Símatími

Mán - þri kl. 10-13

Hafa samband

heimilin@heimilin.is

Á döfinni

Ársskýrsla HH 2022-2023

Ársskýrsla HH 2022-2023

Aðalfundur 2023

Samkvæmt venju eru fundargögn birt á heimasíðu samtakanna í aðdraganda aðalfundar í formi ársskýrslu.

Félagsmenn eru minntir á aðalfundinn kl. 20:00 fimmtudaginn 23. febrúar 2022, í húsnæði Hjálpræðishersins á Íslandi að Suðurlandsbraut 72, 108 Reykjavík.

Lesa áfram...
Glæpsamlegt áhlaup á varnarlaus heimili

Glæpsamlegt áhlaup á varnarlaus heimili

Hagsmunasamtök heimilanna mótmæla harðlega þeirri aðför að heimilum landsins sem Seðlabankinn stendur fyrir.

Á einu ári hefur Seðlabankinn aukið mánaðarlega greiðslubyrði heimilanna um 130 – 200.000 kr. í hverjum mánuði og það er augljóst öllu sæmilega skynsömu fólki, að heimili með meðaltekjur eða minna munu ekki standa undir þessum álögum til lengdar.

Það má líkja aðgerðum Seðlabankans við það að kveikja í húsi til að losna við köngulóavef.

Allar aðgerðir Seðlabankans eru verðbólguhvetjandi, því hvert fara ört hækkandi álögur á fyrirtæki, annað en út í verðlagið? Og hvert fer aukinn húsnæðiskostnaður heimilanna annað en beint inn í húsnæðislið vísitölu neysluverðs?

Og hvert fer fjármagn heimilanna annað en inn í troðfullar hirslur bankanna sem nú fitna eins og púkinn á fjósbitanum? Þar er sko veisla.

Það er hreinlega pínlegt að hlusta á gaslýsingar Seðlabankastjóra þegar hann reynir að sannfæra fólkið í landinu um að þessar verðbólguhvetjandi aðgerðir séu þeim til góðs og gerðar til að verja kjarabætur þeirra frá því að brenna upp á verðbólgubáli, því að á sama tíma tekur hann margfalt hærri fjárhæðir af fólkinu og afhendir bönkunum á silfurfati.

Skynsemin er víst ekki meiri en Guð gefur og maður skyldi ætla að nóg væri af henni innan veggja Seðlabankans, en þá ber að líta til þess hversu einsleitur hópurinn sem skipar peningastefnunefndina er. Þau koma öll úr fjármálageiranum og setja hagsmuni hans alltaf í forgang, eins og sjá má á vaxtahækkunum síðasta árs.

Lesa áfram...
Aðalfundur 2023

Aðalfundur 2023

Fundarboð aðalfundar

Hagsmunasamtök heimilanna boða hér með til aðalfundar, fimmtudagskvöldið 23. febrúar 2023 kl. 20:00, í hátíðarsal Hjálpræðishersins á Íslandi að Suðurlandsbraut 72, 108 Reykjavík.

Dagskrá:

  1. Skipun fundarstjóra, ritara, og fundarsetning
  2. Skýrsla stjórnar: Ásthildur Lóa Þórsdóttir, formaður
  3. Reikningar samtakanna: Sigríður Örlygsdóttir, gjaldkeri
  4. Tillaga stjórnar um ákvörðun félagsgjalda
  5. Tillögur um breytingar á samþykktum
  6. Kosning stjórnarmanna
  7. Kosning varamanna
  8. Kosning skoðunarmanna
  9. Önnur mál

Eftirfarandi tillaga um breytingu á samþykktum verður lögð fyrir fundinn:

4. mgr. 14. gr. orðast svo:

Verði samtökunum slitið, skal eignum þeirra ráðstafað til almannaheillafélags eða -félaga sem starfa að neytendamálum eða til stuðnings við fólk í fjárhagserfiðleikum. Með almannaheillafélögum er átt við lögaðila sem uppfylla skilyrði skráningar á almannaheillaskrá samkvæmt lögum um tekjuskatt eða almannaheillafélagaskrá samkvæmt lögum um félög til almannaheilla.”

Lesa áfram...
Að brjóta lög í sátt við yfirvöld

Að brjóta lög í sátt við yfirvöld

Sala Íslandsbanka - Fjármálaeftirlit

Íslenska ríkið eignaðist Íslandsbanka 2015 og sumarið 2021 fór fram almennt útboð á hlutabréfum ríkisins í bankanum. Í marsmánuði 2022 var hlutur ríkisins aftur til sölu en með tilboðsfyrirkomulagi ætluðu hæfum fjárfestum, í lokuðu útboði í umsjón Bankasýslu ríkisins. Seinna söluferli Íslandsbanka hefur verið harðlega gagnrýnt. Fjölmargir Alþingismenn kröfðust þess að rannsóknarnefnd yrði skipuð til að fara yfir ferlið. Ríkisstjórnin hafnaði því en fjármála- og efnahagsráðherra óskaði eftir stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar. Jafnframt réðst fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands (FME) í athugun á háttsemi söluaðilanna. Samkvæmt tilkynningu Íslandsbanka til Kauphallarinnar 9. janúar 2023 kemur fram í frummati FME að bankinn kunni að hafa brotið gegn nánar tilgreindum ákvæðum laga og reglna við framkvæmd sölunnar.  

Formaður stjórnar og alþingiskonan Ásthildur Lóa Þórsdóttir hefur gagnrýnt seinna söluferli bankans harðlega, bæði á Alþingi og á opinberum vettvangi. Í nýlegri grein fjallar Ásthildur Lóa um undirlægjuhátt yfirvalda í garð fjármálafyrirtækja í aðsendri grein í Heimildinni. Hún heitir: Að brjóta lög í sátt við yfirvöld. Hér er grein formanns Hagsmunasamtaka heimilanna:

Að brjóta lög í sátt við yfirvöld

Íslandsbanki er nú í einhverskonar sáttameðferð hjá Fjármálaeftirlitinu. Enn hefur hvorki verið upplýst um eðli eða alvarleika brota Íslandsbanka, en sagan sýnir að lögbrot fjármálafyrirtækja lúta allt öðrum lögmálum en lögbrot allra annarra og að refsingar, jafnvel fyrir stórfelld brot, hafa verið fáránlega vægar eða jafnvel engar.

Fórnarlömbunum refsað fyrir lögbrot

Á árunum fyrir hrun buðu bankar og önnur fjármálafyrirtæki upp á ólögleg lán. Fjölmargir létu blekkjast og gengu í gildruna. Stjórnendur bankanna og „kerfið“ vissu alveg að gengistryggð lán voru ólögleg. Fjármálaeftirlitið, Seðlabankinn, ríkisstjórnin og aðrir innan stjórnkerfisins létu þau engu að síður afskiptalaus og gerðu engar athugasemdir við veitingu þeirra svo árum skipti. 

Lesa áfram...
Fjármálaþjónusta - Lánshæfismat

Fjármálaþjónusta - Lánshæfismat

Hagsmunasamtök heimilanna gefa út greinargerð um lánshæfismat Creditinfo

Mat á lánshæfi er mælikvarði á hæfi lántakenda til lántöku. Sú krafa er lögð á lánveitendur með lögum um neytendalán (33/2013) að þeir meti lánshæfi umsækjenda áður en samningur um neytendalán er gerður. Með tilliti til hagsmuna lántakenda kynna Hagsmunasamtök heimilanna hér greinargerð sína um lánshæfismat Creditinfo og þær forsendur sem lagðar eru til grundvallar við útreikning þess. Markmið samtakanna er ávallt að standa vörð um hagsmuni lántakenda og tryggja vernd þeirra með tilliti til laga og reglna. Við hvetjum fólk til þess að leita til samtakanna ef þörf er á leiðsögn. Eftirfarandi er meginskilgreining lánshæfismatsins í lögum um neytendalán:

Sjá skilgreiningu í k-lið 5. gr. laga um neytendalán nr. 33/2013 sbr. 17. tölulið 4. gr. laga um fasteignalán til neytenda nr. 118/2016:

Lánshæfismat: Mat lánveitanda á lánshæfi lántaka byggt á upplýsingum sem eru til þess fallnar að veita áreiðanlegar vísbendingar um líkindi þess hvort lántaki geti efnt lánssamning. Lánshæfismat skal byggt á viðskiptasögu aðila á milli og/eða upplýsingum úr gagnagrunnum um fjárhagsmálefni og lánstraust. Lánshæfismat felur ekki í sér greiðslumat nema slíkt sé áskilið sérstaklega.

Lesa áfram...
Svört skýrsla um áhrif verðtryggingar fæst ekki birt

Svört skýrsla um áhrif verðtryggingar fæst ekki birt

Þingmaður Flokks fólksins vitnaði í svarta skýrslu sem ekki hefur fengist birt, í ræðu sinni á Alþingi í gær. Umrædd skýrsla var skrifuð af Dr. Ólafi Margeirssyni hagfræðingi og Jacky Mallett, lektor við Háskólann í Reykjavík, samkvæmt beiðni tólf þingmanna úr fimm flokkum. Þau skiluðu skýrslunni til félagsmálaráðuneytisins í júní í fyrra en hún hefur ekki enn fengist birt, þrátt fyrir ítrekaða eftirgrennslan Hagsmunasamtaka heimilanna.

Þingmanninn Ásthildi Lóu Þórsdóttur, sem einnig er formaður Hagsmunasamtaka heimilanna, þraut þolinmæðin í gær og ákvað hún að kunngjöra tilvist skýrslunnar og vitna í kafla hennar um áhrif verðtryggingarinnar á heimilin og hagkerfið.

Samkvæmt því sem Ásthildur Lóa sagði í ræðu sinni er ljóst að skýrslan er óþægileg fyrir stjórnvöld sem hafa varið verðtryggingu á lánum heimilanna með kjafti og klóm, þrátt fyrir loforð um annað. 

Einnig mælti þingmaðurinn fyrir rétti neytenda til að breyta úr verðtryggðum lánum í óverðtryggð en í þeirri ræðu komu fram sláandi niðurstöður sem sýna svart á hvítu hve mikil áhrif 3,4% hækkun verðbólgu frá ársbyrjun hefur haft á verðtryggð lán.

Almenningur á rétt á að sjá þessa skýrslu, ekki síst þegar litið er til þess hvernig fjármála- og efnahagsráðherra hefur ítrekað vísað til verðtryggðra lána sem „lausnar“ fyrir lántakendur sem ekki ráða við gríðarlegar vaxtahækkanir undanfarinna mánaða.

Þau eru ekki lausn, heldur gildra!

Hagsmunasamtök heimilanna

Lesa áfram...
Fátækragildra verðtryggðra lána

Fátækragildra verðtryggðra lána

Í síðasta tölublaði Stundarinnar (September 2022) var fjallað um áhrif vaxtahækkana á lántakendur og viðhorf þeirra og sérfræðinga til stöðunnar á húsnæðismarkaði. Í umfjöllun Stundarinnar koma fram sjónarmið sem að jafnaði eru ekki ofarlega í umræðu um húsnæðismál eða verðtryggð lán. Úttekt Stundarinnar gefur innsýn í fjárhagslegt og félagslegt misrétti sem lítið sem ekkert hefur verið fjallað um hingað til, en Hagsmunasamtök heimilanna þekkja mætavel.

Aldrei aftur verðtryggt lán

Það kemur þeim hagfræðingum sem Stundin ræddi við ekki á óvart að lántakendur haldi tryggð við óverðtryggð lán þrátt fyrir miklar hækkanir vaxta. Heilt yfir er það mat sérfræðinganna sem Stundin ráðfærir sig við að fólk sé að halda í óverðtryggð lán í lengstu lög og því hafi færri fært sig yfir í verðtryggð lán en kannski mátti búast við. Staðan gæti þó breyst og lántakendur gætu í auknum mæli þurft að færa sig yfir í verðtryggð lán, til að létta greiðslubyrðina (tímabundið).

Skýr samhljómur virtist vera meðal viðmælenda, bæði sérfræðinga og leikmanna um að verðtryggð lán séu lakasti kosturinn í íbúðarkaupum.

Lesa áfram...
Vaxtahækkanir og skyldur lánveitenda

Vaxtahækkanir og skyldur lánveitenda

Hagsmunasamtök heimilanna vekja athygli á upplýsingaskyldu lánveitanda í tengslum við vaxtahækkanir. Þegar Seðlabanki Íslands hækkar meginvexti sína (stýrivexti) fylgja oftast í kjölfarið hækkanir á útlánsvöxtum hjá fjármálastofnunum. Þær eru mismiklar og háðar mati hverrar fjármálastofnunar fyrir sig, en lögum samkvæmt verður þó að vera gagnsæi um slíkar ákvarðanir og forsendur þeirra. Samtökin hafa gagnrýnt vaxtahækkanir seðlabankans og lánveitenda. Burtséð frá þeirri gagnrýni lúta lánveitendur lögum og reglum sem þeir eiga að fylgja við framkvæmd þessara hækkanna.

Lesa áfram...
Ráðherra gengur erinda innheimtuaðila

Ráðherra gengur erinda innheimtuaðila

Fjármála- og efnahagsráðuneytið birti í samráðsgátt stjórnvalda 6. júlí síðastliðinn, drög að reglugerð um heimildir einkaaðila til að birta gögn í stafrænu pósthólfi.

Þrátt fyrir að titillinn láti ekki mikið yfir sér er þó um að ræða stórfellda breytingu á einu af grundvallaratriðum réttarkerfisins, þ.e. birtingu á stefnum og ýmisskonar tilkynningum sem geta haft réttaráhrif. Með reglugerðinni er fyrirhugað að veita einkaaðilum heimild til að nýta stafrænt pósthólf stjórnvalda (island.is) til að birta slík gögn með rafrænum hætti í stað þess að afhenda þau viðkomandi í eigin persónu eins og hingað til.

Að svo stöddu er þó aðeins ætlunin að veita tveimur flokkum aðila heimild til rafrænna birtinga, þ.e. lífeyrissjóðum og aðilum sem stunda löginnheimtu (innheimtulögmönnum). Slíkum aðilum yrði þá heimilt að nota tölvukerfi ríkisins til að birta m.a. greiðsluáskoranir, beiðnir um nauðungarsölur eða fjárnám og stefnur til að höfða dómsmál í því skyni að innheimta kröfur.

Drög að reglugerð um heimildir einkaaðila til að birta gögn i stafrænu pósthólfi 

Það vakna ýmsar spurningar vegna þessarar reglugerðar sem Hagsmunasamtök heimilanna myndu vilja fá svör við: 

  • Hver fór fram á að þessi reglugerð yrði sett?

  • Af hverju er fjármálaráðherra að setja reglugerð í málaflokki sem heyrir ekki undir hann heldur dómsmálaráðherra?

  • Er það hlutverk ríkisstjórnarinnar að auðvelda einkafyrirtækjum aðfarir að almenningi, með því að draga úr möguleikum hans til að taka til varna, þegar fjölmörg dæmi sýna að oft er farið í slíkar aðgerðir á vafasömum forsendum?

  • Veit fjármálaráðherra að nú þegar er það svo að hægt er að ónýta réttindi neytenda gagnvart fjármálafyrirtækjum með því að halda réttarhöld af þeim fjarstöddum og dæmi um að það hafi verið gert? Vill ráðherra raunverulega fjölga slíkum tilfellum?

  • Þegar um er að ræða gjörðir sem hafa mikil áhrif á hagsmuni neytenda til langs tíma, er þá eitthvað að því að framkvæmdin hjá innheimtuaðilanum, útheimti aðeins meiri fyrirhöfn en einn músarsmell?

  • Hefur fjármálaráðherra kynnt sér það algjöra varnarleysi sem neytendur búa við gagnvart hverskyns kröfum fjármála- og innheimtufyrirtækja? Ef svo er, væri ekki réttara að ráðast í að bæta þá stöðu frekar en að auka enn á varnarleysið?

  • Þegar neytendur annars vegar og innheimtu- eða fjármálafyrirtæki hins vegar takast á, er aðstöðumunurinn vægast sagt gríðarlegur. Er það virkilega forgangsmál ráðherrans að koma þessari reglugerð á og auka þannig  aðstöðumuninn enn frekar?

  • Veit ráðherra ekki að fjöldi fólks getur af ýmsum ástæðum ekki notað rafrænar lausnir á þessu sviði og því er gríðarleg hætta á að sá hópur verði ekki var við rafrænar birtingar og verði þannig beinlínis fyrir réttarspjöllum? Er það virkilega ætlun ráðherra að innleiða rafræna aðskilnaðarstefnu hér á landi?

  • Samkvæmt lögum um samskipti við hagsmunaaðila ber ráðherra að halda skrá yfir þau.

    1. Hvaða samskipti við hagsmunasamtök fjármálafyrirtækja (SFF), lögmannafélagið eða aðra sem hafa hag af þessari reglugerðarsetningu hafði ráðherra og/eða ráðuneytið í aðdraganda þessarar reglugerðar, hversu mörg voru þau og á hvaða formi (fundir, símtöl, tölvupóstar)? Við óskum eftir öllu sem var skráð.

    2. Hvaða samskipti við neytendaverndarsamtök hafði ráðherra/ráðuneytið í aðdraganda þessarar reglugerðar, hversu mörg voru þau og á hvaða formi (fundir, símtöl, tölvupóstar)? Við óskum eftir öllu sem var skráð.

Hagsmunasamtök heimilanna er fylgjandi innleiðingu rafrænna lausna og leggjast alls ekki gegn „pappírslausum viðskiptum“ eins og í formi yfirlita og rafrænna greiðsluseðla en hér er um meira en það að ræða.

Hagsmunasamtök heimilanna mótmæla því harðlega að gengið verði á rétt neytenda frekar en þegar er, með því að auðvelda innheimtuaðilum jafn afdrifaríkar aðgerðir og þegar kemur að greiðsluáskorunum, beiðnum um nauðungarsölur eða fjárnám og stefnur til að höfða dómsmál í því skyni að innheimta kröfur.

Varðandi aðrar athugasemdir vísa samtökin í umsögn sína við reglugerðina og óska formlega eftir svörum fjármálaráðherra við spurningum sínum. Hér er um gríðarlega stór hagsmunamál að ræða fyrir neytendur á fjármálamarkaði og í þessum málum þarf fyrst og fremst að tryggja að neytandinn sé sannanlega upplýstur um hvað standi til, að andmælaréttur hans sé virtur og að honum gefist raunhæft tækifæri til að taka til varna.

Dómsmálaráðuneytið hefur ekki sinnt þeirri skyldu sinni og nú þegar fjármálaráðuneytið sér allt í einu ástæðu til að grípa inn í þennan málaflokk þá er það til að veikja málstað neytenda enn frekar. Það fordæma Hagsmunasamtök heimilanna og leggjast alfarið gegn umræddri reglugerð.

Almenningur er ekki fóður fyrir innheimtulögmenn!

Hagsmunasamtök heimilanna

 

Lesa áfram...
Að verja heimilin með því að merja þau

Að verja heimilin með því að merja þau

Vextir hafa hækkað um 633% en launþegar eiga að sýna „skynsemi“ í launakröfum.

„Eigi skal höggva“, sagði Snorri Sturluson áður en hann var veginn. Þau orð eiga vel við núna því vaxtahækkun Seðlabankans í morgun er enn einn rýtingur í bakið á heimilum landsins. Aftur skal hoggið í sama knérunn og aftur eru það þau sem minnst hafa og mest skulda sem verst verða úti.

Vaxtahækkanir eru ekki lögmál og alls í ekki í þeim mæli sem Seðlabanki Íslands er að leyfa sér að beita þeim á þessum tímum. Heimili landsins munu langflest standa undir hækkandi vöruverði vegna verðbólgunnar, en þegar „lækningin“ margfaldar byrðar hennar, er hætt við að eitthvað láti undan.

Lesa áfram...
Aðgerðir gegn verðbólgunni verri en verðbólgan sjálf

Aðgerðir gegn verðbólgunni verri en verðbólgan sjálf

Yfirlýsing stjórnar

Hagsmunasamtök heimilanna mótmæla harðlega þeim aðgerðum sem ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur og Seðlabankinn undir stjórn Ásgeirs Jónssonar eru að beita í baráttu við verðbólguna, enda gera þær aðgerðir einungis illt verra fyrir allan þorra almennings á Íslandi. 

Það er líka verulega ámælisvert að forsætisráðherra og fjármálaráðherra hafa varla sést á undanförnum vikum og mánuðum á meðan Ísland er að ganga í gegnum einhverja verstu efnahagskrísu í tugi ára, að bankahruninu 2008 undanskildu. Þau hafa með þessu skeytingar- og aðgerðaleysi sýnt hug sinn í verki gagnvart heimilum landsins. Annað gildir um Seðlabankastjóra sem virðist hins vegar hafa tekið stjórnina (á landinu) og gripið til harðra aðgerða sem gera ekkert annað en að fórna heimilum landsins í opið gin bankanna, án þess að þau fái nokkra björg sér veitt. Það verður að draga þá ályktun að þögn sé sama og samþykki og ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur styðji þessar aðgerðir.

Stóraukin útgjöld

Til vitnis um fáránleika þessara aðgerða má benda á könnun ASÍ og Íslandsbanka frá því í júní en þá þegar höfðu mánaðarleg útgjöld fjögurra manna fjölskyldu hækkað um 81.916 krónur á einum mánuði. Af því voru 15.250 krónur vegna hækkunar á mat og bensíni á meðan mánaðarlegar vaxtagreiðslur af 40 milljón króna óverðtryggðu láni höfðu hækkað um 66.666 krónur eða fimmfalt það sem verðbólgan kostaði fjölskylduna.

Lesa áfram...
Samstarf í neytendavernd á fjármálamarkaði

Samstarf í neytendavernd á fjármálamarkaði

Þjónustusamningur við menningar- og viðskiptaráðuneytið

Fyrsta júní síðastliðinn undirritaði formaður Hagsmunasamtaka heimilanna þjónustusamning fyrir hönd samtakanna, við ráðuneyti menningar- og viðskipta um óháða ráðgjafaþjónustu og réttindagæslu á fjármálamarkaði. Samstarfið er tímamót í starfi samtaka sem hafa lengi talað opinberlega fyrir auknum réttindum og bættum kjörum lántakenda í viðskiptum sínum. Þá ekki síst í sambandi við bæði fjárhagslegar og félagslegar afleiðingar efnahagshrunsins. Það hefur lengi verið þörf á að styrkja stoðir neytendaréttar á fjármálamarkaði og óháð ráðgjafarþjónusta er ein birtingarmynd þess.

Lesa áfram...
Subscribe to this RSS feed

© Hannað af Filmís 

Hagsmunasamtök heimilanna voru stofnuð 15. janúar 2009 og eru frjáls og óháð hagsmunasamtök á neytendasviði, til varnar og hagsbóta fyrir heimilin í landinu.

Orð frá formanni

CEO 

Orð frá formanni Varlega áætlað hafa 15.000 fjölskyldur, 45.000 einstaklingar misst heimili sín frá hruni. Enginn hefur svarað fyrir það, hvað þá axlað á því ábyrgð. 

Þegar 15% þjóðarinnar missa heimili sín, gætir áhrifanna víða. Við sjáum þau í ástandinu á leigumarkaði og við sjáum þau líka í auknum kvíða meðal ungmenna og kulnun hjá þeim sem eldri eru.

Þegar fólk er svipt heimilum sínum glatar það öryggi sínu sínu og fótfestu. Þegar við bætist magnvana reiði og örvænting vegna óréttlætisins sem það stendur frammi fyrir ásamt hjálpar- og varnaleysinu sem það upplifir þegar heimilinu er hreinlega stolið af því, er ekki nema von að eitthvað láti undan.

Spillingin í þjóðfélaginu er djúp og hún á sér margar hliðar. Hún birtist ekki bara í háu húsnæðisverði og skelfilegum leigumarkaði eða háum vöxtum og verðtryggingu, hún birtist ekki bara í því hvernig lífeyrissjóðirnir misfara með fé okkar allra eða í „krónu á móti krónu“ skerðingu, hún birtist ekki bara í lágum launum verkafólks á meðan sjálftökufólk af ýmsum toga skammtar sjálfu sér milljónir, hún birtist ekki bara í spilltum dómstólum sem gæta hagsmuna „hinna sterku“ í dómum sínum eða í því hvernig lög- og stjórnaskrárvarin réttindi hafa verið brotin á neytendum frá hruni með skelfilegum afleiðingum.

Nei, hún birtist í þessu öllu og meiru til. Spillingin er djúp og teygir anga sína víða. Hana þarf að rífa upp með rótum til að hægt sé að byggja upp nýtt og betra þjóðfélag.

Fyrsta skrefið væri að að afnema verðtryggingu á lánum heimilanna! Öðruvísi er ekki hægt að skapa eðlilegan húsnæðismarkað eða stöðva sjálftöku fjármálastofnanna á tekjum fólks.

En til að takast á við ræturnar þarf að fara fram rannsókn á aðgerðum stjórnvalda eftir hrun. Jú það var líka spilling fyrir hrun, en þá urðu ákveðin vatnaskil og það var þá sem meðvituð ákvörðun var tekin um að fórna heimilum landsins fyrir bankana.

15.000 heimili eiga skilið að fá svör og uppreist æru.

Við biðjum ykkur um að styðja kröfuna um Rannsóknarskýrslu heimilanna!

Ásthildur Lóa Þórsdóttir
Formaður HH

Fylgstu með á samfélagsmiðlum