Símatími

Mán - þri kl. 10-13

Hafa samband

heimilin@heimilin.is

Á döfinni

Óréttmætar nauðungarsölur án undangengins dóms

Hagsmunasamtök heimilanna (HH) hafa að undanförnu vakið athygli á miklum fjölda auglýstra nauðungarsala á heimilum fólks. Á fundi sem fulltrúar samtakanna áttu í byrjun október með innanríkisráðherra, Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, var þess krafist að nauðungarsölur vegna neytendalána verði stöðvaðar tímabundið, m.a. á þeirrri forsendu að ríkisstjórnin hefur sjálf sett fram tímasettar áætlanir til hjálpar skuldugum heimilum.

Lesa áfram...

Hagsmunasamtök heimilanna krefjast skýringa frá innanríkisráðherra.

Hagsmunasamtök heimilanna skoruðu í vikunni á innanríkisráðherra að skýra fullyrðingar sínar um að stöðvun á nauðungarsölum gangi gegn stjórnarskárbundnum réttindum kröfuhafa. Einnig að gefa lögfræðilegar skýringar á því hvernig stöðvun nauðungarsala geti gengið gegn réttindum þeirra sem þegar hafa misst heimili sín í slíkum fullnustugerðum, en því hefur ráðherrann einnig haldið fram.

Ráðherrann hefur engu svarað og því ítreka samtökin áskorun sína hér með, og krefjast þess að fá svör við þessum spurningum. Alls hafa heimili 260 fjölskyldna verið auglýst á nauðungarsölum á vefnum syslumenn.is það sem af er októbermánuði. Það hlýtur að teljast lágmarks kurteisi að Hanna Birna Kristjánsdóttir, innanríkisráðherra skýri nánar fyrir þeim einstaklingum sem hér eiga í hlut, og þeirra sem nú bíða fullnustugerða á heimilum sínum, hvers vegna ríkisstjórnin hefur ekki nú þegar stöðvað nauðungarsölur sem HH hafa margítrekað að eru ólögmætar nema dómsúrskurður liggi fyrir.

 

Lesa áfram...

Áskorun til innanríkisráðherra, Hönnu Birnu Kristjánsdóttur

Eftir umfjöllun Hagsmunasamtaka heimilanna undanfarna daga um stöðvun nauðungarsala og gjaldþrota skorar stjórn HH á innanríkisráðherra, Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, að skýra nánar fullyrðingar sínar um að stöðvun á nauðungarsölum gangi gegn stjórnarskárbundnum réttindum kröfuhafa. Á fundi með fulltrúum HH í síðustu viku, og í fjölmiðlum undanfarna daga í kjölfar þess fundar hefur ráðherrann haldið því fram að álit “helstu sérfræðinga á þessu sviði” standi helst í vegi fyrir því að stjórnvöld stöðvi nauðungarsölur.

Lesa áfram...

Nauðungarsölur fimmtudaginn 17. október 2013

10 fjölskyldur missa heimili sín í dag, fimmtudaginn 17. október 2013!

Heimilin verða boðin upp af sýslumönnum í Reykjavík, Selfossi og Hafnarfirði. Fulltrúar HH áttu fund með innanríkisráðherra, Hönnu Birnu Kristjánsdóttur í síðustu viku þar sem krafa samtakanna um stöðvun nauðungarsala var ítrekuð enn og aftur. Á fundinum og í fjölmiðlum í kjölfar hans bar ráðherrann því fyrir sig að samkvæmt álitið "helstu sérfæðinga á þessu sviði" gangi stöðvun á nauðungarsölum gegn stjórnarskárbundnum réttindum kröfuhafa. Af þeim sökum geti stjórnvöld ekkert gert tið að stöðva slíka gjörninga.  HH hafa nú skorað á ráðherra að skýra þetta nánar. Einnig hefur verið skorað á Hönnu Birnu að gefa lögfræðilegar skýringar á því hvernig stöðvun nauðungarsala geti gengið gegn réttindum þeirra sem þegar hafa misst heimili sín í slíkum fullnustugerðum, en þeim rökum hefur ráðherrann einnig beitt fyrir sig í þessu máli.

 

Lesa áfram...

154 fjölskyldur hafa misst heimili sín á nauðungarsölum í þessari viku.

Ef miðað er við að fjórir séu á hverju heimili þá eru það rúmlega 600 manns sem misst hafa heimili sín þessa vikuna. Sé miðað við að kjarnafjölskyldan samanstandi af tveimur fullorðnum og tveimur börnum þá eru þetta 300 fullorðnir og 300 börn. Það eru 52 vikur í árinu. Á árinu 2013 gætu því rúmlega 8.000 manns hafa misst heimili sín. Eru það ásættanlegt í samfélagi sem kennir sig við velferð?

 

Lesa áfram...

Nauðungarsölur fimmtudaginn 10. október 2013

36 fjölskyldur missa heimili sín í dag!

Heimilin verða boðin upp af sýslumönnum í Keflavík, Reykjavík og Hafnarfirði. Hagsmunasamtök heimilanna hafa margoft krafist þess að nauðungarsölur vegna neytendalána verði stöðvaðar, enda eru þær ólögmætar nema dómsúrskurður liggi fyrir. Fulltrúar HH áttu í gær fund með innanríkisráðherra, Hönnu Birnu Kristjánsdóttur þar sem þessi krafa verður ítrekuð enn og aftur. Það var fátt um svör hjá ráðherra vegna málsins, lögfræðingar og ráðgjafar ráðuneytisins segi ekki hægt að stöðva nauðungarsölurnar vegna eignarréttar kröfuhafa samkvæmt stjórnarskrá. Í því samhengi má benda á að nú hefur verið höfðað dómsmál fyrir hæstaréttir í Svíþjóð þar sem því er haldið fram að nauðungarsala heimila barnafjölskyldna stríði gegn barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna: https://www.dn.se/nyheter/sverige/tvangsforsaljning-kan-strida-mot-fns-barnkonvention/ 

Nauðungarsölur dagsins fara fram meðan beðið er boðaðra aðgerða ríkisstjórnarinnar um leiðréttingu höfuðstóls lána, sem í einhverjum tilfellum myndu bjarga þessum fjölskyldum frá því að missa heimili sín, næðu þær fram að ganga. Nauðungarsjölur eru ekki afturkræfar samkvæmt núgildandi lögum.

Lesa áfram...

Yfirlýsingar Lýsingar hf. í dómsmáli teknar gildar sem trygging fyrir hagsmunum neytenda.

Stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna (HH) hefur ákveðið að óska eftir endurupptöku hæstaréttar á dómsmáli samtakanna gegn Lýsingu hf., þar sem krafist var lögbanns á innheimtu fyrirtækisins vegna ólögmætra gengislána (mál nr. 519/2013). Hæstiréttur kvað upp dóm þann 19. september og staðfesti þá úrskurð héraðsdóms í málinu um að hafna kröfu HH um lögbann.

Lesa áfram...

Niðurstöðu Neytendastofu áfrýjað

Neytendastofa hefur komist að niðurstöðu vegna kvörtunar Hagsmunasamtaka heimilanna gegn Landsbankanum frá febrúar síðastliðnum. Kvörtunarefnið var að í vefreiknivél á vefsíðu bankans þar sem sýnd voru dæmi um lánskostnað, kom ekki fram árleg hlutfallstala kostnaðar, eins og skylt er samkvæmt lögum um neytendalán að tilgreina í auglýsingum.

 

Kjarninn í niðurstöðu Neytendastofu er þessi:

"Árleg hlutfallstala kostnaðar er mikilvæg neytendum til samanburðar á lánamöguleikum, bæði ólíkum lánum sama lánveitenda eða sambærilegum lánum annarra lánveitenda, og leggja lög nr. 121/1994 mikið upp úr að neytendum séu veittar upplýsingar um hlutfallstöluna. Því telur Neytendastofa það einnig fela í sér villandi viðskiptahætti, sbr. 2. mgr. 9. gr. laga nr. 57/2005 að hlutfallstalan sé ekki tilgreind í auglýsingum fyrir neytendalán.

Með vísan til ofangreinds hefur Landsbankinn brotið gegn ákvæðum 13. gr. laga nr. 121/1994 auk 5. gr. og 2. mgr. 9. gr. laga nr. 57/2005 með því að tilgreina árlega hlutfallstölu kostnaðar ekki í lánareiknivél á heimasíðu sinni. Með vísan til 2. mgr. 21. gr. b. laga nr. 57/2005 er þeim fyrirmælum beint til Landsbankans að gæta þess að árleg hlutfallstala kostnaðar komi ávallt fram í auglýsingum um neytendalán."

Þar sem Landsbankinn hafði brugðist við með því að laga umrædda vefreiknivél áður en Neytendastofa komst að niðurstöðu, að fenginni ábendingu um kvörtun Hagsmunasamtaka heimilanna, var það jafnframt ákvörðun stofnunarinnar að aðhafast ekki frekar vegna málsins. Þessari niðurstöðu hefur nú verið áfrýjað til áfrýjunarnefndar neytendamála, þar sem farið er fram á að Landsbankinn verði beittur sektum fyrir brotið innan þess ramma sem lög um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu leyfa.

Niðurstaða Neytendastofu er þrátt fyrir allt afar athyglisverð, þar sem í lögunum um neytendalán er einnig kveðið á um að skylt sé að tilgreina árlega hlutfallstölu kostnaðar í lánssamningum við neytendur. Viðurlög við vanrækslu á þeirri upplýsingaskyldu eru meðal annars þau að þá er lánveitanda óheimilt að innheimta lánskostnað umfram það sem tilgreint er í samningi eða árlega hlutfallstölu kostnaðar sé hún of lágt reiknuð. Neytendur eru hvattir til að skoða lánssamninga sína með hliðsjón af þeim upplýsingum sem þar koma fram um lánskostnað, þar á meðal árlega hlutfalltölu kostnaðar og hvort hún sé rétt tilgreind.

 

 

2013-Neytendastofa-Landsban... by Hagsmunasamtök heimilanna

Lesa áfram...

Liðsmenn HH á öldum ljósvakans

Að undanförnu hefur liðsmönnum HH orðið nokkuð ágengt að vekja athygli á málstað samtakanna í fjölmiðlum. Í tilefni þess að 100 dagar voru nýlega liðnir af kjörtímabili nýrrar ríkisstjórnar höfðu fjölmiðlar samband og kölluðu eftir sjónarmiðum samtakanna varðandi stöðuna í skuldamálum heimilanna. Fjallað var um samtökin á síðum prentmiðla.

Í síðustu viku voru svo fulltrúar samtakanna í viðtalsþáttum í útvarpi. Fyrst var Vilhjálmur Bjarnason formaður HH í Bítinu á bylgjunni á þriðjudag þar sem hann fjallaði um dvínandi vonir almennings til þess að komið verði til móts við heimilin. Smellið hér til að hlusta á Vilhjálm í Bítinu.

Því næst var Guðmundur Ásgeirsson erindreki HH gestur í síðdegisþætti Péturs Gunnlaugssonar á Útvarpi Sögu á fimmtudaginn. Loks var Guðmundur einnig í símaviðtali í þættinum Reykjavík síðdegis um verðtryggingu, afnám hennar og leiðréttingu skulda heimilanna með hliðsjón af stjórnarskrárvörðum mannréttindum. Smellið hér til að hlusta á Guðmund í Reykjavík síðdegis.

 

Lesa áfram...

Opinber tilmæli um seðlabankavexti brutu í bága við reglur

Umboðsmaður Alþingis hefur komist að þeirri niðurstöðu að tilmæli Fjármálaeftirlitsins og Seðlabanka Íslands til fjármálafyrirtækja vegna óskuldbindandi gengistryggingarákvæða nr. 20/2010 frá 30. júní 2010 hafi ekki samræmst reglum um útgáfu óskuldbindandi og leiðbeinandi tilmæla af hálfu stjórnvalda og þannig brotið í bága við vandaða stjórnsýsluhætti. Meðal þess sem umboðsmaður reifar í niðurstöðu sinni er að slíka einhliða breytingu á skilmálum lánssamninga einkaaðila sé stjórnvöldum ekki heimilt að kveða á um án fyrirliggjandi lagaheimildar, en eins og Hagsmunasamtök heimilanna vöktu athygli á og gagnrýndu harðlega á sínum tíma var slík heimild hvergi fyrir hendi, í það minnsta ekki þannig að gæti átt við um lánssamninga neytenda.

Framangreind niðurstaða umboðsmanns í kjölfar ítrekaðara dóma þar sem álagning svokallaðra seðlabankavaxta í stað samningsvaxta hefur ítrekað verið dæmd óheimil, eru enn eitt tilvikið í langri röð áfellisdóma yfir vinnubrögðum stjórnsýslunnar og sýnir hversu alvarlega hefur skort á að gætt sé að hagsmunum almennings gagnvart fjármálastofnunum. Einnig segir í niðurstöðunni að með tilmælunum kunni Seðlabankinn og FME að hafa skapað ríkinu skaðabótaskyldu. Af því tilefni er rétt er að benda á að álagning hærri vaxta en skuldbinding nær til var fyrst og fremst íþyngjandi fyrir lántakendur og þeir kynnu því að eiga rétt til skaðabóta, en hærri vextir hafa aftur á móti ekki valdið kröfuhöfum neinu tjóni heldur þvert á móti aukið hagnað þeirra. Þannig er málið og niðurstaða þess ekki aðeins dæmi um alvarlega vanrækslu og skort á eftirliti eins og skrásett hefur verið í langar skýrslur að undanförnu, heldur allt að því óviðurkvæmilega meðvirkni viðkomandi eftirlitsstofnana með starfsháttum sem eru efnahagslega skaðlegir heimilum landsmanna.

Ítarefni:

Niðurstaða Umboðsmanns Alþingis í máli nr. 6077/2010

Upptaka frá borgarafundi í Iðnó 28. júní 2010 í tilefni af gengislánadómum Hæstaréttar

Fréttatilkynning HH frá 30. júní 2010 vegna tilmæla SÍ og FME um sk. seðlabankavexti

Lesa áfram...
Subscribe to this RSS feed

© Hannað af Filmís 

Hagsmunasamtök heimilanna voru stofnuð 15. janúar 2009 og eru frjáls og óháð hagsmunasamtök á neytendasviði, til varnar og hagsbóta fyrir heimilin í landinu.

Orð frá formanni

CEO 

Orð frá formanni Varlega áætlað hafa 15.000 fjölskyldur, 45.000 einstaklingar misst heimili sín frá hruni. Enginn hefur svarað fyrir það, hvað þá axlað á því ábyrgð. 

Þegar 15% þjóðarinnar missa heimili sín, gætir áhrifanna víða. Við sjáum þau í ástandinu á leigumarkaði og við sjáum þau líka í auknum kvíða meðal ungmenna og kulnun hjá þeim sem eldri eru.

Þegar fólk er svipt heimilum sínum glatar það öryggi sínu sínu og fótfestu. Þegar við bætist magnvana reiði og örvænting vegna óréttlætisins sem það stendur frammi fyrir ásamt hjálpar- og varnaleysinu sem það upplifir þegar heimilinu er hreinlega stolið af því, er ekki nema von að eitthvað láti undan.

Spillingin í þjóðfélaginu er djúp og hún á sér margar hliðar. Hún birtist ekki bara í háu húsnæðisverði og skelfilegum leigumarkaði eða háum vöxtum og verðtryggingu, hún birtist ekki bara í því hvernig lífeyrissjóðirnir misfara með fé okkar allra eða í „krónu á móti krónu“ skerðingu, hún birtist ekki bara í lágum launum verkafólks á meðan sjálftökufólk af ýmsum toga skammtar sjálfu sér milljónir, hún birtist ekki bara í spilltum dómstólum sem gæta hagsmuna „hinna sterku“ í dómum sínum eða í því hvernig lög- og stjórnaskrárvarin réttindi hafa verið brotin á neytendum frá hruni með skelfilegum afleiðingum.

Nei, hún birtist í þessu öllu og meiru til. Spillingin er djúp og teygir anga sína víða. Hana þarf að rífa upp með rótum til að hægt sé að byggja upp nýtt og betra þjóðfélag.

Fyrsta skrefið væri að að afnema verðtryggingu á lánum heimilanna! Öðruvísi er ekki hægt að skapa eðlilegan húsnæðismarkað eða stöðva sjálftöku fjármálastofnanna á tekjum fólks.

En til að takast á við ræturnar þarf að fara fram rannsókn á aðgerðum stjórnvalda eftir hrun. Jú það var líka spilling fyrir hrun, en þá urðu ákveðin vatnaskil og það var þá sem meðvituð ákvörðun var tekin um að fórna heimilum landsins fyrir bankana.

15.000 heimili eiga skilið að fá svör og uppreist æru.

Við biðjum ykkur um að styðja kröfuna um Rannsóknarskýrslu heimilanna!

Ásthildur Lóa Þórsdóttir
Formaður HH

Fylgstu með á samfélagsmiðlum