir hafa hækkað um 633% en launþegar eiga að sýna „skynsemi“ í launakröfum.

„Eigi skal höggva“, sagði Snorri Sturluson áður en hann var veginn. Þau orð eiga vel við núna því vaxtahækkun Seðlabankans í morgun er enn einn rýtingur í bakið á heimilum landsins. Aftur skal hoggið í sama knérunn og aftur eru það þau sem minnst hafa og mest skulda sem verst verða úti.

Vaxtahækkanir eru ekki lögmál og alls í ekki í þeim mæli sem Seðlabanki Íslands er að leyfa sér að beita þeim á þessum tímum. Heimili landsins munu langflest standa undir hækkandi vöruverði vegna verðbólgunnar, en þegar „lækningin“ margfaldar byrðar hennar, er hætt við að eitthvað láti undan.

Lesa áfram...
Aðgerðir gegn verðbólgunni verri en verðbólgan sjálf

Aðgerðir gegn verðbólgunni verri en verðbólgan sjálf

Yfirlýsing stjórnar

Hagsmunasamtök heimilanna mótmæla harðlega þeim aðgerðum sem ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur og Seðlabankinn undir stjórn Ásgeirs Jónssonar eru að beita í baráttu við verðbólguna, enda gera þær aðgerðir einungis illt verra fyrir allan þorra almennings á Íslandi. 

Það er líka verulega ámælisvert að forsætisráðherra og fjármálaráðherra hafa varla sést á undanförnum vikum og mánuðum á meðan Ísland er að ganga í gegnum einhverja verstu efnahagskrísu í tugi ára, að bankahruninu 2008 undanskildu. Þau hafa með þessu skeytingar- og aðgerðaleysi sýnt hug sinn í verki gagnvart heimilum landsins. Annað gildir um Seðlabankastjóra sem virðist hins vegar hafa tekið stjórnina (á landinu) og gripið til harðra aðgerða sem gera ekkert annað en að fórna heimilum landsins í opið gin bankanna, án þess að þau fái nokkra björg sér veitt. Það verður að draga þá ályktun að þögn sé sama og samþykki og ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur styðji þessar aðgerðir.

Stóraukin útgjöld

Til vitnis um fáránleika þessara aðgerða má benda á könnun ASÍ og Íslandsbanka frá því í júní en þá þegar höfðu mánaðarleg útgjöld fjögurra manna fjölskyldu hækkað um 81.916 krónur á einum mánuði. Af því voru 15.250 krónur vegna hækkunar á mat og bensíni á meðan mánaðarlegar vaxtagreiðslur af 40 milljón króna óverðtryggðu láni höfðu hækkað um 66.666 krónur eða fimmfalt það sem verðbólgan kostaði fjölskylduna.

Lesa áfram...
Samstarf í neytendavernd á fjármálamarkaði

Samstarf í neytendavernd á fjármálamarkaði

Þjónustusamningur við menningar- og viðskiptaráðuneytið

Fyrsta júní síðastliðinn undirritaði formaður Hagsmunasamtaka heimilanna þjónustusamning fyrir hönd samtakanna, við ráðuneyti menningar- og viðskipta um óháða ráðgjafaþjónustu og réttindagæslu á fjármálamarkaði. Samstarfið er tímamót í starfi samtaka sem hafa lengi talað opinberlega fyrir auknum réttindum og bættum kjörum lántakenda í viðskiptum sínum. Þá ekki síst í sambandi við bæði fjárhagslegar og félagslegar afleiðingar efnahagshrunsins. Það hefur lengi verið þörf á að styrkja stoðir neytendaréttar á fjármálamarkaði og óháð ráðgjafarþjónusta er ein birtingarmynd þess.

Lesa áfram...
Íþyngjandi skattar eiga aldrei að hækka sjálfkrafa

Íþyngjandi skattar eiga aldrei að hækka sjálfkrafa

Samtökin hafa sent áskorun til stjórnvalda um húsnæðismál og hækkun fasteignamats

Í síðustu viku tilkynnti Þjóðskrá nýtt fasteignamat sem mun hækka um tugi prósenta á einu bretti um næstu áramót. Sé litið til ástandsins á fasteignamarkaði og gríðarlegra verðhækkana á húsnæði kom þetta ekki sérstaklega á óvart og eðlilegt er að fasteignamat endurspegli raunverð á markaði.

Þar með er þó ekki öll sagan sögð.

Það er staðreynd að hærra fasteignamat hækkar ekki ráðstöfunarfé heimila eða fyrirtækja. Jákvæð áhrif eru í raun engin, nema kannski “á pappírum” en neikvæðu áhrifin eru hins vegar þó nokkur og munu m.a. birtast í auknum útgjöldum vegna gjalda sem miðast við fasteignamat.

Áhrif hækkunar fasteignamats

Þar má fyrst nefna fasteignagjöld sem munu hækka um tugi þúsunda af meðalíbúð vegna þessarar hækkunar á fasteignamati. Á sama tíma og það gerist horfast bæði heimili og fyrirtæki í augu við gríðarlegar hækkanir á afborgunum lána auk þess sem allar nauðsynjavörur hafa hækkað mikið.

Lesa áfram...
Aðgerðir og aðgerðaleysi gagnvart verðbólgu

Aðgerðir og aðgerðaleysi gagnvart verðbólgu

Umsögn til Alþingis

Hagsmunasamtaka heimilanna hafa sent frá sér umsögn við frumvarp ríkisstjórnarinnar um mótvægisaðgerðir í verðbólgu. Með frumvarpinu leggur ríkisstjórnin til að bætur almannatrygginga hækki um 3% og húsnæðisbætur um 10%, auk þess að greiddur verði sérstakur barnabótaauki að fjárhæð 20.000 kr. með hverju barni til þeirra sem fá tekjutengdar barnabætur. Frumvarpið verður lagt fram í mánuðinum og með samþykki þingsins taka þessar hækkanir gildi 1. júní. 

Fulltrúar samtakanna voru kölluð til samráðs á fjarfundi efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, með fulltrúum Öryrkjabandalagsins og Leigjendasamtökunum.  

Hagsmunasamtök heimilanna eru fylgjandi þessum mótvægisaðgerðum en vöktu sérstaka athygli á því í umsögn sinni og á fundi efnahags- og viðskiptanefndar að engar aðgerðir hafa verið kynntar af hálfu ríkisstjórnarinnar sem gagnast útivinnandi fólki í eigin húsnæði.

Lesa áfram...
Tryggjum að enginn missi heimili sitt vegna verðbólgu og vaxtahækkana!

Tryggjum að enginn missi heimili sitt vegna verðbólgu og vaxtahækkana!

Áskorun - Hagsmunasamtök heimilanna hafa sent ríkisstjórn Íslands áskorun um að tryggja að enginn missi heimili sitt vegna verðbólgu og vaxtahækkanna.

Ríkisstjórnin kynnti í lok síðustu viku aðgerðir til handa þeim sem verst eru staddir vegna þeirrar verðbólgu sem nú geisar og fyrirsjáanlegra vaxtahækkana bankanna. Hún tók jafnframt ákvörðun um að ráðast ekki í neinar aðgerðir fyrir þá sem þurfa að greiða af húsnæðislánum.

Afleiðingar heimsfaraldurs og stríðs

Frá upphafi heimsfaraldursins hafa Hagsmunasamtök heimilanna kallað eftir vernd fyrir heimilin; að enginn missi heimili sitt vegna afleiðinga heimsfaraldurs enda ekki á valdi einstaklinga eða fjölskyldna að hafa áhrif á afleiðingar hans. Sama á nú við um afleiðingar stríðsátaka í Úkraínu.

Lesa áfram...
Bankarnir skulda neytendum vaxtalækkanir!

Bankarnir skulda neytendum vaxtalækkanir!

Seðlabankinn hækkaði meginvexti sína um 1 prósentustig í gær eða um  36% og flestir gera ráð fyrir að bankarnir fylgi í kjölfarið og hækki vexti á húsnæðislánum og öðrum neytendalánum.

Hagsmunasamtök heimilanna vilja minna bankana á að þegar meginvextir Seðlabankans lækkuðu á síðasta ári, þá fylgdu lækkanir bankanna ekki eftir í sama hlutfalli.

Almennt hafa vextir bankanna að undanförnu verið 40%-75% hærri en meginvextir Seðlabankans. Þannig að þegar meginvextir Seðlabankans hafa verið 2,75% hafa vextir bankanna á húsnæðislánum verið í kringum 4,7% á óverðtryggðum íbúðalánum. Að undanförnu hafa vextir bankanna þannig verið um 42% hærri en meginvextir Seðlabankans.

En þá komum við að því sem gerðist, eða gerðist ekki, þegar viðmiðunarvextir Seðlabankans fóru niður í 0,75%. Þá hefðu vextir bankanna átt að fylgja hlutfallslega með og fara niður í rétt rúmlega 1% á óverðtryggðum lánum.

Lesa áfram...
Áskorun til peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands

Áskorun til peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands

Eftirfarandi áskorun hefur verið send peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands: 

Fyrir hönd VR, Verkalýðsfélags Akraness og Hagsmunasamtaka heimilanna, vilja undirrituð biðla til peningastefnunefndar seðlabankans og um leið seðlabankastjóra, að hækka ekki álögur á heimilin þrátt fyrir aukna verðbólgu.

Ekki auka álögur á heimilin í vaxandi verðbólgu

Vaxtahækkanir geta í einhverjum tilfellum verið réttlætanlegar til að slá á verðbólgu en það á ekki við þegar verðbólgan stafar aðallega af utanaðkomandi aðstæðum sem ekki verða raktar hér, auk skorts á húsnæði sem valdið hefur mikilli hækkun húsnæðisverðs.

Lesa áfram...
Spillingin opinberar sig

Spillingin opinberar sig

Mótmæli á sölu Íslandsbanka við Austurvöll 9. apríl. Ræða Ásthildar Lóu Þórsdóttur, formanns Hagsmunasamtaka heimilanna og þingmanns Flokks fólksins:

Kæru Íslendingar

Það er gaman að sjá allan þennan fjölda, þó tilefnið sé ekki gott. Loksins virðumst við vera búin að fá nóg! Í sölunni á Íslandsbanka kristallast spillingin á Íslandi. Í sölunni kristallast hvernig fjármálakerfið er alltaf látið ganga framar hagsmunum almennings. 

Þarna sést spillingin svart á hvítu, þannig að þeir sem ekki viðurkenna hana, eru annað hvort partur af henni eða slegnir alvarlegri blindu. Eftirmálar söluferlisins komu mér ekki á nokkurn hátt á óvart og ég var, sem nefndarmaður í efnahags- og viðskiptanefnd, búin að spyrja út í þessa möguleika með ýmsum hætti. Eins og t.d. hvernig hægt væri að tryggja „dreifða eignaraðild“ þegar þeir myndu líklega ekki vita hverjir væru á bakvið hina og þessa sjóði, sem vildu kaupa? Það gætu t.d. verið sömu aðilar og keyptu Arion banka. 

Eða hvernig þeir ætluðu að tryggja að hér kæmu ekki „gömlu útrásarvíkingarnir“, sem rændu bankana að innan, og keyptu þennan banka með peningunum sem þeir náðu úr honum á árunum fyrir hrun.

Lesa áfram...
Neytendavernd á fjármálamarkaði

Neytendavernd á fjármálamarkaði

Hagsmunasamtök heimilanna hafa hlotið styrk frá Félagsmála- og vinnumarkaðsráðuneytinu til verkefnisins Neytendaréttur á fjármálamarkaði - ráðgjöf, stuðningur og hagsmunagæsla. Um er að ræða styrk frá ráðuneytinu af safnliðum fjárlaga 2022 að upphæð 3.000.000 kr.

Í umsókn Hagsmunasamtaka heimilanna um styrk til ráðuneytisins var sótt um styrk og brautargengi fyrir hagsmunagæslu lántakenda og lögfræðilegri ráðgjöf því öll heimili eiga rétt á og skal tryggður aðgangur að óháðri réttindagæslu gagnvart lánveitendum fasteignalána og annarra neytendalána. Skilyrðislaus hagsmunagæsla og óháð ráðgjöf er brýnust í alvarlegum greiðsluerfiðleikum og álitamálum, ekki síst ef nauðungarsala heimilis gæti verið yfirvofandi.

Lesa áfram...
Niðurstöður aðalfundar 2022

Niðurstöður aðalfundar 2022

Aðalfundur Hagsmunasamtaka heimilanna 2022 var haldinn 23. febrúar síðastliðinn. Á fundinum var kosin ný stjórn sem hefur nú skipt með sér verkum og er skipuð þannig:

  • Ásthildur Lóa Þórsdóttir formaður
  • Guðmundur Ásgeirsson varaformaður
  • Sigríður Örlygsdóttir gjaldkeri
  • Einar Valur Ingimundarson ritari
  • Hafþór Ólafsson meðstjórnandi

Varamenn: Álfheiður Eymarsdóttir, Björn Kristján Arnarson, Ragnar Unnarsson og Stefán Stefánsson. Þau hafa flest starfað áður í stjórn samtakanna en Álfheiður Eymarsdóttir kemur ný inn í varastjórn.

Aðalfundurinn samþykkti að félagsgjöld 2022 verði óbreytt 4.900 kr. og valkvæð sem fyrr. Þá voru skoðunarmenn reikninga samtakanna, Sigfríð Gerður Hallgrímsdóttir og Sólveig Sigurgeirsdóttir, endurkjörnar. Aðalfundur hefur einnig samþykkt skráningu samtakanna sem almannheillafélag og samþykkt breytingar á samþykktum Hagsmunasamtaka heimilanna til að uppfylla skilyrði til löglegrar skráningar.

Lesa áfram...
Eiga bankarnir alltaf að vera stikkfrí?

Eiga bankarnir alltaf að vera stikkfrí?

Aðalfundur 2022 - ávarp formanns á aðalfundi 23. febrúar

Við í stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna höfum stundum haft það á orði að samtökin ættu ekki að vera til; að það ætti ekki að vera þörf fyrir samtök sem þessi. En nú þegar þjóðfélagið og heimurinn allur hefur verið í greipum farsóttar og afleiðingar hennar á efnahagslífið hafa verið áberandi í opinberri umræðu í tvö ár má færa rök fyrir því að þörfin fyrir þau hafi sjaldan eða aldrei verið meiri en nú síðan þau voru stofnuð. 

Þörfin eftir hrunið var mikil. Þá tók ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttir þá meðvituðu ákvörðun að fórna heimilunum og Hagsmunasamtök heimilanna tóku til varna fyrir þau. Því skal haldið til haga að hefðu Hagsmunasamtök heimilanna ekki verið til staðar hefði enginn tekið til varna fyrir heimilin. Augljóslega var þá, eins og alla tíð síðan, við ofurefli að etja og að minnsta kosti 15.000 fjölskyldur misstu heimili sín, VEGNA stjórnvalda sem með aðgerðum sínum, eða eftir atvikum aðgerðarleysi, festu heimilin í gildru bankanna, þar sem þau gátu enga björg sér veitt. Þetta vitum við sem störfum á vettvangi Hagsmunasamtakanna því mörg okkar lentu í þessum hakkavélum bankanna sem ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttir smíðaði fyrir þá.

Ef við lentum ekki sjálf í þessari skelfingu höfum við horft upp á og orðið vitni að aðförum bankanna gegn ástvinum og fylgst með einhverjum þeirra þúsunda mála sem hafa komið á borð HH. Við vitum hvað getur gerst og við sjáum viðvörunarmerkin, jafnvel þegar enginn annar virðist sjá þau eða vilja viðurkenna stöðuna eins og hún er.

 

Núna blikka öll viðvörunarljós eins og jólatré á sterum

Lesa áfram...
Subscribe to this RSS feed

© Hannað af Filmís 

Hagsmunasamtök heimilanna voru stofnuð 15. janúar 2009 og eru frjáls og óháð hagsmunasamtök á neytendasviði, til varnar og hagsbóta fyrir heimilin í landinu.

Orð frá formanni

CEO 

Orð frá formanni Varlega áætlað hafa 15.000 fjölskyldur, 45.000 einstaklingar misst heimili sín frá hruni. Enginn hefur svarað fyrir það, hvað þá axlað á því ábyrgð. 

Þegar 15% þjóðarinnar missa heimili sín, gætir áhrifanna víða. Við sjáum þau í ástandinu á leigumarkaði og við sjáum þau líka í auknum kvíða meðal ungmenna og kulnun hjá þeim sem eldri eru.

Þegar fólk er svipt heimilum sínum glatar það öryggi sínu sínu og fótfestu. Þegar við bætist magnvana reiði og örvænting vegna óréttlætisins sem það stendur frammi fyrir ásamt hjálpar- og varnaleysinu sem það upplifir þegar heimilinu er hreinlega stolið af því, er ekki nema von að eitthvað láti undan.

Spillingin í þjóðfélaginu er djúp og hún á sér margar hliðar. Hún birtist ekki bara í háu húsnæðisverði og skelfilegum leigumarkaði eða háum vöxtum og verðtryggingu, hún birtist ekki bara í því hvernig lífeyrissjóðirnir misfara með fé okkar allra eða í „krónu á móti krónu“ skerðingu, hún birtist ekki bara í lágum launum verkafólks á meðan sjálftökufólk af ýmsum toga skammtar sjálfu sér milljónir, hún birtist ekki bara í spilltum dómstólum sem gæta hagsmuna „hinna sterku“ í dómum sínum eða í því hvernig lög- og stjórnaskrárvarin réttindi hafa verið brotin á neytendum frá hruni með skelfilegum afleiðingum.

Nei, hún birtist í þessu öllu og meiru til. Spillingin er djúp og teygir anga sína víða. Hana þarf að rífa upp með rótum til að hægt sé að byggja upp nýtt og betra þjóðfélag.

Fyrsta skrefið væri að að afnema verðtryggingu á lánum heimilanna! Öðruvísi er ekki hægt að skapa eðlilegan húsnæðismarkað eða stöðva sjálftöku fjármálastofnanna á tekjum fólks.

En til að takast á við ræturnar þarf að fara fram rannsókn á aðgerðum stjórnvalda eftir hrun. Jú það var líka spilling fyrir hrun, en þá urðu ákveðin vatnaskil og það var þá sem meðvituð ákvörðun var tekin um að fórna heimilum landsins fyrir bankana.

15.000 heimili eiga skilið að fá svör og uppreist æru.

Við biðjum ykkur um að styðja kröfuna um Rannsóknarskýrslu heimilanna!

Ásthildur Lóa Þórsdóttir
Formaður HH

Fylgstu með á samfélagsmiðlum