Símatími

Mán - þri kl. 10-13

Hafa samband

heimilin@heimilin.is

Á döfinni

Dagsetning fyrir aðalmeðferð í máli HH um verðtryggingu.

Fyrirtaka var í gær fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í máli vegna verðtryggðs neytendaláns sem Hagsmunasamtök heimilanna standa að baki.  Gagnaöflun er nú lokið og mun aðalmeðferð í málinu fara fram fimmtudaginn 23. október. Ekki verður kveðinn upp úrskurður í málinu fyrr en EFTA dómstóllinn hefur skilað áliti í máli því sem Verkalýðsfélag Akraness stendur að baki. Málatilbúnaður í þessum tveimur málum er mjög sambærilegur og snýst um framkvæmd verðtryggingar hér á landi, það er hvort kynning fyrir neytendum á kostnaði við verðtryggingu sé í samræmi við lög um neytendalán nr. 121/1994, en lögin fela í sér mjög skýr ákvæði um upplýsingagjöf til neytenda við lántöku. Þar af leiðandi má búast við að dómur í málinu muni liggja fyrir einhverntíma í næstkomandi nóvembermánuði.

 

Lesa áfram...

Nýr Evrópudómur um óréttmætar nauðungarsölur

Hagsmunasamtök heimilanna hafa látið gera löggilda íslenska þýðingu dóms Evrópudómstólsins í máli nr. C-169/14. Niðurstaða dómsins er í meginatriðum á þá leið að málsmeðferð vegna nauðungarsölu þar sem ekki sé gætt að jöfnum rétti aðila máls til að leita úrlausnar um ágreining er varðar óréttmæta skilmála, og jöfnum aðgangi að kæru- eða áfrýjunarleiðum vegna slíkra úrskurða, stríði gegn reglum um neytendavernd og mannréttindum. Nánar tiltekið fyrstu efnisgrein 7. gr. tilskipunar 93/13/EBE um óréttmæta skilmála í neytendasamningum, og þeim ákvæðum Mannréttindasáttmála Evrópu er varða rétt allra til sanngjarnar og réttlátrar málsmeðferðar.

Þessar sömu reglur ættu að gilda hér á landi vegna lögfestingarESS-samningsins og Mannréttindasáttmála Evrópu að íslenskum rétti. Hinsvegar er málsmeðferð hér landi skv. 73. gr. sbr. 4. mgr. 22. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu með þeim hætti, að gerðaþoli (skuldari) getur ekki leitað úrlausnar héraðsdómara ágreining sem rís við nauðungarsölu nema með samþykki gerðarbeiðanda (kröfuhafa). Ekki er heldur fyllilega ljóst að hversu miklu leyti gerðarþoli geti byggt varnir sínar í nauðungarsölumáli á reglum um óréttmæta skilmála, þar á meðal um þá skilmála sem nauðungarsalan byggist á.

Hagsmunasamtök heimilanna birtu greinargerð í nóvember 2013, þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að umræddar reglur og framkvæmd fullnustumeðferðar á Íslandi, standist ekki þær kröfur sem gera verði til réttlátrar málsmeðferðar samkvæmt framangreindum alþjóðasamningum sem lögfestir hafa verið á Íslandi. Að mati samtakanna styður þessi niðurstaða Evrópudómstólsins fyllilega þær niðurstöður, enda byggjast þær á sömu reglum og gilda einnig að íslenskum rétti.

Dómurinn er sérstaklega athyglisverður með hliðsjón af dómi EFTA-dómstólsins um ráðgefandi álit í máli E-25/13 sem kveðinn var upp nýlega, þar sem kemur fram í svari við 5. spurningunni sem lögð var fyrir dómstólinn, að aðildarríkjum EES-samningsins sé skylt að tryggja að óréttmætir skilmálar séu ekki bindandi fyrir neytendur. Neytendur sem eiga yfir höfði sér aðför eða nauðungarsölu eru hvattir til að grípa til varna á þessum grundvelli, en bent er á að hægt er að bera mál um ógildingu fullnustugerðar undir héraðsdóm innan fjögurra vikna frá því að nauðungarsölu lýkur, og aðfarar innan átta vikna. Er þá vel við hæfi að byggja slíkan málatilbúnað á sömu sjónarmiðum og koma fram í umræddum dómum.

Niðurstaða dómsins er svohljóðandi:

Lagagrein 7, efnisgrein 1, í tilskipun Evrópuráðsins 93/13/EBE frá 5. apríl 1993, varðandi óréttmæt ákvæði í neytendasamningum, í samhengi við lagagrein 47 í Sáttmála Evrópusambandsins um grundvallarréttindi ber að túlka á þann hátt að hún útiloki fyrirkomulag málsmeðferða varðandi fullnustu dómkrafna, eins og það sem deilan stendur um í aðalmálsmeðferðinni, sem staðfestir að framkvæmd fullnustu veðkröfu sé ekki hægt að fresta af dómara sem kveður upp viðurkenningardóm í því (héraðsdóm), dómara sem gæti í lokaúrskurði sínum í mesta lagi ákvarðað skaðabætur til að bæta fyrir það tjón sem neytandinn hafi orðið fyrir, þar sem hinn síðastnefndi, í stöðu sinni sem lántakandi og kröfuþoli, geti ekki lagt fram beiðni um áfrýjun gegn úrskurði sem hafnar andmælamáli hans gegn fullnustu veðkröfu, þar sem aftur á móti seljandinn eða veitandi þjónustu, lánardrottinninn sem leitar fullnustunnar, geti lagt fram beiðni um áfrýjun gegn ákvörðun sem staðfesti frestun fullnustunnar eða lýsi því yfir að óréttmætum skilmála skuli ekki beitt.

Hér má skoða og sækja umrædda þýðingu dómsins:

C-169-14-is by Hagsmunasamtök heimilanna

Lesa áfram...

Frestun nauðungarsalna framlengist

Samkvæmt fréttatilkynningu frá innanríkisráðuneytinu mun ráðherra leggja fram frumvarp á fyrstu dögum þingsins um breytingar á nauðungarsölulögum þar sem gert er ráð fyrir að nauðungarsölum verði frestað áfram meðan vinnsla umsókna um höfuðstólslækkun húsnæðislána stendur yfir. Frumvarpið, sem kynnt var í ríkisstjórn síðastliðinn föstudag, gerir ráð fyrir að nauðungarsölum verði áfram frestað fram yfir 1. mars 2015 en núgildandi frestur á að renna út 1. september.

Hagsmunasamtök heimilanna skoruðu fyrir rúmri viku síðan á innanríkisráðherra að framlengja frestunina, og ítrekuðu svo þá áskorun með auglýsingum í fjölmiðlum nú um helgina.

Lesa áfram...

EFTA dómstóllinn tekur undir með Hagsmunasamtökum heimilanna um að íslenskir dómstólar skuli skera úr um lögmæti verðtryggingar

- Spurningum um ólögmæti enn ósvarað

Í dag skilaði EFTA dómstóllinn áliti sínu í einu af þremur málum sem eru fyrir dómstólum og fjalla um lögmæti verðtryggingar. Mál þetta er höfðað af einstaklingi gegn Íslandsbanka og snýst um húsnæðislán út frá óréttmætum samningsskilmálum. Það er frábrugðið öðrum málum er varða verðtryggingu og bíða úrlausnar fyrir dómstólum að því leyti að málatilbúnaðurinn byggist ekki á tilskipun um neytendalán. Helsta spurningin sem leitað var álits um í þessu máli snýr að því hvort verðtryggingin sjálf sé lögleg, en ekki hvort útfærsla hennar og kostnaður hafi verið rétt kynntur fyrir lántakendum. Niðurstaða EFTA dómstólsins er sú að það sé á færi íslenskra dómstóla að taka afstöðu til þess hvort skilmálar verðtryggðra neytendalána séu óréttmætir.

Lesa áfram...

Um 90% landsmanna styðja baráttu HH fyrir því að skorið verði úr um lögmæti útfærslu verðtryggðra neytendalána

Hagsmunasamtök heimilanna nýttu síðustu þjóðmálakönnun Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands til að kanna viðhorf almennings til mikilvægis þess að skorið verði úr um lögmæti útfærslu verðtryggðra húsnæðislána. Niðurstöðurnar sýna að 89% landsmanna telja það mjög eða frekar mikilvægt að efnisleg niðurstaða fáist um það fyrir dómstólum hvort verðtrygging neytendalána hafi verið ólöglega framkvæmd frá árinu 2001, eins og fjallað er um í dómsmáli á vegum Hagsmunasamtaka heimilanna gegn Íbúðalánasjóði.

Lesa áfram...

HH skora á Alþingi að framlengja frestun á nauðungars​ölum

Þar sem Alþingi kemur saman í dag þrátt fyrir þinghlé vilja Hagsmunasamtök heimilanna skora á þingmenn að nýta tækifærið í þágu þeirra fjölmörgu fjölskyldna sem standa frammi fyrir nauðungarsölum á heimilum sínum. 

Þann 19. desember síðastliðinn samþykkti Alþingi bráðabirgðarákvæði við lög um nauðungarsölur (nr. 90/1991) sem kveður á um tímabundna frestun á nauðungarsölum og framlengingu á samþykkisfresti, fram yfir 1. september 2014. Hagsmunasamtök heimilanna skora á Alþingi að framlenga þennan frest til 1. janúar 2015. Ef ekkert verður að gert er hætt við að nauðungarsölur hefjist að nýju með fullum þunga þann 1. september, áður en Alþingi kemur saman á haustþingi, ásamt því að búast má við því að sýslumenn gangi frá uppgjöri á nauðungarsölum sem þegar hafa farið fram en eru á samþykkisfresti. Miklar líkur eru á að slíkt muni leiða til aukins húsnæðisvanda og félagslegrar upplausnar.

Framlenging á frestun nauðungarsalna er afar mikilvæg í ljósi þess að umsóknarfrestur um leiðréttingar vegna verðtryggðra fasteignalána rennur ekki út fyrr en þann 1. september og munu niðurstöður umsókna ekki verða ljósar fyrr en að þeim tíma liðnum. Einnig er vert að hafa í huga að beðið er ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins í tveimur málum sem rekin eru fyrir dómstólum um lögmæti útfærslu verðtryggðra neytendalána, auk þess sem svipað mál vegna íbúðaláns er rekið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Verði niðurstaða einhverra þessara dómsmála neytendum í hag getur það breytt verulega stöðu lántakenda, jafnvel á þann veg að þeir sem annars stæðu frammi fyrir nauðungarsölu geti staðið við skuldbindingar sínar og þar með haldið heimilum sínum.

Með vísan til ályktunar aðalfundar HH þann 15. maí 2014:

“Aðalfundur Hagsmunasamtaka heimilanna fimmtudagskvöldið 15. maí 2014 skorar á Alþingi að grípa til ráðstafana áður en þing fer í sumarfrí og framlengja án tafar frestun á nauðungarsölum og framlengdum samþykkisfresti sem samþykkt var með bráðabirgðarákvæði við lög um nauðungarsölu (nr. 90/1991) þann 19. desember síðastliðinn. Mikilvægt er að fresturinn verði framlengdur, einkum þar sem enn er óljóst hvenær heimilin fái þær leiðréttingar sem þau vænta. Ef ekkert verður að gert er hætta á því að nauðungarsölur hefjist að nýju með fullum þunga þann 1. september áður en Alþingi kemur saman að nýju á haustþingi, sem líkur eru á að muni leiða til aukins húsnæðisvanda og félagslegar upplausnar.”

Lesa áfram...

Opið bréf til forsætisráðherra um málflutning fyrir hönd ríkisstjórnarinnar í verðtryggingarmálum fyrir EFTA dómstólnum

Stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna óskar eftir skýringum frá forsætisráðherra, Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, varðandi afstöðu ríkisstjórnar Íslands í máli nr. E-27/13 sem nú er fyrir EFTA dómstólnum, þar sem tekist er á um hvort framkvæmd verðtryggingar samrýmist EES-tilskipunum. Í afstöðu sinni til málsins leggur ríkisstjórnin til að EFTA dómstóllinn komist að þeirri niðurstöðu að framkvæmd verðtryggingar samrýmist EES-tilskipunum. Einnig segir í greinargerðinni að verðtrygging gegni lykilhlutverki í íslensku efnahagslífi og skuli því gert ráð fyrir því að neytendur hér á landi skilji grundvallarþætti verðtryggðra lána. Þá lýsir ríkisstjórnin áhyggjum sínum af efnahagsáhrifum þess ef framkvæmd verðtryggingar reynist ekki samrýmast evrópskum tilskipunum sem innleiddar hafa verið í íslensk lög, einkum ef slík niðurstaða leiði af sér afturvirkar endurgreiðslur til neytenda.

Lesa áfram...

Gagnabeiðni vegna neytendalána

Meðfylgjandi er eyðublað sem neytendur geta fyllt út og sent lánafyrirtækjum til þess að óska eftir að fá afhent afrit af öllum gögnum varðandi neytendalán. Tilgangur slíkrar gagnaöflunar getur til dæmis verið sá að kanna réttarstöðu sína eða ganga úr skugga um hvort lánasamningar standist lög og reglur sem um þá gilda. Þeir sem standa í þeim sporum að verja eða sækja rétt sinn þurfa jafnframt að afla slíkra gagna vegna málaferla.

Lesa áfram...

Ný stjórn HH skiptir með sér verkum.

Ný stjórn HH sem kosin var á aðalfundi samtakanna 15. maí hefur nú skipt með sér verkum. Margir af þeim sem sátu í stjórn síðasta stjórnarár buðu sig fram til áframhaldandi stjórnarsetu, en einnig eru nokkrir nýliðar í hópnum. Stjórn HH 2014-2015 hlakkar til að takast á við þau mikilvægu verkefni sem framundan eru.

Lesa áfram...

Frávísunarkröfu Íbúðalánasjóðs í verðtryggingarmáli HH hafnað

Í morgun var kveðinn upp úrskurður í Héraðsdómi Reykjavíkur varðandi frávísunarkröfu Íbúðalánasjóðs í dómsmáli vegna verðtryggðs láns sem Hagsmunasamtök heimilanna standa að baki. Niðurstaðan er sú að frávísunarkröfu var hafnað.  Málið hefur nú þvælst innan dómskerfisins á annað ár, en það var upphaflega þingfest fyrir héraðsdómi þann 18. október 2012. Íbúðalánasjóður fór fram á frávísun málsins sem héraðsdómur samþykkti. HH áfrýjaði þeim úrskurði til Hæstaréttar sem staðfesti úrskurð héraðsdóms um frávísun í maí 2013.

Lesa áfram...

Ný stjórn HH og ályktun aðalfundar 2014

Hagsmunasamtök heimilanna héldu árlegan aðalfund sinn fimmtudagskvöldið 15. maí sl. Á fundinum var kjörin ný stjórn samtakanna sem nú skipast þannig: Vilhjálmur Bjarnason, Þórarinn Einarsson, Guðrún Harðardóttir, Páll Böðvar Valgeirsson, Pálmey Gísladóttir, Róbert Bender, Sigrún Jóna Sigurðardóttir. Varamenn eru: Bjarni Bergmann, Jón Helgi Óskarsson, Erlingur Þorsteinsson, Jóhann Rúnar Sigurðsson, Guðrún Indriðadóttir, Sigurður Bjarnason, Kristján Þorsteinsson.

Lesa áfram...
Subscribe to this RSS feed

© Hannað af Filmís 

Hagsmunasamtök heimilanna voru stofnuð 15. janúar 2009 og eru frjáls og óháð hagsmunasamtök á neytendasviði, til varnar og hagsbóta fyrir heimilin í landinu.

Orð frá formanni

CEO 

Orð frá formanni Varlega áætlað hafa 15.000 fjölskyldur, 45.000 einstaklingar misst heimili sín frá hruni. Enginn hefur svarað fyrir það, hvað þá axlað á því ábyrgð. 

Þegar 15% þjóðarinnar missa heimili sín, gætir áhrifanna víða. Við sjáum þau í ástandinu á leigumarkaði og við sjáum þau líka í auknum kvíða meðal ungmenna og kulnun hjá þeim sem eldri eru.

Þegar fólk er svipt heimilum sínum glatar það öryggi sínu sínu og fótfestu. Þegar við bætist magnvana reiði og örvænting vegna óréttlætisins sem það stendur frammi fyrir ásamt hjálpar- og varnaleysinu sem það upplifir þegar heimilinu er hreinlega stolið af því, er ekki nema von að eitthvað láti undan.

Spillingin í þjóðfélaginu er djúp og hún á sér margar hliðar. Hún birtist ekki bara í háu húsnæðisverði og skelfilegum leigumarkaði eða háum vöxtum og verðtryggingu, hún birtist ekki bara í því hvernig lífeyrissjóðirnir misfara með fé okkar allra eða í „krónu á móti krónu“ skerðingu, hún birtist ekki bara í lágum launum verkafólks á meðan sjálftökufólk af ýmsum toga skammtar sjálfu sér milljónir, hún birtist ekki bara í spilltum dómstólum sem gæta hagsmuna „hinna sterku“ í dómum sínum eða í því hvernig lög- og stjórnaskrárvarin réttindi hafa verið brotin á neytendum frá hruni með skelfilegum afleiðingum.

Nei, hún birtist í þessu öllu og meiru til. Spillingin er djúp og teygir anga sína víða. Hana þarf að rífa upp með rótum til að hægt sé að byggja upp nýtt og betra þjóðfélag.

Fyrsta skrefið væri að að afnema verðtryggingu á lánum heimilanna! Öðruvísi er ekki hægt að skapa eðlilegan húsnæðismarkað eða stöðva sjálftöku fjármálastofnanna á tekjum fólks.

En til að takast á við ræturnar þarf að fara fram rannsókn á aðgerðum stjórnvalda eftir hrun. Jú það var líka spilling fyrir hrun, en þá urðu ákveðin vatnaskil og það var þá sem meðvituð ákvörðun var tekin um að fórna heimilum landsins fyrir bankana.

15.000 heimili eiga skilið að fá svör og uppreist æru.

Við biðjum ykkur um að styðja kröfuna um Rannsóknarskýrslu heimilanna!

Ásthildur Lóa Þórsdóttir
Formaður HH

Fylgstu með á samfélagsmiðlum