Símatími

Mán - þri kl. 10-13

Hafa samband

heimilin@heimilin.is

Á döfinni

Ársskýrsla HH 2020-2021

Ársskýrsla HH 2020-2021

Samkvæmt venju eru fundargögn birt á heimasíðu samtakanna í aðdraganda aðalfundar í formi ársskýrslu.

Félagsmenn eru minntir á aðalfundinn kl. 20:00 þriðjudaginn 23. febrúar 2021, í nýju húsnæði Hjálpræðishersins á Íslandi að Suðurlandsbraut 72, 108 Reykjavík.

Lesa áfram...
Aðalfundur 2021

Aðalfundur 2021

Kæru félagsmenn,

Hagsmunasamtök heimilanna boða hér með til aðalfundar, þriðjudagskvöldið 23. febrúar 2021 kl. 20:00, í nýju húsnæði Hjálpræðishersins á Íslandi að Suðurlandsbraut 72, 108 Reykjavík.

Lesa áfram...
Óháð ráðgjöf fyrir heimilin í efnahagskreppu

Óháð ráðgjöf fyrir heimilin í efnahagskreppu

Hagsmunasamtök heimilanna hafa hlotið styrk frá félags-og barnamálaráðherra til að aðstoða heimili í vanda vegna Covid-19.

Hagsmunasamtökin hafa starfað í 12 ár og hafa allan þann tíma veitt heimilum óháða ráðgjöf um stöðu þeirra á fjármálamarkaði, þá einu sem í boði er hér á landi. Hjá samtökunum hefur safnast upp gríðarleg þekking á málefnum neytenda á fjármálamarkaði og réttindum þeirra sem eru því miður ekki alltaf virt af fjármálafyrirtækjum þar sem neytendur standa oft höllum fæti. 

Hagsmunasamtökin hafa ítrekað leitað eftir stuðningi opinberra aðila til að veita neytendum óháða ráðgjöf í þeim frumskógi sem lánamarkaðir, lánakjör og lánsform eru á Íslandi. Samtökin telja það tímaskekkju að á 21. öldinni séu lántakendur háðir lánveitendum um ráðgjöf í þessum stærstu fjárfestingum hvers heimilis enda fara hagsmunir þessara aðila ekki alltaf saman.

Lesa áfram...
Reykjavíkurborg endurgreiðir umsækjendum um greiðsluaðlögun oftekna dráttarvexti

Reykjavíkurborg endurgreiðir umsækjendum um greiðsluaðlögun oftekna dráttarvexti

Fréttatilkynning

Föstudaginn 22. janúar sl. birtist tilkynning á vef Reykjavíkurborgar þar sem kom fram að borgin muni endurgreiða oftekna dráttarvexti af fasteignagjöldum sem lagðir voru á einstaklinga sem höfðu leitað greiðsluaðlögunar hjá embætti umboðsmanns skuldara.

Með dómi Hæstaréttar 8. mars 2018 í máli nr. 159/2017, var staðfest að kröfuhöfum væri óheimilt að krefjast dráttarvaxta af kröfum á því tímabili sem einstaklingar hefðu notið tímabundinnar frestunar greiðslna eða á tímabili svokallaðs greiðsluskjóls vegna greiðsluaðlögunarumleitana.

Lesa áfram...
Opið bréf til fjármála- og efnahagsráðherra

Opið bréf til fjármála- og efnahagsráðherra

Álit Hagsmunasamtaka heimilanna á hugmyndum um sölu á hlutafé ríkisins í Íslandsbanka

Hagsmunasamtök heimilanna leggjast alfarið gegn þeirri ákvörðun fjármála- og efnahagsráðherra að fallast á tillögu Bankasýslu ríkisins um sölu á eignarhlutum í Íslandsbanka, að svo stöddu.

Afstaða samtakanna byggist fyrst og fremst á því að ástæða þess að íslenska ríkið á tvo af þremur stóru bönkunum og þar með meirihluta bankakerfisins, er fordæmalaust fjármálahrun árið 2008 sem hafði geigvænlegar afleiðingar fyrir íslenskt samfélag. Fleiri en 10.000 heimili misstu húsnæði sitt og tugþúsundir eru enn í sárum eftir þann hildarleik sem hófst í kjölfar hrunsins.

Fjármálahrunið er sagt hafa verið rannsakað, en við lestur á þeim skýrslum sem hafa verið gefnar út um þær rannsóknir kemur í ljós að þær eiga það allar sameiginlegt að endapunktur þeirra miðaðist við hrunið. Aftur á móti hefur engin slík rannsókn farið fram á atburðum sem gerðust eftir hrunið og skelfilegum áhrifum þeirra á heimili landsins. Samtökin hafa um árabil barist fyrir því að skipuð verði rannsóknarnefnd sem vinni slíka rannsókn og skili af sér Rannsóknarskýrslu heimilanna.

Rannsóknarskýrsla heimilanna er nauðsynleg forsenda þess að hægt verði að gera upp við hrunið og leitast við að græða þau sár sem það skildi eftir sig, að því marki sem kostur er. Án slíkrar rannsóknar og réttmætra viðbragða við niðurstöðum hennar, er hin raunverulega staða fjármálakerfisins óvissu háð því ekki eru öll kurl komin til grafar. Sem dæmi eru enn að koma upp mál þar sem lánastofnanir hafa orðið uppvísar að því að hlunnfara viðskiptavini og þurft að endurgreiða háar fjárhæðir.

Það kemur ekki til greina að selja neitt af eignarhlutum ríkisins í bönkum fyrr en að undangenginni ítarlegri rannsókn og birtingu Rannsóknarskýrslu heimilanna og uppgjöri við þá sem urðu fyrir tjóni vegna framferðis nýju bankanna sem voru stofnaðir á brunarústum hrunbankanna og hinna ýmsu afkvæma þeirra. Tækifæri sem þetta til að endurskipuleggja fjármálakerfið í þágu almennings er ekki víst að komi aftur og það verður að vera í forgangi fyrir einkavæðingarhugmyndum.

Aðrar hugmyndir en einkavæðing hafa ekki heldur verið teknar til nægilega vel ígrundaðrar umræðu. Sem dæmi gæti komið til greina að nýta arð ríkisins af bönkunum til að gera heilt við þá sem fóru illa út úr hruninu án þess að eiga sök á því. Eða breyta þeim í samfélagsbanka sem yrðu reknir þannig að hagnaður af þeim kæmi fram í betri kjörum frekar en mikilli arðsemi af rekstri. Slíkar hugmyndir þarf að taka til umræðu og leggja á þær mat, ekki síður en einkavæðingarhugmyndir.

Margt skýtur skökku við þær hugmyndir sem nú eru uppi um einkavæðingu Íslandsbanka að hluta. Tímasetningin virðist miða að því að koma þessari hrinu einkavæðingar af stað fyrir kosningar í haust, sem er í besta falli grunsamlegt. Öllu verra er þó að talsmenn einkavæðingarinnar hafa ekki fært fram neinar haldbærar ástæður fyrir henni, heldur aðeins hugmyndafræðilegar kenningar.

 

Hvers vegna að selja (núna eða yfir höfuð)?

Margvíslegar ástæður og markmið með hugmyndum um sölu á eignarhlutum ríkisins í Íslandsbanka eða öðrum bönkum hafa verið sett fram sem koma ekki heim og saman við nánari skoðun.

Ekki hlutverk ríkisins að reka banka

Þetta eru ekki rök heldur fullyrðing byggð á þeirri hugmyndafræði að allt sem geti verið einkarekið, eigi að vera það. Öllum er frjálst að hafa slíka lífsskoðun, en þeir sem aðhyllast hana hafa aldrei fært rök fyrir því hvers vegna það sé endilega verra að ríkið eigi banka sem þjóni samfélaginu.

Lesa áfram...
Vaxtahækkun Arion banka var óheimil

Vaxtahækkun Arion banka var óheimil

Fréttatilkynning

Neytendastofa hefur komist að þeirri niðurstöðu með ákvörðun sinni að vaxtahækkun Arion banka á tilteknum flokki húsnæðislána hafi brotið gegn neytendaverndarlögum. Ákvörðunin á rætur að rekja til kvörtunar Hagsmunasamtaka heimilanna fyrir hönd félagsmanns sem ofgreiddi vexti af tveimur húsnæðislánum í rúm fjögur ár, frá því að Arion banki hækkaði þá í apríl 2015. Sjá niðurstöðu hér.

Lesa áfram...
Uppgreiðslugjöld Íbúðalánasjóðs dæmd ólögleg

Uppgreiðslugjöld Íbúðalánasjóðs dæmd ólögleg

Spurt og svarað frá Hagsmunasamtökum heimilanna - ásamt sniðmáti að endurkröfubréfi og fyrirvara vegna uppgreiðslu

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur um að uppgreiðslugjöld Íbúðalánasjóðs hafi verið ólögleg er svo sannarlega tímamótadómur fyrir alla lántakendur Íbúðalánasjóðs, ekki síst þá sem hafa greitt há uppgreiðslugjöld en dæmi eru um að þau hafi jafnvel verið um 20% af uppgreiðslunni.

Þar stendur hnífurinn í kúnni. Uppgreiðslugjöld eru ekki ólögleg í sjálfu sér, en þau verða bæði að vera innan hóflegra marka og hámarkshlutfall þeirra sett fram á skýran hátt.

Lesa áfram...
Heimilin eiga inni allt að 250% vaxtamun

Heimilin eiga inni allt að 250% vaxtamun

Fréttatilkynning

Hagsmunasamtök heimilanna krefjast þess að bankarnir dragi vaxtaokur og vaxtahækkanir sínar til baka og geri þeir það ekki að eigin frumkvæði grípi stjórnvöld til þeirra úrræða sem þau geta til að stöðva þessa ósvinnu. Hagsmunasamtök heimilanna ítreka kröfu sína fyrir hönd heimilanna í landinu um að bankarnir taki á sig byrðarnar með öðrum í samfélaginu og benda á þá staðreynd að heimilin eiga inni hjá bönkunum allt að 250% vaxtamun á húsnæðislánum.

Neytendur hljóta að gera þá kröfu til stjórnvalda að þau sjái til þess að sú lækkun nái strax fram að ganga.

Hagsmunasamtök heimilanna ítreka að það er ólíðandi að bankarnir stingi mismuninum í eigin vasa, ekki síst í núverandi árferði.

Lesa áfram...
Heimilin á óvissutímum

Heimilin á óvissutímum

Ávarp formanns til félagsmanna í nýlegu fréttabréfi HH

Það er í algjörum forgangi hjá Hagsmunasamtökum heimilanna á þessum tímum að verja heimilin fyrir afleiðingum Covid-19. Krafa okkar er sú að enginn, ekki ein einasta fjölskylda, eigi að missa heimili sitt vegna aðstæðna sem þær bera enga sök á. Þetta höfum við fjallað um í ræðu og riti en eins og sjá má á listanum neðst í þessu fréttabréfi yfir verkefni HH síðan veiran kom upp, höfum við ekki legið á liði okkar. 

Lesa áfram...
Þversagnir dómstóla í verðtryggingarmálum

Þversagnir dómstóla í verðtryggingarmálum

Það hefur því miður dregist nokkuð að upplýsa félagsmenn um niðurstöðu “stærsta skaðabótamáls Íslandssögunnar” einfaldlega vegna þess að það hefur vafist fyrir okkur hvernig fara ætti að því. Þó að niðurstaðan sé í sjálfu sér einföld (við töpuðum) þá eru útúrsnúningar málsins, rökleysur dómstóla, mótsagnir og hringavitleysan með þeim hætti, að hvorki er hægt að finna haus né sporð.

Lesa áfram...
Guð blessi heimilin - aftur?

Guð blessi heimilin - aftur?

YFIRLÝSING STJÓRNAR HAGSMUNASAMTAKA HEIMILANNA

Stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna krefst þess að þingmenn, ráðherrar og ríkisstjórn Íslands taki pólitíska ákvörðun um að verja heimilin fyrir afleiðingum Covid faraldursins, ekki síður en fyrirtæki.

Það á enginn, ekki ein einasta fjölskylda, að eiga á hættu að missa heimili sitt af völdum Covid-19. Heimili landsins eru ekki einhver „afgangsstærð“ eins og (sumir) ráðherrar í ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur virðast halda. Þau eru þvert á móti grunnur samfélagsins, því án heimila væru engin fyrirtæki og ekkert samfélag til.

Lesa áfram...
Tími til aðgerða er núna!

Tími til aðgerða er núna!

Núna upplifa margar fjölskyldur óvissu og jafnvel ótta um hvað framtíðin muni bera í skauti sínu. 

Áhrif Covid á atvinnulífið og þar með afkomu fjölskyldna eru meiri en vonast var til í vor og margir sjá fram á að geta ekki staðið við skuldbindingar sínar, t.d. hvað varðar fasteignalán. Hjá fæstum stafar það af „óskynsemi“ eða „of-fjárfestingum“, heldur vegna ástands sem ekki var á valdi fjölskyldna að sjá fyrir eða bregðast við.

Krafa Hagsmunasamtaka heimilanna er einföld: 

 

Enginn á að þurfa að missa heimili sitt vegna afleiðinga Covid-19!

Reyndar á engin fjölskylda nokkurn tímann að þurfa að missa heimili sitt vegna tímabundinna vandkvæða, hvort sem þau eru persónuleg, þjóðarinnar allrar, eða alþjóðleg.

Samkvæmt mannréttindasáttmálum sem Ísland hefur skrifað undir og staðfest eru það mannréttindi að eiga heimili. 

Engu að síður hafa a.m.k. 15.000 fjölskyldur misst heimili sín vegna síðasta hruns, vegna þess að þeir sem fóru fyrir fjármálageiranum virtu hvorki lög né leikreglur, heldur litu á neytendur sem peð í sínum ljóta leik.

Til að koma í veg fyrir að svipaðar hörmungar endurtaki sig, þarf að grípa til aðgerða NÚNA!

Það er of seint þegar skaðinn er skeður!

Þess vegna sendu Hagsmunasamtökin áskorun/fréttatilkynningu í vikunni á fjölmiðla og alla ráðherra ríkisstjórnarinnar til að minna á að þeir bera ALLIR ábyrgð á að verja heimili landsins og að þeim beri að setja hagsmuni þeirra ofar hagsmunum fjármálafyrirtækjanna.

Það liggur fyrir að þrátt fyrir digurbarkaleg orð fjármálaráðherra og Seðlabankastjóra í vor, um að verðbólgu yrði haldið í skefjum, að þeir eru að missa tök á henni.

Þar sem vextir hafa aldrei verið lægri á Íslandi í manna minnum, er kjörið tækifæri núna fyrir ríkisstjórnina að afnema verðtrygginguna á lánum heimilanna, og uppfylla með því sinn eigin stjórnarsáttmála.

Það allra minnsta sem ríkisstjórnin getur gert er að setja þak á verðtrygginguna og tryggja þannig heimilin fyrir skelfilegum og langvinnum áhrifum hennar á afkomu þeirra og fjárhag.

Þetta hefði að sjálfsögðu átt að gera í vor eins og Hagsmunasamtökin fóru ítrekað fram á enda sýna tölur um verðbólguvæntingar Seðlabanka Íslands að heimilin eru einu aðilarnir sem hafa reynst sannspáir um verðbólguvæntingar á þessu ári. Fyrirtæki, markaðsaðilar og markaðurinn sjálfur, vanmátu þær hins vegar.

Andvaraleysi stjórnvalda gagnvart þeirri vá sem mörg heimili standa frammi fyrir er algjörlega óforsvaranlegt. Sporin hræða og það má ekki gerast aftur að heimilum landsins verði fórnað á altari fjármálafyrirtækja eins og gert var eftir síðasta hrun.

Hagsmunasamtök heimilanna munu gera allt sem í þeirra valdi stendur til að verja heimili landsins fyrir sterkum hagsmunaaðilum. Þetta er ójafn leikur því það er ekki nóg með að hagsmunasamtök fjármálafyrirtækja (SFF) séu með beinan aðgang að stjórnvöldum, heldur hafa þau líka aðgang að ómældu fjármagni til að kosta hagsmunabaráttu sína.

Við þetta berjast Hagsmunasamtök heimilanna í sjálfboðavinnu. Fjármagnið er lítið sem ekkert, en réttlætið, lögin og Stjórnarskráin, eru svo sannarlega okkar megin, að ógleymdri hugsjóninni fyrir réttlátu Íslandi og eldmóðnum sem fleytir okkur langt.

Hér er tengill á fréttatilkynningu okkar frá því í gær ÍTREKUN: Tryggjum heimilunum skjól undir öruggu þaki.

Ef þú vilt leggja Hagsmunasamtökum heimilanna lið getur þú skráð þig í samtökin hér og greitt valfrjáls félagsgjöld kr. 4.900 á ári.

 

Okkur munar um allan stuðning!

 

Ásthildur Lóa Þórsdóttir

formaður Hagsmunasamtaka heimilanna



Lesa áfram...
Subscribe to this RSS feed

© Hannað af Filmís 

Hagsmunasamtök heimilanna voru stofnuð 15. janúar 2009 og eru frjáls og óháð hagsmunasamtök á neytendasviði, til varnar og hagsbóta fyrir heimilin í landinu.

Orð frá formanni

CEO 

Orð frá formanni Varlega áætlað hafa 15.000 fjölskyldur, 45.000 einstaklingar misst heimili sín frá hruni. Enginn hefur svarað fyrir það, hvað þá axlað á því ábyrgð. 

Þegar 15% þjóðarinnar missa heimili sín, gætir áhrifanna víða. Við sjáum þau í ástandinu á leigumarkaði og við sjáum þau líka í auknum kvíða meðal ungmenna og kulnun hjá þeim sem eldri eru.

Þegar fólk er svipt heimilum sínum glatar það öryggi sínu sínu og fótfestu. Þegar við bætist magnvana reiði og örvænting vegna óréttlætisins sem það stendur frammi fyrir ásamt hjálpar- og varnaleysinu sem það upplifir þegar heimilinu er hreinlega stolið af því, er ekki nema von að eitthvað láti undan.

Spillingin í þjóðfélaginu er djúp og hún á sér margar hliðar. Hún birtist ekki bara í háu húsnæðisverði og skelfilegum leigumarkaði eða háum vöxtum og verðtryggingu, hún birtist ekki bara í því hvernig lífeyrissjóðirnir misfara með fé okkar allra eða í „krónu á móti krónu“ skerðingu, hún birtist ekki bara í lágum launum verkafólks á meðan sjálftökufólk af ýmsum toga skammtar sjálfu sér milljónir, hún birtist ekki bara í spilltum dómstólum sem gæta hagsmuna „hinna sterku“ í dómum sínum eða í því hvernig lög- og stjórnaskrárvarin réttindi hafa verið brotin á neytendum frá hruni með skelfilegum afleiðingum.

Nei, hún birtist í þessu öllu og meiru til. Spillingin er djúp og teygir anga sína víða. Hana þarf að rífa upp með rótum til að hægt sé að byggja upp nýtt og betra þjóðfélag.

Fyrsta skrefið væri að að afnema verðtryggingu á lánum heimilanna! Öðruvísi er ekki hægt að skapa eðlilegan húsnæðismarkað eða stöðva sjálftöku fjármálastofnanna á tekjum fólks.

En til að takast á við ræturnar þarf að fara fram rannsókn á aðgerðum stjórnvalda eftir hrun. Jú það var líka spilling fyrir hrun, en þá urðu ákveðin vatnaskil og það var þá sem meðvituð ákvörðun var tekin um að fórna heimilum landsins fyrir bankana.

15.000 heimili eiga skilið að fá svör og uppreist æru.

Við biðjum ykkur um að styðja kröfuna um Rannsóknarskýrslu heimilanna!

Ásthildur Lóa Þórsdóttir
Formaður HH

Fylgstu með á samfélagsmiðlum