Nýr Evrópudómur um óréttmætar nauðungarsölur
Hagsmunasamtök heimilanna hafa látið gera löggilda íslenska þýðingu dóms Evrópudómstólsins í máli nr. C-169/14. Niðurstaða dómsins er í meginatriðum á þá leið að málsmeðferð vegna nauðungarsölu þar sem ekki sé gætt að jöfnum rétti aðila máls til að leita úrlausnar um ágreining er varðar óréttmæta skilmála, og jöfnum aðgangi að kæru- eða áfrýjunarleiðum vegna slíkra úrskurða, stríði gegn reglum um neytendavernd og mannréttindum. Nánar tiltekið fyrstu efnisgrein 7. gr. tilskipunar 93/13/EBE um óréttmæta skilmála í neytendasamningum, og þeim ákvæðum Mannréttindasáttmála Evrópu er varða rétt allra til sanngjarnar og réttlátrar málsmeðferðar.
Þessar sömu reglur ættu að gilda hér á landi vegna lögfestingarESS-samningsins og Mannréttindasáttmála Evrópu að íslenskum rétti. Hinsvegar er málsmeðferð hér landi skv. 73. gr. sbr. 4. mgr. 22. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu með þeim hætti, að gerðaþoli (skuldari) getur ekki leitað úrlausnar héraðsdómara ágreining sem rís við nauðungarsölu nema með samþykki gerðarbeiðanda (kröfuhafa). Ekki er heldur fyllilega ljóst að hversu miklu leyti gerðarþoli geti byggt varnir sínar í nauðungarsölumáli á reglum um óréttmæta skilmála, þar á meðal um þá skilmála sem nauðungarsalan byggist á.
Hagsmunasamtök heimilanna birtu greinargerð í nóvember 2013, þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að umræddar reglur og framkvæmd fullnustumeðferðar á Íslandi, standist ekki þær kröfur sem gera verði til réttlátrar málsmeðferðar samkvæmt framangreindum alþjóðasamningum sem lögfestir hafa verið á Íslandi. Að mati samtakanna styður þessi niðurstaða Evrópudómstólsins fyllilega þær niðurstöður, enda byggjast þær á sömu reglum og gilda einnig að íslenskum rétti.
Dómurinn er sérstaklega athyglisverður með hliðsjón af dómi EFTA-dómstólsins um ráðgefandi álit í máli E-25/13 sem kveðinn var upp nýlega, þar sem kemur fram í svari við 5. spurningunni sem lögð var fyrir dómstólinn, að aðildarríkjum EES-samningsins sé skylt að tryggja að óréttmætir skilmálar séu ekki bindandi fyrir neytendur. Neytendur sem eiga yfir höfði sér aðför eða nauðungarsölu eru hvattir til að grípa til varna á þessum grundvelli, en bent er á að hægt er að bera mál um ógildingu fullnustugerðar undir héraðsdóm innan fjögurra vikna frá því að nauðungarsölu lýkur, og aðfarar innan átta vikna. Er þá vel við hæfi að byggja slíkan málatilbúnað á sömu sjónarmiðum og koma fram í umræddum dómum.
Niðurstaða dómsins er svohljóðandi:
Lagagrein 7, efnisgrein 1, í tilskipun Evrópuráðsins 93/13/EBE frá 5. apríl 1993, varðandi óréttmæt ákvæði í neytendasamningum, í samhengi við lagagrein 47 í Sáttmála Evrópusambandsins um grundvallarréttindi ber að túlka á þann hátt að hún útiloki fyrirkomulag málsmeðferða varðandi fullnustu dómkrafna, eins og það sem deilan stendur um í aðalmálsmeðferðinni, sem staðfestir að framkvæmd fullnustu veðkröfu sé ekki hægt að fresta af dómara sem kveður upp viðurkenningardóm í því (héraðsdóm), dómara sem gæti í lokaúrskurði sínum í mesta lagi ákvarðað skaðabætur til að bæta fyrir það tjón sem neytandinn hafi orðið fyrir, þar sem hinn síðastnefndi, í stöðu sinni sem lántakandi og kröfuþoli, geti ekki lagt fram beiðni um áfrýjun gegn úrskurði sem hafnar andmælamáli hans gegn fullnustu veðkröfu, þar sem aftur á móti seljandinn eða veitandi þjónustu, lánardrottinninn sem leitar fullnustunnar, geti lagt fram beiðni um áfrýjun gegn ákvörðun sem staðfesti frestun fullnustunnar eða lýsi því yfir að óréttmætum skilmála skuli ekki beitt.
Hér má skoða og sækja umrædda þýðingu dómsins: