Símatími

Mán - þri kl. 10-13

Hafa samband

heimilin@heimilin.is

Á döfinni

Hagsmunasamtökum heimilanna veitt bjartsýnisverðlaun Framsóknarflokksins

Laugardaginn 9. apríl veitti Framsóknarflokkurinn Hagsmunasamtökum heimilanna bjartsýnisverðlaunin á flokksþingi í Súlnasal Hótel Sögu. Andrea J. Ólafsdóttir, Gunnar Kristinn Þórðarson, Vilhjálmur Bjarnason og Þórður B. Sigurðsson mættu fyrir hönd stjórnar og varastjórar og tók formaðurinn við verðlaununum við dynjandi lófatak og hélt ræðu fyrir flokksþingið.

Í ræðu sinni hvatti Andrea flokksþingið til að samþykkja ályktun um tímasetta áætlun um afnám verðtryggingar, og bað hún viðstadda flokksmenn um að rétta upp hönd sem styddu málið. Næstum allir flokksmenn réttu upp hönd.

Berum við í Hagsmunasamtökum heimilanna von í brjósti að viðbrögð fundagesta séu merki um breytt viðhorf flokksins til verðtryggingar.

Hér birtist ræða Andreu í heild sinni.

 

"Bjartsýni já – það má með sanni segja að ef við værum ekki bjartsýn á breytingar og réttlæti í þágu heimilanna, þá hefðu HH sennilega verið lögð niður.
Heimilin eru helsta grunnstoð samfélagsins. Þau eru hreiður barnanna okkar. Öflug heimili eru grunnurinn að öflugu samfélagi. Standi stjórnvöld og fjármálastofnanir fyrir því að veikja undirstöðuna, heimilin, veikja þeir eigin undirstöður. Standi stjórnvöld og fjármálastofnanir fyrir því að búa svo um hnútana að þjófarnir sem fóru bakdyramegin inn á heimili okkar, geti nú farið inn um framdyrnar um hábjartan dag og gert það sem þeim sýnist - þá fyrst mun sannarlega verða alvarlegt siðrof í þessu samfélagi. Þá mun svo fara að fólkið í landinu flytur af landi brott í miklu mun meira mæli en það hefur gert hingað til. Þeir sem nú eru hérna eftir eru þeir sem hafa hag af ástandinu, þeir sem hafa gefist upp gagnvart kerfinu og þeir sem enn eru bjartsýnir, enn eru að vonast til að sjá raunverulegar breytingar verða -  í átt að réttlæti.
HH eru ennþá bjartsýn á að forsendubrestur bæði verð- og gengistryggðra lánasamninga verði viðurkenndur. Sú viðurkenning er nauðsynleg svo réttlætið geti náð fram að ganga. Það að hafa eina breytu í lánasamningi algerlega opna, með engum takmörkunum getur aldrei talist eðlilegir né sanngjarnir viðskiptahættir.
Þar sem þið sem hér sitjið áttið ykkur mjög vel á því að HH eru aldeilis ekki upp á punt, þá langar okkur að fara þess á leit við ykkur hér í salnum að reisa hendur í samþykki fyrir því að fundurinn útbúi ályktun þess efnis  að skora á stjórnarflokkana að útbúa tímasetta áætlun um afnám verðtryggingar – í sömu ályktun gætuð þið skorað á þá opinberu þingnefnd sem nú fjallar um verðtrygginguna, með það að markmiði að finna leiðir til að draga úr vægi hennar, sendi frá sér skýrslu þar sem raunverulegar raunhæfar leiðir til úrbóta í því sambandi verða kynntar til sögunnar. Formann nefndarinnar, Eygló Harðardóttur, sem líklegast situr hér í salnum, skorum við á að leiða skýrsluna til lykta með þeim hætti svo við getum áfram haldið í þá vonarglætu að breytinga sé von, að áratugaánauð verðtryggingar á heimilin í landinu verði aflétt.
Stjórn HH vill þakka þann mikla heiður að hljóta bjartsýnisverðlaunin og mun halda ljóskyndlinum á lofti fyrir heimilin í landinu."
Lesa áfram...

Endurútreikningar gengisbundina lána byggja á ólögum

Stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna hefur frá upphafi mótmælt harðlega þeim afturvirku vaxtaútreikningum sem haldið hefur verið fram að Hæstiréttur hafi dæmt (dómur frá 16. sept. 2010 471/2010). Hið rétta er að Hæstiréttur heimilaði aldrei nýja vaxtaútreikninga aftur í tímann heldur var gerður samningur á milli Lýsingar og umrædds lántaka um slíka útreikninga en þeim var að sjálfsögðu frjálst að gera það.

Stjórnvöld, sem hafa i lengstu lög reynt að gæta hagsmuna bankanna og bílalánafyrirtækjanna á kostnað heimilanna, túlkuðu þennan samning sem svo að hann væri dómur Hæstaréttar. Eftir er að reyna á að lögin sem endurútreikningar lánanna byggja á, standist skoðun dómstóla. Þau kveða á um afturvirka vaxtaútreikninga sem lögfróðir menn telja í andstöðu við margvísleg önnur ákvæði laga og stjórnarskrár, svo ekki sé minnst á neytendarétt. Hér er mikið hneyksli í uppsiglingu og ríkið hefur ef að líkum lætur skapað sér stórkostlega skaðabótaskuld.

Nú eru fjármálafyrirtæki að senda viðskiptavinum sínum endurreikning gengistryggðra lána.  Ef félagsmenn eru ósáttir eða óvissir um niðurstöðurnar og vilja fá aðstoð við að láta skoða þær frekar eru 3 megin leiðir i stöðunni:

  • fara til síns fjármálafyrirtækis og fara fram á útskýringar endurreiknings
  • biðja umboðsmann skuldara að meta endurreikninginn
  • leita til óháðra ráðgjafa á því sviði, t.d. spara.is eða lögmanna

Eins og kemur fram að ofan ríkir lagaleg óvissa um afturvirka vaxtaútreikninga. Bílalánafyrirtækin hafa einnig verið án lagalegra heimilda að vörslusvipta bifreiðaeigendur sem eru að fara í greiðsluaðlögun. Þetta er gert með riftun svonefndra leigusamninga sem dómstólar hafa áður skorið úr um að eru í reynd dulbúnir kauplánasamningar. Það eru langsóttir gjörningar sem umboðsmaður skuldara hefur gert alvarlegar athugasemdir við.

Lesa áfram...

Afturvirkir vaxtaútreikningar gerðir afturrækir?

Að sögn Samtaka lánþega telja þeir að nýfallinn hæstaréttardómur girði fyrir afturvirka hærri vaxtaútreikninga hjá lánastofnunum. Sjá túlkun Samtaka lánþega á dóminum hér. Um er að ræða tvo dóma: (smellið á númerið til að lesa dómana á vef hæstaréttar) 603/2010 og 604/2010

Marinó G Njálsson fjallar einnig um dómana á bloggi sínu hér en telur niðurstöðurnar skilja vaxtaútreikningana í óvissu enn einu sinni.

Lesa áfram...

Eignaupptaka lánastofnana á fullu

Nokkuð víst má telja að margur er að missa heimili og aleiguna í klær fjármálastofnana þessa dagana (sjá frétt á vef RÚV). Forsendubrestur er ekki viðurkenndur af stjórnvöldum af því það þykir "of dýrt". Spyrja má, of dýrt fyrir hvern? Í fréttinni birtist "réttlæti" og "lausnir" stjórnvalda og fjármálakerfisins í hnotskurn.

Fólkið sem hefur misst og mun missa það sem það hefur nurlað saman um ævina mun líkast til ekki gleyma þessu í bráð. Það er ekki nóg með að eigur þess eru gerðar upptækar á grundvelli stórtækra fjársvika, okkur er boðið á námskeið í fjármálalæsi ofl. til frekari niðurlægingar.

Hagsmunasamtök heimilanna telja þessa leið dýrari, óréttláta og í reynd ófæra fyrir samfélag sem vill standa undir nafni. Það verður ekki sagt að stjórnvöld og forráðamenn fjármálakerfis hafi ekki verið aðvöruð eða bent á réttlátari leiðir til að leysa vandann.

Sjá frétt á vef RÚV

Lesa áfram...

Skattpíning bifreiðanotenda

FÍB hafa hafið undirskriftasöfnun til að mótmæla enn meiri skattheimtu bifreiðanotkunar í gegn um vegtolla. Þeir segja að sátt hafi verið um innheimtu bensíngjalds til að standa undir vegagerð og viðhaldi og hér sé verið að ógna og brjóta á þeirri sátt. Þess má reyndar geta að skattheimta af bifreiðum er mun hærri en sá kostnaður sem ríkið hefur af vegagerð og tengdum útgjaldaliðum. Tollhlið á vegi út úr höfuðborginni munu augljóslega auka mjög á kostnað heimila við samgöngur.

Kristján Möller fyrrum ráðherra samgöngumála hefur nefnt í viðtölum að finna þurfi nýjar leiðir til gjaldtöku fyrir vegagerð þar sem rafbílum fari að fjölga á næstu árum. Þarf ríkið ekki að koma með áætlun um rafvæðingu bílaflota landsmanna um leið og áætlanir af þessu tagi eru settar út? Rafvæðing bílaflotans tekur einhver ár og er spurning hvort ekki sé áhugi fyrir að skoða framleiðslu á rafbílum hérlendis. Hugsanlega má nýta eitthvað af öllu því áli sem hér er framleitt. Að svo stöddu hafa Hagsmunasamtök heimilanna ekki fjallað formlega um málið og vísa á heimasíðu FÍB fyrir þá sem vilja kynna sér málið og taka undir kröfur FÍB.

Nú þegar hafa safnast mörg þúsund undirskriftir og því ljóst að mikil andstaða er við áform stjórnvalda. Stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna hefur áhyggjur af auknum álögum á heimili landsmanna svo ekki sé minnst á áhrifin á verðtryggð lán. Hér er enn eitt dæmið um fáránleika verðtryggingar þar sem hugsanlegt er að þessar auknu álögur hafi áhrif til hækkunar vísitölu neysluverðs. Með miklum hækkunum á eldsneytisverði undanfari ár hafa landsmenn dregið úr notkun bifreiða nú þegar. Spurningin er hvort sú notkun sé komin niður í nauðþurftanotkun eða hvort svigrúm sé fyrir enn meiri samdrátt á þessu sviði. Við vitum um nokkra sem mundu kætast mjög við slíkar fréttir en þau heimili sem hafa minnstar tekjur myndu líða mest fyrir breytingar af þessu tagi. Þau verða nánast njörvuð niður innan eða utan borgarmakanna með skattheimtu.

Lesa áfram...
Subscribe to this RSS feed

© Hannað af Filmís 

Hagsmunasamtök heimilanna voru stofnuð 15. janúar 2009 og eru frjáls og óháð hagsmunasamtök á neytendasviði, til varnar og hagsbóta fyrir heimilin í landinu.

Orð frá formanni

CEO 

Orð frá formanni Varlega áætlað hafa 15.000 fjölskyldur, 45.000 einstaklingar misst heimili sín frá hruni. Enginn hefur svarað fyrir það, hvað þá axlað á því ábyrgð. 

Þegar 15% þjóðarinnar missa heimili sín, gætir áhrifanna víða. Við sjáum þau í ástandinu á leigumarkaði og við sjáum þau líka í auknum kvíða meðal ungmenna og kulnun hjá þeim sem eldri eru.

Þegar fólk er svipt heimilum sínum glatar það öryggi sínu sínu og fótfestu. Þegar við bætist magnvana reiði og örvænting vegna óréttlætisins sem það stendur frammi fyrir ásamt hjálpar- og varnaleysinu sem það upplifir þegar heimilinu er hreinlega stolið af því, er ekki nema von að eitthvað láti undan.

Spillingin í þjóðfélaginu er djúp og hún á sér margar hliðar. Hún birtist ekki bara í háu húsnæðisverði og skelfilegum leigumarkaði eða háum vöxtum og verðtryggingu, hún birtist ekki bara í því hvernig lífeyrissjóðirnir misfara með fé okkar allra eða í „krónu á móti krónu“ skerðingu, hún birtist ekki bara í lágum launum verkafólks á meðan sjálftökufólk af ýmsum toga skammtar sjálfu sér milljónir, hún birtist ekki bara í spilltum dómstólum sem gæta hagsmuna „hinna sterku“ í dómum sínum eða í því hvernig lög- og stjórnaskrárvarin réttindi hafa verið brotin á neytendum frá hruni með skelfilegum afleiðingum.

Nei, hún birtist í þessu öllu og meiru til. Spillingin er djúp og teygir anga sína víða. Hana þarf að rífa upp með rótum til að hægt sé að byggja upp nýtt og betra þjóðfélag.

Fyrsta skrefið væri að að afnema verðtryggingu á lánum heimilanna! Öðruvísi er ekki hægt að skapa eðlilegan húsnæðismarkað eða stöðva sjálftöku fjármálastofnanna á tekjum fólks.

En til að takast á við ræturnar þarf að fara fram rannsókn á aðgerðum stjórnvalda eftir hrun. Jú það var líka spilling fyrir hrun, en þá urðu ákveðin vatnaskil og það var þá sem meðvituð ákvörðun var tekin um að fórna heimilum landsins fyrir bankana.

15.000 heimili eiga skilið að fá svör og uppreist æru.

Við biðjum ykkur um að styðja kröfuna um Rannsóknarskýrslu heimilanna!

Ásthildur Lóa Þórsdóttir
Formaður HH

Fylgstu með á samfélagsmiðlum