Símatími

Mán - þri kl. 10-13

Hafa samband

heimilin@heimilin.is

Á döfinni

HH kæra velferðarráðuneytið öðru sinni til úrskurðarnefndar um upplýsingamál

Hagsmunasamtök heimilanna (HH) sendu þann 18. febrúar sl. erindi til Velferðarráðuneytisins þar sem óskað var eftir því að fá afhenta reglugerð þá sem ráðherra er skylt að setja skv. lögum um greiðsluaðlögun einstaklinga (nr. 101/2010), þar sem lögunum til fyllingar skal nánar kveðið á um störf kærunefndar greiðsluaðlögunarmála. Skemmst er frá því að segja að engin svör hafa borist frá ráðuneytinu við fyrirspurninni og hafa HH því kært tafir og skort ráðuneytisins á svörum til úrskurðarnefndar um upplýsingamál. Samtökin telja ótvírætt að slík reglugerð hljóti að vera gagn sem skylt sé að veita almenningi aðgang að skv. upplýsingalögum, sé þess óskað.

Lesa áfram...

Viðhorfskönnun meðal félagsmanna HH 2013

Hagsmunasamtök heimilanna sendu út viðhorfskönnun til  félagsmanna nú í lok febrúar. Slíkar kannanir hafa verið gerðar árlega frá árinu 2009. Margt er athyglisvert í niðurstöðunum, en í þeim kemur fram samanburður milli ára á nokkrum þáttum. Aðeins þeir félagsmenn sem höfðu merkt við að þeir vilji svara könnunum samtakanna fengu þátttökuhlekk í tölvupósti. Svarhlutfall var 32%, eða 2.784 þátttakendur.

Lesa áfram...

Ályktun félagsfundar HH fimmtudaginn 7. mars 2013

Eftirfarandi ályktun var lögð fram af stjórn HH og samþykkt á félagsfundi samtakanna sem haldinn var í sal Stýrimannaskólans í gær.

Félagsfundur Hagsmunasamtaka heimilanna fimmtudagskvöldið 7. mars 2013 skorar á alla sýslumenn og aðra opinbera embættismenn sem hafa slík mál með höndum, að stöðva nú þegar allar fullnustugerðir á grundvelli ólöglegra lána. Á þeim hvílir sú skylda að rannsaka ávallt gaumgæfilega lögmæti þeirra lánasamninga og annarra gagna sem lögð eru fram vegna slíkra gjörninga. Allan vafa um lögmæti ber að túlka neytendum í hag og sökum þess aðstöðumunar sem er fyrir hendi hlýtur að teljast eðlilegt að sönnunarbyrði um lögmæti krafna hvíli á þeim sem halda þeim kröfum í frammi.

- stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna

Lesa áfram...

Lögfræðiálit um rétt til að halda eftir greiðslum

Lögfræðistofan Bonafide hefur, að ósk stjórnar HH, unnið álitsgerð fyrir samtökin um rétt lántaka til að halda eftir greiðslum. Í álitinu kemur fram sú skoðun lögmannanna að á meðan kröfueigandi innheimtir samkvæmt ólögmætum útreikningum á láni getur krafan vart verið í vanskilum. Réttur skuldara er þó ekki ótvíræður, heldur fer eftir málsástæðum í hverju tilfelli fyrir sig. Á endanum eru það dómstólar sem úrskurða um rétt skuldara. Hægt er að lesa lögfræðiálitið hér.

Lesa áfram...

Ályktun stjórnar HH: Lánveitendur beri ábyrgð á rangri framkvæmd verðtryggingar

Stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna (HH) vill að gefnu tilefni árétta að fyrirliggjandi dómsmál um lögmæti verðtryggingar byggist alfarið á rökum sem einungis eru reist á grundvelli gildandi laga á Íslandi. Ekkert í þeim málatilbúnaði byggir á neinum tilgátum um ranga innleiðingu tilskipana um neytendarétt, heldur þvert á móti á móti á réttri og vandaðri innleiðingu þeirra í lög hér á landi frá upphafi. Sé hinsvegar einhver vafi um það hvað þau þýði megi gjarnan skýra lögin um neytendalán með hliðsjón af fyrirmælum þeirra tilskipana sem voru innleidd á sínum tíma.

Lesa áfram...

Félagsfundur HH: Staðan og næstu skref.

HH halda halda opinn félagsfund fimmtudaginn 7. mars nk kl. 20:00 í Stýrimannaskólanum við Háteigsveg. Á fundinum verður greint frá stöðu mála í baráttunni og næstu skerfum, niðurstöður nýrrar könnunar meðal félagsmanna kynntar, auk þess sem sagt verður frá niðurstöðum nýrrar skýrslu um bein áhrif verðtryggingar á verðbólgu.

Félagsmenn eru hvattir til að mæta á fundinn og hafa þannig áhrif á störf og stefnu samtakanna. Allir velkomnir!

Lesa áfram...

Ályktun vegna álits frá framkvæmdastjórn ESB á framkvæmd verðtryggingar neytendalána

Verðtrygging lánasamninga samkvæmt vísitölu neysluverðs er heimil samkvæmt íslenskum lögum. Fróðir félagsmenn og fulltrúar samtakanna hafa kortlagt heimildirnar en þær eru í reynd undanþágur frá almennum vaxtalögum. Verðtrygging greiðslna m.v. vísitölu neysluverðs er eini lánskostnaðurinn auk hefðbundinna vaxta sem er leyfilegur samkvæmt vaxtalögunum. Það var á grundvelli þessara skýru ákvæða vaxtalaga sem Hæstiréttur Íslands dæmdi gengistryggingu lánasamninga ólögmæta þann 16. júní 2010, einkum í málum nr. 92/2010 og nr. 153/2010.

Lesa áfram...

Varaformannsskipti og ráðning starfsmanns

Guðmundur Ásgeirsson hefur sagt af sér varaformennsku í HH. Stjórnin þakkar Guðmundi vel unnin störf, sem reyndar voru framúrskarandi þannig að ákveðið var að ráða hann sem starfsmann. Nú eru því tveir starfsmenn í hlutastarfi hjá HH. Vilhjálmur Bjarnason hefur tekið við sem varaformaður stjórnar.

Lesa áfram...

Svör þingmanna vegna frumvarps HH um afnám verðtryggingar

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni hafa HH óskað eftir samstarfi við þingmenn um að flytja frumvarp samtakanna um afnám verðtryggingar neytendalána. Frumvarpið hefur verið sent á einn þingmann úr hverjum flokki með ósk um að hann gerist meðflutningsmaður, en þannig vonast HH til að mynda þverpólitíska samstöðu um málið. Það ætti að vera auðsótt mál, a.m.k, er litið er til vilja grasrótar stjórnmálaflokkanna, en ALLIR flokkarnir hafa ályktað um leiðréttingu og/eða afnám verðtryggingar (samantekt hér).

Lesa áfram...

Borgarafundur um heimilin, lýðræði og velferð

Formaður stjórnar HH, Ólafur Garðarsson heldur erindi á borgarafundi í Iðnó mánudaginn 11. febrúar kl. 20.

Það er Dögun, stjórnmálasamtök um réttlæti, sanngirni og lýðræði sem stendur fyrir fundinum, þar sem talsmenn félagasamtaka leggja línurnar gagnvart stjórnmálunum með framsögum um áherslur þeirra og hvað betur mætti fara varðandi samvinnu við stjórnvöld.

Framsögur fundarins eru:

Hagsmunasamtök heimilanna
Stríðið gegn heimilunum: Ólafur Garðarsson, formaður HH

Lýðræðisfélagið Alda
Sjálfbærni og lýðræði: Kristinn Már Ársælsson, liðsmaður Öldu

Öryrkjabandalag Íslands
Áherslur Öryrkjabandalagsins: Guðmundur Magnússon, formaður ÖBÍ

Ásamt almennum borgurum er fulltrúum allra stjórnmálaafla boðið á fundinn.

Lesa áfram...

Frumvarp um afnám verðtryggingar

Hagsmunasamtök heimilanna hafa tekið enn eitt skref í baráttu sinni fyrir afnámi verðtryggingar á neytendalánum, en varaformaður samtakanna Guðmundur Ásgeirsson hefur ritað "Frumvarp til laga um breytingu og afnám ýmissa lagaákvæða varðandi verðtryggingu neytendasamninga", sem tilbúið er til flutnings. Megináhrif frumvarpsins ef það yrði að lögum yrðu þau að afnema verðtryggingu neytendalána.

Auk þess eru með frumvarpinu lagðar til breytingar og afnám ýmissa lagaákvæða sem hafa með verðtryggingu að gera og hafa bein eða óbein áhrif á hagsmuni heimilanna.

Stjórn samtakanna hefur leitað til þingmanna eftir samstarfi, og óskað eftir því við einn þingmann úr hverjum flokki að gerast flutningsmaður frumvarpsins, í því skyni að mynda þverpólitíska samstöðu um málið. Má í því sambandi benda á ályktanir allra stjórnmálaflokkanna um leiðréttingu og/eða afnám verðtryggingar (samantekt hér).

Þingkonurnar Lilja Mósesdóttir og Margrét Tryggvadóttir hafa nú þegar lýst yfir áhuga á samstarfi, en Guðmundur Steingrímsson og Róbert Marshall svöruðu neitandi. Enn hafa þingmenn Framsóknarflokks, Samfylkingar, Sjálfstæðisflokks og VG ekki gefið formlegt svar.

Stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna hefur nú ákveðið að birta frumvarpið opinberlega og er það því aðgengilegt hér.

 

Frumvarp HH um afnám verðtryggingar neytendalána o.fl.

Lesa áfram...
Subscribe to this RSS feed

© Hannað af Filmís 

Hagsmunasamtök heimilanna voru stofnuð 15. janúar 2009 og eru frjáls og óháð hagsmunasamtök á neytendasviði, til varnar og hagsbóta fyrir heimilin í landinu.

Orð frá formanni

CEO 

Orð frá formanni Varlega áætlað hafa 15.000 fjölskyldur, 45.000 einstaklingar misst heimili sín frá hruni. Enginn hefur svarað fyrir það, hvað þá axlað á því ábyrgð. 

Þegar 15% þjóðarinnar missa heimili sín, gætir áhrifanna víða. Við sjáum þau í ástandinu á leigumarkaði og við sjáum þau líka í auknum kvíða meðal ungmenna og kulnun hjá þeim sem eldri eru.

Þegar fólk er svipt heimilum sínum glatar það öryggi sínu sínu og fótfestu. Þegar við bætist magnvana reiði og örvænting vegna óréttlætisins sem það stendur frammi fyrir ásamt hjálpar- og varnaleysinu sem það upplifir þegar heimilinu er hreinlega stolið af því, er ekki nema von að eitthvað láti undan.

Spillingin í þjóðfélaginu er djúp og hún á sér margar hliðar. Hún birtist ekki bara í háu húsnæðisverði og skelfilegum leigumarkaði eða háum vöxtum og verðtryggingu, hún birtist ekki bara í því hvernig lífeyrissjóðirnir misfara með fé okkar allra eða í „krónu á móti krónu“ skerðingu, hún birtist ekki bara í lágum launum verkafólks á meðan sjálftökufólk af ýmsum toga skammtar sjálfu sér milljónir, hún birtist ekki bara í spilltum dómstólum sem gæta hagsmuna „hinna sterku“ í dómum sínum eða í því hvernig lög- og stjórnaskrárvarin réttindi hafa verið brotin á neytendum frá hruni með skelfilegum afleiðingum.

Nei, hún birtist í þessu öllu og meiru til. Spillingin er djúp og teygir anga sína víða. Hana þarf að rífa upp með rótum til að hægt sé að byggja upp nýtt og betra þjóðfélag.

Fyrsta skrefið væri að að afnema verðtryggingu á lánum heimilanna! Öðruvísi er ekki hægt að skapa eðlilegan húsnæðismarkað eða stöðva sjálftöku fjármálastofnanna á tekjum fólks.

En til að takast á við ræturnar þarf að fara fram rannsókn á aðgerðum stjórnvalda eftir hrun. Jú það var líka spilling fyrir hrun, en þá urðu ákveðin vatnaskil og það var þá sem meðvituð ákvörðun var tekin um að fórna heimilum landsins fyrir bankana.

15.000 heimili eiga skilið að fá svör og uppreist æru.

Við biðjum ykkur um að styðja kröfuna um Rannsóknarskýrslu heimilanna!

Ásthildur Lóa Þórsdóttir
Formaður HH

Fylgstu með á samfélagsmiðlum