Fróðleg útspil viðskiptaráðherra
Í fjölmiðlum fer nú fram skemmtilegt sjónarspil. Segja má að erfitt reynist að hreinsa kusk af hvítflibba fjármálafyrirtækjanna. Fúskið hefur verið afhjúpað enn og aftur og í þetta sinn fyrir Hæstarétti sem úrskurðaði gengistryggingu endanlega ólöglega í kjölfarið. Eina mínútuna koma yfirlýsingar frá viðskiptaráðherra um að dóm hæstaréttar beri að virða og það næsta sem maður veit er að setja eigi svonefnda "íslenska" vexti á gengistryggð og nú leiðrétt lán, til að koma í veg fyrir að þessir tilteknu lántakar "græði" á kostnað annarra.
Hæstiréttur staðfestir að gengistrygging er ólögleg
Spennan í dómsal var næstum óbærileg mínúturnar í aðdraganda dómsuppkvaðningar Hæstaréttar. Hæstiréttur hefur staðfest skilning okkar á lögum um vexti og verðbætur (38/2001) hvar bannað er að miða verðbreytingar lána við dagsgengi erlendra gjaldmiðla. Til hamingju heimili landsmanna. Sjá nánar hér síðar um þennan viðburð.
Sjá dómsniðurstöður hér:
http://haestirettur.is/domar?nr=6715
http://haestirettur.is/domar?nr=6714
http://haestirettur.is/domar?nr=6719
Hæstiréttur 2. júní 2010
Gengistryggingu neytendalána voru flutt fyrir Hæstarétti miðvikudagsmorgun 2. júní 2010. Ólafur Rúnar Ólafsson varðist fyrir Jóhann Rafn Hreiðarsson og Trausta Snæ Friðriksson, sókn Sigurmars K. Albertssonar fyrir Lýsingu hf. Sigurmar K. Albertsson varði einnig SP-fjármögnun gegn áfrýjun Björns Þorra Viktorssonar fyrir Óskar Sindra Atlason. Málin voru flutt sem einn viðburður saman fyrir fimm dómurum hæstaréttar, en vegna líkinda með málunum skiptu lögmennirnir með sér verkumLögmennirnir reyndu að forðast að endurtaka efnistök hvors annars og náðu þannig væntanlega fram umtalsverðum tímasparnaði bæði fyrir sig sjálfa og Hæstarétt.
Óheimilt að gengistryggja segir héraðsdómur
Ú R S K U R Ð U R Héraðsdóms Reykjavíkur 30. apríl 2010 í máli nr. X-35/2010:
NBI hf. (Þorvaldur Emil Jóhannesson hdl.) gegn
Þráni ehf. (Arnar Þór Jónsson hdl)
"Dómari þessa máls er í einu og öllu sammála þeirri niðurstöðu sem er svo skýrlega orðuð í þessum dómi. Telur hann m.ö.o. að ekki sé heimilt að reikna fjárhæð skuldar varnaraðila með þeirri hækkun sem sóknaraðili reiknar vegna breytinga á gengi jens og svissnesks franka gagnvart íslenskri krónu. Telur hann að miða verði við upphaflegan höfuðstól auk áfallinna vaxta, en að ekki sé heimilt að reikna annars konar verðtryggingu í stað gengisviðmiðunar.
Að þessu athuguðu verður að miða við að upphaflegur höfuðstóll skulda varnaraðila hafi verið 357.500.000 krónur og að hann hafi ekki hækkað. Varnaraðili telur verðmæti eigna sinna, sem sóknaraðili eigi veðrétt í, nema rúmlega 600 milljónum króna. Þá segir hann á yfirlitsblaði er hann lagði fram að sóknaraðili hafi metið verðmæti eignanna 474 milljónir króna. Þessu var ekki mótmælt í málflutningi. Ætla verður að krafa sóknaraðila hafi hækkað frá því að lánin voru veitt, en eins og málið er reifað hér fyrir dómi er ekki unnt að áætla með viðunandi nákvæmni heildarfjárhæð skuldarinnar. Sýslumaður hefur ekki lagt til grundvallar ákvörðun sinni réttan útreikning á kröfu sóknaraðila og óljóst er hvernig hann metur eignir varnaraðila. Er því rökstudd ástæða til að ætla að gerðin gefi ekki rétta mynd af fjárhag varnaraðila, sbr. 1. tl. 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991. Verður því að hafna kröfu sóknaraðila.
Rétt er að sóknaraðili greiði varnaraðila 300.000 krónur í málskostnað.
Jón Finnbjörnsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú r s k u r ð a r o r ð
Hafnað er kröfu sóknaraðila, NBI hf., um að bú varnaraðila, Þráins ehf., verði tekið til gjaldþrotaskipta.
Sóknaraðili greiði varnaraðila 300.000 krónur í málskostnað."